Blæjur eru fyrir bíla ekki konur

Viðtal í Mogganum í dag við Ayaan Hirsi Ali  fékk mig til að hugsa um þessa undarlegu áráttu múslimskra karla að ætlast til þess að múslimskar konur beri blæjur.  Ég hef hugsað um þetta mál í mörg ár án afgerandi niðurstöðu.  Og ef ég á að vera alveg hreinskilin, sem ég er gjarnan hvort sem ykkur líkar, hef ég átt erfitt með að ákveða hvort ég alfarið á móti þeim eða bara illa við þær.  Ég hef ekki með nokkru móti getað skilið ástæðurnar fyrir þessum sið en hef aftur á móti viljað virða skoðanir og venjur annarra.

Í dag rann þetta upp fyrir mér og ég er ekki í neinum vafa lengur, allar þær upplýsingar sem ég hef viðað að mér í gegn um tíðina smullu. Leiðin að þessari niðurstöðu var ekki bein, augljós eða fljótfarin. Smá saman hef ég safnað í sarpinn við lestur skáldsagna svo sem Blindgötu í Kaíró, horft á sjónvarpsþætti, fréttir, las Arabíukonur Jóhönnu Kristjóns, Eve Ensler auk ótal annarra bóka, greina og spjallþráða á netinu.

Þessi krafa að konur hylji líkama sinn þegar hún er utan heimilis er til þess að aðrir karlmenn en "eigendur" hennar, faðir bróðir eða eiginmaður, geti ekki horft á hana.  Af hverju?  Jú karlmönnum gæti þótt hún falleg, girnileg og hjá þeim gætu vaknað lostafullar hugsanir.  Það er auðvitað til of mikils mælst að karlmenn hafi stjórn á girndum sínum og því gráupplagt að hylja konuna.  Þetta er tæki til að kúga þær og loka inn á sínu eigin heimili.  Tæki til að viðhalda fáfræði.  Tæki til að kúga konur.   Ég segi nei við búrkum og blæjum.


Að ganga fyrir horn, ekki keyra.

Hafið þið tekið eftir öllu fólkinu sem er með bílinn gróinn við afturendann á sér?  Ég á við þessa sem fara allt á bílnum,  í næstu götu eða jafnvel í þarnæsta hús.  Fólk sem tengir það að fara á milli staða ekki við fæturna á sér heldur við bílinn sinn.  Þeir sem eru virkilega illa haldnir, skilja bílana sína eftir í gangi helst upp á gangstéttinni beint fyrir framan, á meðan skroppið er inn í bakarí eða búð. 

Ég þekki margt svona fólk, til dæmis eina knáa bankakonu sem ég ætla raunar ekkert að vera að nafngreina hér,  en hún býr á Þingeyri og vinnur í Sparisjóðnum á Ísafirði.  Hún er þessi öra og drífandi týpa sem allt virðist geta og vílar ekki fyrir sér að hlaupa maraþon eða taka 50 armbeygjur með annarri hendi.  Ég sat með henni í kaffi á dögunum og hún þurfti að skreppa í ríkið, eins og gengur.  Auðvitað fór mín kona á bílnum sínum frá Langa Manga að ríkinu, sem eru sjálfsagt hátt í 50 metrar.   Vinnufélagar mínir í Snerpu fara flestirá bílnum í mat þó þeir ætli ekki mikið lengra en á næsta veitingastað.  Á Langa,  Fernandos eða Tai-Koon sem eru í tveggja mínútna göngufjarlægð.  Til að vera sanngjörn er þó rétt að benda á eina undantekningu, Bjössi fer aldrei á bílnum í mat. En Hann býr reyndar á hæðinni fyrir ofan Snerpu.  En þessir strákar eru auðvitað tölvunördar og ætla að viðhalda ímyndinni.  Ímyndinni um fölu og veiklulegu innipúkana í tölvugeiranum.  Rykfallin stígvélÞað er líka til fyrirmyndar fólk sem alltaf labbar. Einsog Eygló sem labbar í vinnu alla daga, hún er reyndar ekki með bílpróf, en það kemur í sama stað niður.  Ég tók líka eftir því að það er sprungið á trukknum hennar Grétu svo hún fer sjálfsagt að iðka holla útiveru í einhvern tíma. 

 


Þjónusta, góð þjónusta og hin líka

Nú á dögunum þurfti ég að sinna nokkrum erindum í Reykjavík og fékk sú ferð mig til að hugsa mikið um þjónustu.  Góða þjónustu og hina líka.

Ég tók flugið með Flugfélagi Íslands sem tók upp á þeirri nýbreytni að ræsa okkur eldsnemma til að láta vita að þeir hefðu flýtt fluginu.  Einu sinni voru þeir alltaf aðeins of seinir en það hefur greinilega verið tekið mjög duglega á því vandamáli.  Skutulsfjörðurinn var fullur af þoku og ætlunin var að lenda Þingeyri. Auðvitað var flugveður í Dýrafirði en eins og trúir lesendur  vita er alltaf gott veður í Dýrafirði, einkum sólarmegin.  Við vorum flutt gegnum göng og yfir heiði í forláta lagferðabíl og mátti ekki milli sjá hvor var eldri rútan eða bílstjórinn.  Hann gætti þess að aka varlega með okkur, sérstaklega upp brekkurnar.  Var greinilega ekki einn af þessum atvinnubílstjórum sem stelst til að keyra of hratt.  Það er þakkarvert að hann ók á 35 upp Gemlufallsheiðina til þess eins að við gætum talið aðalbláberin í vegkantinum.  Þegar við loks komum á flugvöllinn var okkur tilkynnt að flugvélin gæti ekki lent þar en væri farin til Ísafjarðar.  Hvernig mátti það vera?  Það er harla ótrúverðugt að veðrið hafi ekki verið nógu gott þarna í Dýrafirðinum, þó þokan hafi legið niður í miðjar hlíðar.  Það er krydd í tilveruna að fá óvæntan bíltúr í morgunsárið og vanþakklæti að vera með eitthvað röfl enda ætla ég ekki að falla í þá gryfju.  Strákarnir hjá flugfélaginu voru líka svo almennilegir að láta okkur ekki borga neitt aukalega fyrir þessa auknu þjónustu og ég er þakklát fyrir það.  

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á hvað ég var glöð og fannst ég vera heppin þegar ég tók við bílaleigubílnum hjá Bílaleigu Akureyrar.  Ekki einasta að ég fengi rauðann bíl, sem mér finnst mikið atriði, heldur var útvarpið stillt á rás 1.  Þetta jafnast á við að koma inn á hótelherbergi með konfekti og ný afskornum blómum.  Það var brosandi kona sek ók inn í óvissuna með róandi morgunleikfimi Halldóru Björns.

Ég hef alltaf drukkið kaffi, alveg frá því að ég man eftir mér, sumir segja að ég hafi byrjað þriggja ára og þess vegna skorti mig hávöxt.  Að vísu var frekar hægt að tala um mjólk með smá kaffi og slatta af sykri fyrstu árin en það hefur þróast í stífa expressódrykkju. Þess vegna má segja að ég sé með kaffi á heilanum og taki sérstaklega eftir öllu kaffitengdu. Ég drekk að vísu ekki flugvélakaffi lengur en finn ilminn og fylgist með.  Ég tók í fyrsta sinn eftir einu mjög merkilegu atriði í þjónustunni um borð í flugvélinni þennan dag.  Flugþjónninn trillaði með kaffið fremst í vélina og byrjaði á því að gefa flugstjórunum kaffi áður en kom að farþegunum.  Þetta þýðir í raun að starfsmenn félagsins sem eru að vinna vinnuna sína fá betri þjónustu en viðskiptavinirnir.  Sjálfsagt gömul hefð en í dag er þetta óneitanlega svolítið sérstakt.  

Meira um kaffi og þjónustu, ég og góð vinkona mín fórum á kaffihús í miðbæ Reykjavíkur og þar tók á móti okkur indæl stúlka með orðunum "can I help you" ég varð hálf hissa en hélt mínu striki og pantaði á íslensku sem gekk ágætlega þó hún svaraði mér alltaf á ensku.  Mér skilst að það sé frekar regla en undantekning að þjónarnir tali ekki íslensku í Reykjavík dag en mikið hefði verið notalegt ef hún hefði verið búin að læra góðan dag og takk fyrir komuna.  Eitthvað vorum við stöllur óhressar með kaffið og ákváðum að skjótast yfir götuna í kaffihús sem við vissum að bar einungis fram úrvals kaffi.  Þar var okkur aftur á móti tilkynnt, á íslensku að vísu, að þeir ætluðu að loka eftir sjö mínútur og við gætum bara keypt kaffi til að taka með okkur út.  Hafi ég verið hissa á útlenskunni þá sló þetta mig alveg út af laginu.   

Fer þjónustunni aftur eða fer mér svona fram? 


Nú ætla ég að taka á því

Ég hef ákveðið að að gefa hjarðhugsun minni lausan tauminn og fara í átak.  Allsherjar átak á líkama og sál. Ég mun á meðan á þessu átaki stendur borða lítið  en hollt.  Borða fæðubótaefni, vítamín, brennslutöflur, prótein, lífrænt ræktað grænmeti, fitulaust og kryddlaust kjöt, fisk ávexti og drekka hreint vatn úr jarðgöngunum.  Ég ætla ekki að borða snakk á kvöldin, ekki brauð með sultu jafnvel þó hún komi frá Ylfu Mist.  Ekki drekka gordrykki, bláa mjólk, bjór eða annað áfengi.  Ég ætla að notast við alla þá kúra sem um getur, í einu.  Græna kúrinn, kaffi og limekúrinn, vodkakúrinn og taka inn Hörbalæf.  Alveg helling af töflum, dufti og drykkjum sem mun hjálpa mér í baráttunni við vindmyllurnar.  

Með þessu ætla ég að hreyfa mig reglulega.  Koma mér í form. Ég mun fara í ræktina a.m.k. einu sinni á dag.  Ganga í vinnuna og hætta að nota lyftur.  Gera hundrað armbeygjur, hlaupa 5 km á brettinu, fara í jóga, listdans, búttkamp, gólfæfingar, mrl og spinning.  Í spinning mun ég öskra með til að sýna öllum hvað mér er mikil alvara í þessu öllu.

Já, nú ætla ég að taka það með trompi sem aldrei fyrr.  Kaupa mér nýjar íþróttabuxur, skó, íþróttahaldara, sokka, brók, bol, peysu og brúsa.  Það má ekki klikka á litlu hlutunum, allir sem eru í alvöru að æfa eru með brúsa.  Ég ætla að missa alveg rosalega mörg kíló en verða jafnframt mjög stælt.  Enga bingóvængi, appelsínuhúð eða slappan maga.  Fólk eins og Opra mun tárast yfir árangri mínum.

Ég verð orðin svo mjó og spengileg að þið munuð ekki þekkja mig aftur þið, haldið eflaust að ég sé útlendur, ferðamaður og engin mun heilsa mér.  Við mig verður bara töluð útlenska í búðunum hér, því þið nennið ekkert að tala íslensku við útlendinga þó þeir kunni íslensku.  Börnin mín munu ekki vilja tala við mig, vinirnir snúa sér annað og Gummi mun ekki hleypa mér uppí......  Vitiðið ég er að spá í að fresta þessu átaki aðeins, hugsa þetta aðeins betur.  Ekkert liggur á.


Lubbinn 2007

Fyrir nokkrum árum nánar til tekið sumarið 2002 tókum við fjölskyldan okkur til og löguðum aðeins til í gömlu fjóshlöðunni heima í Alviðru.  Fyrsta árið átti þetta ekki að vera neitt meira en smá tiltekt svo við gætum flúið þangað inn ef útiloftið færi alveg með okkur, en ættarmót Alviðruættar var haldið þá um sumarið í Alviðru. Auðvitað vildum við hafa eitthvert stórt afdrep á ættaróðalinu sjálfu.  heimalingur og arinn Það segir sig sjálft að við gátum ekki stoppað fyrr en við vorum búin að henda út öllu rusli, setja glugga í, smíða borðin úr hlerunum, stóla úr rekaviði, svið úr gömlum brettum og hengja allar gersemarnar upp til að þær nytu sín.  Gömul verkfæri tengd landbúnaði og útgerð.  Horn og jafnvel hauskúpur af gömlum hrútum.  Sumir myndu sjálfsagt kalla þetta drasl en okkur hinum þykir sannast þarna að ef gömlu dóti er sýnd smá virðing og því raðað upp á nýtt eða úr því er smíðað fái þetta dót nýtt líf. 

Á hverju ári höfum við bætt við og lagfært og nú er svo komið að við höfum hellulagt og lagfært allt húsið.  lÚtkoman er frábær þó ég segi sjálf frá eins og sjá má á þessum myndum og fleiri sem ég hef sett í myndaalbúm hér.  Við höfum haft það að leiðarljósi við þessa iðju okkar að nota helst bara gamalt dót sem aðrir ætla að henda eða sækja okkur efnivið í geymslurnar í Alviðru þar sem pabbi geymir gullin sín.  Við systkinin höfum raunar oft gert grín að karlinum fyrir að vilja ekki henda neinu, en sáum loks gullið í draslinu. 

Það er alltaf gaman að búa til hluti og hanna, en að hanna hluti úr afgöngum er sérstök áskorun.  Árni Þór yngsti bróðir minn á líklega mestan heiðurinn en hann sýnir systir sinni þó þá virðingu að spyrja hana stundum ráða og með yfirgangi sem einungis er á færi eldri systra kem ég mínum hugmyndum líka að. Hann gerði til dæmis forláta ljósakrónu úr afskorningum frá 3X og gömlum netakúlum að ekki sé minnst á arininn góða sem eitt sinn var olíutankur. 

Árlega höfum við haldið góða og gamaldags veislu.  Þar koma sama vinir og vinnufélagar hver með sitt nesti til að grilla og skemmta sér svo lengi sem við nennum.  Oftast hefur húsið opnað um klukkan fjögur og síðasti maður hefur farið að sofa þegar klukkan er að ganga sjö um morguninn.  Öll árin höfum við verið heppin með veður enda brýnt að sanna mál okkar systkinanna um hversu gott verður er alltaf í Alviðru.  Þeir vissu sínu viti til forna þegar bænum var gefið nafn, enda þýðir Alviðra blíðviðri.  Í ár tókst vel til eins og venjulega, við skemmtum okkur, langt fram á morgun og viljum við þakka öllum fyrir komuna og vonumst til að sjá ykkur aftur að ári. 

 


Er ég núna gift sjálfri mér.

Það eru ótrúlegir hlutir að gerast í mínu lífi þessa dagana.  Gummi, þessi elska, er hættur að reykja.  Síðan hann hætti hefur hann breyst. Hann er ofvirkur, kjaftfor og snöggur að reiðast.  Hann er orðin eins og ég.  Og það er rosalega erfitt að búa með honum.  Okkur.    Kona kemst ekki upp með neitt múður og öllum stælum og athugasemdum er samstundis svarað fullum hálsi. Ég hafði enga hugmynd um að fólk eins og ég væri svona erfitt í sambúð.  Ég er búin að klípa mig fast í handlegginn svo ég veit að þetta er ekki draumur og ég hef líka litið í spegilinn og sá þar aðeins sjálfa mig þannig að ég er ennþá ég sjálf.  Auðvitað er ég ánægð með minn mann því ég hef stundum bölvað reykingum hans í laumi, ja og einstöku sinnum á mjög opinskáan hátt, satt að segja.  Þetta er bara svo erfitt.  Erfitt fyrir mig sem á alveg að skilja hvað hann er að ganga í gegn um. Því ég hætti sjálf að reykja fyrir 10 árum nokkrum kílóum síðan.  Það voru allt aðrir tímar. Pakkinn kostaði ekki nema þrjúhundruð kall og það var ekki búið að sanna eins vel hversu hættulegt er að reykja.  Þá skellti ég hurðum og át eins og svín, en mér tókst að hætta. Birta lúin eftir berjamó  Vonandi gengur Gumma jafn vel en í þessum skrifuðu orðum er hann búinn að vera hættur í nærri fimm daga og á því 3000 krónur í sparnað.  Við í fjölskyldunni bítum á jaxlinn og bölvum í hljóði.  Fullviss um að þetta fari allt vel skellum okkur bara í skóagarferð eða berjamó.

 

 


Ég safna, mölva og endurraða

Ég hef alltaf haft ríka þörf fyrir að skapa og líður aldrei betur en þegar ég læt eftir mér að búa til einhvern hlut hvort sem hann er til gagns eða ekki.  Stundum fæ ég varla svefnfrið fyrir ágengum hugmyndum sem vilja rata upp á vegg eða á borð, í uppákomu eða sögu. Að ég tali nú ekki um vandræðaleg augnablik þegar ég missi þráðinn í miðri setningu því mér datt eitthvað svo sniðugt í hug. Sumir segja raunar að ég hafi enn ríkari þörf fyrir að stjórna en það er bölvað kjaftæði eða alltént nokkrar ýkjur.  Ég hef í mesta lagi smá snert af leiðbeiningaráráttu.  Óumbeðinni.

En aftur að sköpunarþörfinni.  Undanfarna mánuði hef ég verið heltekin af flísum.  Þykkum, þunnum, gömlum, brotnum, nýjum, notuðum og allt þar á milli. kona í upphlut Ég hljóp meira segja langt inn í gil fyrir austan um daginn til að sækja mér nokkur grjót sem eru flöt eins og flísar.  Að ég minnist ekki á  sögufrægar þakflísar með þinghelgi.  Þessar flísar eyðilegg ég með hamri og raða síðan saman eftir því sem þeirri mynd sem hugurinn birtir mér.  Sumar þessar myndir hafa ratað á Langa Manga sem borð.  Fyrst bjó ég til tvær konur í þjóðbúningum.  Önnur er í peysufötum en hin klæðist upphlut.  kona í peysufötumDóttir mín segir raunar að þarna séum við Gréta Skúla komnar á borð. En við stöllurnar saumuðum við okkur þjóðbúninga nýlega, hún upphlut og ég peysuföt og við eigum það líka til að hanga á Langa yfir kaffibolla eða góðu tei.  Ég gef ekkert upp um slíkt enda hlustar kona ekki á allt sem gagnrýnendur sjá í verkum hennar.

 

Því næst datt mér í hug að festa þá tónlistarmenn sem spila á Langa Manga á borð.  Þau eru nú orðin tvö.  Að sjálfsögðu prýðir Gummi Hjalta annað borðið, þessi með slitna strenginn, því hann spilar svo mikið og fast.  Á hinu borðinu er Birgir Örn með fjólubláa húðflúrið, þessi sem eitt sinn var kenndur við BMX, ekki hjólið.  Nokkrir tónlistarmenn í viðbót eru enn einungis skissur eða hugmyndir en verða vonandi borð með tímanum.bordogfleira 010bordogfleira 009

 

 

 

 

Það fer ekki hjá því að umhverfið móti mig og næstu tvö borð sýna það.  Tveir drekar berjast, annar hvítur og hinn grár.  Endalaus barátta góð og ills. Sumars og veturs.  Gleði og sorgar.  Síðasta borðið er í senn vörumerki Víking og skip Þorkels hins auðga sem fyrir löngu bjó í Alviðru.drekarVíkingaskip Þorkels auðga


Af fagurhyrndum hreindýrstarfi og brotnum flísum

Ólíkt höfumst við systur að.  Á meðan hún var austur á landi, liggjandi með riffilinn í lyngbeði upp á heiði að bíða eftir hreindýri, var ég heima vopnuð hamri að mölva flísar til þess eins að líma þær aftur saman.  Höfðum við báðar af þessu nokkuð gaman.  Í dag ætlaði ég raunar bara að segja ykkur veiðisögu af henni systur minni og hennar manni en er svo sjálfhverf að ég gat ekki stillt mig um að lauma mér í innganginn. 

Allt um það. Systir mín og mágur, Kristín og Brynjar, fóru nú á dögunum austur á land á hreindýraveiðar. Enda hafði þeim verið úthlutað tveimur törfum.  Þau hafa veitt saman og sitt í hvoru lagi í mörg ár, en þetta var í fyrsta skipti sem þau reyndu við hreindýr.  Nokkur spenningur var í lofti og mátulegur metingur, því auðvitað skipti öllu máli að drepa dýrið í fyrsta skoti og ekki skipti það minna máli að hver fengi stærra dýr.  Veiðidagurinn rann upp bjartur og fagur.  Einhver menningarmunur virðist á milli íbúa á Vestfjörðum og þarna fyrir austan því hún rak upp stór augu þegar hávaxin vera í appelsínugulum serk, sem reyndist vera leiðsögumaðurinn, bar fram skyrhræring og lýsi í morgunmat.  Heima á Þingeyri voru þau vön að fá sér brauð með rabbbarasultu.  En í Róm hagar maður sér ekki eins og útlendingur og auðvitað létu þau ekki á neinu bera, enda var þeim sagt að þau gætu fengið nóg af helvítis brauðdrasli síðar um daginn.

Nú erum við komin á þann stað í sögunni að sum ykkar ættu að hætta lestri.  Þá á ég við félaga í Green peace, dýravini og þá sem ekki vilja vita hvað varð um pabba hans Bamba. Brynjar og tarfur 8. ágúst Eftir að hafa beðið í veiðibiðröðinni í nokkurn tíma á meðan næstu veiðimenn á undan voru að eltast við sín dýr kom loks að þeim.  Eftir að hafa legið stutta stund og fylgst með hjörðinni var Brynjar snöggur að ná sínu dýri, eitt skot í hjartað og framtíð hans, þ.e. tarfsins, að engu orðin.  Núna verð ég líklega að draga aðeins í land því framtíð hans varð þarna ráðin, að metta tugi manna og kvenna sem kunna að meta góða villibráð.

Víkur nú sögunni aftur að Giddý sem lá um stund með leiðsögumanninum í lynginu, bíðandi eftir því að góður tarfur kæmi í færi og engin önnur dýr væru og nálægt.  Þá á ég bæði við köngulær sem fipað gætu skyttuna og önnur veiðidýr í hjörðinni.  Eftir ótrúlega skamman tíma var hún kominn með stærsta, eða í það minnsta næst stærsta tarfinn í sigtið og skaut.  Hafði að vísu áhyggjur af því að þetta væri of langt færi og gleymdi að gá að því hvort nokkrar köngulær væru nálægt.  Kristín og tarfur 8 ágústAuðvitað steinlá blessuð skepnan, fjögurra vetra tarfur með fjögurra spaða krónu.  Steinlá með sundurskotna mænu eftir hálsskot á 200 metra færi. 

Ég ætla ekki að reyna að lýsa tilfinningu þess sem skýtur svona stóra skepnu en bara það að skrifa um þetta fær hjarta mitt til að slá örar.  Um mig hríslast undarleg tilfinning, blanda af öfund og leiða.  Öfund yfir veiðigleðinni og leiði yfir því að drepa svona tignarlega skepnu.

 


Beðið eftir rigningu.

Á mínu heimili sér Gummi um þvottinn. þvotturÉg fékk kvíðaröskunarhræðslukast við tilhugsunina um að hann myndi skamma mig fyrir að koma með annan eins skíthaug inn í þvottahús svo ég hengdi bara þvottinn beint út á snúru.  Nú bíð ég eftir almennilegri rigningu og málið er dautt.


Villt þú breyta barninu þínu í dúkku?

Ég fann nýtt met í lágkúru á netinu í gærkvöldi.  Var að spá í að láta kyrrt liggja og vera ekkert að blogga um þennan ömurlega fund minn.   Ákvað því að láta eina blóðnótt líða eins og gert var til forna. pageantphotoshop Nóttin leið og ég er enn jafn bit á þessari bölvaðri vitleysu.  Það er sem sagt hægt að fara á þessa síðu, senda inn mynd af barninu sínu og fá til baka dúkkumynd.  Ef ykkur finnst meðfylgjandi myndir ekki nægilega hræðilegar skoðið þá fleiri dæmi.  Sumar þessara mynda eru hrein út sagt viðbjóðslegar.  Dæmi um breytingar á myndunum eru augu færð til eða breytt í dúkkuaugu, húðlitur dekktur, augabrúnir gerðar skarpari, tennur stækkaðar, hendi breytt, dökkur lína sett um augu svo eitthvað sé nefnt. bleikdúkka

Þetta er kjörið tækifæri til að kenna ungum börnum að hata líkama sinn vegna þess að hann er ekki nógu fallegur.  Hvar í ósköpunum endar þessi vitleysa?  Hvenær ætlum við að læra að vera ánægð með okkur og skilja að fegurðin kemur að innan.   Hvernig ætla foreldrar sem nýta sér þessa þjónustu að útskýra fyrir börnunum (einkum dætrum ef marka má sýnishornin á síðunni) að þeim finnist þau ekki nægilega falleg til að hægt sé að setja óbreyttar myndir af þeim á arinhilluna.bládúkka  Er einhver hissa á þvi að blessaður ungdómurinn sé hálf utan gátta í þessu öllu og finnist útlitið skipta meira máli en innihaldið. 

Hvað um það eftir á að hyggja langaði suma kannski frekar í dúkku en barn.  Mikið vildi ég að þau hefðu bara haldið sig við dúkkurnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband