7.8.2007 | 20:15
Kötturinn vann. Gott heimili óskast fyrir naggrís.
Undanfarna mánuði hefur naggrísinn Ástríkur Skúli Svansson búið hjá okkur í Öldunni. Þetta væri kannski ekki í frásögu færandi ef Kúra Jónína, virðurleg en ættlaus kisa, ætti ekki líka heimili hjá okkur. Auðvitað var það óðrar konu æði að ætla þeim að búa saman því eðli kisu er að langa ósköp mikið að smakka aðeins á naggrísum. Hún þykist þó alveg virða að hann er vinur okkar og sýnir honum fálæti þegar við sjáum. En um leið og við erum farin úr augsýn leggst hún hjá eða á búrið hans og potar smá. Sum kvöld lætur hún sér nægja að fylgjast með hverri hans hreyfingu. Þó blessað nagdýrið sé með stáltaugar er víst ekki hægt að ætlast til þess að það eigi áhyggjulaust ævikvöld búandi með rándýri. Við höfum ekki þorað á láta á það reyna hvort hún ætlar bara að þrífa garminn á bak við eyrun eða éta hann. Því geta börnin ekki leyft Ástríki að leika lausum hala nema tryggt sé að Kúra sé úti.
Það varð því úr að bjóða blessað kvikindið til sölu. Hálfs árs naggrís mórauður og gulur með hanakamb í stóru búri bíður eftir nýrri og betri fjölskyldu. Einungs góð fjölskylda kemur til greina, gjarnan barnafjölskylda en síður kattaheimili. Ástríkur blessaður hefur fengið sig full saddan af sambýli við ketti. Hann langar aftur á móti til að kúra hjá góðum krakka af og til, milli þess sem hann unir sér í sínu búri við át. Best þykir honum auðvitað salat og annað nýmeti en hann lætur sér vel líka við þurrfæði. Ef vatnið klárast kvakar hann þar til einhver kemur og bæti úr. Það er von mín að einhvern vanti einmitt gæludýr af viðráðanlegri stærð.
Athugasemdir
Elsku kerlingin mín er hann enn í bráðri lífshættu heima hjá þér?
Ég er með frábært heimili handa honum í númer 14, bara nokkur skref frá þér.
Á fullt af börnum og engan kött. Ein grænmetisætan í viðbót á heimilið, ekki málið.
Svolítið ógnvænlegur köttur sem þú átt þarna. Ég skil naggrísinn vel.
Bíð spennt að vita.
Anna Guðrún Gylfadóttir (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 11:31
Ég get líka tekið hann.... get auðvitað ekki borgað hann fyrr en í næsta lífi þar sem atvinnuleysi hrjáir heimilið!!!!!
En hér er bara hundur og fullt af börnum. Og hundurinn minn er ekki ofbeldishneigður gagnvart öðrum dýrum :) Nema þá helst köttum. En okkur þykja þeir ekkert skemmtilegir svo að það er allt í lagi. Einhvern veginn eru kettir of miklir feministar fyrir minn smekk :)
Ylfa Mist Helgadóttir, 8.8.2007 kl. 14:14
Allt er gott sem endar vel. Naggrísinn Ástríkur hélt á vit nýrra ævintýra í húsi númer 14 í dag. Þar munu tvær ungar systur og fjölskylda þeirra dekra hann og knúsa frá morgni til kvölds. Við Kúra óskum þeim alls hins besta.
Ylfa mín takk fyrir gott boð, ég skal hafa þig í huga ef ég fæ leið á fleiri fjölskyldumeðlimum.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 8.8.2007 kl. 18:29
Húrra !!!
Nú kemst ég í heimsókn í á ný. Annars er ég mikill dýra vinur en þetta eru þau mest óaðlaðandi smá.....!!!HROLLUR !!!....sem ég veit um í dýraríkinu. Húrra Kúra við unnum!
Gréta Skúla (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.