29.6.2007 | 11:09
Það er brostið á leikhús um allan bæ
Nú stendur yfir á Ísafirði einleikjahátíðin Act Alone, fyrir tilstuðlan hins ofvirka leikara Elvars Loga Hannessonar og það kostar ekkert inn. Hér í bænum ríkir frábær stemning og menn og konur geta átt það til að bresta í leik hvar sem er. Rétt eins og þegar leikarar í Bollywood myndum bresta í söng og dans. Fjörið byrjaði á miðvikudaginn hátíðin var sett í Alþýðuhúsinu með hinni ágætu heimildarmynd Leikur einn sem Jóhannes Jónsson hjá digi Film framleiddi. Í myndinni er fjallað um þessa alþjóðlegu einleikjahátíð og um einleik sem slíkan. Þar á eftir sá ég tvo stutta einleiki í Hömrum. Nefndarformaðurinn í Mannanafnanefnd og Álitsgjafinn héldu okkur í hláturskasti allan tímann. Einhverjir í hópnum enduðu kvöldið á Langa Manga, enda bjórinn þar á kaupfélagsverði fyrir þá gesti sem mæta í grænum Act Alone bol eða með merki hátíðarinnar. Allt í einu klappaði Elvar Logi saman höndum og hrópaði. Leikrit. Leikrit. Það skipti engum togum að tveir gestanna fóru með lítinn leikþátt. Vakti þetta uppátæki mikla kátínu viðstaddra. Því miður hef ég ekki haft tíma til að sjá öll leikritin en í gærkvöldi sá ég The secret face í Edinborg. Á sviðinu mátti sjá allt það helsta sem þarf í góðri tilveru, rólu, fartölvu, þúfu og foss. Þetta var hin besta skemmtun þó fossinn hafi stundum yfirgnæft hvíslið en ástfangna konan hélt mér bergnuminni allan tímann.
Hátíðinni er hvergi nærri lokið og vil ég hvetja alla til að kíkja í leikhús. Það er eitthvað alveg sérstakt við nándina í leikhúsi og ég er ekki frá því að hún sé áhrifaríkari þegar leikarinn er einn á sviðinu. Það er svo einkennilegt að það er ekki fyrr en kona situr í leikhúsinu á sýningu að hún fattar hve sjónvarpið er dauður miðill miðað við leikhúsið.
Athugasemdir
Þetta er bara gaman og vonandi skemmta allir sér vel þessa viku.
Svona er það að búa úti á landi alltaf eitthvað að gerast.
Reykjavik býður líka upp á fullt afþreyingarefni, einhvern veginn sækir maður það ekki eins og úti á landi.
Æ mér hefur ætíð fundist sjónvarpið leiðinlegur miðill nema fréttir og kenni þættir af ýmsu tagi. horfið bara á börnin leika leikrit úti í garði eða bara kaffihúsa-menninguna, fólk situr saman við borð og segir sögur og brandara og það er svo gaman að allir vilja taka þátt. saman.
Kveðjur Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 29.6.2007 kl. 12:59
Málið er að ég er bara svo dauðþreytt á hverju kvöldi núna. Er að sjæna til bæinn og það tekur ótrúlega mikinn toll. Vinur okkar hjónanna Hörður Torfason lét sig ekki vanta. Þessi elska og er alveg á fullu að fara á sýningar og fylgjast með. En þetta er alveg frábært framtak hjá Elvari Loga.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.6.2007 kl. 20:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.