Blúsa tómir karlar á Hornafirði? II

Fyrir vestfirðing er margt merkilegt á Höfn í Hornafirði.  Fyrir það fyrsta er nokkuð langt í fjöllin sem er algjör nýlunda fyrir mig, enda hagar svo til í minni sveit, Ísafirði, að það tekur varla meira en nokkrar mínútur að komast á fjall, eða í það minnsta að fjalli.  Þetta finnst okkur notalegt jafnvel þó það sé ekki alltaf hættulaust að búa undir fjalli.  Hérna kúra fjöllin í fjarska.  Fjarskafalleg. Langt utan seilingar en svo fjölbreytt og stórkostleg að ég gæti horft á þau endalaust.  Birtan hér er líka einstök og hún Dedda vinkona, sem er vestfirðingur eins og ég, útskýrði að fyrir mér að það væri vegna þess að himininn er miklu stærri hjá þeim og auk þess stjórnaði jökullinn birtunni þetta er líklega hárrétt hjá henni. Eitt er víst að á svona stað er auðvelt að gleyma sér og láta sig dreyma um endalaus listaverk. Ég yrði ekki hissa þó allir ættu vatnsliti og trönur í þessum bæ.

Föstudagurinn byrjað vel, sól og blíða og Sammi hundur horfði á mig með svip sem sagði undurljúft nennirðu út með mér. Ég hundsaði hundinn og fór að brasa við morgunkaffið, húsbóndinn kom sem betur fer og bjargaði því sem bjargað varð áður en ég eyðilagði safapressu húsmóðurinnar sem ég hélt endilega að væri kaffikvörn.  Í hádeginu fórum við í Nýheima og hlustuðum á Blúsvíkingana. Einhver sagði að þetta væru gömlu karlarnir í bransanum, en mér fannst þeir þó full ungir til að bera þann titil.  Hvað um það, þeir spiluðu vel og ég er ekki frá því að samloka og kók bragðist betur með gömlum og góðum blús og við fórum sátt og sæl heim í slökun.  Sammi hundur tók á móti okkur með svip og úr varð að ég skellti mér í gallann og út með hundinn.  Það gekk vel fannst okkur báðum, þangað til við fréttum að húsmóðurinni hefði borist til eyrna orðrómur um að ókunnug kona væri að reyna að drepa Samma.  Það var náttúrulega orðum aukið, en við vorum ekkert virðuleg á teig 3 þar sem hann gelti látlaust og ég sat flötum beinum og góndi út í bláinn.

Um kvöldið lá leiðin á Humarhöfnina, sem er klárlega besti humarstaður Íslands og nágrennis, þar hittum við feðgana Papa Mug og Mugison.  Karlinn sýndi takta í eldhúsinu á meðan strákurinn spilaði dinner.  Dinner að hætti Mugison er auðvitað engin hefðbundin dinner en hann fór á kostum eins og alltaf og lokaatriðið þegar Papa Mug söng fyrir matargesti við undirleik Gumma Hjalta, sem er betur þekktur á þessu svæði fyrir óhóflega matarlyst en spilamennsku, vakti ekki síður lukku en þétt spilamennska Mugisons.

Seinna um kvöldið lá leiðin upp á Hótel Höfn þar hlustuðum við B. Sig. Ekki hafði ég nokkra hugmynd um að þessi hljómsveit væri til, en það er öruggt að við eigum eftir að heyra meira frá þessum strákum.  Gargandi snilld og spilagleði. Það var eins og þeir hafi spilað saman í heila Bítlaævi og ekki á hverjum degi sem ég fæ heyra svo þétta og góða spilamennsku.  Leggið þetta nafn á minnið.  Þegar B. Sig hafði lokið sér af við mikinn fögnuð áhorfenda tóku heimamenn við.  Þeir kalla sig Mæðusveitin Sigurbjörn. Í þeirri hljómsveit heita allir meðlimir Sigurður, nema Björn. Mér þótti afskaplega gaman að hlusta á þá, þægileg stemning og spilarar á ferð sem greinilega taka lífinu ekki allt of hátíðlega og kunna að njóta þess að spila, skemmta sér og áhorfendum.

Því miður entist mér ekki orka til að fara í Víkina á ball  með hljómsveitinni Silfri. En ég frétti í búðinni í dag að gestir hefðu skemmt sér vel og þar hefði verið góð stemning.  Það hefur stundum verð sagt um blúsinn að hann sé karlatónlist, það auðvitað ekki alveg rétt og á Norðurljósablús spila ekki bara tómir karlar, þar spila líka konur og nokkrir fullir karlar. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Matthildur!  Það voru ekki tómir karlar sem blúsuðu á Hornafirði um helgina. Flestir voru þokkalega saddir helf ég og ég veit allavega um einn sem var blindfullur.

Sigurður Mar (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 03:03

2 Smámynd: Runólfur Jónatan Hauksson

Ekki held ég nú að allir hér í nýstofnuðu Ríki Vatnajökuls eigi vatnsliti og trönur.

En gott er ef þér hefur líkað dvölin hér.

Runólfur Jónatan Hauksson, 8.3.2009 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband