Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Heppin að eiga alvöru miðbæ.

Alveg frá því ég kom fyrst til Ísafjarðar hef ég hugsað með mér hvað við erum heppin að eiga alvöru miðbæ.  Á ferðum mínum um landið hef ég tekið eftir því að þetta er frekar undantekning en regla.  Þó skipulagið hjá okkur sé það gott að við þurfum ekki að búa til miðbæ þá þarf að gæta að stemningunni, góð miðbæjarstemning kemur ekki að sjálfu sér.  Hana þarf að rækta.

Það er því mikið fagnaðarefni að í dag voru stofnuð Miðbæjarsamtök Ísafjarðar. Hátt í þrjátíu konur og karlar mættu á stofnfundinn fyrir hönd verslana og þjónustufyrirtækja á eyrinni á Ísafirði. Markmið og tilgangur félagsins eru eftirfarandi. 

Að vera málsvari hagsmunaaðila í verslun, viðskiptum, veitingasölu og þjónustu á svæðinu auk annarra aðila sem hafa hagsmuna að gæta.

Að vera málsvari hagsmunaaðila í skipulags- og umferðamálum og  öðrum málum sem snúa að Ísafjaðrabæ og öðrum opinberum aðilum.

Beita sér fyrir opinberum umræðum og  aðgerðum í þessum málum, ef og þegar á þarf að halda, félagsmönnum til hagsbóta.

Að standa fyrir sameiginlegri og aukinni markaðssetningu og kynningu á þeirri starfsemi sem fer fram á eyrinni með þjónustu við ferðamenn og íbúa í huga í ört vaxandi samkeppni við aðra landshluta.  Vekja athygli á miðbæ Ísafjarðar, sögu hans, menningu og athafnalífi.

Stjórn félagsins var kosin í dag, auk mín eru þar Sigríður Sigurjónsdóttir, Gísli Úlfarsson, Ólöf Hildur Gísladóttir og Steingrímur Guðmundsson.  Það verður gaman að vinna með þessu kraftmikla fólki enda spennandi verkefni eru fram undan við að efla starfsemina í miðbænum okkar.  Fegra, snyrta og endurlífga í samstarfi við hvern þann sem lagt getur málinu lið.  Ég heiti á alla áhugasama að senda okur póst á netfangið midbaer@snerpa.is með hugmyndir og ábendingar.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband