11.8.2007 | 23:02
Af fagurhyrndum hreindýrstarfi og brotnum flísum
Ólíkt höfumst við systur að. Á meðan hún var austur á landi, liggjandi með riffilinn í lyngbeði upp á heiði að bíða eftir hreindýri, var ég heima vopnuð hamri að mölva flísar til þess eins að líma þær aftur saman. Höfðum við báðar af þessu nokkuð gaman. Í dag ætlaði ég raunar bara að segja ykkur veiðisögu af henni systur minni og hennar manni en er svo sjálfhverf að ég gat ekki stillt mig um að lauma mér í innganginn.
Allt um það. Systir mín og mágur, Kristín og Brynjar, fóru nú á dögunum austur á land á hreindýraveiðar. Enda hafði þeim verið úthlutað tveimur törfum. Þau hafa veitt saman og sitt í hvoru lagi í mörg ár, en þetta var í fyrsta skipti sem þau reyndu við hreindýr. Nokkur spenningur var í lofti og mátulegur metingur, því auðvitað skipti öllu máli að drepa dýrið í fyrsta skoti og ekki skipti það minna máli að hver fengi stærra dýr. Veiðidagurinn rann upp bjartur og fagur. Einhver menningarmunur virðist á milli íbúa á Vestfjörðum og þarna fyrir austan því hún rak upp stór augu þegar hávaxin vera í appelsínugulum serk, sem reyndist vera leiðsögumaðurinn, bar fram skyrhræring og lýsi í morgunmat. Heima á Þingeyri voru þau vön að fá sér brauð með rabbbarasultu. En í Róm hagar maður sér ekki eins og útlendingur og auðvitað létu þau ekki á neinu bera, enda var þeim sagt að þau gætu fengið nóg af helvítis brauðdrasli síðar um daginn.
Nú erum við komin á þann stað í sögunni að sum ykkar ættu að hætta lestri. Þá á ég við félaga í Green peace, dýravini og þá sem ekki vilja vita hvað varð um pabba hans Bamba. Eftir að hafa beðið í veiðibiðröðinni í nokkurn tíma á meðan næstu veiðimenn á undan voru að eltast við sín dýr kom loks að þeim. Eftir að hafa legið stutta stund og fylgst með hjörðinni var Brynjar snöggur að ná sínu dýri, eitt skot í hjartað og framtíð hans, þ.e. tarfsins, að engu orðin. Núna verð ég líklega að draga aðeins í land því framtíð hans varð þarna ráðin, að metta tugi manna og kvenna sem kunna að meta góða villibráð.
Víkur nú sögunni aftur að Giddý sem lá um stund með leiðsögumanninum í lynginu, bíðandi eftir því að góður tarfur kæmi í færi og engin önnur dýr væru og nálægt. Þá á ég bæði við köngulær sem fipað gætu skyttuna og önnur veiðidýr í hjörðinni. Eftir ótrúlega skamman tíma var hún kominn með stærsta, eða í það minnsta næst stærsta tarfinn í sigtið og skaut. Hafði að vísu áhyggjur af því að þetta væri of langt færi og gleymdi að gá að því hvort nokkrar köngulær væru nálægt. Auðvitað steinlá blessuð skepnan, fjögurra vetra tarfur með fjögurra spaða krónu. Steinlá með sundurskotna mænu eftir hálsskot á 200 metra færi.
Ég ætla ekki að reyna að lýsa tilfinningu þess sem skýtur svona stóra skepnu en bara það að skrifa um þetta fær hjarta mitt til að slá örar. Um mig hríslast undarleg tilfinning, blanda af öfund og leiða. Öfund yfir veiðigleðinni og leiði yfir því að drepa svona tignarlega skepnu.
Athugasemdir
Til hamingju með dýrin ykkar Kristín og Brynjar, þetta er besta kjöt sem til er,
Það er sama hvernig þú borðar það, í bollum, hamborgurum, hakkið í alla hakk rétti, grillsneiðar og svo ég tali nú ekki um léttsteiktan hryggvöðva,
með koníaks sveppa rjóma sósu gljáðu grænmeti og smjörsteiktum kartöflum.
allt er þetta tær snilld, en það hlýtur þú nú að vita Matthildur mín kæra,
þið hljótið að bjóða í mat annað slagið.
Þið eruð nú meiri kjarnakonurnar það er örugglega leitun að öðrum eins
konum. Þú verður að segja okkur hvað þú ætlar að gera úr flísabrotunum,
eigi varst þú að mölva þær bara til að fá útrás????.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 12.8.2007 kl. 13:00
Flísabrot er góð útrás en þær enduðu á borðum Langa Manga ég set inn myndir af því seinna.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 12.8.2007 kl. 17:22
Já Matthildur og ég get svo svarið að þessar borðplötur eru algjör snilld, ég skora á þig að taka myndir af þeim og setja hér inn, eða á ég ef til vill að gera það ?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.8.2007 kl. 18:03
Mig langar bara að tala um flísabrotin og setja inn ósk um að sjá listaverkin á borðum Langa Manga....
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 12.8.2007 kl. 20:37
Hreindýrabollur eru æði!
Langar að sjá listaverkin þín ....
www.zordis.com, 12.8.2007 kl. 22:37
Jæja Matthildur hin óbeislaða, hér er greinilega komin áskorun um myndir af borðunum á Langa Manga
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.8.2007 kl. 23:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.