Lítið notaður vetur fæst gefins

Hér vestur á Ísafirði er staddur vetur.  Þar sem ég hef ekki not fyrir hann lengur vil ég gefa hann á góðan stað þar sem fólk lofar að nota hann.  Vetur þessi er frekar kaldur, hvítur á lit og nokkuð umhleypingasamur.  Áhugasamir hafi samband við undirritaða í athugasemdakerfi.


Konublús og flugið tekið heim III

Laugardagsblúsinn byrjaði í Nýheimum eftir hádegið.  Þar gátu allir sem vildu djammað að list og margir tóku þátt.  það var skemmtileg stemning þann tíma sem ég stoppaði en húsbandið mitt, sá vel gifti, greip bassa og var svo lánsamur að halda honum fram eftir degi. Eftirminnilegastur var nú þó rauðhærður gutti , sá var efnilegur með rauða gítarinn sinn þó hann hafi varla verið eldri en 12 eða 13 ára.

Um kvöldið lá leiðin á Hótel Höfn að hlusta á hina undurljúfu og blíðu Huldu Rós sem söng fallegar blúsballöður með hljómsveitinni Rökkurbandið.  Áreynslulaus spilamennska og ágætt samspil sem rann ljúft niður með söngolíunni.   Seinna um kvöldið fórum við á Kaffi Hornið þar sem  Pitchfork Rebellion, góðkunningjar okkar frá Langa Manga,spiluðu djasskotin blús.  Alveg einstök hljómsveit þar á ferð, spilamennska og söngur í hæsta gæðaflokki en samt svo heimilisleg og látlaus stemning.   Þegar hér var komið sögu var farið að síga á seinni hlutann hjá okkur en við ákváðum að ljúka deginum á  Víkinni.  Þegar við komum þangað var hljómsveitin Vax að spila virkilega skemmtilegt og fjörugt blúsrokk.   Trommur, gítar, orgel og spilagleði.  Töffarar sem greinilega fá aldrei nóg af því að spila og þeim tókst að  heilla okkur, og greinilega alla hina, upp úr skónum.

Á sunnudaginn sváfum við af okkur blúsmessuna sem eflaust hefur þó blessast vel.  Við pökkuðum saman, kvöddum menn og dýr og flugum svo áleiðis heim með Halla Ingólfs hjá flugfélaginu Örnum.

Takk fyrir okkur! 

 

 


Blúsa tómir karlar á Hornafirði? II

Fyrir vestfirðing er margt merkilegt á Höfn í Hornafirði.  Fyrir það fyrsta er nokkuð langt í fjöllin sem er algjör nýlunda fyrir mig, enda hagar svo til í minni sveit, Ísafirði, að það tekur varla meira en nokkrar mínútur að komast á fjall, eða í það minnsta að fjalli.  Þetta finnst okkur notalegt jafnvel þó það sé ekki alltaf hættulaust að búa undir fjalli.  Hérna kúra fjöllin í fjarska.  Fjarskafalleg. Langt utan seilingar en svo fjölbreytt og stórkostleg að ég gæti horft á þau endalaust.  Birtan hér er líka einstök og hún Dedda vinkona, sem er vestfirðingur eins og ég, útskýrði að fyrir mér að það væri vegna þess að himininn er miklu stærri hjá þeim og auk þess stjórnaði jökullinn birtunni þetta er líklega hárrétt hjá henni. Eitt er víst að á svona stað er auðvelt að gleyma sér og láta sig dreyma um endalaus listaverk. Ég yrði ekki hissa þó allir ættu vatnsliti og trönur í þessum bæ.

Föstudagurinn byrjað vel, sól og blíða og Sammi hundur horfði á mig með svip sem sagði undurljúft nennirðu út með mér. Ég hundsaði hundinn og fór að brasa við morgunkaffið, húsbóndinn kom sem betur fer og bjargaði því sem bjargað varð áður en ég eyðilagði safapressu húsmóðurinnar sem ég hélt endilega að væri kaffikvörn.  Í hádeginu fórum við í Nýheima og hlustuðum á Blúsvíkingana. Einhver sagði að þetta væru gömlu karlarnir í bransanum, en mér fannst þeir þó full ungir til að bera þann titil.  Hvað um það, þeir spiluðu vel og ég er ekki frá því að samloka og kók bragðist betur með gömlum og góðum blús og við fórum sátt og sæl heim í slökun.  Sammi hundur tók á móti okkur með svip og úr varð að ég skellti mér í gallann og út með hundinn.  Það gekk vel fannst okkur báðum, þangað til við fréttum að húsmóðurinni hefði borist til eyrna orðrómur um að ókunnug kona væri að reyna að drepa Samma.  Það var náttúrulega orðum aukið, en við vorum ekkert virðuleg á teig 3 þar sem hann gelti látlaust og ég sat flötum beinum og góndi út í bláinn.

Um kvöldið lá leiðin á Humarhöfnina, sem er klárlega besti humarstaður Íslands og nágrennis, þar hittum við feðgana Papa Mug og Mugison.  Karlinn sýndi takta í eldhúsinu á meðan strákurinn spilaði dinner.  Dinner að hætti Mugison er auðvitað engin hefðbundin dinner en hann fór á kostum eins og alltaf og lokaatriðið þegar Papa Mug söng fyrir matargesti við undirleik Gumma Hjalta, sem er betur þekktur á þessu svæði fyrir óhóflega matarlyst en spilamennsku, vakti ekki síður lukku en þétt spilamennska Mugisons.

Seinna um kvöldið lá leiðin upp á Hótel Höfn þar hlustuðum við B. Sig. Ekki hafði ég nokkra hugmynd um að þessi hljómsveit væri til, en það er öruggt að við eigum eftir að heyra meira frá þessum strákum.  Gargandi snilld og spilagleði. Það var eins og þeir hafi spilað saman í heila Bítlaævi og ekki á hverjum degi sem ég fæ heyra svo þétta og góða spilamennsku.  Leggið þetta nafn á minnið.  Þegar B. Sig hafði lokið sér af við mikinn fögnuð áhorfenda tóku heimamenn við.  Þeir kalla sig Mæðusveitin Sigurbjörn. Í þeirri hljómsveit heita allir meðlimir Sigurður, nema Björn. Mér þótti afskaplega gaman að hlusta á þá, þægileg stemning og spilarar á ferð sem greinilega taka lífinu ekki allt of hátíðlega og kunna að njóta þess að spila, skemmta sér og áhorfendum.

Því miður entist mér ekki orka til að fara í Víkina á ball  með hljómsveitinni Silfri. En ég frétti í búðinni í dag að gestir hefðu skemmt sér vel og þar hefði verið góð stemning.  Það hefur stundum verð sagt um blúsinn að hann sé karlatónlist, það auðvitað ekki alveg rétt og á Norðurljósablús spila ekki bara tómir karlar, þar spila líka konur og nokkrir fullir karlar. 

 

 


Saga af bónda

Í tilefni þess að í dag er bóndadagur langar mig að segja ykkur dagsanna sögu þar sem bóndinn gegnir lykilhlutverki.

Eina nóttin hrökk ég upp, þar sem ég steinsvaf við hlið bónda míns, við ámátlegt en afar lágt mjálm.  Ég glaðvaknaði samstundis og mundi eftir því að barnabörnin höfðu komið út úr svefnherberginu okkar fyrr um kvöldið með óræðan prakkarasvip.  Þau höfðu að eigin sögn verið að loka fataskápnum svo Kúra Jónina og Emelía Lúra færu ekki inn í hann.  Eitthvað vöknuðu grunsemdir hjá ömmunni en gegn sakleysislegri neitun barnanna, um að þau hefðu sko ekki lokað kettina inni í skáp, hafði ég alveg gleymt að athuga málið.  Í gegn um hálfsofandi hug minn flugu lítt fallegar hugsanir, krakkaormarnir hafa lokað kettina inni. Ég stökk fram úr og svipti upp hurðinni á mínum skáp, engin köttur þar.  Bóndinn svaf enn vært og ég ákvað að blanda honum ekki í málið enda alveg eins víst að hann myndi bara velta sér á hina og þykjast ekki hafa vaknað.  Ég stóð grafkyrr og hlustaði. Enn heyrði ég mjálmað lágt og að mér læddist sá grunur að kattarræfillinn væri lokaður ofan í tösku inn í skáp.  Þetta var hræðilegt grimmdarverk.  Ég brölti í myrkrinu yfir bóndann, til að komast að fataskápnum hans megin.  Sakbitin og örvæntingarfull.  En þar var heldur engin kisa.  Ég kveikti ljósið og kallaði á vesalings innilokuðu vini mína.  Þær komu vitanlega, teigðu sig makindalega, undrandi á þessu brölti um miðja nótt, höfðu legið fram í stofu eða til fóta hjá börnunum.  á þessu stigi málsins vissi ég ekki alveg hvað ég ætti að halda.  Ég mundi, þrátt fyrir svefnrugluna, að fólk gæti stundum heyrt raddir en vissi ekki til þess að fólk gæti heyrt mjálm.  Ákveðin í að finna köttinn mjálmandi, eða ekki köttinn, kallaði ég ofurlágt og rólega kis kis.  Og kötturinn svaraði með löngu en lágværu mjálmi.  það var eins og hann gæti verið undir rúminu okkar. Eða kannski uppi í rúminu okkar.  það var þá sem ég fann þann mjálmandi.  Ámátlegt langdregið mjálmið kom úr nefi bóndans.


Mótmælum án ofbeldis

Mótmælum ofbeldinu sem lítill hópur aðgerðarsinna hefur beitt.  Því miður virðist öll athygli fjölmiðla beinast að einskonar stríði þessa litla hóps við lögregluna. Það er helvíti hart að þett mun að líkindum verða til þess að lögreglan fær öflugri vopn og sérsveitin verður stækkuð.  Sem friðelskandi Íslendingur harma ég það, því ég hefði viljað trúa því að við þyrftum ekki á rafmagnsbyssum og táragasi að halda.  Nýlega hefur verið stofnaður hópur friðsamra mótmælenda.  Sýnum lit og mætum appelsínugul á mótmæli.  Við erum appelsínugul, við erum friðsöm, við viljum breytingar

appelsinugulurÉg styð mótmæli og skil vel að fólki sé nóg boðið.   Ég styð þá kröfu að stjórnvöld fari að axla ábyrgð og að þeir sem komu okkur í þetta klúður fari að víkja og viðurkenna mistök sín.  Ég styð kröfu um kosningar en viðurkenni þó fúslega að ég veit ekki hvað ég vildi kjósa ef kosið yrði strax.  Mér hugnast ekki að kjósa þá sem bera ábyrgð á hruninu og eins og staðan er í dag vitum við ekki nákvæmlega hversu útbreidd spillingin var og er.  Eitt veit ég að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn voru við völd þegar jarðvegurinn var undirbúinn.  Það þarf mikið að gerast til að ég treysti þeim flokkum aftur.  Ég held að allir flokkar verið að taka til og losa sig við spillingaröflin.  Ég hef ekki séð neinn flokk gefa það út að þeir ætli að taka til í eigin ranni.  Ég er hugsi yfir útspili nýja Nýja Framsókanflokksins með Sigmund í fararbrodd, verður það þjóðinni til góðs að Samfylkingin, Vinstri grænir og Framsókn taki á þessu ástandi? 

Þið sem ekki eruð sátt við ástandið ættuð að taka þátt í mótmælum á friðsaman hátt.  Látum ekki nokkra óróaseggi stela frá okkur réttinum til að sýna hug okkar.


Opið bréf til ríkisstjórnar Íslands og annarra alþingismanna

Kæru ráðamenn og konur

Ég skora á ykkur að fordæma tafarlaust árásir Ísraelshers á Gasa.  Hvernig sem á málið er litið er alveg ljóst að það morðæði og grimmd sem saklausir íbúar á Gasa búa við er ekki jafn leikur.  Ekkert getur réttlætt notkun á ólöglegum vopnum og það gegn almenningi.  Það er sorglegt að horfa upp á þjóðir heims sitja hjá að meðan saklaust fólk er drepið.    Hvar er mannúð okkar og hvað þarf að drepa mörg börn áður er við bregðumst við?  Mér ofbýður að við höfum enn ekki sent frá okkur harðorð mótmæli og fordæmingu og krefst þess að Alþingi ríkisstjórn fjalli um þetta mál og sendi frá sér ályktun.

Nú er rétti tíminn til að fordæma aðgerðir Ísraela á Gasa.  Sendum heiminum þau skilaboð að svona líðum við ekki.  Innst inni vitum við öll að það er það eina rétta í stöðunni. 

Með von um skjót viðbrögð

Matthildur Helga- og Jónudóttir

Ísafirði


Hvað er friður?

Er friður það að geta farið um heiminn án þess að eiga á hættu að vera skotinn?  Hvort sem þú ert að fara til vinnu eða skóla í næsta nágreni, eða ferðast um í leit að ævintýrum?    Er friðsamur heimur, heimur án landamæra? Það er jú draumur margra.  Draumurinn um frið er kannski ekki eitthvað sem við eigum eftir að upplifa, en samt einn af þessum draumum sem við eigum að láta okkur dreyma.  Einn af þessum draumunum sem gerir okkur betri.

Eða er friður kannski hugarástand.  Einhver tilfinning sem býr innra með okkur?  Líðan sem á sér rætur djúpt í hugskotum okkar.  Kemur friðurinn best fram í því hvernig við komum fram við aðra? Ég held að friðurinn byrji heima.  Heima, í samskiptum okkar við maka og börn.  Og í því hvernig börnin sjá okkur koma fram við aðra, því þau læra það sem fyrir þeim er haft.  Stundum eigum við mannfólkið það til að vera svo upptekin af því að berjast fyrir friði eða mannréttindum að við gleymum að hugsa um okkur sjálf.  Hugsa um samskipti okkar við annað fólk.  Spáum ekkert í það hvort við erum óþolandi friðarspillar eða ljúfir diplómatar.  Við höfum ekki tíma til fyrir svoleiði smotteri.  Enda upptekin við að bjarga heiminum.  Við gleymum því  stundum  að við erum það vanmáttug að það eina sem við getum breytt er okkar líðan og okkar sjónarhorn.  Það kemur ekki að sjálfu sér að líða vel og vera sátt.  Að geta látið sig varða um annað fólk án þess þó að láta allt heimsins böl buga okkur.  Það er vinna að líða vel og til þess þarf ákveðna tækni.   Eitt sem við getum gert -og er alveg frítt- er að horfa á spaugilegu hliðar tilverunnar.   Það að geta hlegið að vandræðum sínum leysir í sjálfu sér ekki vandann en þér líður betur og þú finnur frið.  Og ef þú finnur frið þá eru vandamálin ekki eins stór og lausnin er þá oft innan seilingar.Því ekki að líta í spegilinn og leita þar eftir friði  þessi jól....... og hlægja duglega.      

Hún Auður stendur undir nafni

Fyrir sléttum 45 árum fæddist lítið stúlkubarn.  Stúlka þessi, sem hlaut hið einkar viðeigandi nafn Auður, ólst upp í sveit í Ísafjarðadjúpi.  Ekki man ég í augnablikinu hvað bærinn heitir, enda er það algjört aukaatriði í þessari sögu.  En gæti svo sem orðið efni í aðra sögu, þá hjá einhverjum öðrum en mér væntanlega.

Fljótlega kom í ljós að hún Auður litla var óvenjulega skýr og klár í kollinum. Fljót til svars, hörkudugleg og góð við menn og dýr.  Höfðu bændur í sveitinni á orði að ekki hefði fæðst önnur eins guðsgjöf í Djúpinu í marga mannsaldra.  Kom fólk víða að til að sjá með eigin augum þetta fallega og góða barn.

Árin liðu og Auður óx bæði af gæfu og gjörvileika.  Var hún bræðrum sínum og öðrum börnum í sveitinni mikill gleðigjafi og fyrirmynd og fullorðnir sóttu í að vera í návist hennar, enda geislaði stúlkan að hlýju og góðum straumum.  Var það íbúum í Djúpinu mikill missir þegar hún fluttist til höfuðborgarinnar til að stunda þar nám.  Ekki þykir mér þó ólíklegt að hún hafi haft góð áhrif á almennt siðferði og manngæsku borgarbúa með sinni fyrirmyndar framkomu.

Það kom engum á óvart að Auður skildi velja hjúkrun að lífsstarfi þar sem mannkostir hennar fá best notið sín því hvað er betra starf fyrir duglega, hjartahlýja, glaðlynda, gáfaða, og rökfasta konu en einmitt í hjúkrun.  Ég hef reynt það á eigin skinni hvað hún er fær í starfi og veit að allir þeir fjölmörgu sem notið hafa samskipta við hana eru mér sammála.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast nokkrum orðum á fjölskyldu og heimili Auðar.   Með manni sínum Guðmundi, sem vonandi veit hvað hann er heppin með konu, á hún þrjú börn.  Börn þeirra eru hvert öðru yndislegri og bera því glöggt merki að þau hafa verði alin upp af alúð og kostgæfni.  Að koma inn á heimili þeirra er eins og að ganga inn í draum.  Draum sem maður vill ekki vakna upp af.

Að lokum langar mig að óska þér Auður mín, innilega til hamingju með daginn og þakka fyrir allar frábæru stundirnar sem við höfum átt saman.  Vonandi verður þú, í hógværð þinni, ekki undrandi og óörugg með þig þegar þú sérð svona svart á hvítu hvernig þú kemur okkur fyrir sjónir.............................

 

 

 


Óbeilsluð fegurð á DVD

Jæja nú fara hlutirnir að gerast.  Heimildarmyndin Óbeisluð fegurð er á leið í fjölföldun, dreifingu og sölu.  Ég og þessi mynd höfum aðeins verið að skoða heiminn og það er alveg með ólíkindum hvað viðtökurnar eru góðar.  Mér finnst myndin raunar alltaf jafn skemmtileg og dásamleg því þeim Hrafnhildi og Tinu tókst svo vel að fanga þessa ótrúlegu stemningu sem við upplifðum þetta kvöld. 

Eftir því sem tímanum líður sé ég betur og betur hversu frábær þessi viðburður var.  Það að setja saman slíkan viðburð krefst þess að allir séu til í að gefa af sér og hjálpast að.  Þarna sannaðist líka hvað það er frábært að búa á Ísafirði þar sem nógu margir eru til í tuskið.  Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hversu mikil þekking og mannauður býr úi á landi á stöðum eins og Ísafirði.  Á stuttum tíma er hægt að virkja tengslanet vina, kunningja, vinnufélaga og ættingja til að framkvæma hugmyndir stórar og smáar.  

Allar vegalengdir innanbæjar eru stuttar og því tekur það okkur ekki óratíma að komast úr og í vinnu.  Þetta gefur okkur tíma.  Tima sem við getum notað til að hugsa, leika okkur eða einfaldlega til að gera ekki neitt, sem er reyndar stórlega vanmetin skemmtun. Ekki má heldur gleyma náttúrunni því það er alveg á hreinu að sá sem býr í lifandi listaverki eins og við hérna fyrir vestan líður betur og er opnari fyrir því að taka þátt í öllu mögulegu mannanna brölti.

Þið sem hafið áhuga á að útvega ykkur eintak gætuð, til að byrja með, einfaldlega sent mér tölvupóst en ég á von á því og myndin verði seld í öllum betri verslunum þegar þar að kemur


Getur einhver útskýrt fyrir mér?

Af hverju það er liðið að stúlkur séu áreittar í kirkjum á Íslandi? 

Af hverju líðum við það að þeir sem við ættum að treysta komist upp með að strjúka börnin okkar og vera með kynferðislegt tal við þau? 

Ef það er löglegt í dag að áreita börn, af hverju breytum við þá ekki reglunum og gerum það ólöglegt?

Af hverju trúum við ekki börnum sem verða barnaníðingum að bráð?

Af hverju gefumst við upp?

Getur verið að við Íslendingar séum upp til hópa samþykk því að fullorðið fólk megi vera með kynferðislega tilburði eða athugasemdir við börn? 

Hvar ætlum við að setja línuna? 

Er í lagi að ég segi við 14 ára strák að mér finnist hann sætur og að ég sé svolítið skotin í honum? 

Er í lagi að ég strjúki unglingsstrák og tali um hvað hann sendi frá sér góða strauma? 

Hr. Matthildur spyr en á ekki von á svörum. 

Mér finnst rangt að fullorðið fólk sé með einhverja kynferðislega tilburði við börn eða unglinga hvort sem það er í tali eða snertingu og mér finnst að það eigi ekki að líðast.

 


mbl.is „Ég vona að þér verði aldrei nauðgað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband