20.3.2007 | 00:05
Segjum það umbúðalaust.
Það er alveg yfirgengilegt hvað mikið drasl fylgir okkar vestræna lífstíl. Hvert sem ég lít eru umbúðir. Pappakassar. Plastpokar. Bréfpokar. Bóluplast. Gjafapappír. Öskjur. Plastfilma.
Ef ég skrepp út í búð til að kaupa krem, svo það frjósi ekki á mér nefið sit ég uppi með kremdollu sem gjarnan er stór að utan en lítil að innan. Væntanlega gert svo ég haldi að ég sé að fá meira fyrir peninginn. Kremdollan er sett í lítinn pappakassa, sem er samt oftast aðeins of stór, með þar til gerðum fölskum botni. Væntanlega gert svo ég haldi að ég sé að fá meira fyrir peninginn. Þessi krúttlegi kassi er síðan plastaður og alveg ótrúlega erfitt að ná bansettu plastinu utan af. Þessu er síðan skellt í lítinn plastpoka og þá erum umbúðirnar orðnar þyngri en kremið og umfang þeirra margfallt. Staðan krem 1 umbúðir 4
Þó reynslan af kreminu hafi næstum slegið mig út af laginu hætti ég ekki búðarápinu. Fór í bókabúðina til að kaupa mér tímarit. Svipaðist vongóð eftir góðu feminísku blaði en fann ekkert og keypti því húsablað. Fyrir þau sem ekki vita hvað það er þá er skilgreining okkar Deddu vinkonu á húsablaði sú að húsablað er blað um hús og allt mögulegt sem hægt er að setja inn í hús. Blaðinu var pakkað inn í plast og inn í plastinu var einhver auglýsingabók og tilboð í öðru plasti í plastinu. Ég sá við stráknum sem afgreiddi mig og harðneitaði að leyfa honum að láti blaðið mitt í poka. Staðan blað 1 umbúðir 2, hefðu verið þrír ef ég væri ekki svona fljót að hugsa.
Öll þessi innkaup gerðu mig svanga og ég skrapp í matvörubúðina. Keypti paprikkur, hverri einustu var pakkað í plast. Nokkra tómata, á frauðplastbakka og í plasti. Appelsínurnar hafði ég lausar og líka laukinn. Brauð í poka. Hrísgrjón í poka og kassa. Mjólk í fernu. Lambakjöt í poka í álbakka í pappahólk. Öllu þessu kom ég svo í einn poka. Staða matur 8 umbúðir 11
Samtals gera þetta 10 vörur gegn 17 umbúðum. Þó sýndi ég þrisvar umhverfisvæna tilburði og neitaði mér um poka. Afkomendum okkar mun þykja mikið til arfleiðarinnar koma, ruslahaugar og mengun. Margt lítið gerir eitt stórt. Hættum að pakka inn gjöfum, felum þær undir skyrtum og fyrir aftan bak. Upp á skáp eða undir rúmi. Segjum það umbúðalaust.
Athugasemdir
Þetta er alveg hárrétt hjá þér. Og svo er þessi sífellda hræðsla við mengun. Þess vegna verður að pakka öllu kyrfilega inn. Lausasala nánast bönnuð. Og svo heldur fólk að það þurfi ekki að skola, af því það var svo vel pakkað inn í plast.
En hefurðu nokkuð keypt þér sjónvarp eða slíkar græjur nýlega. Þá kæmist þú nú fyrst í umbúðir. Fyrst kemur stór kassi, svo kemur plast, svo kemur frauðplast, svo koma allskonar litlir pappakassar utan um hvern hlut fyrir sig, og svo.............
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.3.2007 kl. 08:54
Ég hef oft verið að spá í þetta. Sérstaklega þegar maður á engan innkaupapoka til þess að setja í ruslið. Hvað er að gerast? Getur verið að maður hendi meira rusli en maður kaupir inn? hmmm.....
Svo annað sem mér dettur oft í hug. Maður fer stundum í sveitina sína og dvelur þar eins og eina helgi. Þegar maður svo fara að huga að heimferð þá stendur eftir einn stór svartur af rusli. Ótrúlegt. Þegar ég var púki í sveitinni þá var engin ruslafata. Pokar og krukkur voru notaðar aftur því að það var auðvitað alltaf verið að sullta, baka brauð og búa til ýmislegt og í það nýttist svona umbúðir. Matarafgangarnir fóru í hundana eða hænurnar.
Eygló J. (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 09:14
Þetta er ágæt hugleiðing og hárrétt. Það fer alltof mikil fyrirhöfn í að farga umbúðum, jafnvel keyra þetta dót upp í sorpu. Maður ætti kannski að biðja verslanir að taka umbúðirnar strax á þeirri forsendu að þú sért að kaupa vöruna en ekki umbúðirnar.
Haukur Nikulásson, 20.3.2007 kl. 10:17
Neytendur geta neitað að taka með sér umbúðirnar og þá þurfa seljendur að losa sig við þær og þaðan mun svo koma þrýstingur á framleiðendur til að takmarka umbúðir eins og hægt er. Flott Matta!!!
Bið að heilsa Deddu
Frábært þetta blogg og hvernig maður hittir aftur gamla vini og félaga.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 20.3.2007 kl. 10:21
Svakaleg þetta rusl, það er alveg satt. Ég friða umhverfissamviskuna örlítið með því að fara með taupoka í kaupfélagið, en það er alveg ægilegt hvað tunnan fyllist hratt af pappakössum utan af morgunkorni (sem eru svo þykkir að það mætti halda að í þeim væru fluttar bækur) og öllu hinu draslinu sem fylgir daglegum aðdráttum.
Harpa J
Harpa Jónsdóttir (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 17:43
Þetta með kremið , ég fer nú bara í abótekið og kaupi mér möndluoliu hún er í plast flösku, en hún er full af olíu. Svo kaupi ég mér alskonar olíur til að setja út í möndluolíuna. Þetta Matta mín er það besta sem þú færð fyrir húðina frá toppi til táar. Og ódýrt. Ég er sammála ykkur með umbúðirnar og ég tala nú ekki um jólin ,en það má minka það á margan hátt, bara nota hugmyndaflugið t.d. má búa til poka úr lérefti sem fæst í rúmfó á 200 kr pr m. stensla mynd á hann bynda band fyrir fýnar umbúðir sem má nýta svo undir annað. Æ! Æ! nú er ég komin langt út fyrir allt.
gmilla (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 19:22
Hér í Eiðinaborg fáum við bláan bala fyrir allan pappa sem til fellur á heimilinu (fernur, umbúðir) frá borgarstjórninni, rauðan fyrir allt gler og niðursuðudollur, bláan poka fyrir dagblöðin og brúna tunnu fyrir garðruslið. Svo er þetta sótt til okkar af stéttinni á 2-3 vikna fresti, og allt saman nýtt aftur í þar til gerðum maskínum í dagblaðaðapappír, glerflöskur og guðmávitahvað. Og svo höfum við audda svartan ruslapoka undir flöskur og mjólkurbrúsa úr plasti sem við tæmum sjálf í næsta flöskugám og venjulega tunnu fyrir annað rusl en þetta. Þetta fyrirkomulag er auk þess að vera vistvænt með afbrigðum einnig atvinnuskapandi - kannski hugmynd fyrir byggðarlög þar sem vilja auðga hjá sér atvinnulífið?
Vilborg Davíðsdóttir (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 20:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.