Basar og kolaport Hvatar í Hnífsdal

Kvenfélagið Hvöt heldur árlegan basar og kolaport í Félagsheimilinu Hnífsdal laugardaginn 29. nóvember frá klukkan 14:00 til 17:00. Að vanda verður hægt að gera góð kaup og styrkja um leið gott málefni.
Þarna verður á boðstólnum heimagerðar hnallþórur, smákökur, rúgbrauð, síld, sultur, sælgæti og allskonar handverk.29.nov.2008 082
Einnig verða til sölu notuð föt og fleira nytsamlegt dót á hundrað kalla. Spennandi verður sjá hvað kemur upp úr skúffum og skápum kvenfélagskvenna.
Hægt verður að gæða sér á heitu súkkulaði og vöfflum á staðnum fyrir aðeins 600 krónur
Heyrst hefur að margar nýjungar verði á boðstólnum eins og famandi sulltur og erótískar smákökur svo eitthvað sé nefnt.  Við vonumst til að sjá sem flesta, allur ágóði fer í styrktarsjóði kenfélagsins. 

Takk fyrir það

Stígamót veittu á dögunum sínar fyrstu jafnréttisviðurkenningar.  Verðlaunin féllu í hlut fimm kvenna sem hver á sinn hátt hefur unnið að jafnrétti kynjanna.  Má þar fyrst nefna Þorgerði Einarsdóttur sem heldur utan um kynjafræðina við Háskóla Íslands með einstaka færni og þekkingu á kynjafræði.  Kolbrún Halldórsdóttir fær þessa viðurkenningu fyrir að vinna að málefnum Stígamóta á Alþingi enda hefur hún lagt fram mörg frumvörp sem tengjast kynferðisofbeldi. Katrín Annar Guðmundsdóttir fær viðurkenningu sem ötul og talskona femínistafélagsins sem óhædd hefur leitt umræðuna um jafnréttismál að mörkum hins leyfilega. Margrét Steinarsdóttir sem situr í framkvæmdahópi Stígamóta fær viðurkenningu fyrir ósérhlífin störf í þágu samtakana.  Að lokum vil ég nefna að ég sjálf, Matthildur Helga og Jónudóttir, fékk viðurkenningu fyrir að vekja athygli á afkáraleika þröngra fegurðarímynda með uppákomunni Óbeislaðri Fegurð.  þeim verðlaunum deili ég með öllum sem komu að Óbeislaðri Fegurð, keppendum, skipuleggendum, dómurum, gestum og styrktaraðilum.c_documents_and_settings_matthildur_my_documents_my_pictures_c_documents_and_settings_soleyt4859_desktop_verdlaunah.jpg 

Það er mér mikill heiður að taka á móti þessum verðlaunum.  Þau sýna mér að þrátt fyrir mótbyr og stór orð í garð femínista, er til fólk sem skilur og metur að verðleikum þá hugsjónavinnu sem fer fram hjá grasrótinni.   Það er einstaklega gefandi og gaman að berjast fyrir góðum málstað og hvet ég alla sem láta sig varða um mannlífið í kring um sig að láta vaða og taka þátt í að móta og þróa okkar samfélag.  Þó það virðist vera erfitt að synda á móti straumnum, sem stundum getur verið ansi hraður, gleymist það fljótt þegar árangur næst.  Hvort sem um er að ræða litla sigra eða stóra. 


Málflutningur Gunnars Páls var ekki trúverðugur: Burt með spillingarliðið!

Nú rétt í þessu lauk viðtali Sigmars í Kastljósi við Gunnar Pál Pálsson formann VR.  Það er skemmst frá því að segja að málflutningur Gunnars var vafasamur og fullur af þversögnum svo ekki sé meira sagt.  Í þessu viðtali var hann að reyna að réttlæta það að persónulegum ábyrgðum var létt af lánum starfsmanna Kaupþings til hlutafjárkaupa. 

Í fyrsta lagi langar mig að vita hvernig í ósköpunum stendur á því að starfsmenn fá að taka lán til kaupa á hlutabréfum í vinnustað sínum upp á svimandi upphæðir.  Lán með veðum í bréfunum sjálfum auk (víkjandi) persónulegra ábyrgða.  Í hvernig greiðslumat fóru þessir starfsmenn?

Gunnar Páll sagði okkur í öðru orðinu að þeir hefðu leyst stafsmenn undan ábyrgðum af því að bankinn hefði staðið vel í september, en ákvörðunin var samt tekin af því að hann stóð illa.....

Gunnar Páll sagði okkur líka að hann hefði ekki vitað um hversu háar fjárhæðir er að ræða.  Það finnst mér með ólíkindum.  Er þetta það sem við köllum hæfa stjórnarmenn? er það svona hæfni sem hefur verið tekin fram yfir hæfni kvenna?    Hvernig getur nokkur maður borið slíkt vanhæfi á borð fyrir okkur á sama tíma og hann óskar eftir því að endurheimta traust.

Gunnar Páll var loðinn í svörum um hvort þeir hefðu fengið lögfræðiálit, jú líklega var einhver sem sagði að þetta væri líklega í lagi.   

Gunnar Páll sem auðmjúkur lauk viðtalinu með þeim fleygu orðum að ef hann væri ábyrgur fyrir fjármálakreppu heimsins væri hann ábyrgur fyrir ákvörun sinni og félaga sinna í stjórn Kaupþings á ekki skilið að endurheimta traust frekar en aðrir sem klúðrað hafa málum.

 


Allt sem ég sagði um Intrum var satt, því miður

Ég get nú ekki orða bundist eftir að hafa hlustað á forstjóra Intrum ljúga upp í opið geðið á þjóðinni í kvöldfréttatíma RÚV áðan.  Eftir að hafa hugsað málið í viku ákvað hann, og innheimturáðgjafarnir, að búa til sögu þess efnis að ég hafi misskilið þá þegar þeir hringdu í mig á dögunum til að bjóða mér að herða innheimtuaðgerðirnar. 

Forsaga málsins er sú að á  þriðjudaginn í síðustu viku hringdi þjónustufulltrúi Intrum í mig, en í mörg ár hefur Snerpa, þar sem ég er framkvæmdastjóri, keypt af þeim þjónustu.  Erindið var að athuga hvort mér fyndist innheimtan ganga ver en áður. Ég sagðist ekki enn hafa orðið vör við slakari innheimtu, hvað sem síðar yrði.  Þá tjáði þessi sami þjónustufulltrúi mér að þau væru að hringja í fyrirtækin sem keyptu af þeim þjónustu og bjóða þeim að stytta í öllum ferlum, eins og það var kallað.  Þetta þýddi að viðskiptavinir okkar hefðu styttri tíma til að borga reikninga áður en þeir færu í innheimtu hjá Intrum og að það væri líka í boði að stytta ferlið í innheimtunni sjálfri, þannig að kröfurnar færu hraðar í gegn um innheimtuferlið og í lögfræðiinnheimtu.  þetta gæti verið ráðlegt ef harðnaði á dalnum í þessari fjármálakreppu.  Þá gæti komið upp sú staða hjá fyrirtækjum og einstaklingum, að ekki væri til fyrir öllum kröfum og því gæti verið rétt að tryggja sig með harðari innheimtu.

Ég afþakkaði boðið og varð satt að segja hálf hneyksluð.  Hneyksluð á því, að á tímum þar sem stór hluti almennings og fyrirtækja á erfitt með að standa í skilum, skulu sérfræðingar í innheimtumálum bjóða viðskiptavinum sínum þá töfralausn að herða innheimtureglurnar.  Ég hefði haldið að á erfiðum tímum sem þessum, ættum við þvert á móti að lengja innheimtuferlið.  Ég er ekki sannfærð um að hertar innheimtuaðgerðir skili okkur betri innheimtu, þvert á móti tel ég að almennt ættu fyrirtæki og stofnanir að sýna biðlund.  Ef allir rjúka til og herða innheimtureglur verður það óhjákvæmilega til þess að fleiri fyrirtæki og einstaklingar fara í þrot.  Líka þeir sem hefðu getað bjargað sér hefðu þeir fengið meiri tíma.  Afleiðingin yrði sú að ekki er víst að kröfurnar fengjust greiddar og viðskiptavinurinn héldi ekki áfram í viðskiptum.   

Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að hafa samband við Ríkisútvarpið og segja þeim þessa sögu því mér fannst og finnst enn að rangt og siðlaust og herða innheimtureglur í miðri fjármálakreppu. Í framhaldi af því var viðtali við mig í kvöldfréttum RÚV um málið.  Daginn eftir viðtalið hringdi í mig maður frá fyrirtækjasviði Intrum til að ræða þetta mál.  Hann vildi meina að ég hefði misskilið þjónustufulltrúann og mér hefði einungis verið bent á þessa leið en ekki ráðlagt að gera breytingar.  Hvort sem Intrum vill kalla þetta ráðleggingu eða tilboð þá er niðurstaðan sú sama.  Einhver tók þá ákvörðun í Intrum að bjóða fyrirtækum þá lausn að herða innheimtuna.  Tæpri viku seinna kemur svo Sigurður Jónson forstjóri Intrum fram í viðtali við RÚV og segir að um tóman misskilning sé að ræða sem nú þegar hafi verið leiðréttur. Þetta er einfaldlega ekki satt hjá Sigurði, ég veit vel hvað mér og þessum starfsmönnum fór á milli og þar var enginn misskilningur á ferð. Ég veit einnig fyrir víst að það var hringt í fleiri fyrirtæki sem sjálfsagt munu staðfesta það ef á reynir.

Ég hef átt ágætt samstarf við fyrirtækið Intrum hingað til og mér hefur fundist það koma fram af virðingu miðað við þá starfsemi sem það fæst við.  Nú virðist mér, því miður, að einhver fljótfærni og hræðsla hafi gripið um sig hjá þeim.  Það sem verra er, það á ekki að viðurkenna mistökin og axla ábyrgðina.  Sem viðskiptavinur Intrum hlýt ég að spyrja hvort orðið hafi stefnubreyting.

Hvað varðar fréttaflutning RÚV af málinu þá finnst mér vinnubrögð þeirra frekar bera vott um flaustursleg vinnubrögð, í stíl við æsifréttamennsku og lauslega umfjöllun, en alvöru fréttamennsku.  Hafði RÚV á sínum tíma samband við Intrum?  Hefði ekki verið ráð að kanna með nokkrum símtölum hvort fleiri hefðu fengið slík tilboð? Hvað með hin innheimtufyrirtækin? Hverju hefði Intrum svarað ef þeir hefðu verið spurðir á hverju þetta tilboð var byggt?  Var þetta byggt á rannsóknum eða fræðum um innheimtuferli á krísutímum?  Var þetta byggt á tölum úr innheimtukerfi Intrum?  Hefði verið ráð að fá álit þeirra ráðamanna sem predika að við eigum að standa saman? 

Ég stend við allt sem ég hef áður sagt um samskipti mín við Intrum og að ég tel að það geti haft mjög alvarleg keðjuverkandi áhrif ef fyrirtæki almennt herða innheimtureglur sínar á þessum tímum.


Útikettir sem hvorki borða né bíta

Þessir útikettir eru bestu kisurnar sem ég hef eignast, ef hægt er að segja að manneskjur eignist ketti, ekki öfugt.  Þeir borða ekki og því þarf ég ekki að kaupa innfluttan kattamat og eyða þar með af dýrmætum gjaldeyrisforða þjóðarinnar.  Þeir klóra hvorki börn né húsgögn.  Þeir vekja mig ekki um miðja nótt til að fá að fara út eða inn.  Þeir horfa ekki á mig ásakandi þegar ég tek fram ferðatöskuna.  Þeir stelast ekki til að liggja á koddanum mínum.  Þeir reka ekki gestina mína úr uppáhalds stólnum með augnaráðinu einu saman.  Þeir þurfa ekki pössun. Þeir færa mér hvorki mýs né fugla.  Þeir elta mig ekki í vinnuna.

Sumir eru einfaldlega þannig gerðir að þeim er alveg sama um mannfólkið og finnst ekkert verra að vera læstir úti. 

22.okt.2008 03922.okt.2008 041 

 

 

 

 


    

22.okt.2008 04022.okt.2008 042                    

 

 


Nú sannast hið fornkveðna, Karlmenn!

Nú þegar karlar hafa sett heiminn á annan endann með því að hafa svona mikið og óskorað vit á fjármálum get ég ekki annað er krafist þess að framvegis fáum við konurnar að koma að stjórn fjármála í heiminum.  Ég er ekkert að tala um að karlarnir verði ekki hafðir með í ráðum ég er að tala um að við konurnar verðum hafðar með í ráðum. 

Ef þau sjónarmið að það sé farsælast að blanda kynjum í stjórnum fyrirtækja, lífeyrissjóða og banka fá ekki brautargengi legg ég til að við konur tökum því ekki þegjandi. Nú höfum við leyft strákunum að spila rassinn út buxunum og það sem verra er við þurfum að borga brúsann. Það að við konur tökum fullan þátt í því að byggja aftur upp þjóðfélagið og borga útrásarskuldirnar þýðir ekki að við ætlum að láta þetta koma fyrir aftur.  

Nú liggur mikið við að gæta hagsmuna okkar.  Það er ekki nóg að ráða nokkrar konur í stöður bankastjóra það þarf mikið meira til að ég hafi trú og traust á uppbyggingunni.  Hvernig væri að hætta að ráða karla eingöngu vegna þess að þeir eru karlar.  Það er svo merkilegt að þeir sem mestar áhyggjur hafa af því að konur komist til valda, nota þá klisju gjarnan, að það megi ekki ráða konur því það sé svo mikil hætta á að þær séu ráðnar eingöngu vegna kyns.  Ekki vegna hæfileika.  Sjálfsagt verður þessi hugsun til vegna þess, að í okkar úr sér gengna karlakerfi, hefur það viðgengist að ráða karl bara vegna þess að hann er karl.

Okkar sök er að hafa látið þetta viðgangast hættum að kóa með körlunum og tökum til hendinni.  Núna.

Hr. Matthildur

 

 

 


Geðveiki dagurinn

Í dag er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.  Í tilefni af því langar mig að hvetja alla þá sem telja sig vera haldna geðheilbrigði af einhverju tagi að gera eitthvað geðveikt.  Það jafnast ekkert á við  gera eitthvað skrítið og heimskulegt ef maður hefur gilda afsökun.  Í dag höfum við góða og gilda afsökun. Í dag mega allir vera geðveikt eitthvað.

mad-woman_695027.jpg

Í tilefni dagsins ætla ég að segja ykkur frá konu sem hagaði sér geðveikt asnalega. Hún byrjaði daginn með því að fara í líkamsrækt, hjólaði aftur á bak í spinning og valhoppaði á hlaupabrettinu.  Til að tryggja sér athygli allra á stöðinni, sem fær einning að njóta nafnleyndar, mætti hún í íþróttabuxunum á röngunni svo skein í hvíta klofbótina.   Því næst bakkaði hún í vinnuna enda einstefna og mikilvægt að bíllinn snéri rétt ef löggan kæmi.   Í vinnunni lék hún heilbrigða manneskju af mikilli innlifun og fara engar sögur af því.  Geðveikar konur þurfa að borða eins og aðrar konur og því skrapp hún út í búð.  Henni virtist dagurinn vera gulur, því keypti hún banana, gul epli, sítrónu, léttmjólk, sinnep, pasta og ost.  Matur í öðrum lit vakti ekki áhuga hennar enda algjört stílbrot að kaupa jarðarber á gulum degi.  

 

 


Förum bara heim til Noregs eða skiptum um kennitölu

Ég er töluvert búin að spekúlera í þessum vanda okkar Íslendinga sem sumir vilja kalla kreppu.  Í morgun fór ég í langan göngutúr með ágætri vinkonu og við ræddum þessi mál.  Ég gætti þess að hafa hnefana kreppta til að koma mér í rétta fílinginn og svo las ég líka einhverstaðar að líkaminn brenndi meira gengi maður með kreppta hnefa.  Við stöllurnar ræddum vandann og leituðum lausna, fannst við bara vera djöfull klárar. En vissum þó ekki alveg hvernig við ættum að snúa okkur út úr því að missa annað hvort æruna, með því að neita að borga útrásarskuldirnar, eða borga og dæma okkur þar með í endalausan þrældóm.  Við hefðum sjálfsagt þurft að ganga lengra til að finna lausn á þessu.

Stundum get ég ekki hætt að hugsa og mig langaði mikið til að vita hvað ég vildi gera, þó ég sé bara kona út í bæ og hvorki ráðgjafi í stjórnarráðinu sé Seðlabanka  Ég hélt ég samtalinu áfram en bara við mig sjálfa í huganum löngu eftir að við stöllurnar skildum og fórum hver til sinnar vinnu. Mér datt sí svona í hug lausn. Ekki bara ein lausn, heldur tvær.

Fyrri hugmyndin gengur út á það að við, íslenska þjóðin, förum bara aftur heim.  Skilum þessum þrælum sem við stálum á Írlandi og víðar og  flytjum aftur heim til Noregs.  Við fluttum jú að heiman fyrir löngu, í hálfgerður fússi reyndar, en ég hef fulla trú á því að það verði fyrirgefið. Blóð er þykkara en vatn.  En ef svo undarlega vill til að Norðmenn vilja okkur ekki aftur þá eru þeir kannski til í að lána okkur nokkra víkjandi milljarða gegn því að við hættum við að flytja aftur til Noregs og hættum í braskinu.

Seinni hugmyndin er álíka snjöll. Hvernig væri að láta bara Ísland fara á hausinn stinga undan eignunum og byrja upp á nýtt með nýrri kennitölu og nýju nafni. Við gætum nýtt okkur þekkingu og reynslu ýmissa athafnamanna sem í gegn um árin hafa stundað kennitöluflakk.   Vissulega yrði það flókið ferli en tæknilega er þetta sjálfsagt gerlegt.  Í okkar frjálslynda heimi er jú allt leyfilegt sem ekki er beinlínis bannað.


Dagbækur Matthildar

Skánafni minn Matthías hefur ákveðið að birta nokkra kafla úr dagbókum sínum.  Þetta hefur þótt furðu sæta, enda þekkti hann alla sem máli skipta og laug ekki að dagbókinni sinni.  Ég hef ákveðið að birta valda kafla úr dagbókum mínum.  Þar sem ég les blöðin afturábak mun ég byrja á færslu dagsins í dag.

Föstudagurinn 22. ágúst 2008

Vaknaði syngjandi, eða svo hélt ég, en söngröddin kom víst frá útvarpinu fram í eldhúsi. Blíðskaparveður, gekk í vinnuna.  Heimiliskötturinn elti mig og laumaðist inn bakdyramegin til þess eins að hrella vinnufélaga mína, leysti málið með mjólk.  Svaraði álíka mörgum erindum og ég svaraði ekki, drakk kaffi og spekúleraði fram undir hádegi.  Fór í ríkið, lét mig dreyma um að kaupa þar kaldan bjór. Verslunarstjórinn benti mér á að það væri tilætlunarsemi af verstu sort, ég hefði átt að kaupa bjórinn í gær.  Ekki mjög þjónustumiðað.   Hádegisfundur með vinnufélögunum, pitsa, kók og volgur bjór, eitt mál á dagskrá, Ísland - Spánn.  Las blöðin á netinu.  Starfa-væntingar-vísitalan fyrir Ísafjarðarbæ er komin upp í 400 störf. Eldur í sorpbrennslustöðinni Funa, segir sig sjálft.  Poul Rames fær að koma aftur til Íslands.  Dorrit er orðin algjör Íslendingur það sannaðist þegar hún sagði sagði að Ísland væri stórasta land í heimi, þetta höfum við lengi vitað.  Þráðlaust rafmagn er í sjónmáli, áfram Intel!


Jarðgöng, Kristján og hvíslararnir

Fyrir áratugum var sett fram stefna í uppbyggingu vega á Vestfjörðum.  Samkvæmt henni skildi byggja upp vegi frá hringveginum, annars vegar á norðurhluta Vestfjarða, til Ísafjaðar, og hins vega á suðurfirðina, til Patreksfjarðar.  Þegar þessari uppbyggingu væri lokið, yrðu svæðin tengt saman. Grundvöllurinn fyrir þessari stefnu var að á Vestfjörum myndu byggjast upp tveir öflugir þjónustukjarnar á Patreksfirði annars vegar og á Ísafirði hins vegar.

Nú hefur það verið öllum ljóst í langan tíma, nema hugsanlega samgönguráðherra og hvíslurum hans, að áætlanir um tvo byggðakjarna á Vestfjörðum munu ekki ganga eftir.  Í dag telur fólk skynsamlegast að byggja upp einn þjónustukjarna á Ísafirði og til að sá þjónustukjarni geti staðið undir nafni verða samgöngur á milli norður- og suðursvæðis að vera mannsæmandi, það þarf sem sagt að koma á heils árs vegasambandi.

Því miður hefur verið unnið að uppbyggingu vega á Vestfjörðum undanfarin ár á þann hátt, að það virðist hvorki vera unnið að því að byggja upp stystu leið til Reykjavíkur né tengja saman norður og suðursvæðið.  Með því að byggja upp vesturleiðina gerist tvennt, svæðin tengjast sem styrkir þjónustufyrirtækin og stjórnsýsluna og leiðin til Reykjavíkur styttist.

Það er því með öllu óskiljanlegt að samgönguráðherra skuli hlusta á úrtöluraddir nafnlausra ráðgjafa sem virðist vera fyrirmunað að sjá heildarmyndina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband