Færsluflokkur: Bloggar

Gangverð á tollurum 1$

 Ég veit það er ljótt að gera grín að prentvillum, en þessi er einfaldlega of góð

 

100 tollara fartölvurnar til sölu í Bandaríkjunum


mbl.is 100 dollara fartölvurnar til sölu í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keðjubréf eru kæfa

Ég fæ stundum keðjubréf í tölvupósti og satt best að segja veldur það mér ákveðnum pirringi. Allt frá léttu dæsi  að fullvöxnu blóti.  Oftast kemur þessi póstur frá vel meinandi kunningjum eða vinum sem halda að mér finnist krúttlegt að fá hamingjupóst.  Að bréfið færi mér hamingju og jafnvel heppni.  Það hljóti að vera gott því í því eru myndir af englum og rauðum rósum og falleg hvatningarorð um það að vera  góð.  Að vísu fylgir gjarnan hótun um eitthvað svakalegt, jafnvel slys eða dauða slítir þú keðjufjandann.

Ég gæti best trúað því að svona póstur eigi sér rætur hjá höfðingjanum sjálfum í neðra.  Já, ykkur kann að finnast ég taka full stórt upp í mig, jafnvel óvenju stórt fyrir minn rifna kjaft.  En ég skal  útskýra þetta fyrir ykkur og rökstyðja mál mitt.  Ég skal jafnvel ganga svo langt að reyna að fá eitthvert ykkar til að hugsa sig tvisvar um áður en þið áframsendið svona bréf í framtíðinni.

Svona keðjubréf eru hluti af stóra samsærinu til að eyðileggja tölvupóst fyrir okkur sem notum hann í vinnu og almennum samskiptum.  Eins og þið sjálfsagt vitið eru allar netþjónustur með græjur sem bryðja ruslpóst.  Á venjulegum degi er allt að 8 til 9 af hverjum 10 bréfum fargað því þau eru frá þekktum kæfusmiðum.  Kæfubréfin eru gjarnan tilboð um ýmislegt  allt frá tippastækkunum eða brjóstastinningu, í sölu á hjólbörum eða minniskubbum, sem óprúttnir ljótukallar út um allan heim senda í miljónavís í þeirri von að einn eða tveir svari.  Sumar kæfusendingar hafa þann eina tilgang að dreifa sér. Hugsanlega til að framkalla gæsahúð á upphafsmanninum, sem glaður fylgist með ruglinu ferðast um heiminn.  Það er þessi tegund af kæfusmiðum sem hefur áttað sig á að til að forðast gin ruslætunnar þarf bréfið að koma frá þekktum og virtum notanda.  Til dæmis vini eða kunningja. Þið sem deyfið hamingjubréfum eruð að láta nota ykkur.  

Nú munu sjálfsagt sumir segja að þetta sé saklaust gaman en það er auðvitað ekki svo, því það kostar netfyrirtækin milljónir á milljónir ofan að dreifa og sortera þetta rusl.  Og hver skildi svo borga þegar upp er staðið.

  


Hrós vikunnar, íslensk kjötsúpa og rás 1

Hrós vikunnar fær hún Ylfa Mist á Langa Manga sem ber fram ekta íslenska kjötsúpu með rás 1 á hverjum miðvikudegi.  

Í hádeginu í dag, eins og raunar flest hádegi, fór ég á Langa og fékk þar að upplifa þessa gömlu og góðu íslensku stemningu.   Þar var á borðum ekta íslensk kjötsúpa með stórum lambakjötsbitum, kartöflum og rófum.  Alveg himnesk súpa verð ég að segja og það var skemmtileg stemning að hafa rás 1 í gangi.  Sumum gestunum þótti að vísu síðasta lag fyrir fréttir ekkert sérstaklega skemmtilegt, enda var það svona sópran lag.  Þá var bara lækkað þangað til konan í útvarpinu hætti að æpa og hækkað aftur þegar fréttirnar byrjuðu.  Það kom yfir mig einhver ró, einhverskonar öryggi og vissa um að þó allt sé alltaf að breytast og allir séu að flýta sér skiptir það engu máli.  Tíminn líður alveg jafn hratt hjá okkur öllum.  Við munum bara ekki alltaf eftir að njóta hans.

haust2007kindur 030haust2007kindur 041

 Það er fátt íslenskara en íslensk kjötsúpa og rás 1 í hádeginu nema ef vera skildi göngur og réttir.


Broslegar prentvillur eða sagan af fear og fair

Það er stórlega ofmetið fyrirbæri að gera aldrei vitleysur.  Þetta segi ég ekki bara til að afsaka og réttlæta mín örfáu mistök á prenti sem annars staðar.  En ég verð víst að játa á mig nokkrar villur  vegna þess að ég er að upplagi ofvirk, lesblind og skrifblind.  Fyrir utan alla ismana sem hrjá mig og ekki hefur fundist nafn á ennþá. Nei, ég hóf máls á þessu vegna þess að dæmin sanna hið gagnstæði villur geta verið mjög skemmtilegar og gefandi.  Ég skal nú segja ykkur eina litla sanna sögu af broslegum prentvillum.

Ég keypti kaffibaunir á ferð minni um miðbæ Reykjavíkur um daginn í búð sem kallast Fair Trade. Þetta er búð sem hjálpar okkur feitum og ríkum vesturlandabúum fá minni móral yfir því að góðæri okkar byggist á því að arðræna s.k. þriðja heim.  Allt um það, kaffið er lífrænt ræktað mjög gott og af því ég er svo bæði kaffi og netkerling með urlin á hreinu ákvað ég að skoða þetta nánar. Sló inn http://feartrade.com varð að vísu undrandi á þessum strút sem stakk höfðinu í sandinn á forsíðuunni en hélt ótrauð áfram smellti á strútinn og uppgötvaði þá fyrst að ég hafði skriplað á lyklaborðinu.  Ég leit flóttalega í kring um mig, skömmustuleg, og ætlaði ekki að segja nokkrum manni frá þessu.  En svo var þetta of kjánalegt til að þegja yfir því.

Það er ekki sama hvort þú ert að tala um fear eða fair.

 

 


Nettæling

Halló, þú þarna,  Já þú.  Villtu sofa hjá mér?  

 

Þú þarft ekkert að svara, en ef þú brosir veit ég að svarið er já. 


Þvílík forsmán

Hvað eiga Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir , Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson sameiginlegt? 

Þau létu verkin tala og milduðu dóm yfir nauðgara.


Hrós vikunnar

Sumir hafa bent mér á að ég hrósi ekki nægilega mikið.  Þetta er auðvitað helbert kjaftæði ég hrósa oft þegar ég er ánægð með eitthvað.  Eða ég er í það minnsta ekki ein af þessum sem aldrei hrósar neinum.  Þegar ég fór í huganum yfir þau mörgu hrós sem ég hef dreift undanfarið komst ég að því að mér er svo eðlilegt létt að hrósa að ég man hreinlega ekki eftir síðasta hrósi.  Ótrúlega gleymin kona.

Sum, þessi sem aldrei hrósa neinum, hafa afsakanirnar á lager.  Þau segja gjarnan eitthvað á þá leið að það sé nú alveg augljóst þegar þau séu ánægð og því ekki nein þörf á því að nefna það sérstaklega. Eða, fólk gæti farið að halda að það sé eitthvað. Ég er sem betur fer ekki ein af þeim.

En, af því ég er með skipulags og skrásetningar áráttu og með léttan snert af markmiðasetningar áráttu, ætla ég hrósa vikulega.  Já ég ætla að setja mér markmið.  Taka upp á nýbreytni að hrósa hér á blogginu mínu einhverju eða einhverjum í hverri viku.  

Hrós vikunnar fer að þessu sinni til til ríkisstjórnar Íslands sem ætlar að aumkvast yfir okkur skrælingjana hérna úti á landi.  Hún ætlar að gefa okkur til baka brot af því sem hún hefur tekið í gegn um árin.   Takk takk.


Ef ég væri níræð?

Ég vildi að ég væri að minnsta kosti níræð. Því ef ég væri níræð myndu þau kannski hlusta á mig, skilja hvað ég á við og jafnvel fara að bón minni. Ef ég væri níræð myndi ég skrifa blogg um það hvernig okkur íbúunum í Ísafjarðarbæ líður þegar flokksgæðingarnir hérna níða hvern annan niður sem mest þeir geta í fjölmiðlum.  Til að taka af allan vafa þá tel ég þau öll vera sek og finnst ekki nokkru máli skipta hver byrjaði.  Það er einungis ósk mín að þetta fólk sem við kusum til að stjórna bænum okkar kunni sér hóf í stóryrðunum.  Þetta langvinna og innihaldsrýra karp sem birtist okkur í endalausum fréttum og á bloggsíðum er orðið þreytt.

Og þetta gera kosnir fulltrúar okkar um hábjargræðistímann.  Þegar við þurfum öll að standa saman og snúa vörn í sókn. Eyða athygli og kröftum í að þrasa og þrástagast.   Satt að segja eyðir þetta okkar kröftum líka og dregur okkur niður.  Það er ekki nóg að kalla eftir sköpunarkrafi okkar íbúanna í þjóðhátíðarræðum við þurfum vinnufrið til að byggja upp atvinnulífið og menninguna. Í sátt og samstarfi við bæjaryfirvöld og starfsmenn. Það má ljafnvel líkja þessu þrasi við heimilisófrið.  þar sem pabbinn og mamman eru meiri og minnihluti í bæjarstjórninni og við íbúarnir erum börnin, sum ung og ósjálfbjarga önnur uppkomin og sjálfsæð. Það vita allir að börnin líða fyrir það þegar foreldrarnir rífast og þeir eru ekki allt of sælir af rifrildinu sjálfir.

Að lokum vil ég minna á að það er ágætis siður að láta eina blóðnótt líða áður en gripið er til hefnda.


Komum að fá æði

Það er alltaf jafn áhugavert þegar þjóðin fær æði fyrir einhverju eins og það var kallað þegar ég var unglingur.  Fær eitthvað á heilann, verður heltekin, gagntekin. 

Stundum eru einkennin væg eins og þegar við höldum að við munum kannski eiga möguleika á því að komast jafnvel í undanúrslit, í undirbúningskeppni í.... segum til dæmis, handbolta.  Þá er þjóðin kát.  Allir vita heilmikið um handbolta.  Kunna reglurnar.  Þekkja leikmennina.  Vita betur. þykir jafnvel vænt um þá eins og þeir væru í okkar eigin fjölskyldu. Og ef við komumst í undanúrslit fyrir sjálfa úrslitakeppnina setjum við allt á annan endann og þá er gaman. Þá breytast jafnvel gamlir stofnfélagar í AMI, Antisportistafélgi Mennntaskólans á Ísafirði, í brjálaðar boltabullur.  Það þekki ég af eigin raun. 

Við erum ekki mörg, því er auðvelt að kveikja í okkur Íslendingum og æði getur gripið okkur vegna ólíkra fyrirbæra.  Hvort sem um er að ræða útrás íslenskra auðmanna eða væntanlega frægð Íslenskrar poppstjörnu.  Hver heldur til dæmis ekki með Íslensku auðmönnunum sem eru að kaupa upp Danmörku? Land okkar gömlu kúgara.  Og munið ekki þegar við vöktum heilu og hálfu næturnar til að kjósa Magna í Súpernóva poppkeppni? 

Í þessu ástandi finnum við vel að við erum þjóð.  Stöndum saman.  Við erum að vísu fljót að fá leið á æðinu, sérstaklega þegar við vinnum ekki, sem er víst oftast raunin.  Þá er ekkert í stöðunni nema bíða eftir næsta æði.  Og það er jafn víst og að sólin kemur aftur upp að við fáum nýtt æði.

  



Það var skorað á mig að birta þetta

Þar sem ég er ein af þremur Íslendingum í félagi athyglissjúkra gat ég ekki annað en birt þessa undirskriftarsöfnun.  En hún barst mér í tölvupósti síðdegis frá Halldóri Jónssyni og hef ég verið að berjast við löngunina að birta hana síðan.....og sem sagt tapaði. 

Ágætu lesendur.  Þær sorgarfréttir hafa borist að okkar ágætu Elínu Gestsdóttur hafi verið sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri Fegurðarsamkeppni Íslands. Sem vonlegt er hefur þessi fregn valdið miklum óróa á helstu mörkuðum austan hafs og vestan í dag. Einkum hefur gengi hlutabréfa í snyrtivörufyrirtækjum lækkað, raunar hefur gengið þeirra hríðlækkað. Vonast er til þess að Seðlabanki Íslands grípi með sínum styrk inn í þessa atburðarás svo fegrunariðnaðurinn beri ekki varanlegan skaða af og það sem verra er, óróinn hafi ekki áhrif á gengi fyrirtækja er framleiða hráefni til snyrtivöruiðnaðarins svo sem lýsisfyrirtækja. Þó ýmsar aðgerðir á markaði geti mildað það áfall, sem orðið hefur við uppsögn Elínar, er ljóst að ekkert bæti það að fullu nema takist að ráða til keppninnar framkvæmdastjóra er fyllir skarð Elínar eða bætir um betur. Slíkir mannkostir eru ekki á hverju strái. Því er mjög mikilvægt að vinna hratt og örugglega í málinu landi og lýð til heilla.  Nú er það svo að á landi voru er mannkostur sem léttilega getur leyst þann vanda sem upp er kominn, og rúmlega það. Afburðafólk er hins vegar einatt tregt í taumi og því grunar mig að einungis samtakamáttur þjóðarinnar skipi málum í rétt horf. Vestur á Ísafirði býr Matthildur Helgadóttir. Sú kona hefur um nokkurt skeið rekið veitingastað á Ísafirði í fágætri sátt við nágranna sína enda Ísfirðingar ekki þekktir af því að níða skóinn hver af öðrum. Matthildur er einnig mikill aðdáandi fegurðarsamkeppna og hefur fylgst með þeim um áratuga skeið af aðdáunarverðri nákvæmni. Munu ekki margir eiga í fórum sínum jafn viðamikið safn úrklippna af fegurðarsamkeppnum og hún. Kjólasafn hennar, úr fegurðarsamkeppnum,  er einnig þekkt langt útfyrir landsteinana. Nú er tímabært að beisla þennan mikla áhuga Matthildar þjóð vorri til heilla.  Því hafa nokkrir einlægir áhugamenn um fegurðarsamkeppni ákveðið að ýta úr vör undirskriftarsöfnun þar sem skorað verður á frú Matthildi að taka umrætt starf að sér. Nánari fréttir af málinu munu berast á öldum ljósvakans innan tíðar.  Fyrir hönd félags íslenskra fegurðarljóma-FÍFLHalldór Jónsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband