Allt sem ég sagði um Intrum var satt, því miður

Ég get nú ekki orða bundist eftir að hafa hlustað á forstjóra Intrum ljúga upp í opið geðið á þjóðinni í kvöldfréttatíma RÚV áðan.  Eftir að hafa hugsað málið í viku ákvað hann, og innheimturáðgjafarnir, að búa til sögu þess efnis að ég hafi misskilið þá þegar þeir hringdu í mig á dögunum til að bjóða mér að herða innheimtuaðgerðirnar. 

Forsaga málsins er sú að á  þriðjudaginn í síðustu viku hringdi þjónustufulltrúi Intrum í mig, en í mörg ár hefur Snerpa, þar sem ég er framkvæmdastjóri, keypt af þeim þjónustu.  Erindið var að athuga hvort mér fyndist innheimtan ganga ver en áður. Ég sagðist ekki enn hafa orðið vör við slakari innheimtu, hvað sem síðar yrði.  Þá tjáði þessi sami þjónustufulltrúi mér að þau væru að hringja í fyrirtækin sem keyptu af þeim þjónustu og bjóða þeim að stytta í öllum ferlum, eins og það var kallað.  Þetta þýddi að viðskiptavinir okkar hefðu styttri tíma til að borga reikninga áður en þeir færu í innheimtu hjá Intrum og að það væri líka í boði að stytta ferlið í innheimtunni sjálfri, þannig að kröfurnar færu hraðar í gegn um innheimtuferlið og í lögfræðiinnheimtu.  þetta gæti verið ráðlegt ef harðnaði á dalnum í þessari fjármálakreppu.  Þá gæti komið upp sú staða hjá fyrirtækjum og einstaklingum, að ekki væri til fyrir öllum kröfum og því gæti verið rétt að tryggja sig með harðari innheimtu.

Ég afþakkaði boðið og varð satt að segja hálf hneyksluð.  Hneyksluð á því, að á tímum þar sem stór hluti almennings og fyrirtækja á erfitt með að standa í skilum, skulu sérfræðingar í innheimtumálum bjóða viðskiptavinum sínum þá töfralausn að herða innheimtureglurnar.  Ég hefði haldið að á erfiðum tímum sem þessum, ættum við þvert á móti að lengja innheimtuferlið.  Ég er ekki sannfærð um að hertar innheimtuaðgerðir skili okkur betri innheimtu, þvert á móti tel ég að almennt ættu fyrirtæki og stofnanir að sýna biðlund.  Ef allir rjúka til og herða innheimtureglur verður það óhjákvæmilega til þess að fleiri fyrirtæki og einstaklingar fara í þrot.  Líka þeir sem hefðu getað bjargað sér hefðu þeir fengið meiri tíma.  Afleiðingin yrði sú að ekki er víst að kröfurnar fengjust greiddar og viðskiptavinurinn héldi ekki áfram í viðskiptum.   

Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að hafa samband við Ríkisútvarpið og segja þeim þessa sögu því mér fannst og finnst enn að rangt og siðlaust og herða innheimtureglur í miðri fjármálakreppu. Í framhaldi af því var viðtali við mig í kvöldfréttum RÚV um málið.  Daginn eftir viðtalið hringdi í mig maður frá fyrirtækjasviði Intrum til að ræða þetta mál.  Hann vildi meina að ég hefði misskilið þjónustufulltrúann og mér hefði einungis verið bent á þessa leið en ekki ráðlagt að gera breytingar.  Hvort sem Intrum vill kalla þetta ráðleggingu eða tilboð þá er niðurstaðan sú sama.  Einhver tók þá ákvörðun í Intrum að bjóða fyrirtækum þá lausn að herða innheimtuna.  Tæpri viku seinna kemur svo Sigurður Jónson forstjóri Intrum fram í viðtali við RÚV og segir að um tóman misskilning sé að ræða sem nú þegar hafi verið leiðréttur. Þetta er einfaldlega ekki satt hjá Sigurði, ég veit vel hvað mér og þessum starfsmönnum fór á milli og þar var enginn misskilningur á ferð. Ég veit einnig fyrir víst að það var hringt í fleiri fyrirtæki sem sjálfsagt munu staðfesta það ef á reynir.

Ég hef átt ágætt samstarf við fyrirtækið Intrum hingað til og mér hefur fundist það koma fram af virðingu miðað við þá starfsemi sem það fæst við.  Nú virðist mér, því miður, að einhver fljótfærni og hræðsla hafi gripið um sig hjá þeim.  Það sem verra er, það á ekki að viðurkenna mistökin og axla ábyrgðina.  Sem viðskiptavinur Intrum hlýt ég að spyrja hvort orðið hafi stefnubreyting.

Hvað varðar fréttaflutning RÚV af málinu þá finnst mér vinnubrögð þeirra frekar bera vott um flaustursleg vinnubrögð, í stíl við æsifréttamennsku og lauslega umfjöllun, en alvöru fréttamennsku.  Hafði RÚV á sínum tíma samband við Intrum?  Hefði ekki verið ráð að kanna með nokkrum símtölum hvort fleiri hefðu fengið slík tilboð? Hvað með hin innheimtufyrirtækin? Hverju hefði Intrum svarað ef þeir hefðu verið spurðir á hverju þetta tilboð var byggt?  Var þetta byggt á rannsóknum eða fræðum um innheimtuferli á krísutímum?  Var þetta byggt á tölum úr innheimtukerfi Intrum?  Hefði verið ráð að fá álit þeirra ráðamanna sem predika að við eigum að standa saman? 

Ég stend við allt sem ég hef áður sagt um samskipti mín við Intrum og að ég tel að það geti haft mjög alvarleg keðjuverkandi áhrif ef fyrirtæki almennt herða innheimtureglur sínar á þessum tímum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já sömuleiðis ánægður með þig. 

Af hverju kemst maðurinn upp með þetta?  Skítalykt af málinu ! Vonandi koma fleiri fyrirtæki sem hafa fengið boð um styttingu á hengingarólinni hjá skuldurum fram. Og svo er þetta ríkis-fyrirtæki að hluta ( í eigu Landsbankans sem er í eigu ríkisins)Og voru ekki ráðherrar Samfylkingar að biðja um gott veður fyrir skuldara ? ha ?

skuldari (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 23:47

2 identicon

Heyrði þetta viðtal við þennan Sigurð,sá var að reyna að klóra yfir falsið sitt en við heyrðum og sáum í gegnum hann,þvílíkt bull sem flæddi úr blessuðum manninum.

Jenzen (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 23:49

3 identicon

Fyrir þá sem ekki hafa heyrt þetta, mæli ég með að þið hlustið:

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4426365/10

error (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 23:54

4 identicon

Þú ert lang bestust Matta "gamla" Núpsverja. Svo er líka skuldasúpan þín svo góð! Takk fyrir mig. Endilega haltu áfram að láta þessa gúbba hafa það óþvegið.

Vestfirsk fegurð lengi lifi.

Sveitasæla (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 23:57

5 identicon

Af hverju ætti að gefa eitthvað eftir í innheimtu, þegar kannski t.d. fyrirtæki eða einstaklingur hefur ekki borgað mánuðum saman? Eða ekki greitt neitt. Og ætlaði sér kannski aldrei að greiða fyrir þjónustuna? Á þá að sýna linkind í innheimtu?

Þetta innlegg þitt er mér hvati til að sækja um þjónustu hjá Intrum, en það kostar. En ég vona bara að það borgi sig. Það verður bara að koma í ljós. Bestu baráttukveðjur, Inga.

Ingibjörg Magnúsdóittir (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 01:11

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þú ert hetja - svona upplýsinar verða einhversstaðar að koma fram en því miður hugsar hver um sig og að skaða ekki sína einkahagsmuni, því þegja allir hinir. - Það þarf því hetju til að koma fram og segja okkur frá þessu. - Annars eru líka óvenju margir vestfirðingar hetjur.

Helgi Jóhann Hauksson, 4.11.2008 kl. 01:37

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Guði sé lof fyrir bloggarana! (og ég sem er gersamlega trúlaus hehe)  Ég held að í þessu litla samfélagi í netheimum, sé síðasta athvarf lýðræðisins og vona að sem flestir rísi undir því á sama hátt og þú.

Ekkert af því sukki, sem er að fljóta upp á yfirborðið hefði gert það ef ekki væri fyrir tilvist bloggsins.

Jón Steinar Ragnarsson, 4.11.2008 kl. 01:53

8 Smámynd: Sigurveig Eysteins

 Þetta er allt rétt hjá þér, ég lenti í því á föstudag að ég gat ekki borgað 7000 kr. reikning hjá gjaldkera í banka, reikningurinn var síðasta greiðsla í afborgunarröð, og ég var ein og hálfan mánuð á eftir með greiðslu, gjaldkeri gat ekki gefið mér skíringu á af hverju ég gat ekki borgað, þar sem það var föstudagur þá ákvað ég að salta þetta fram á mánudag, þegar ég kem hinsvegar heim eftir bankaferðina, bíður eftir mér bréf frá lögmönnum, skuldin mín var orðin 25,000 kr. Ég missti næstum vitið af reiði, því ég er mjög skilvirk með greiðslur og er með allt í greiðsluþjónustu, ég hringdi síðan í þessi fyrirtæki á mánudag og helti mér yfir þá, og greiðslan frá lögmönnum var feld niður, það sem svíður mest er að ég var búin að fá frest á þessari greiðslu og að þeir voru búnir að senda skuldina í lögmenn eftir ein og hálfan mánuð, þó ég væri búin að semja. Svo þetta er allt rétt hjá þér. Það er ótrúleg að menn ætli sér að græða á þessu ástandi í þjóðfélaginu, þvílík siðblinda og mannvonska.

Sigurveig Eysteins, 4.11.2008 kl. 03:33

9 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ingibjörg ég held að þú misskiljir mál mitt, ég er að gagnrýna Intrum fyrir að vera með frumkvæði að því að innheimtuferlar séu styttir.  Á sínum tíma valdi ég Intrum einmitt vegna þess að mér fannst þeirra kerfi bjóða upp á sveigjanleika og virðingu og ég hef hingað til verið ánægð með þeirra þjónustu þó þeir séu dýrir.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 4.11.2008 kl. 08:02

10 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Ég trúi því sem þú segir Matthildur.

Ég er bara ógeðslega svartsýn og vond kona - en það er mín trú að Intrum sé að klóra í bakkann áður en viðskiptavinir þeirra, fyrirtækin, fara á hausinn. Það á að reyna að tryggja sér eins mikla peninga á eins stuttum tíma og hægt er með meiri hörku í innheimtu.

En þetta eru bara heimskulegar skoðanir mínar, almúgamanneskjunnar, litaðar af ergelsi og reiði, jafnvel biturleika, fyrir hönd samferðamanna minna sem ef til vill lenda illa í þessu.

Ps. ég skulda Intrum ekki neitt.

Hjördís Þráinsdóttir, 4.11.2008 kl. 09:48

11 Smámynd: Albertína Friðbjörg

Flott hjá þér!!

Albertína Friðbjörg, 4.11.2008 kl. 11:26

12 Smámynd: Gló Magnaða

Þetta er sennilega bara byrjunin á skandalabylgju sem mun ríða yfir næstu daga. 

Gló Magnaða, 4.11.2008 kl. 11:50

13 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Gott framtak að vekja athygli á þessu. Útlit fyrir að bankar og innheimtufyrirtæki þurfi rækilega lúsahreinsun!

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.11.2008 kl. 12:46

14 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

 Takk fyrir þetta framtak!

Axel Jóhann Hallgrímsson, 4.11.2008 kl. 13:59

15 identicon

Mæl þú manna heilust, Matthildur! Þakka þér fyrir að þegja ekki yfir þessu. Maður finnur orðið skítafnykinn af aumingja gamla Fróni alla leið hingað til Danmerkur. :-(

Netverji í DK (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 14:05

16 identicon

Frábært framtak hjá þér, þvílíkt siðleysi í þessu fyrirtæki.

alva (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 14:09

18 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Vá, ég tek hattinn ofan fyrir þér í þessu máli. Allt satt og rétt sem þú segir um það, að herða innheimtuaðgerðir á tímum sem flestir standa ekki nógu vel. Ég segi eins og þú, að svona aðgerðir gagnast ekki neinum og munu ekki skila fyrirtækjum betri skilum frá kúnnunum, einfaldlega vegna þess að þeir eiga e.t.v. ekki fyrir kröfunum. Og hefði ég haldið, að betra væri fyrir fyrirtækin að sýna meiri biðlund og a.m.k. fá inn kröfurnar sínar, heldur en kannski alls ekki.

Frábært hjá þér að vekja athygli á þessu máli!! Go girl :-)

Lilja G. Bolladóttir, 4.11.2008 kl. 16:20

19 Smámynd: Ragnar Borgþórs

Allt í lagi að opinbera svona framkomu, það er rétt að gefa frekar eftir en herða í svona ástandi.

Ragnar Borgþórs, 4.11.2008 kl. 17:27

20 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gott mála að ræða þessa hluti opinskátt. Það virðist sem skortur á slíku hafi öðru fremur skapað þann vanda sem þjóðfélagið stendur nú frammi fyrir.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.11.2008 kl. 17:31

21 Smámynd: Johann Trast Palmason

Djöfull er ég ánægður með þig.

Íslandi vantar fleira fólk eins og þig á þessum erfiðu tímum.

Þú ert sannur vinur þjóðarinnar og lítilmagnans.

Takk fyrir að þora.

Johann Trast Palmason, 4.11.2008 kl. 18:17

22 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gott að sjá önnur geisla af öðrum gildum en þeim efnislegu brjótast gegnum skýjarþykknið. Fólk eins og þú vekur von hjá fólki. Afar dýrmætt.

Hrannar Baldursson, 4.11.2008 kl. 22:14

23 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þetta átti að vera:

Gott að sjá geisla af öðrum gildum en þeim efnislegu brjótast gegnum skýjarþykknið. Fólk eins og þú vekur von hjá fólki. Afar dýrmætt.

Hrannar Baldursson, 4.11.2008 kl. 22:16

24 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Húrra fyrir þér!

Ylfa Mist Helgadóttir, 4.11.2008 kl. 22:27

25 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég verð að taka undir það sem flesti hafa sagt. Frábært framtak. Þú ert ekki bara með hjartað á réttum stað, heldur hausinn líka.

Villi Asgeirsson, 4.11.2008 kl. 23:00

26 identicon

Verð að segja eins og margir aðrir á undan mér - Flott hjá þér að vekja máls á þessu. 

Soffía (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 23:18

27 Smámynd: Gló Magnaða

Matthildi til forseta!!!

Gló Magnaða, 5.11.2008 kl. 10:15

28 identicon

Var það sami þjónustufulltrúinn sem hringdi í hin fyrirtækin????  Getur það verið að einn starfsmaður hafi hlaupið á sig, en talið sig vera gera þér og þeim sem hringt var í greiða,  í ljósi stöðunnar á þjóðfélaginu????.

Ég er búin að eiga viðskipti við Intrum í mörg ár i gegnum það fyrirtæki sem ég vann hjá, og þar eins og annars staðar er misjafn sauður í mörgu fé. En ég var með mjög góðan þjónustufulltrúa og neitaði að sleppa henni þó reynt væri ítrekað. Við verðum að passa okkur á að rífa ekki niður heilt fyrirtæki, vegna klúðurs kannski 1-2 starfsmanna.

Hitt er svo annað mál að ég hef aldrei skilið til hver verið er að eyða peningum í svona milliliði, þetta er dýrt bákn sem gerir vöru og þjónustu bara dýrari.

  Knús á ykkur öll

(IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 23:04

29 identicon

Sæl Matthildur.

Lítið skulda ég sem er á herðum þessara INTRUM en get þó staðfest tíðari hringingar og fullt af bréfum á þrjár skitnar smá skuldir. Sem ég ef ég nokkurn tíman eignast pening er tilbúin að greiða þeim, heldur þá beint til eiganda krafnanna. Svo mikið gengur þessi frekja fram af mér.

Góð ábending hjá þér. Kærleikskveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 05:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband