Að keyra hratt eða ekki

Að keyra hratt er gaman, það finnst mér í það minnsta.  Ég hef í gegn um tíðina vanið mig á að gefa svolítið í úti á þjóðvegum landsins en innan bæjar held ég mig á löglegum hraða.  Ég hef alveg vitað að þetta er bannað og að þetta er bannað vegna þess að þetta er hættulegt og að ég hef minni stjórn á bílnum. Síðast en ekki síst hef ég alltaf vitað að ég ætti að venja mig af þessu.

Það var núna um daginn að ég var á leiðinn heim til Ísafjarðar frá Reykjavík.  Eins og oft áður varð bensínfóturinn eitthvað þungur, þó ekki hafi verið um neinn ofsaakstur að ræða.  Þegar komið var  upp á miðja Steingrímsfjarðarheiðina mundi að ég hafði ætlað að taka bensín á Hólmavík.  Árans tjón, það var annað hvort að snúa við og sækja bensín eða taka upp sparakstur.  Auðvitað snýr kona ekkert við, það er gegn lögmálinu.  Aflið sem togar mann heim er sterkt jafnt hjá okkur mannfólkinu og dýrunum.  Ekki hefði t.d. mikið þýtt fyrir mig að snúa henni Gránu og hinum kúnum við í Alviðru í gamla daga þegar ég sótti kýrnar í haga.  En það er önnur saga.  Nei, á heimleið snýr maður ekki við.  Sparakstur varð fyrir valinu. Ég gætti að því að fara aldrei yfir 90 og hélt snúningshraðanum í 2500 til 3000.   Þetta var ekki auðvelt, satt að segja fann ég fyrir miklum fiðringi alla leiðina niður af heiðinni og langleiðina inn í botn á Ísafirði.  Þá fór þetta að venjast og þegar ég var komin aðeins lengra var ég farin að njóta akstursins, axlirnar farnar að síga, takið farið að losna á stýrinu.  Mikið var þægilegt að keyra svona rólega, algjör slökun.

Bensínið dugði og þessi reynsla hefur kennt mér að mér liggur ekki svona á.  Tíminn sem við græðum með því að stelast til að keyra aðeins of hratt er ekkert græddur.  Í hvað notar kona þann grædda tíma? Ekkert sérstakt í flestum tilfellum.  Enda eigum við öll 24 tíma í sólarhring og sjálfsagt að gera sem best úr þeim öllum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott hjá þér.  Ég man að ég ók einu sinni á Mínum gamla bíl á tanknum frá Ísafirði til Hveragerðis.  Mér fannst það algjört met. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.6.2007 kl. 20:12

2 Smámynd: Ólafur H Einarsson

Mín reynsla er þannig að mér finnst best að keyra á km 80 ( á þjóðvegi ).  Ef ég fer að keyra hraðar fer ég að stífna í herðunum og verð stressaður.  Ég hef margreint þetta halda sig við km 80 eða undir.  Andinn verður frjáls það er hægt að láta hugann reika án þess að missa athygli.  Nú svo maður minnist nú ekki á ljóðagerð eða næsta blogg, næstu blaðagrein eða bók sem maður er að lesa.  Þetta verður vímukennt ástand og áður en maður veit er ég komin á áfangastað.

Ólafur H Einarsson, 11.6.2007 kl. 21:23

3 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Æ þetta hefur verið erfitt hjá þér Matthildur svona í byrjun, en  fjandi er nú annars gaman að kitla pinnann þó maður geri það ekki  því það er bannað.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 12.6.2007 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband