28.1.2008 | 10:45
Ég á mitt nafn, eða hvað?
Ég hef verið að spá í nöfn og nafngiftir undanfarið. Það sem kveikti áhuga minn var grein sem ég las um KR og KR. það er nefnilega komin upp sú staða tvö knattspyrnufélög kalla sig KR. Knattspyrnufélag Reykjavíkur sem segist eiga KR nafnið og Knattspyrnufélag Reyðarfjarðar kallar sig líka KR. Þetta er dæmi um skemmtilega deilu. KR-ingarnir fyrir austan virðast sjá húmorinn í þessu en KR-ingum í vesturbænum er ekki skemmt. Finnst þetta virðingarleysi enda sé þeirra félag eldra.
Sjálf hef ég lent í þessu en nafnið Matthildur er ekki það algengt að ég hef í gegn um tíðina yfirleitt ekki verið í samskiptum við nöfnur mínar. Ef einhver kallar Matthildur þá svara ég án þess að hugsa mig um tvisvar, sem er vitaskuld nokkuð sem Guðrún eða Jón myndi ekki láta sér detta í hug án þess að athuga málið. Það var svo fyrir nokkru síðan að nafna mín skaut upp kollinum í kunningjahópnum og ég verð að segja að það truflaði mig. Á góðum degi, eða ætti ég kannski að segja slæmum, fór það meira að segja í taugarnar á mér. Ég reyndi að nota sömu rök og KR-ingarnir í vesturbænum og benti henni á að láta kalla sig eitthvað annað því ég væri jú eldri en það hlaut dræmar undirtektir, vægast sagt. Eitt get ég þó ekki vanið mig á og það er að ávarpa hana með nafni enda kalla ég hana aldrei Matthildi heldur nöfnu, og hún gegnir því. Það er spurning hvort KR-ingarnir geti notað þessa lausn.
Fyrst ég er byrjuð að tala um nöfn má ég til með að deila því með ykkur ég fékk nöfnin mín frá tveimur karlmönnum. Matthildar nafnið er komið frá Matthíasi sem fórst, sem ungur maður, af slysförum í Alviðru, en Ágústu nafnið fékk ég frá honum Gústa gamla á Hrygg sem vitjaði nafns í draumi. Það er líka skemmtilegt frá því að segja að ég á unglings nafna í Þingholtunum. Móðir hans og mín kæra vinkona segir gjarnan, ef hann hefur verið óvenju uppátektasamur og lýjandi, að fjórðungi bregði til nafns. Ekki ætla ég að þræta fyrir það enda getur það ekki verið alveg ókeypis að eignast nafna eða nöfnu. Tilgátan um að fjórðungi bregði til föður, fjórðungi til móður, fjórðungi til fósturs og fjórðungi til nafns finnst mér líka skemmtileg. Mér skilst að Gústi gamli hafi verið nokkuð kjaftfor og jafnvel orðljótur stundum og sum ykkar gætu haldið að sú lýsing ætti við mig. Ekki ætla ég að reyna að þræta fyrir eigin uppátektarsemi, það má því vel vera að unglingurinn í Þingholtunum hafi grætt hana með nafninu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
27.1.2008 | 15:14
Áttu 200 dollara?
Ísfirðingar áttu von á góðum gestum í dag sunnudag. En þær Jóhanna Kristjónsdóttir og Guðlaug Pétursdóttir frá VIMA (vina og menningarfélags Miðausturlanda) ætluðu að kynna stuðningsverkefni fyrir konur og börn í Jemen og segja frá ferðum sem félagið hefur staðið fyrir til þessa heimshluta sem fáir Íslendingar þekkja og enn færri skilja, en allir hafa skoðun á. Flugi til Ísafjarðar var sem sagt aflýst og fundinum verður því frestað um óákveðinn tíma
Æ þetta veður.
Hvað um það, þær koma seinna en þangað til vil ég benda áhugasömum á heimasíðu Jóhönnu með því að smella hér Í dag styðja Íslendingar 110 börn svo þau komist í skóla og 25 konur til fullorðinsfræðslunámskeiðs. Þið sem getið séð af 200 dollurum á ári ættuð að hugleiða að styrkja barn eða konu í Jemen til náms. Hvað sem fólki kann að finnast um menningu þeirra er alveg ljóst að menntun er sjálfsagt það besta sem við getum fært þeim.
Bloggar | Breytt 28.1.2008 kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.1.2008 | 16:51
Æ hvað fólk getur verið skrítið
Það er merkilegur andskoti hvað margir eru klikkaðir. Í gamla daga hélt ég að það væri undantekning en nú er ég að komast á aðra skoðun. Það er undantekning að vera ekki með einhverja röskun, þunglyndi eða aðra óáran á efstu hæðinni. Það þykir heldur ekkert tiltöku mál að einhver sé þunglyndur lengur, það er næstum flott að vera geðveikur. Næstum.
Ég þekki eina klikkaða en læt það liggja milli hluta hver hún er enda takmörk fyrir því hversu persónulegur bloggari ég get eða vil vera. Hennar líf er undarlegt ferðalag og þó hún sé bara þunglynd getur það birst í ótal skemmtilegum myndum, já og öðrum minna skemmtilegum.
Hennar þunglyndi einkennist af miklum sveiflum sem gefa hugtakinu dagsform dýpri merkingu. Einn daginn býr hún upp í turni þar sem hún hefur gott útsýni yfir hina. Hina sem ekki eru eins fljótir að hugsa. Hina sem skilja ekki hvað lífið er stórkostlegt. Turndagana er hún svo snjöll og frábær að það hálfa nægði venjulegri manneskju. Hún er öðrum fremri í svo mörgu, raunar flestu. Í þessum ham getur hún sigrað heiminn, með léttu. Hún leggur á ráðin um ótrúlegustu hluti. Útlistar fyrir vinum og kunningjum, hvort sem þeim líkar betur eða verr, hvernig hún ætlar að framkvæma þá. Lýsir hugmyndinni skref fyrir skref, því hún er svo gáfuð og réttsýn að ekkert getur farið úrskeiðis.
Í kjölfar daganna í turninum er hún oft aum. Aum á líkama og sál. Ekkert gengur og hún er þess fullviss að allt sé ómögulegt. Hún sé illa gefin. Næstum heimsk. Ímyndar sér að öðrum gangi betur að fóta sig í lífinu því hún klúðri öllu sem hún gerir. Furðar sig á þessari veröld sem er yfirfull af vesaldómi, óréttlæti og vonleysi. Aumu dagana hugsar hún um hungursneyð og stríð. Aumu dagana býr hún um sig í neðanjarðarbyrginu. Hleður málbyssurnar og raunar öll sín vopn. Tilbúin að skjóta hvern þann sem líklegur er að sjá í gegn um hana. Sjá að henni líður illa. Ef þú hittir hana í þessum ham og spyrð hvernig hún hafi það gæti hún svarað "ef ég segi þér það verð ég að drepa þig" En þú hittir hana ekki í svona ham, þá er hún heima, til öryggis.
Þessi kona hefur oft platað mig. Í gleðivímu getur hún allt og allir hennar vinir geta líka allt, að hika er að tapa. Og þá er oft gaman. Hitt er erfiðara þá veit maður aldrei hverju getur verið von á eða hvort er betra ísköld þögnin eða banvænar og nístandi athugasemdir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
17.1.2008 | 15:02
Mínar innri afsakanir
Ég hef verið að velta fyrir mér afsökunum. Líklega er áhuginn til kominn vegna þess að það tók sig upp gamall siður hjá mér á dögunum og ég er nú farin að hreyfa mig reglulega. Ég hef svo sem aldrei getað verið kyrr lengi og geng frekar en nota bíl í daglegu amstri. Á það jafnvel til að ráfa langt upp á fjöll og inn um firði. Núna aftur á móti er ég farin að hreyfa mig það hratt að ég svitna. Hleyp rennsveitt og rauðflekkótt í framan, en stend þó í stað. Stilli útvarpið í ræktinni á Rás 1, hækka, stíg á hlaupabrettið og kem því í gang með því að fikta í öllum tökkunum.
Yfirleitt er ég ekki mjög löt að mæta og þó ég sé löt þá mæti ég samt, oftast. Ég hef tekið eftir því að langerfiðasta við að hlaupa reglulega á hlaupabretti í líkamsræktarstöð er að komast fram úr rúminu heima. Það er með ólíkindum hvað minni innri konu dettur í hug til að losna við að mæta og ég verð að vera á varðbergi gagnvart henni því sumar afsakanirnar eru nokkuð trúlegar.
Þegar klukkan hringir í annað sinn, því ein kría er jú lögboðinn réttur, fer fram skyndikönnun á líkamsástandi. Hin innri kona, sú sem aldrei sefur, leitar að meiðslum eða veikindum til að halda líkamanum áfram í rúminu. Um það bil sem meðvitundin er að vakna er því búið að planta hugsunum um slappleika og vesaldóm í huga minn. Sjálf þarf ég stundum að rökræða við þá innri um þessi mál. Hvort það sé bara allt í lagi að sofa áfram, ég eigi það skilið. Ég sé slöpp. Það sé sunnudagur. Klukkan sé vitlaust stillt og síðast en ekki síst ég eigi mitt líf sjálf, sé fullorðin og ráði hvort ég fari fram úr. Sjálf hef ég mína innri konu alltaf undir á endanum, en það getur tekið tíma.
Ein vinkona mín segir að Þetta sé ekki svona flókið og ég spekúleri bara einfaldlega of mikið. Að fara á fætur sé einfalt mál, kona fari bara á fætur þegar klukkan hringi. Önnur hefur bent mér á að þetta hafi ekkert með innri konu að gera. Ég tími einfaldlega ekki að fara fram úr þegar karlinn er ennþá uppí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.1.2008 | 16:55
Flýtur á meðan ekki sekkur
Árið 2007 var hundleiðinlegt. Ekkert markvert bar á góma hvorki hjá mér persónulega né nokkrum öðrum sem ég þekki. Landsmálin voru engin mál og svo kallaður alþjóðavettvangur var daufur. Sárafá stríð og náttúruhamfarir í lágmarki. Þegar ég lít til baka get ég ekki annað en undrast að ég hafi yfirleitt nennt fram úr. Nennt að lesa blöðin eða fara á netið.
Þegar ég skoða sérstaklega það sem ég gerði ekki á árinu 2007 sé ég að það líkist grunsamlega mikið listanum yfir vinsælustu áramótaheitin á Íslandi fyrir sama ár.
Janúar 2007 Fór ekki í megrun þar sem mér þótti ég ekki vera feit. Verðbólgan 7%
Febrúar 2007 Hætti ekki að reykja enda löngu hætt. Verðbólgan 8%
Mars 2007 Hætti ekki að ofnota ljósabekki enda er leður mikið í tísku. Verðbólgan 5%
Apríl 2007 Hætti ekki að kaupa allt of litlar flíkur sem fara mér illa og eru því bara hafðar inn í skáp. Verðbólgan 5%
Maí 2007 Hætti ekki að drekka áfengi enda eykur það hagvöxt að kaupa mátulega mikið áfengi á veitingahúsum. Verðbólgan 5%
Júní 2007 Fór ekki út að hlaupa. Gæti tengst því að mikil hætta var á grjóthruni og því ekkert vit í að skrá sig í Óshliðarhlaupið. Verðbólgan 4%
Júlí 2007 Fór ekki til útlanda í sumarfrí. Verðbólgan 4%
Ágúst 2007 Fór ekki í skóla enda skóli lífsins eini alvöru skólinn sem kennir brjálsemi. Verðbólgan 3%
September 2007 Vann ekki í lottóinu frekar en áður þó hann væri margfaldur enda þarf víst að kaupa miða til að eiga möguleika. Verðbólgan 4%
Október 2007 Eyddi ekki meiri tíma með fjölskyldunni. Verðbólgan 4%
Nóvember 2007 Var ekki búin undir veturinn mætti í vinnu á sumardekkjunum í ermalausum bol og á sandölum. Verðbólgan 5%
Desember 2007 Fór ekki í messu, enda koma alltaf ný og ný skilaboð frá æðstu klerkum þjóðkirkjunnar sem hræða mig frá kirkjusókn. Verðbólgan 6%
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.12.2007 | 17:03
Hver á þennan jólakött?
Þessi gulbröndótti högni er búin að vera að sniglast í kring um húsið mitt hér á Ísafirði í nokkra daga. Fyrst hélt ég að hann væri bara heimilisköttur sem villst hefði af leið, hætt sér of langt. Kettir sjá vel og vita um leið hverjir eru kattafólk og hverjir eru hundafólk. Þess vegna hefði hann leitað til okkar. Að vísu gæti hann hafa séð inn um gluggann hjá okkur að hér búa tvær kisur, Þær Kúra Jónina og Emelía Lúra.
Núna er ég ekki svo viss lengur, ámátlegt mjálmið og bænaraugun eru kannski ásökunarsvipur og nöldur. Jólakötturinn situr um mig á mínum eigin tröppum og allt vegna þess að ég keypti mér ekki nýjan jólakjól.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
21.12.2007 | 23:59
Vetrarsólstöður
Dagurinn í dag byrjaði klukkan tíu mínútur yfir tólf á hádegi og stóð til níu mínútur í þrjú. Tveir klukkutímar og fjörtíu og ein mínúta. Vilborg Davíðsdóttir, fimm bóka, þriggja barna, eins mans og sín eigin kona minnti mig á, að á morgun verður þetta allt miklu betra. Já morgundagurinn verður eitthvað lengri en dagurinn í dag og þið getið fylgst með því á vef Veðurstofu Íslands.
Bloggar | Breytt 22.12.2007 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.12.2007 | 23:11
Íslensku jólasveinarnir eru víst hrekkjóttir.
Það er leiðinlegur siður að ljúga góðmennsku upp á íslensku jólasveinana og ég tek ekki þátt í því. Í þessari samantekt mun því ég rifja upp þekkta hrekki og óknytti sem þessir ólánspiltar hafa á sinni svörtu samvisku.
Stekkjastaur sem að öllu jöfnu kemur fyrstur til byggða, gæti átt það til að læðast í þvottahúsið hjá þér og stela sokkum. Ekki sokkapörum. Nei, hann stelur stökum sokkum. Auðvitað verður uppnám á heimili þínu morguninn eftir þegar þú og fjölskyldan neyðast til að fara til vinnu og í skóla í ósamstæðum sokkum.
Nóttina eftir kemur Giljagaur til byggða. Þá reynir á traust og trú í hjónabandinu því hann fer hús úr húsi, stelur nærfötum og skilur þau eftir í nærfataskúffum nágrannans. Það er ekki að undra þó skilnaðartíðni aukist í desember.
Stúfur, þetta litla óféti, situr alla nóttina í forstofunni eða skóskápnum heima hjá þér og bindur skóna saman á reimunum. Með illleysanlegum rembihnút tengir hann saman hægri skó yngsta drengsins við vinstri skó mömmunar eða merkjaskó unglingsins við táfýluíþróttaskó pabbans. Ekki halda að þið sleppið þó skórnir ykkar hafi engar reimar, hann límir þá saman á botnunum.
Þvörusleikir sá fjórði vílar ekki fyrir sér að stela öllu súkkulaðinu í jóladagatalinu. Það má sjá þau grenja blessuð börnin, langt fram eftir degi. Fyrst eftir að hafa tapa súkkulaðinu, síðan eftir að hafa slegist við systkynin og að lokum þegar foreldrarnir skömmuðu þau fyrir svona ómerkilegt yfirklór, að kenna blessuðum jólasveininum um.
Fimmti sveinninn Pottaskefill hefur ekki bara áhuga á pottum hann laumast inn í eldhús setur uppþvottalög í botninn á uppþvottavélinni. Næst þegar þú þværð myndast þessi rosalegi froðubolti í kring um vélina. Hreinasta martröð.
Askasleikir er sá sjötti í röðinni. Hann ruglar lykilorðunum þínum. Pin númerið í símann þinn er allt í einu orðið lykilorðið í heimabankann sem aftur er orðið að öryggisnúmeri á debetkortinu þínu.
Sá sjöundi Hurðaskellir, stelur bíllyklunum færir bílinn þinn í annað stæði í næstu götu, skilar lyklunum og hverfur á braut. Þegar þú vaknar heldurðu auðvitað að bílnum hafi verið stolið, færð hræðslukast og hringir í lögregluna eða mömmu þína.
Áttundi sveinninn, hann Skyrgámur stelst í GSM símann þinn og færir númer á milli nafna. það er ekkert fyndið að hringja í elskuna þína og fyrrverandi svarar pirraður. Ekki fyrr en löngu seinna. Eða þegar besta vinkonan er ungfrú klukka og heima er í vinnuni.
Bjúgnakrækir er níundi í röðinni. Hann skráir netfangið þitt á alla póstlista sem honum dettur í hug. Það renna á þig tvær grímur þegar þú opnar póstforritið þitt næst og horfir á það yfirfyllast af stjörnuspám og orði dagsins og alls kyns gylliboðum á öllum mögulegum tungumálum.
Sá tíundi Gluggagægir, fer rakleiðis í tölvuna þína og setur stolna útgáfu af Vista-spes sem á ekki að koma á markaðinn fyrr en seint á næsta ári. Auðvitað hrinur vélin og öll þín gögn tapast fyrir utan skjöl með lykilorðum þau sendast út um óravíddir alnetsins.
Ellefti kemur svo Gáttaþefur hann stelur ilmsápunni þinni og setur í stað þess grænsápu í brúsann. Sumir sem alla jafna ilma vel og eiga mikið safn ilmefna í formi sápu, ilmvatna og krema hafa lent í miklu fjárhagstjóni eftir heimsókn hans.
Einn af þeim allra alræmdustu er Ketkrókur sem kemur aðfaranótt Þorláksmessu og það fer ekki fram hjá neinum ef hann hefur komist inn í íbúðina þína. Hann hefur alltaf meðferðis poka af vel kæstri skötu sem hann laumar í örbylgjuofninn hjá grunlausum íbúum, meðan þeir eru enn í fasta svefni. Stillir á hæga eldun og lætur sig hverfa.
Kertasníkir kemur síðastur skiptir út öllum möndlum og setur uppleysanlegt sælgæti í staðinn. Það fær enginn möndlugjöfuna á þeim heimilum sem hann heimsækir, það er víst.
Hættið svo að tala vel um jólasveinana og kenna þeim um gróðabrask og góðverk, annars eigið þið á hættu að fá heimsókn á aðventunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.12.2007 | 12:02
Jólin koma þó þú nennir ekki að taka til.
Eins og margir er ég alin upp við það, að fyrir jól skuli þrífa húsið hátt og lágt. Ég man enn hvað mér þótti þetta ömurlegt. Skápahreingerning var sérlega leiðinleg og það versta af öllu var ruslaskápurinn. Þegar ég var ung voru ruslaskápar verri en þeir eru í dag. Þá voru almennt ekki nýlegar plasthúðaðar eða háglanslakkaðar innréttingar á heimilum. Nei, á þessum tímum voru skápar gamlir með hillupappír og pípulögnin undir vaskinum var eldgömul, úr málmi og oft farin að smita.
En það sem rak okkur systurnar áfram, því bræðurnir voru enn of ungir, var vissan um að jólin kæmu í kjölfarið og kannski ekki síður hræðslan um að þau kæmu ekki ef við köstuðum höndunum til verksins. Á þessum árum var litlu hent og hlutirnir gjörnýttir og allir skápar því fullir af dóti. Það var ekki til siðs að henda slitnum fötum eða verkfærum og kaupa ný. Nei, á þessum árum var allt dýrt. Þetta var fyrir tíma ódýru verslananna sem verða okkur út um vöru á góðu verði. Vöru sem oftar en ekki er framleidd af réttlausum verkamönnum eða börnum fátækra ríkja. Það er aldeilis munur að geta hent og keypt. Í dag gröfum við draslið eða brennum það og kaupum nýtt.
Svo ég snúi mér aftur að skápum æsku minnar. Fataskápana í herberginu mínu hræddist ég, þetta voru djúpir og dimmir skápar með stórum hillum og auðvitað fóru fötin okkar alltaf í einn graut. Það tafði raunar ekkert í daglegri umgengni, því þá rétt eins og nú gengum við bara í uppáhalds fötum sem gjarnan voru gripin beint af snúrunni. Ég kveið tiltekt í fataskápnum í marga daga. Ég var svo sjúklega hrædd við köngulær og þóttist viss um að þær byggju í dimmum skápnum. Ég man raunar ekki eftir að hafa fundið könguló í téðum skáp, en allt kom fyrir ekki. Í minningunni var þetta mannraun og ég fékk jólin að launum ef ég lauk verkinu.
Eldhússkáparnir voru líka leiðinlegir, en á allt annan hátt. Þar gátum við þó átt von á að finna suðusúkkulaðibita sem laumast hafði á bakvið. Eða jafnvel annað sælgæti sem móðir okkar hafði falið og gleymt. Í efstu hillunni fundum við gjarnan einhver gull sem við höfðum tínt eða eitthvað merkilegt dót hinna fullorðnu. Það hafa öll börn allra tíma gaman af því að gramsa og við vorum engin undantekning. Ruslaskápurinn var eins og ruslaskápar þeirra tíma. Rakur og sóðalegur. Í minningunni þurfti ég alltaf að taka hann. Einhvern vegin lenti hann alltaf á mér í síbreytilegu regluverki eldir systra minna. Reglum sem áttu þó að tryggja jafnræði og réttlæti. Ég býst við að sumir hafi einfaldlega verið jafnari en aðrir. En ég var yngst og valdalaus sem slík.
Þegar ég sjálf stofnaði heimili og eignaðist minn eigin ruslaskáp hélt ég við hefðinni í nokkur jól. Þreif allt hátt og lágt. En svo datt mér í hug að það gæti verið svo að það sem enginn sér, er ekki til. Ég ákvað því að hætta að taka allt í gegn fyrir jólin. Fórna þessari góðu tilfinningu sem kona fær þegar allt er hreint. Taka áhættu. Treysta á að heilög jól séu hugarástand frekar en annað. Smá saman hætti ég þrifastússi, ekkert extra. Og árið sem ég sleppti ruslaskápnum sannaðist fyrir mér að jólin koma hvort sem við erum tilbúin eða ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
5.12.2007 | 23:55
Breiðvöxnu baráttukonunnar
Hún Ásthildur manaði mig að velta fyrir mér kostum þess að vera sver og þver. Mér finnst raunar betur við hæfi að tala um breiðvaxnar baráttukonur en sverar og þverar. Í þessum pistli mun ég því leitast við að finna innsta kjarna hinnar breiðvöxnu baráttukonu án þess þó að ljúga allt of mikið.
Frá því Ísland byggðist hafa breiðvaxnar baráttukonur alltaf skotið upp kollinum af og til. Þær hafa jafnan mætt andstöðu og hugmyndir þeirra hafa ekki átt upp á pallborðið hjá valdhöfum eða þorra manna. Fyrir vikið eru ekki til margar ritaðar heimildir um breiðvöxnu baráttukonurnar, en sögur af þeim hafa gengir kvenna á milli í marga kvenaldra. Það gengur orðrómur á alnetinu sjálfu að þessar konur séu enn til og birtist jafnan í líki svo kallaðar bloggara.
Ein elsta sagan sem ég fann um breiðvaxna baráttukonu var sagan af Þórkötlu í Útnára. Þórkatla þessi var kerling sem vildi fá nokkuð fyrir snúð sinn. Athyglisvert er að velta því fyrir sér í samhengi við sögu Þórkötlu, hvenær útrás okkar íslendinga hófst. En eins og allir vita fjallar sagan um landnámskonu á Vestfjörðum sem seldi dönskum kaupmanni hundinn Snúð, allt að sjö sinnum og fékk greitt fyrir með ónýtu mjöli. Hún endaði á bálinu enda þótti fráleitt að kona væri að vasast í viðskiptum, og það löngu áður en konur fóru í hópum að nema viðskiptafræði í háskólum heimsins.
Önnur saga af Austfjörðum fjallar um breiðvaxna athafnakonu, Lukku Þorláksdóttur, sem ræktaði fisk í kvíum í afskektum firði. Sú saga gerist mörgum árum áður en fiskifræði varð vísindagrein og löngu áður en íslendingar tóku kristna trú. Sagt var að hún hefði ofið net úr fjalldrapa og ull og notað hrútspunga sem flotholt. Hún barðist við veiðiþjófa ásamt móður sinni sem dvaldi langdvölum í kvíum. Oft mátti heyra þær kallast á í draugalegri austfjarðarþokunni, og kallaði Lukka þá út á fjörðinn "Móðir mín í kví kví" og jafnoft svaraði móðir hennar kallinu. Ekki ber sögum saman um um hvað varð af Lukku og móður hennar. En þær hurfu dag einn eins og jörðin hafi gleypt þær, þótti mönnum líklegt að þeim hefði verið rænt.
Aðrar nýrri sögur eru til af breiðvöxnum baráttukonum og má þar helst telja Þuríði Sundafylli, Skessuna í fjallinu, Aðalheiði Bjarnfreðs og Guðrúnu Á. Símonar. Allar þessar konur máttu þola háð og níð en það beit ekki á þær. Það eru nokkrar breiðvaxnar baráttukonur á Íslandi í dag en ég hirði ekki um að nafngreina þær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)