Klappað fyrir Þorsteini og Guði

Ég fór á tónleika með öðlingnum Þorseini Hauki Þorsteinssyni í Ísafjarðarkirkju í gærkvöldi.  Kammerkórinn, Kristín Lilja Kjartansdóttir og Guðrún Jónsdóttir sungu með Hauki og við góðar undirtektir tónleikagesta enda tónleikarnir hinir ágætustu og náði kórinn að framkalla gæsahúð, jafnvel á forhertustu rokkaðdáendum eins og undirritaðri. 

Það var þó ekki tónlistin sem var mér efst í huga þegar ég gekk út úr kirkjunni í lognið og blíðuna heldur var það tvennt sem sat í huga mér.  Framan á predikunarstólnum í kirkjunni er rauður dúkur með gylltri mynd.  Þar sem ég sat, lét hugann reika og naut tónlistarinnar fór ég að horfa á þessa mynd og spá í hana.  Myndin er af fugli á flugi, líklega dúfu með geislabaug, eftir því sem ég mér sýndist.  Ég skal játa að ég er ekki vel að mér í trúarlegum táknum en fannst samt skrítið að höfuð fuglsins snýr niður.  Þ.e.a.s. það var sem fuglinn væri að fljúga niður í gólf með geislabaug og allt.  Kannski á þetta að vera svona eða kannski var einhver að flýta sér, ég spurði nokkra tónleikagesti um málið en var bara klappað góðlátlega á öxlina, svona þú ert nú alltaf jafn skrítin að vera að spá í svona hluti.  Innst inni langar mig að vita hvort heilagur andi á að vera á uppleið eða niðurleið.

Hitt sem ég hugsaði mikið um og er enn að melta er nokkuð sem sr. Valdimar sagði eftir að hafa lesið faðir vorið á latínu.  Hann fór fögrum orðum um Þorstein Hauk og þakkaði Guði fyrir vináttu þeirra. Hann lauk ræðu sinni með svalasta hóli sem ég hef heyrt lengi þegar hann bað okkur að klappa fyrir þeim báðum, Þorsteini og Guði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ekki veit ég með fuglinn og heilagan anda. En ég komst því miður ekki á þessa tónleika, var að passa barnabörn svo foreldrarnir kæmust.  Ég er viss um að þetta voru aldeilis frábærir tónleikar.  Og auðvitað á að klappa bæði fyrir Þorsteini og Guði.  Annar var flygjandinn og hinn yrkisefnið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.6.2007 kl. 12:33

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Vonandi er þetta bara merki um að heilagur andi eða bara góður andi sé á leiðinni til jarðar og hvetji menn til góðra verka. Ekki veitir af verður manni stundum hugsað þegar litið er yfir leiksviðið.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.6.2007 kl. 13:00

3 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Sem tíður gestur í kirkjunni undanfarnar tvær vikur þá hef ég spáð í þessu líka, með fuglinn sko. Öndarlegt.

Að auki langar mig að benda þér á að þú gleymdir að minnast á það að ég hefði borið af í kórnum. Það væri ágætt ef þú gætir leiðrétt þetta sem fyrst.

Hjördís Þráinsdóttir, 8.6.2007 kl. 15:41

4 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

kannski er það bara einkenni á góðum og heilögum anda að maður viti ekki hvort hann er að fara eða koma.  Og þegar allt kemur til alls skiptir það líklea engu máli.  

Hjördís mín ég bið þig afsökunar auðvitað varst þú best af öllum og í tilefni að því ætla ég að klappa fyrir Hjördísi, og auðvitað þeim Þorsteini og Guði. 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 8.6.2007 kl. 15:47

5 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Já, takk, takk, takk.

Hjördís Þráinsdóttir, 8.6.2007 kl. 21:37

6 identicon

Þetta er náttúrulega tákn um hvert veröldin er hefur farið undir stjórn þessa trúarbákns......norður og niður ;)

Heiðinginn. (IP-tala skráð) 8.6.2007 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband