Getur einhver útskýrt fyrir mér?

Af hverju það er liðið að stúlkur séu áreittar í kirkjum á Íslandi? 

Af hverju líðum við það að þeir sem við ættum að treysta komist upp með að strjúka börnin okkar og vera með kynferðislegt tal við þau? 

Ef það er löglegt í dag að áreita börn, af hverju breytum við þá ekki reglunum og gerum það ólöglegt?

Af hverju trúum við ekki börnum sem verða barnaníðingum að bráð?

Af hverju gefumst við upp?

Getur verið að við Íslendingar séum upp til hópa samþykk því að fullorðið fólk megi vera með kynferðislega tilburði eða athugasemdir við börn? 

Hvar ætlum við að setja línuna? 

Er í lagi að ég segi við 14 ára strák að mér finnist hann sætur og að ég sé svolítið skotin í honum? 

Er í lagi að ég strjúki unglingsstrák og tali um hvað hann sendi frá sér góða strauma? 

Hr. Matthildur spyr en á ekki von á svörum. 

Mér finnst rangt að fullorðið fólk sé með einhverja kynferðislega tilburði við börn eða unglinga hvort sem það er í tali eða snertingu og mér finnst að það eigi ekki að líðast.

 


mbl.is „Ég vona að þér verði aldrei nauðgað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

algerlega sammála þér!! Góður punktur hjá þér að snúa þessu svona við. 

alva (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 18:29

2 Smámynd: Diesel

þetta er góður punktur, en ég spyr á móti.

Í Dagvaktinni í vetur var nauðgunarsena þar sem karlmanni var nauðgað af konu. Þetta þótti bráðfyndið en vakti þó einhver viðbrögð. Vibrögðin voru samt engan vegin nógu mikil. Afhverju? Er ekki verið að segja að kynferðislegt ofbeldi gegn karlmönnum sé bara í lagi og fyndið?

og eins, er víst að engir strákar hafi verið áreittir?

Diesel, 3.12.2008 kl. 18:34

3 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Diesel ég er alveg sammála þér að áreitnin og nauðgunin í Dagvaktinni var ekkert fyndin og ég hætti fljótlega að horfa á þann þátt.

Það er alveg öruggt að bæði strákar og stelpur eru áreittar. Mín spurning er einfaldlega, af hverju látum við þetta viðgangast?

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 3.12.2008 kl. 18:53

4 identicon

Mig grunar nú að 14 ára stelpa og 14 strákur skilgreini nauðgun á sitthvorn háttinn, eins og við gerum eflaust flest.

Af einhverjum ástæðum grunar mig líka að enginn (fáir, amk) 14 ára strákar myndu telja það nauðgun ef einhver myndi strjúka þeim og segja að frá þeim stafi góðir geislar. Eða hvernig sem þetta nú var hjá þér.

Og ég held að það hafi ekki nein alvarleg sálarleg áhrif á strákinn ef þú myndir segja honum að hann væri sætur og þú værir pínu skotin í honum. En hann myndi án efa hlaupa til félaga sinna og þeir myndu gera óspart grín að þér.

smeppi (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 19:02

5 Smámynd: Árni B. Steinarsson Norðfjörð

Hvar liggja eiginlega mörkin hjá ykkur á milli óviðeigandi en löglegrar hegðunar og ólöglegs kynferðislegs ofbeldis í ykkar huga?

Það er til nokkuð sem heitir kynlífstabú vesturlanda þótt það sé til víðar en þar og á sér rætur í því að fyrir hvern munn sem bættist við í akuryrkjusamfélaginu svalt annar. Þess vegna þurfa konur að hlyja barm síinn í sundi, meira að segja litlar stúlkur sem eru í engu frábrugðnar drengjum í því tilliti. Það má ekki sýna beran kvenmannsbarm í kvikmynd en það má mögulega sýna einhvern saga það líffæri af.

Það er löglegt ef þú segir við 14 ára strák að þér þykir hann sætur og þú sért svolítið skotinn í honum. Það er hins vegar ekki siðlegt og mögulega ólöglegt ef þú gengur lengra.

Við getum verið sammála um að framkoma presstins var ósiðleg en hvort eða hversu mikið hann braut lögin er kjarni málsins en ekki bara hvað mér og þér finnst. Það kemur málinu í rauninni ekki við.

Árni B. Steinarsson Norðfjörð, 3.12.2008 kl. 19:03

6 identicon

Í dag má ekki svo mikið sem líta á kvenfólk, eða þá að spyrja hvort að eitthvað sé að án þess að það teljist kynferðisleg áreitni. Ef að fólk myndi hætta að oftúlka allt sem gert er við það þá væri kannski auðveldara að skilgreyna hvað kynferðisleg áreitni er. Það er engin nýjung að stúlkur beri því fyrir sér að þeim hafi verið nauðgað þrátt fyrir að sannleikurinn sé annar. Auðvitað hefur sumum stúlkum og strákum verið nauðgað, en það eru líka aðilar sem ljúga nauðgun og kynferðislegri áreitni upp á fólk.

Þetta hugtak "kynferðisleg áreitni" þyrfti að skilgreina betur til þess að það nái markmiði sínu. Í dag er þetta allt of víðtækt hugtak og er ég ánægð með þennan dóm.

Það er ekkert grín að fá kynferðisafbrotastimpil af neinu tagi á bakið og er verri stimpill en flestir aðrir afbrotastimplar. Þess vegna er strangari sönnunarbyrði í þessum málum.

Ef að ekki telst sannað að aðili hafi brotið af sér þá ber að virða það, ekki nema þið viljið að saklausum mönnum sé stungið inn í tonnatali bara af því að aðilar út í bæ telji hann vera sekan.

Aðili er saklaus þar til sekt hans er sönnuð. Sekt hans var ekki sönnuð í þessu máli og því telst hann saklaus.

Tjásan (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 19:11

7 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ég hef spurt nokkra unglingsstráka hvort einhver kona hafi sagt eða gert eitthvað álíka og hvað þeim finnist um það.  Svör þeirra voru öll á þá leið að þeir sögðust ekki hafa lent neinu og þeim fannst svona framkoma ógeðsleg og krípí og ég er sammála þeim þar.  Ég taldi mig ekki þurfa að spyrja stúlkurnar þar sem ég man eftir svona körlum frá því að ég var unglingur.

Það má vera að þetta sé löglegt en siðlaust.  Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort það, að slík framkoma sé lögleg, geti verið frjór jarðvegur fyrir frekari brot. 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 3.12.2008 kl. 19:13

8 Smámynd: Árni B. Steinarsson Norðfjörð

Já, en það er bara allt annað mál. Við getum hins vegar ekki tekið ákvarðanir í málum sem varða lög og reglur ef við höfum bara fyrir okkur að eitthvað gæti verið svona eða hinssegin.

Árni B. Steinarsson Norðfjörð, 3.12.2008 kl. 19:21

9 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Fulltrúar okkar á Alþingi ákveða hvað er löglegt og hvað ekki.  Það er því mikil einföldun að halda því fram við höfum ekkert með það að gera hvað er löglegt og hvað ekki. Stundum, einkum þegar um peninga er að ræða, er auðvelt að breyta lögum. 

Ég er heldur ekki endilega að tala um neinn ákveðinn dóm eða sýknu, ég er að tala almennt.  Það virðist vera að endurtaka sig aftur og aftur að sömu mennirnir (konur eru líka menn er það ekki?) sleppi við dóma þó allir viti hvernig þeir haga sér.  Ég þekki dæmi þess að það sem fólk hélt að væri sakleysisleg framkoma, kannski óæskileg, var einungis toppurinn af ísjakanum, þegar engin sá til gerðust hræðilegir hlutir.

Til að taka af allan vafa er ég ekki að tala um daður eða önnur samskipti milli kynjanna á janfréttisgrunni. 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 3.12.2008 kl. 19:42

10 Smámynd: Árni B. Steinarsson Norðfjörð

Öll umræða um lög og reglur þarf að eiga sér traustan grundvöll og það var það sem ég átti við og auðvitað var ég að skírskota til þingmanna þegar kemur að lögum og reglum og setningu þeirra. Þrýstingur almennings á breytingum á lögum þarf alltaf að vera mjög málefnalegur og menn verða að hafa í huga að lög geta haft aukaverkanir sem geta verið allt frá því að vera smávægilegar til þess að vera verri en verkanirnar sjálfar sem lögunum er ætlað. Það er t.d. þess vegna sem þingmenn tóku ekki nýlegt frumvarp um ærumeiðingar til umfjöllunar þrátt fyrir framgöngu DV fyrir örfáum árum og síðar hefur visir.is ekki kunnað sig. Þrátt fyrir mikla nauðsyn var það varla rætt að setja slík lög því menn vissu að aukaverkanir slíkra laga yrðu ekki minni en verkanir þess. Ef háttsemi prestsins yrði gerð ólögleg þá hefði það í för með sér slæmar aukaverkanir. Ég myndi sjálfur ekki tala við unglingsstúlkur framar. Fjölmargir myndu auk þess fara flatt á því fyrir margt minna en presturinn á Selfossi.

Árni B. Steinarsson Norðfjörð, 3.12.2008 kl. 19:59

11 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Heyr,heyr Matthildur. 

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 3.12.2008 kl. 20:06

12 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Eru þá þessar stúlkur og aðrir sem lent hafa í svipuðum málum þá einfaldlega fórnarkostnaður? 

Á ég að trúa því að það sé ekki hægt að stoppa slíka framkomu af því að það gæti komið illa við einhverja.  Ef við setjum á vogarskálar, annars vegar stúlku sem hefur lent í kynferðislegri áreitni en manninum var sleppt skv. núverandi lögum en á hinn bóginn mann sem hefur verið ásakaður um kynferðislega áreitni en sleppt vegna skorts á sönnunum.  Hvort þeirra átti verri dag í dómsal?

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 3.12.2008 kl. 20:15

13 Smámynd: Árni B. Steinarsson Norðfjörð

Fangelsi eru fyrir sakamenn, ekki sakleysinga. Það verða femínistar að skilja. Af því ég nefndi ærumeiðingafrumvarpið þá komst það ekki lengra þrátt fyrir að ýmsir hafi þurft og þurfa að þola mannorðsmorð. Menn vilja einfaldlega ekki fá fleiri svona Jóns Ólafssonar - Hannes Hólmsteins mál og því náði það frumvarp ekki lengra þrátt fyirir að margir þyrftu að taka á sig fórnarkostnaðinn í þeim málum, líka fórnalömb lyga og sluðurs. Það er eins með þetta mál. Mörkin liggja á ákveðnum stað og presturinn á Selfossi var á þeim mörkum miðað við sína ósiðlegu framkomu. Menn eru því að deila um það hvorum megin markanna hann var.

Ég er vinur einstaklingsins, mannréttinda og réttaröryggis en ekki pólitískra og félagslegra markmiða á kostnað mannréttinda og einstaklingsins.

Það er einmitt það sem margir femínistar hafa verið gagnrýndir fyrir - sérstaklega þeir femínistar sem tilheyra femínismum sem jafnvel einstaklingar í femínistafélaginu sem ég hef talað við viðurkenna að virði ekki einstaklinginn.

Þú ert kannski þannig femínisti?

Árni B. Steinarsson Norðfjörð, 3.12.2008 kl. 20:24

14 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ég er svona femínisti sem virði rétt fórnarlamba kynferðisofbeldis. 

Ég er svona femínisti sem hef orð á því sem mér finnst rangt.

Ég er svona femínisti sem virði rétt einstaklinga, líka þeirra einstaklinga sem eru femínistar.

Telur þú að það sé pólitískt  eða félagslegt markmið hjá mér að vilja verja mín börn og annarra fyrir níðingum?

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 3.12.2008 kl. 20:45

15 Smámynd: Árni B. Steinarsson Norðfjörð

Fela ekki allar pólitískar aðgerðir í sér pólitísk og félagsleg markmið sama hver þau eru?

Ég kæri mig hins vegar ekki um að börnin mín lendi saklaus í fangelsi. Ég myndi auk þess gera greinarmun á því að einhver karl eða kona daðraði dónalega við barnið mitt eða myndi gera eitthvað líkamlega kynferðislega við það og þá á ég við annað og meira en að strjúka bak þess utan klæða.

Í pistli mínum sem ég skrifaði í kvöld sem athugasemd við upphaflega frétt nefni ég sjö saklausra menn sem lentu í steininum vegna upplogina ásakana um kynferðislegt ofbeldi. Hér nefni ég bara dæmi sem ég þekki til og koma upp í hugann. Þetta eru staðfest dæmi sem enginn hefur deilt um eftir á - ekki einu sinni hörðustu femínistar Íslands.  Það þarf síðan ekki að fara lengra eða í fjölmennara samfélag en Færeyja til að finna dæmi um hjón sem sátu saklaus í fangelsi í rúmt ár vegna rangra ásakana og dóms um sifjaspell. Það fréttist nú bara af þessu máli af því að það teygði sig óvænt og óbeint til Íslands.

Ég er ekki femínisti sem vill þetta.

Ég er hins vegar ábyrgur einstaklingur sem vill verja jafnt börnin mín sem hvern annan frá því að lenda saklaus í svona löguðu. 

Ég veit ekki hvort það sama eigi við um þig?

Árni B. Steinarsson Norðfjörð, 3.12.2008 kl. 21:04

16 identicon

"Eru þá þessar stúlkur og aðrir sem lent hafa í svipuðum málum þá einfaldlega fórnarkostnaður?"

Ef að þessu væri öfugt farið væru þá þeir sem myndu lenda í fangelsi fyrir rangar sakir bara vera ásættanlegur fórnarkostnaður?

Halldór Ingvi Emilsson (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 21:13

17 Smámynd: Árni B. Steinarsson Norðfjörð

Sæll Halldór

Þetta kallast einfaldlega fasismi. Einn þekktasti lögfræðingur landsins talaði meira að segja um fasíska femínista sem vilja helst hengja menn án dóms og laga.

Eins og ég sagði þá er þetta hliðstætt við ærumeiðalögin sem voru varla rædd fyrir tveimur árum þrátt fyrir ærið tilefni og fjölda þingmanna sem að baki stóðu.

Það verða t.d. margir að geta þolað ósanngjarnar ærumeiðingar til að allt vaði ekki upp í svona Hannesar Hólmsteins - Jóns Ólafssonar málum. Þingmenn gerðu sér grein fyrir því og því gekk það ekki lengra.

Af hverju ekki bara að taka upp líflátsrefsingar? Það er algjör óþarfi að ríkið stundi slíkan viðbjóð þótt einstaklingarnir geri eitt og annað ósiðlegt.

Á sama hátt getur ríkið ekki leyst úr þessum málum með því að setja saklaust fólk í fangelsi.

Það er algjör óþarfi að blanda öðrum og síst ríkinu þ.e. okkur sjálfum í slíkan viðbjóð.

Árni B. Steinarsson Norðfjörð, 3.12.2008 kl. 21:27

18 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Árni ég held að þú sért farinn að gera mér upp skoðanir.  Hvergi hef ég sett að jöfnu kynferðislega áreitni og nauðgun. 

Ég velti því hins vegar fyrir mér af hverju við getum ekki fundið aðra lausn á þessu vandamáli en að láta áreitni viðgangast.   Ég hef ekki lesið pistilinn sem þú vitnar í um þá sem voru dæmdir saklausir en get bent þér á að ég þekki persónulega nokkur fórnarlömb nauðgara og kynferðislegrar áreitni þar sem afbrotamaðurinn var sýknaður eða aldrei kærður vegna skorts á sönnunum.  Ég veit ekki hvort það er til tölur um það hvort það sleppa fleiri sekir en saklausir sem sitja inni.  Hitt veit ég að þó ekki hafi tekist að sanna glæp á mann þýðir það ekki endilega að hann hafi ekki framið glæpinn.

Mér er  full kunnugt um þá áhættu að fólk sé dæmt saklaust í fangelsi og er að sjálfsögðu ekki að mæla því bót.  Ég er samt ekki sátt við það réttarkerfi sem viðbúum við. 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 3.12.2008 kl. 22:23

19 identicon

Það var verið að dæma mann á skilorð fyrir að stela vodka flösku, ég las dóminn um prestinn og finnst málið mun alvarlegra en vodka málið.
Ég myndi segja að miðað við þetta hegðunarmynstur hjá presti þá væri ekki óeðlilegt að kafa dýpra í málið.

DoctorE (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 22:39

20 identicon

Ég er sammála þér Matthildur að það má margt bæta í réttarkerfinu og mér hafa fundist dómar og sektir í nauðgunar og misnotkunarmálum oft hlægilegir. Mér finnst þetta með hræðilegustu glæpum sem hægt er að fremja. Ég hef meira að segja haft orð á því að menn sem dæmast títt sekur um þannig atburði ætti að brennimerkja og útskúfa úr samfélagi manna. Ég hef líka unnið á meðferðarstofnun þar sem hafa komið inn stelpur sem hefur verið nauðgað og það er ekki skemmtileg upplifun að sjá ástandið á þeim.

En hinsvegar, ef ég þyrfti að velja um kerfi þar sem eru meiri líkur á að sekum mönnum sé sleppt eða kerfi þar sem eru meiri líkur á að saklausir menn lendi í fangelsi mun ég alltaf velja fyrri kostinn. Í því tilfelli hefur glæpur verið framinn og sá sem framdi hann slapp við refsingu, sem er slæmt. Í hinu tilfellinu hefur glæpur verið framinn og í kjölfarið er annar glæpur, að svipta saklausan mann frelsi, framinn sem er alveg jafn slæmur.

Og svo eru þessi tilfelli, sem eru til staðar en ég vona að séu algjörar undantekningar, þar sem lognar eru upp á mann sakir og hann lendir saklaus í fangelsi.

Halldór Ingvi Emilsson (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 22:46

21 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Matthildur ég tek undir hvert orð sem þú segir.

Vil svo biðja fólk um að lesa dómsskjölin áður en það fjallar um málið. Það að ekki hafi tekist að dæma sekt í þessu máli þýðir ekki að presturinn hafi ekki gert það sem hann er sakaður um, hann reyndar viðurkennir það en dómurinn dæmir það þannig að það flokkist ekki undir áreitni og það er það sem ég skil ekki.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 3.12.2008 kl. 23:27

22 identicon

Af hverju leifum við konum að vera með kynferðisáreitni við okkur karla á vinnustöðum?

Er það ekki ólöglegt að leifa konum að notfæra sér veikleikaástand karlmanna, til að notfæra sér þá til kynferðismála á veitingastöðum?

Hvernig stendur á því að við horfum á, þegar konur eru að tanga myndir af karlmönnum á heimilum sínum með leynilegum myndatækjum og sýna þetta börnum sínum sem eru undir aldri? Þetta er barnaníð að sýna krökkum svona lagað .. af hverju ganga þessar konur lausar?

Hvers vegna verður maður að upplifa, sem karlmaður að einhver stelpu skjáta sem maður vildi ekki vera með þegar maður var 12 ára gamall af því hún gerði of mikið út úr hlutunum, er að leggja mann í einelti 35 árum síðar? Er þetta ekki ólöglegt, að einhver kerlingin er að eyðileggja lífið fyrir mönnum?

Ég er alveg sammála ... mér finnst þetta alveg forkastanlegt að svona fólk skuli ganga laust.

Bjarne Örn (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 23:58

23 Smámynd: Árni B. Steinarsson Norðfjörð

Kynferðisleg áreitni er ekki bundin við karla.

Þegar ég var unglingur sýndi jafnaldra mér framkomu sem var blanda af einelti og kynferðislegri áreitini.

Fólk verður að vera smá líberal og ekki benda alltaf á karla.

Fyrir um mánuði síðan fór eins stelpan á vídeóleigunni að daðra við mig sem var allt í lagi enda ljóshærð og sæt en þegar hún spurði mig hvort ég byggi í hverfinu o.fl. þá sagði ég við hana að ég svaraði ekki svona spuningum frá 16 ára stúlkum.

Síðan hef ég ekki farið á Videóleiguna. Ég ætti samt að komast að því hvað hún heitir því þá gæti ég fundið fæðingardaginn hennar og mætt aftur á myndbandsleiguna þegar hún er orðin 18 ára.

Árni B. Steinarsson Norðfjörð, 4.12.2008 kl. 10:22

24 identicon

Staðreyndin er einfaldlega sú að lang flest nauðgunarmál eru orð á móti orði, í refsirétti ber dómara að leyfa sakborningi að njóta vafans ef mál er orð á móti orði.

Þessi regla gildir að sjálfsögðu í öllum refsimálum ekki bara nauðgunarmálum því að meginregla refsiréttar er sú að maður er saklaust þangað til sekt er sönnuð, þar afleiðandi er nauðsynlegt að leyfa sakborningum að njóta vafans ef skynsamlegur vafi er á annaðborð til staðar.

Sönnunarbyrðin í svona málum eins og í öllum öðrum refsimálum verður því að liggja hjá ákæruvaldinu þ.e. ef við viljum halda áfram að búa í lýðræðislegu réttarríki. Það eru til góð dæmi úr mannkynssögunni um ríki sem hafa tekið upp öfuga sönnunarbyrði í refsirétti og þar með brotið réttarríkið, slík ríki hafa ekki haft góðan orðstír á sér í gegnum tíðina.

Sem dæmi um fræg refsilög sem höfðu öfugasönnunarbyrði (þ.e. að segja að sakborningurinn var álitinn sekur þangað til að hann gat sannað annað) eru hin svokölluðu Nurnberg lög sem sett voru árið 1935 í Þýskalandi á tímum þriðja ríkisins.

Ef dómarar taka upp á því að dæma eftir tilfinningum eða siðferðisrökum sem ekki eiga stoð í gildandi lögum þá er voðinn vís enda myndi slíkt boða hrun réttarríkisins.

Ég spyr þig Matthildur, ef þú værir ásökuð um glæp myndir þú þá sætta þig við það að þú værir sakfellt þrátt fyrir það að engin sönnunargögn væru lögð fram í málinu fyrir utan vitnisburð þess einstaklings sem heldur því fram að þú hafir brotið af þér? Eða myndirðu kannski frekar vilja fá sanngjarna meðferð fyrir dómi þar sem þú yrðir álitin saklaus þangað til að ákæruvaldið gæti sannað sekt þína?

Hafsteinn (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 16:46

25 identicon

Voðalega eru allir að missa sig yfir þessum pistli þínum. Hrópa fasista femínisti og fleira. Þegar ég les pistilinn þinn, tek fram að ég las útdrátt úr dómnum, að þá ertu að fordæma það að hegðunin sem telst sönnuð á prestfíflið sé ekki flokkuð sem óviðunandi áreitni gagnvart börnum. Mér fyndist þetta vera á mjög gráu svæði ef þetta hefði skeð fyrir mig, fullorðna konu, en þetta eru börn. Unglingar sem eiga að vera verndaðir samkvæmt lögum fyrir ásækni fullorðna á þessu viðkvæma skeiði sem kynþroskinn er. Og hvaða rugl er það að hræðast það að spjalla við stelpur? Það eru mestar líkur á að ef þú kemur fram við aðra af þeirri virðingu sem þeir eiga skilið að þú fáir það sama tilbaka. Það er að sjálfsögðu til undantekningar en strákar, lærið að díla. Ég læt það ekki hafa áhrif á samskipti mín við karla að einhverjir þeirra nauðga, veit hinsvegar af því og tek tillit til þess ef ég fæ óþægilega tilfinningu fyrir einhverjum. Meira get ég ekki gert. Finnst óþarfi að þið eigið að vera algerlega verndaðir fyrir því að þurfa að hugsa sjálfir á kostnað vernd stúlkubarna. Því þetta eru forréttindi karla að þurfa ekki að spá í afleiðingar framkomu sinnar, ekki réttindi.

Anna (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 17:39

26 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Hafsteinn, vitanlega vil ég sanngjarna málsmeðferð eins og allir aðrir.  Hins vegar er ég að benda á að sú háttsemi að strjúka stúlkubörn og að vera með kynferðislegt tal við þær virðist ekki flokkast undir ólöglegt áreiti.  Ég vil ekki gefast upp gegn þessu háttalagi þó það sé auðveldasta leiðin að líta í hina áttina.  Og mér er slétt sama hvað þið viljið kalla þessa áráttu mína. 

Ég kalla eftir hugmyndum og lausnum.  Hvernig væri að fara nákvæmlega yfir öll vinnubrögð í kynferðisafbrotamálum og skoða hvort þessi mál þurfi aðra nálgun en önnur afbrotamál.  Kannski þarf að gefa slíkum málum meiri gaum, meiri tíma og viðurkenna að þetta kerfi sem við búum við í dag er gallað. Mér finnst alls ekki útilokað að það sé hægt að finna lausn án þess að snúa sönnunarbyrðinni við. 

Vitið þið til þess að það sé einhver vinna í gangi, nefnd eða starfshópur sem hefur það að markmiði að koma skikki á þessi mál?

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 4.12.2008 kl. 18:09

27 identicon

Matthildur, að sjálfssögðu er kerfið sem við búum við gallað, lýðræði er langt frá því að vera fullkomið stjórnsýslukerfi en hinsvegar er það hið skásta sem mannkynið hefur prófað. Konungseinveldi þótti vægast sagt ekki nógu réttlátt, anarkistaafbrigðið sem einkenndi íslenska þjóðveldið frá landnámi og þangað til að við gengumst á hönd Noregskonungs gekk nokkuð vel en endaði þú með sturlungaöld, sósíalismi hefur verið prófaður í öllum sínum pervertísku útgáfum og aldrei nokkurn tíman hafa slíkar tilraunir endað vel og svo mætti lengi halda áfram, niðurstaðan er sú að eftir að hafa prófa alskyns mismunandi stjórnar og réttarkerfi þá hefur hinn vestræni heimur komist að því að lýðræðislegt stjórnarkerfi sem einkennist af gildum hins svokallaða réttarríkis sé illskásti kosturinn af mörgum slæmum.

Ef þú hefur kynnt þér almennilega það mál þá sérðu að það er ekkert einkennilegt við þess sýknun. Maðurinn er ákærður fyrir brot á 199. grein almennra hegnarnlaga sem segir svo:

199. gr. [Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann sem heldur ranglega að mökin eigi sér stað í hjónabandi eða óvígðri sambúð eða hann er í þeirri villu að hann eigi mök við einhvern annan skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
Sömu refsingu varðar það ef samræði eða önnur kynferðismök eiga sér stað vegna þeirrar blekkingar að um læknisfræðilega eða aðra vísindalega meðferð sé að ræða.]1)

Eftir skýrslutöku fyrir dómi komst Héraðsdómstóll Suðurlands að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði gert eftirfarandi:

Sú háttsemi ákærða, sem honum er gefin að sök, og sönnun er talin liggja fyrir um, lýtur að því að hann hafi faðmað umræddar stúlkur og jafnframt strokið annarri þeirra á baki, utan klæða, talandi um að honum liði illa, en einnig kysst hina á sitt hvora kinnina. Með hliðsjón af því sem á undan er rakið telur dómurinn að þessi háttsemi ákærða geti ekki talist kynferðislegt áreitni í skilningi 199. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður ekki heldur fallist á með ákæruvaldi að ákærði hafi með þessari háttsemi sýnt stúlkunum yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, sært þær eða móðgað í skilningi 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Verður ákærði því sýknaður af báðum liðum ákæru.

Ef þú sérð eitthvað kynferðislegt við það að einstaklingur faðmi annan einstakling eða strjúki honum um bakið og tjái um leið þeim einstaklingi að honum líði illa þá hefur þú einhverjar stórbrenglaðar hugmyndir um kynlíf. Mér skilst á þér að þú myndir vilja sjá 199. grein almennra hegningarlaga túlkaða rúmt þannig að þetta "brot" sem maðurinn er ásakaður um falli undir þá grein, vandamálið við slíkt er það að sú grundvallar meginregla gildir í íslenskum rétti (líkt og á öðrum vesturlöndum) að ákvæði refsilöggjafar eru aldrei nokkurn tíman túlkuð rúmt heldur þvert á móti undantekningarlaust túlkuð eins þröngt og mögulega hægt er.  Meginregla refsiréttar er því að refsiákvæði skuli vera skýr.

Ég veit til þess að dregið er miskunnarlaust frá á prófum í almennri lögfræði ef menn setja orðin rýmkandi lögskýringu og refsiákvæði í sömu setningu og yfirleitt leiðir slíkt til þess að prófessorinn fellir viðkomandi enda þýðir það að viðkomandi skilji ekki grundvallarhugmyndir lögfræðinnar.

Einu sönnunagögnin í þessu máli er vitnisburðir þessara stelpna og því er málið einfaldlega orð á móti orði, í refsimálum má aldrei undir nokkrum kringumstæðum dæma annað en sýknu þegar orð mætir orði enda er það grundvallarmannréttindi að ekki sé hægt að dæma menn til refsingar án þess að nokkuð sé sannað um sekt þeirra.

Ef einhver skynsamlegur vafi er til staðar í refsimálum þá verður að sýkna!

Að lokum get ég fullvissað þig um að enginn nefnd eða starfshópur er starfandi í dag sem hefur það að meginmarkmiði að koma skikki á þessi mál og vonandi mun aldrei verða skipuð hvorki nefnd né starfshópur með slíkt markmið.

Málið er nefnilega mjög einfalt að langflestir lögfræðingar landsins eru á þeirri skoðun að réttarríkið megi ekki ónýta. Þ.e. sakborningar verða að fá að njóta vafans, refsiákvæði verða ekki túlkuð með rýmkandi lögskýringu og dómarar eiga ekki að dæma eftir tilfinningarökum eða eftir siðferðiskennd hldur eingungis eftir gildandi lögum.

Til þess að þú getir skilið þetta betur þá bendi ég þér á eftirfarandi heimildir:

http://www.althingi.is/lagas/131b/1940019.html - Almenn hegningarlög

http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=S200800538&Domur=4&type=1&Serial=1 - dómurinn í máli prestsins á Selfossi

Túlkun lagaákvæða eftir Róbert R. Spanó - bók um lögskýringarfræði sem kennd er í almennri lögfræði við HÍ.

Beitti hnífurinn - um réttarríkishugmyndir Joseph Raz -  grein eftir Hafstein Þór Hauksson kennd er í almennri lögfræði við HÍ, þú getur eflaust fundið hana á Landsbókasafninu.

Mullahs of the west - frábærir fyrirlestrar sem sem Antonin Scalia (dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna) hefur flutt í háskólum um allan heim. Margir af færustu lögfræðingum Íslands aðhyllast einmitt svipaðar kenningar og þessi maður. Veit ekki hvort að þú getur fundið eitthvað af þeim á youtube en hann var allavega hér á landi yfir stuttu og vakti mikla athygli enda einhver færasti lögfræðingur heimsins þarna á ferð.

Hafsteinn (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 19:47

28 identicon

Ok, nú get ég ekki lengur orða bundist.  Ég var tónlistar nemandi hjá séranum fyrir 30 árum síðan, og það sem gerðist þar var ekki í lagi.  Ég var reyndar alin upp þannig, að aðilar eins og prestar ofl, væru "heilagir", þ.e. ég áyktaði að það væri e-ð að mér ef ég væri ósátt við hegðun hans.  Ég gerði samt séranum alveg ljóst með viðbrögðum, að mér líkaði ekki atlot hans.  Það breytti engu um hans hegðun.... Töluvert löngu síðar komst ég að því að stúlkur sem voru nemendur hans á sama tíma, og voru töluvert mikið yngri en ég, hefðu ekki þolað þessa framkomu hans, og þess vegna hætt í tónlistanámi hjá honum.  Fyrir u.þ.b. 13-15  árum, þegar ég bjó á sama svæði og umræddur, þá forðaði ég mér ef ég sá hann nálgast, af ótta við að hann þekkti mig, og því fylgdi faðmlög, og óþægilegir kossar.  Ég tala nú ekki um ef hann hefði viljað gera slíkt hið sama við dóttur mína. Ég hef alltaf talið að þegar sá sem er ásakaður um slíkt, fer yfir mörk þess sem þykir eðililegt, að dómi þess sem verður fyrir "atlotunum", þá sé það ekki í lagi.  Það er svo aftur spurning hvort ekki hefði átt að kæra fyrir brot á blygðunarsemi, en ekki kynferðislega áreitni.  Það er eitt að vera sýknaður, en annað að vera saklaus.

FES (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 20:06

29 identicon

Smá viðbót, ég var 12-14 ára þegar þetta átti sér stað... umræddar yngri stúlkur voru 7-9 ára. Hann var KENNARI okkar, og kennslan fór fram í kirkjunni... hjá mér a.m.k.

FES (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 20:18

30 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það er lítið hægt að segja annað en þessi dómur kom mér ekki á óvart.  Jakkafötin standa saman, eru múr- og naglföst og óumbreytanleg nema að þeim sé bylt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 5.12.2008 kl. 11:24

31 Smámynd: Ragnar Borgþórs

Það er fátt sem fer eins í taugarnar á mér eins og svona fullyrðing:"Jakkafötin standa saman, eru múr- og naglföst og óumbreytanleg nema að þeim sé bylt."

Hvaða byltu ertu að tala um Jenný og hverjir eiga að standa að baki henni, kannski konur sem standa saman , eru múr- og naglfastar  og óumbreytanlegar nema að þeim sé bylt.

Karlmenn geta og meiga hafa skoðanir á hlutum , skoðun er  hvorki rétt né röng, hún er bara skoðun hvers og eins.

Matthildur mín, ég er sammála þér að þetta er ömurleg niðurstaða.  Ég vona að hann fá ekki "brauð" framar og að þessum lögum og reglum verði breytt.

P.S. fór að skoða piparkökurnar betur og eru sumar þeirra ansi eggjandi

Góða helgi.

Ragnar Borgþórs, 5.12.2008 kl. 14:08

32 identicon

Já, það er alveg hörmulegt það sem viðgengst í okkar samfélagi, innan réttarkerfisins, kirkjunnar og það sem er auðvitað ömurlegast, innan stórfjölskyldunnar þar sem börnin okkar eiga fullan rétt á því að vera í öruggum höndum. Mjög þörf áminning, Matthildur 

Ingibjorg Ingadottir (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 14:23

33 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Þakka þér Hafseinn fyrir mikla eljusemi við að uppfæða mig um hvaða reglur gilda og hvers vegna ekki er vilji til að breyta þeim.

það breytir þó ekki því að mér finnst enn að réttarkerfið bregðist fórnarlömbum nauðgana og áreitni í allt of mörgum tilfellum.  Ekkert kerfi er það fullkomið að ekki megi betur gera og ég hygg að lög og reglur megi vel endurskoða.  Mér finnst frekar þröngsýnt hvernig þú slærð út af borðinu allar hugmyndir um endurskoðun eða endurbætur á því kerfi (glæpur-rannsókn-dómur)sem við höfum komið okkur upp.  Jafnvel þó það liggi fyrir að þetta sama kerfi nær ekki að taka á því vandamáli sem það á að taka á.

Ég kalla eftir víðsýnni umræðu um þessi mál þar sem gengið er út frá þeim augljósa punkti að kerfið sem við erum að nota í dag dugar ekki gegn kynferðisafbrotamönnum. 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 5.12.2008 kl. 14:52

34 identicon

Matthildur,

Þegar þú talar um að kerfi sem við notum í dag (lýðræðislegt réttarríki) dugi ekki gegn kynferðisafbrotmönnum þá getur maður ekki ályktað um annað en að þú viljir helst koma hér á einhvers konar fasísku réttarkerfi þar sem sakborningar þurfa að sanna sakleysi sitt í stað þess að ákæruvaldið þurfi að sanna sekt þeirra.

Lög þurfa að vera almennt, það sama þarf að gilda yfir alla, ekki er hægt að minnka mannréttindi þeirra sakborninga sem ásakaðir eru um kynferðisglæpi bara vegna þess að slíkir glæpir þykja einstaklega ógeðfelldir. Grundvölllur réttláts réttarkerfis er það að menn séu taldir saklausir þangað til að annað sé sannað, því er ómögulegt að draga úr sönnunarbyrði i kynferðisafbrotmálum án þess að ónýta réttarríkið með öllu.

Sterk sönnunarbyrði verður að liggja á ákæruvaldinu í öllum refsimálum enda getur sú refsing sem hlýst í slíkum málum haft gífurlegar afleiðingar á líf manna. Þetta gerir því miður fórnarlömbum kynferðisafbrota erfitt fyrir enda getur verið gífurlega erfitt að sanna slík mál enda eru sjaldan til vitni af brotunum, skjöl eða önnur sönnurgögn eru einnig yfirleitt ekki til staðar.

Ef einstaklingur er ásakaður um glæp þá á hann þá grundvallar mannréttindakröfu að það hann sýknaður ef að sönnunargögnin gegn honum duga ekki til þess að eyða út öllum skynsömum vafa um sekt hans. Ef skynsamur vafi er til staðar skal ávallt sýkna menn enda annað fásinna.

Ég ætla því að taka umrætt mál um prestinn á Selfossi og setja þig (Matthildur) inn í staðinn fyrir prestinn og sjá hvernig þér lýst á þá niðurstöðu sem héraðsdómur hefði komist að ef dómarar landsins hefðu svipaðar hugmyndir og þú um réttarkerfið.

Ef þú, Matthildur, værir ásökuð um að hafa faðmað barn og um leið að hafa látið þau orð falla að sérkennilegir straumar streymdu úr barninu, en með því hefðir þú att að hafa brotið gegn 199. grein almennra hegningarlaga.

Í vitnaleiðslum fyrir héraðsdómstóli heldur þú því fram að þú hafir í raun faðmað barnið enda sé slíkt ekki ólöglegt, hinsvegar heldur þú því fram að þú hafir ekki sagt neitt um sérkennilega strauma heldur hafir þú tjáð þig um hversu illa þér hefði liðið umræddan dag. Þarna skarast því þín orð gegn orðum barnsins en þessar tvær mismunandi frásagnir eru einu sönnunargögnin í málinu.

Þó að dómari teldi að frásögn barnsins væri sennilegri en þín þá myndi brotið samt varla geta talist brot gegn 199. grein almennra hegningarlaga í skilningi þeirra samkvæmt orðanna hljóðan, því þyrfti hann að túlka lagaákvæðið rúmt til þess að geta skilgreint umrætt atvik sem lagabrot.

Þetta hefur hinsvegar lögmaður þinn tjáð þér að mjög ósennileg útkoma enda sé það almennt viðurkennt á meðal lögfræðinga í hinum vestræna heimi að refsilöggjöf megi aldrei túlka rúmt enda brjóti slíkt gegn grundvallarskipan réttaríkisins.

Eftir að hafa farið yfir staðreyndir málsins kemst dómarinn að því að frásögn barnsins hafi verið sennilegri en þín og þó að ekki sé hægt að fella "brotið" undir 199. grein almennra hegningarlaga með almennri lögskýringu þá telji hann í ljósi þeirrar umræðu sem verið í samfélaginu upp á síðkastið að ekki sé annað hægt en að sakfella þig enda myndi hann annars vera að bregðast skyldu í baráttunni við kynbundið ofbeldi.

Eftir að dómurinn fellur þá talar þú við lögmann þinn en hann tjáir þér að dómur þessi sé hinn mesta fásinna enda brjóti hann gegn bindandi fordæmum hæstaréttar auk þess sem að hann sé brot á 70. grein stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um sanngjarna málsmeðferð fyrir dómstólum og þá ákvæði þeirrar greinar er segir svo: "Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð." Að lokum segir lögmaðurinn þér að dómarinn hafi í þessu máli túlkað refsiákvæði rúmt en samkvæmt óskrifaðri meginreglu refsiréttar sé slíkt með öllu óheimilt.

Á næstu dögum og vikum sem líða birtast greinar og ritgerðir eftir hina ýmsu lögfræðinga, lögmenn og lagaprófessora í dagblöðum og hinum ýmsu sérritum lögfræðistéttarinnar. Í þessum greinum taka langflestir ef ekki allir þessir lögfræðingar undir það sjónarmið að dómarinn í þessu máli ætti að skammast sín fyrir það alvarlega brot á stjórnarskránni og réttarkerfinu almennt sem hann framdi með úrkurði sínum.

Einnig vara þeir við því að ef að hæstiréttur staðfesti þennan dóm þá séu dagar réttláts réttarríkis á Íslandi taldir enda með því augljóst að sanngjörn málsmeðferð sakborninga sé ekki lengur við lýði hér á landi.

Á sama tíma birta síðan öfgafeministar greinar og ritgerðir í hinum ýmsu blöðum en í þeim fagna þeir því að loksins hafi dómstólar tekið undir sjónarmið þeirra varðandi það að núgildandi réttarkerfi dugi ekki til þess að refsa kynferðisafbrotamönnum, einnig hvetja þeir hæstarétt til þess að staðfesta þennan dóm enda sé komin tími til þess að brjóta þann múr sem að jakkafata klæddir karlmenn hafa komið á í þessu samfélagi.

Spurning mín er einföld.

Myndir þú, Matthildur, í ljósi fyrri ummæla þinna, áfrýja dómnum til Hæstaréttar eða una niðurstöðu héraðsdóms?

Hafsteinn (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 18:13

35 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Hver var aftur spurningin í miðjunni?

Annars er ég hér með hætt að daðra... enda er ég dökkhærð og ljót og það er örugglega ólöglegt að daðra svoleiðis.

Hjördís Þráinsdóttir, 10.12.2008 kl. 10:27

36 identicon

Ég hef daðrað.. ég viðurkenni það. Ljóshærð og sæt hahaha!! :) En ég hef ALDREI farið yfir mörkin. Það er sko alveg hægt að spyrja þessa tvo sem ég daðraði við.. einn er fyrrverandi kærastinn minn og hinn er eiginmaður minn í dag;) Þetta er samt ofsalega mikið og umdeilt mál. Það sem fólk sér og les og veit er bara það sem það trúir.. Þar til fólk (allir þeir lent hafa í þessum presti) koma fram og segja sínar sögur (sem ég veit að ná meira en 30 ár aftur í tímann) þá ert þetta glatað keis.. En Matta mín ég er sammála. Það er ÓGEÐSLEGT að vera lítil stelpa og einhver ógeðslegur fullorðinn karlmaður segir ógeðslega hluti við mann. Been there done that. Misnotuð (og nauðgað) í 5 ár frá 8-13 ára. Ég finn til með þessum stelpum.  Ég trúi þeim. En ég veit líka um mörg dæmi þar sem logið hefur verið upp á menn að þeir hafi misnotað einhvern. Það er náttúrulega bara skelfilegt fyrir okkur sem standa upp og kæra barnaníðinga, dregur úr trúverðuleika þeirra sem virkilega þurfa á trausti að halda. En þessar stúlkur ljúga ekki. Þeir sem þekkja sögu þessara prests vita betur. En eins og ég áður sagði... meðan fólk lifir í þögn mun misskilningurinn haldast áfram. Ég óska ekki eftir vorkun eða neitt á þann hátt. Ég er sterk og baráttukona fyrir aðra sem upplifa svipaða og sömu reynslu og ég. Ég vil bara segja að ég trúi þessum stúlkum. Þessi maður er ekki að gera rétt með því að segja þeim að hann sé skotinn í þeim, eða að kissa þær á munnin.. oj þvílíkur viðbjóður.

Góðar stundir. 

Sunneva Sig (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 00:56

37 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Þegar ég las færsluna þína Matta þá skyndilega fékk ég áfall. Ég nefnilega held að ég sé þessi "kerling" sem daðra miskunnarlítið við unglingsdrengi! Knúsa þá og kyssi (syni mínum til óblandinnar óánægju) og segi þeim hvað mér finnst þeir sætir. Sagði meira að segja við einn fimmtán ára um daginn að hann þyrfti sko að passa sig á mér þegar hann yrði eldri!!! Og nú er ég á bömmer! Því að kannski líta þessir drengir á mig sem pedófíl! Ég er einhvernvegin bara svo glær fyrir þessu. Átta mig ekki á hvar mörkin liggja. Hitt er annað að mér finnst að ef barn upplifi óþægilegar tilfinningar með fullorðinni manneskju þurfi að fara í saumana á því og grípa til viðeigandi ráðstafanna. Það brýni ég fyrir mínum drengjum og litlum frænkum. Ég er síðan kannski ekkert betri sjálf! Nuddandi andlitinu framan í saklausa drenghnokka sem eru svo jafnvel skelfingu lostnir!!!

Úff.....

Ylfa Mist Helgadóttir, 12.12.2008 kl. 14:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband