Er Alsýn tálsýn?

Nokkuð hefur verið ritað og rætt um ráðgjafafyrirtækið Alsýn á Ísafirði, sem ætlaði samkvæmt samningi við Ísafjarðarbæ að fjölga störfum í bænum svo um munaði.  Samningurinn skildi skila 50 störfum fyrstu tvö árin en haft var eftir fulltrúum Alsýnar að fyrirtækið hafi sjálft sett sér það markmið að stefna á 100 störf á tveimur árum.

Nú er að verða komið eitt ár og umræða hefur skapast í samfélaginu um hvernig hafi til tekist.  Þessi umræða, sem stundum hefur verið óvægin, hefur mikið byggt á sögusögnum og óljósum fréttum.  Það er auðvitað bagalegt, því það er mikilvægt að fyrirtæki sem vinna að uppbyggingu, þurfi ekki að eyða tíma sínum og kröftum í að verjast gróusögum. 

Nú er það svo að ekki gengur allt mannanna brölt upp, mistök eru gerð og stundum þarf einfaldlega að endurskoða verkefni í ljósi breyttra aðstæðna.  Þá skiptir miklu máli að standa sig, skoða hvað virkaði og hvað ekki, viðurkenna mistök og læra af þeim. Gera úrbætur á verkefninu eða hætta við.  

Íbúar og skattgreiðendur í Ísafjarðabæ eru margir forvitnir um hvernig fyrirtækinu hefur gengið.  Þetta finnst mér eðlilegt, enda gott aðhald fyrir þá sem fara með stjórn fjármála í bænum okkar að vita að fylgst er með.  Það sem mér finnst óeðlilegt er þögnin í kring um árangur Alsýnar, mér þykir ljóst að þeir hafa komið að nokkrum verkefnum en hver þessi verkefni eru, er ekki vitað. Nefndar hafa verið tölur eins og 18 störf eða 13 störf í fjölmiðlum en lítið fæst upp gefið, hvaða störf er um að ræða.  Forvitnum og áhyggjufullum Ísfirðingum er bent á viðtalstíma hjá Alsýn eftir hádegi á föstudögum.  

Ég hef aldrei farið leynt með það að mér finnst eðlilegt að Ísafjarðarbær og ráðgjafafyrirtækið Alsýn sendi frá sér upplýsingar um hvað hefur áunnist.  Hafi gengið illa verðum við að bíta í það súra, en hafi gengið vel er það gott mál.  Ekki veit ég að hverra ráðum bærinn og fyrirtækið fara í upplýsingamálum en ég hefði haldið að þessi leynd og þögn gerði ekkert annað ýta undir sögusagnir um að ekki hafi tekist vel til.  Það eina sem við vitum með vissu er það sem hægt er að fletta upp í opinberum gögnum um lögheimili starfsmanna og þar með hvar þeir borga útsvar og hvar heimasíðan þeirra er hýst.   

Að lokum vil ég skora á Ísafjarðarbæ og Alsýn að svipta leyndinni af árangri þessa verkefnis.  Mér er fyrirmunað að skilja af hverju það er trúnaðarmál hvaða störf er um að ræða.  

 


Að finna rétta afmælisgjöf

Í dag 18. ágúst á sá heppni afmæli, þarna á ég að sjálfsögðu við manninn minn til margra ára.  Þó það sé alltaf gleðiefni í sjálfu sér að halda upp á afmæli, þá getur það vafist fyrir konu að finna hina fullkomnu afmælisgjöf.  Stundum hefur mér tekist vel upp og stundum illa, eins og gengur og til að finna góða gjöf þetta árið hef ég ákveðið að byggja á fortíðinni.  Skoða með gagnrýnum huga nokkrar þær gjafir sem ég hef fært honum í gegn um tíðina. Af því gæti ég hugsanlega dregið lærdóm.

Sumar gjafir eiga að senda tiltekin óbein skilaboð, ég mæli ekkert sérstaklega með því.  Eitt sinn gaf ég honum ryksugu í afmælisgjöf, var að hefna mín fyrir strauborð sem hann hafði gefið mér, en hann varð bara glaður og hissa, það vantaði einmitt ryksugu á heimilið. Skildi ekki sneiðina enda ber hann, eins og flestir hans kynbræður, ekki mikið skynbragð á óviðeigandi gjafir. 

Stundum hef ég keypt geisladiska sem er ágæt gjöf, ef kona fellur ekki í þá gryfju að kaupa sína uppáhalds tónlist en ekki hans.  Ætli ég verði ekki að viðurkenna að ég hef stundum klikkað á þessu, eftirminnilegast er líklega þegar ég gaf honum gamla djassslagara, við litla hrifningu.

Svo eru það góðu gjafirnar, þegar mér tókst einstaklega vel upp.  Ég og fjölskyldan gáfum honum eitt sinn banjó.  Hann hafði lengi langað í slíkan grip enda átti Óli heitinn Guðmunds, gítarleikari og söngvari í BG, fyrirmynd og móðurbróðir Gumma, forláta 6 strengja banjó.   Svona ættu auðvitað allar gjafir að vera en það er hægara sagt en gert.  

Þokkalegar gjafir, sem tengjast frumþörfum karlmanna, eru líka á þessum lista.  Sá heppni hefur í gegn um tíðina fengið bjórkassa, gallabuxur og rakspíra.  Góða bók, helst fulla af ofbeldi og ullarsokka.  Þó þessar komist ekki í úrvalsgjafaflokkinn eru þær ekki svo slæmur kostur.

Þegar þetta er skrifað er klukkan langt gengin í þrjú og ég hef enn ekki hugmynd um hvað ég ætti að gefa honum.  Mér hefur einna helst dottið í hug að kaupa kemískt klósett, sem fyrirtaks fyrsta hlut í fyrirhugaðan sumarbústað, sem enn er bara á hugmyndastigi í dagdraumalandinu. Mér er það samt ekki ljóst hvort sú gjöf færi í flokk einstaklega góðra gjafa eða jafnvel í nýjan flokk algjörlega misheppnaðar gjafa sem senda skilaboð sem aldrei stóð til að senda.

 

 

 

 


Markaður minninganna á Langa Manga

það má segja að fyrirsögnin hér að ofan um markað minninganna sé tvíræð.  Annars vegar á ég við að kaffihús eins og Langi Mangi var, þegar öllu er á botninn hvolft, lítið meira en markaðstorg fyrir fólk að skapa sér minningar.  ágúst13.2008 042Hins vegar er ég að vekja athygli á því að á fimmtudag og föstudag frá 13 til 17 verður haldinn markaður á Langa Manga þar sem hlutir tengdir rekstrinum verða seldir.

Á þessum skemmtilega markaði, það sem allt á að seljast, verður bæði hægt að kaupa fánýti sem og nytjahluti. ágúst13.2008 052 Hvort sem þig langar í uppþvottavél, sem þvær á á nokkrum mínútum, glös, diska eða nokkra stóla og borð.  Jafnvel hluti sem notaðir voru til skrauts. Hluti sem ásamt gestum og starfsfólki að bjuggu til þessa heimilislegu stemningu sem alltaf einkenndi Langa Manga.

ágúst13.2008 043Eitt er víst að það fylgir saga hverjum diski og glasi.  Ef borðin gætu talað segðu þau okkur frá fyrstu kynnum gestanna.  Frá augnagotum, brosum og stöku ygglibrún.  Frá leyndarmálunum sem hvísluð voru yfir borðin. þau segðu okkur líka frá fastakúnnum sem helst sátu alltaf á sama stað.  Frá erlendum gestum sem struku borðin og brostu vissu að þeir voru að snerta sjálfa þjóðarsálina. 

Ef þú villt eignast einhvern hlut til minningar um Langa Manga nú eða bara gera góð kaup áttu fullt erindi á þennan markað minninganna

 

 

 


Drekktu betur á síðasta degi Langa Manga

Síðasti dagurinn á Langa Manga og síðasta drekktu betur keppnin. 

Það er vel við hæfi að Elfar Logi og Marsibil verði spyrlar á drekktu betur spurningarkeppninni á Langa Manga í kvöld.  Þau stofnuðu þetta kaffihús árið 2003 og ráku það til ársins 2005 þegar núverandi eigendur keyptu staðinn. Þar sem þetta verður síðasta keppnin og það sem meira er, síðasti dagurinn í lokahátíð Langa Manga varð viðeigandi þema fyrir valinu, R.I.P. eða hvíl í friði. 

maí-júní 2008 003

Eigendur Langa Manga vilja koma kæru þakklæti til allra gesta og starfsmanna.  þetta hefur verið skemmtilegur tími og þó ákveðið hafi verið að loka staðnum mun hann ekki gleymast í bráð og við getum öll verið stolt af því að hafa skapað þennan stað í sameiningu.  Í næsta mánuði verður allt lauslegt selt og ef einhvern vantar góða kaffivél, uppþvottavél, borð, stóða eða annað þá hafið endilega samband. 

 

Vonandi mæta sem flestir og kveðja þetta ágæta kaffi hús með sína heimilislegu stemningu sem víst er að margir munu sakna.


Bingó og lágmenning á Langa Manga

Jæja þá eru bara þrjú kvöld eftir í sögu Langa Manga.  Það verður að segjast eins og er að tilfinningarnar eru blendnar. Ég mun sakna kauða um leið og ég verð dauðfegin að losna við hann úr lífi mínu. Sum sambönd eru þannig.  Eigum ekki alveg nógu vel saman, og orðin þreytt, en óttumst jafnframt tómarúmið sem brottför eða aðskilnaður skapar.

Í kvöld 29. júlí klukkan 21:00 verður bingó, blautir vinningar, förum ekki nánar út í það.  Við eigum von á rífandi stemningu, enda fátt skemmtilegra en þjálfa bingóvöðvana með því að lyfta glasi eða bingóspjaldi.

Miðvikudaginn 30. júlí, næst síðasta kvöldið, verður haldi svo kallað lágmenningar kvöld.  Þá verða fluttar, sungnar lesnar og leiknar, helstu perlur lágmenningar á Íslandi.  Bókmenntafræðingurinn og laumuhnakkinn Ingi Björn frá Selfossi mun gera dægurlagatextum frá þessu alræmda héraði skil. Einleikarinn okkar hann Elfar Logi einleika lágkúru, Guðrún Sigurðar, Eygló Jóns,Hjördís Þráins, Anna Sigríður Ólafsdóttir munu koma fram af alkunnum skörungleika og flytja valda kafla úr ástarsögum og öðrum vondum bókmenntum, flytja dægurlagatexta um ástina og annað. Síðast en ekki síst mun Gummi Hjalta taka nokkur neðanmittislög, þegar líða tekur á kvöldið.

Þetta verður vonandi fyrsta skrefið í því að slík menningarstarfsemi fái viðurkenningu til jafns við aðra æðri menningu, sem löngu hefur fengið sinn sess, bæði á Langa Manga og annars staðar.

 

 

 

 


Gítarkarókí og að láta gluða

Í gær 24. júlí, áttum við, ég og sá heppni, 15 ára brúðkaupsafmæli.  Við erum satt að segja hálf undrandi á því hvað tíminn líður hratt. Mér finnst eins og það hafi verið í gær, að presturinn spurði okkur kankvís í anddyri kirkjunnar á Núpi hvort við ættum ekki bara að láta gluða, jú, við létum bara gluða.

Við höfum sjaldnast munað eftir að halda upp á daginn en núna stilltum við allar klukkur og síma á heimilinu til að missa ekki af deginum.  Minnug þess að eitt B á dagatali segir manni ekki allt. Eitt árið, líklega þegar við urðum 10 ára, hafði ég nefnilega sett stóran hring utan um B á dagtalið.  Það vantaði ekki að við tækum eftir béinu, við gátum bara ekki munað hvað bé ætti stórafmæli.  Dagurinn kom og fór og við vorum viss um að bé væri sár og leið.  Það var ekki fyrr en viku seinna að við áttuðum okkur á því að við vorum bé.

Hvað ætli fólk geri annars á svona brúðkaupsafmælum. Við vorum mjög löt, nenntum ekki að skipuleggja hjóna eitthvað, og lágmenningarleg.  Fórum bara á Fernados með krökkunum og fengum okkur pizzu og bjór.  Þaðan lá leiðin á Langa Manga og þar tókum við þátt í drekktu betur spurningarkeppninni. Sá heppni spilaði undir með söngspyrlinum Eygló og ég ákvað að spreyta mig á spurningunum.  Var langt frá því að vinna, enda kann ég fáa dægurlagatexta.  Þetta var stórskemmtilegt kvöld.

Eins og sum ykkar vita þá stendur yfir 8 daga kveðjuhátíð Langa Manga og í kvöld verður gítarkaróki.  Fyrir þá sem ekki þekkja til þá fer gítarkaróki þannig fram að gestir mæta á svæðið með sín óskalög og fá að syngja þau með Gumma sem spilar undir á gítarinn, og raular eða raddar jafnvel með.  Ég ætla að mæta en það er ekki víst að ég þori í hljóðnemann, enda ætlast til þess að ég syngi frekar en að halda ræðu. Það er þó aldrei að vitna nema ég láti gluða.

 


Langi Mangi kveður

Um næstu mánaðarmót mun Langi Mangi, elsta starfandi kaffihús Ísafjarðar, hætta starfsemi.  Að þessu tilefni verður efnt til kveðjuhátíðar sem stendur frá fimmtudeginum 24. Júlí til fimmtudagsins 31. Júlí.   Margt spennandi verður á dagskrá þessa síðustu daga.  Í boði verða, ljóðakvöld, bingó, lágmenningarkvöld, drekktu betur, gítarkarókí, lokaball svo eitthvað sé nefnt.

Dagsskrá Kveðjuhátíðar

24. júlí  21:00 Drekktu betur, þema: Botnið texta, Gummi og Eygló spyrja, syngja og spila

25. júlí 22:00  Gítarkarókí,  Gummi Hjalta spilar og þið syngið.

26. júlí 23:00 Lokaball, vinir Langa Manga skemmta

27. júlí 21:00  Ljóðakvöld Eiríkur Örn og Haukur Már munu ásamt fleirum flytja ljóð

28. júlí 21:00 Bíókvöld. Heimildarmyndin Óbeisluð Fegurð

29. júlí 21:00 Bingó. Blautir vinningar

30. júlí 21:00  Lágmenningarkvöld. Elfar Logi og fleiri vinir Langa Manga munu m.a. flytja brot úr ástarsögum, dægurlagatextum og dónaljóðum.

31 júlí 21:00 Drekktu betur, þema R.I.P. blóm og kransar afþakkaðir

 

Fólki er bent á að skoða  heimasíðu Langa Manga http://langimangi.is þar sem dagskráin verður uppfærð reglulega. Þeir sem áhuga hafa á að koma fram í atburðum eins og lokaballi og lágmenningarkvöldi skal bent á að hafa samband við Guðmund Hjaltason

  

Starfsfólk og eigendur vilja að lokum koma á framfæri kveðjum og þakklæti fyrir frábærar og skemmtilegar samverustundir á liðnum árum.  Það er von þeirra að sem flestir komi á þessa fjölbreyttu viðburði til að kveðja staðinn.  Það ættu allir að finna skemmtun við sitt hæfi.

 

Heiðra skaltu föður þinn og móður...í sem fæstum orðum þó

Heiðra skaltu föður þinn og móður, en ekki nota meira en 31 stafabil til verksins.  Einhvern veginn þannig gætu skilaboð Þjóðskrár hafa hljómað þegar ég vildi heiðra móður mína með því að kenna mig bæði við hana og föður minn.  Mér fannst liggja beint við að ég skyldi skráð sem Matthildur Ágústa Jónu og Helgadóttir en það má ekki, enda er og ekkert nafn, ekki einu sinni ogvodafone notar það lengur

Ég var í símasambandi við hjálpsama konu hjá Hagstofunni, sem afsannaði kenninguna um leiðinlega og lítt þjónustulundaða opinbera starfsmenn, hún var öll af vilja gerð til að hjálpa mér að stytta mig.  Ég stóð frammi fyrir því að velja milli þess að vera Jónudóttir eða Ágústa því það eru einungis 31 stafabil í boði hjá Þjóðskrá.  Þetta var ekki auðvelt, mér þykir vænt um Ágústu nafnið og ekki stóð til að skipta út föður mínum fyrir móður mína.  Niðurstaðan varð sú að ég heiti samkvæmt þjóðskrá Matthildur Á Helgad. Jónudóttir.

Nöfnin mín eiga sér sögu.  Mér hefði verið gefið nafnið Matthías, hefði ég fæðst sem drengur, það þótti óþjált stúlkunafn þá og þykir líklega enn, og fékk ég því nafnið Matthildur, á raunar nafna sem heitir Matthías en það er önnur saga.  Áður en ég fæddist hafði ungur piltur sem hét Matthías, og var í sveit í Alviðru, farist í gilinu fyrir ofan Núp.  Hann og hinir krakkarnir í Alviðru og á Núpi, voru að leika sér að velta steinum með þessum skelfilegu afleiðingum, blessuð sé minning hans.  Ágústu nafnsins var aftur á móti vitjað í draumi. Þegar móðir mín gekk með mig dreymdi hana að Ágúst gamla á Hrygg , sem þá var látinn en hafið búið á næsta bæ. Hann kom til hennar og bað hana að hleypa sér inn, hann hefði bankað nokkrum sinnum hjá henni Gurru, systir mömmu sem greinilega hafði ekki hlustað, en hún hefði aldrei hleypt sér inn.   Ég ber því stolt og þakklát þessi tvö nöfn.

Mikið vildi ég annars að það væri til aur í það að bæta nokkrum stafabilum í nöfnin okkar hjá hinu opinbera.  Þá fengi ég að heita Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir.  Mér skilst að þetta mál hafi eitt sinn verið rætt á Alþingi og að hann Davíð, blessaður kallinn, hafi ætlað að kippa þessu snarlega í liðinn.  Það er alltént tími til kominn að bæta úr þessu.

Að lokum langar mig að skora á fólk að nefna sig við báða foreldra sína. Ætli mín börnin lesi bloggið. Með því að kenna sig við báða foreldra, finnst mér að fólk sé að heiðra þau bæði. Og það ber vott um jafnréttishugsun, því mæður hafa í þessum skilningi verið ósýnilegar um árabil. Við skulum ekki gleyma að litlu málin skipta of mestu.  Að kenna sig við móður sína er fullkomin gjöf til mæðra sem eiga allt, nema börnin sín.


Nú falla öll vötn til Edinborgar

Það eru góðar fréttir úr herbúðum Ísafjarðarbæjar.  Nú loks ætla kjörnir fulltrúar okkar að axla ábyrgð sína í menningarmálum og hafa ákveðið að styrkja menningarfrömuði Ísafjarðar í Kaffi Edinborg með því að bjóða okkur, bjórþambandi almúganum, upp á Eurobandið.

Þetta eru vatnaskil og víst að ekki falla öll vötn til Dýrafjarðar, því sumar sprænur renna til Edinborgar.  Nú gætu einhverjir haldið að ég sé eitthvað fúl og að mér þyki sem menningarstarfsemi af þessu tagi eigi ekki að fá styrki, en það er af og frá.  Ég er ánægð fyrir hönd styrkþega og þykir einsýnt að einhverjir menningarlega vaxnir munu nýta sér þessa stefnubreytingu og leita eftir styrkjum til að flytja inn skemmtikrafta á sína veitingastaði eða aðra þá staði sem menning þrífst burt séð frá öllum sjónarmiðum um samkeppni, enda svoleiðis reglur einungis til trafala.

Það er líka gott til þess að vita að til er hraðmeðferð fyrir svona áríðandi afgreiðslur, því stundum dettur manni eitt og annað sniðugt í hug og þá er gott að þurfa ekki að hafa of mikinn fyrirvara.

Það er bara eitt sem við ætla að muna í næstu kosningum, að kjósa þá sem hafa svipaðan tónlistarsmekk og ég.

 


Grobbsögur Alviðruættar og annað markvert

Það var rólegt hjá lögreglunni á Vestfjörðum um síðustu helgi þrátt fyrir að hátíð væri í öðru hverju byggðu bóli, og einnig sumum óbyggðum.  Boðið var upp á markaðsdag í Bolungarvík, Leiklistarhátíð á Ísafirði, Dýrafjarðardaga og ættarmót í Alviðru í Dýrafirði.  Ég hefði getað skemmt mér á öllum þessum stöðum, en blóð er þykkara en vatn og því féllu öll vötn til Alviðru í Dýrafirði.

Ég hef lengi vitað að ég er komin af skemmtilegu fólki og sannaðist það á þessu ættarmóti Alviðruættar sem að að sjálfsögðu var haldið í Alviðru og einnig á Núpi á síðustu helgi.  Einn liður í dagskránni var grobbsögur, gamlar og nýjar.   Í brekkunni fyrir ofan bæinn áttum við alveg frábæra stund, þar sem eldri ættingjarnir sögðu sögur, mest grobbsögur, af lífinu í gamla daga. Sannar sögur, ýktar sögur og sögur af sögum.  Við hin yngri létum einnig nokkrar flakka því auðvitað rifjast upp margar minningar á svona stundum. 

Það er haft fyrir satt í minni ætt að Þóroddur, langafi minn, þessi með stóru hendurnar hafi getað róið sínum árabáti lengur en meðalmenn á þeim tíma. Sumir fullyrða jafnvel að hann hafi róið landstímið sofandi.  Hann veiddi lúðu sem var jafn löng bátnum og svaraði að bragði þegar fólk undraðist yfir aflanum, að þetta hafi ekki verið svo erfitt því hann hafi handrotað lúðuna áður en hann kom henni um borð.  Ekki var hann einn um að hafa, laglega reddað sér.  Finnbogi frændi minn datt niður eina hæð af vinnupalli þegar hann var ungur, hélt fast í hamarinn og var svo snöggur upp að afi tók ekki eftir neinu.  Þetta hefði aldrei frést ef amma hefði ekki orðið vitni, og jésúsað sig yfir málinu eins og siður var.   Veigar fór upp Illafjall í botni  Litla Dals en hann vissi ekki fyrr en löngu seinna að það var talið ókleyft.  Ekki vissum við systkyniní Alviðru það heldur, því við Giddý fórum gangandi þar niður löngu síðar, eins lofthrædd og hún er, og Árni bróðir sagðist hafa farið þessa leið upp á snjósleða.  Já, sögurnar voru sannarlega margar og góðar.  Ein sagan segir að Kristján Þór sem flest sumur var í Alviðru, svo hann gerði ekki neitt af sér heima, hafi meðal annars haft það starf að passa mig, sem hefur væntanlega verið skemmtilegt, og gerði sér að leik að láta mig húrra niður bæjarbrekkuna í barnavagninum til að sjá hvort honum hvolfdi.  Þar sannaðist að það sem ekki drepur okkur gerir okkur sterkari.

Í öllum góðum veislum er matur og við fengum nóg af honum á Hótel Núpi.  Til að koma í veg fyrir upplausn og vandræði var Jói Sandari, stundum kallaður Jóhannes eftirherma, fenginn til að stýra veislunni. Hann var auðvitað stórskemmtilegur enda Mýrhreppingur, og létum við ágætlega af stjórn að sögn.  Skemmtiatriðin voru kafli út af fyrir sig.  Hver ættleggur skildi koma með atriði. Við, afkomendur Kristjáns og Sigríðar, stofnuðum hljómsveitina Átthagabandið. Þar spilaði ég á forláta bassa, en ég hef spilað á svoleiðis frá því á miðvikudaginn í síðustu viku.  Atriðin voru hvert öðru frábærari, söngur og dans, en vinninginn höfðu þó afkomendur Helgu og Guðmundar Helga, sem sýndu stórleik þegar þau léku dverg.

Þetta var hin besta skemmtun og vitakskuld endaði fjörið á Lubbanum.  Mig langar að þakka fyrir mig og ég hlakka til að sjá ykkur á næsta ættarmóti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband