27.8.2007 | 16:28
Nú ætla ég að taka á því
Ég hef ákveðið að að gefa hjarðhugsun minni lausan tauminn og fara í átak. Allsherjar átak á líkama og sál. Ég mun á meðan á þessu átaki stendur borða lítið en hollt. Borða fæðubótaefni, vítamín, brennslutöflur, prótein, lífrænt ræktað grænmeti, fitulaust og kryddlaust kjöt, fisk ávexti og drekka hreint vatn úr jarðgöngunum. Ég ætla ekki að borða snakk á kvöldin, ekki brauð með sultu jafnvel þó hún komi frá Ylfu Mist. Ekki drekka gordrykki, bláa mjólk, bjór eða annað áfengi. Ég ætla að notast við alla þá kúra sem um getur, í einu. Græna kúrinn, kaffi og limekúrinn, vodkakúrinn og taka inn Hörbalæf. Alveg helling af töflum, dufti og drykkjum sem mun hjálpa mér í baráttunni við vindmyllurnar.
Með þessu ætla ég að hreyfa mig reglulega. Koma mér í form. Ég mun fara í ræktina a.m.k. einu sinni á dag. Ganga í vinnuna og hætta að nota lyftur. Gera hundrað armbeygjur, hlaupa 5 km á brettinu, fara í jóga, listdans, búttkamp, gólfæfingar, mrl og spinning. Í spinning mun ég öskra með til að sýna öllum hvað mér er mikil alvara í þessu öllu.
Já, nú ætla ég að taka það með trompi sem aldrei fyrr. Kaupa mér nýjar íþróttabuxur, skó, íþróttahaldara, sokka, brók, bol, peysu og brúsa. Það má ekki klikka á litlu hlutunum, allir sem eru í alvöru að æfa eru með brúsa. Ég ætla að missa alveg rosalega mörg kíló en verða jafnframt mjög stælt. Enga bingóvængi, appelsínuhúð eða slappan maga. Fólk eins og Opra mun tárast yfir árangri mínum.
Ég verð orðin svo mjó og spengileg að þið munuð ekki þekkja mig aftur þið, haldið eflaust að ég sé útlendur, ferðamaður og engin mun heilsa mér. Við mig verður bara töluð útlenska í búðunum hér, því þið nennið ekkert að tala íslensku við útlendinga þó þeir kunni íslensku. Börnin mín munu ekki vilja tala við mig, vinirnir snúa sér annað og Gummi mun ekki hleypa mér uppí...... Vitiðið ég er að spá í að fresta þessu átaki aðeins, hugsa þetta aðeins betur. Ekkert liggur á.
Athugasemdir
Almáttugur Matta!!! Þú hefur fengið gerjuðu sultuna!!
Þetta líður hjá.....
Ylfa Mist Helgadóttir, 27.8.2007 kl. 17:44
Nei það liggur ekkert á það eru að koma jól, tekur því ekki að byrja.
Samt gott að fá svona pistil, við erum búin að hlæja okkur máttlaus
ég og maðurinn sem ég hef afnot af.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 27.8.2007 kl. 18:17
Trúðu mér Matthildur....þessir kúrar virka ekki, hvorki einn og sér né allir í bland. Eini kúrinn sem virkilega dugar er hvítvínskúrinn. Svo þegar þú hefur hugsað þig um nógu lengi er ég til í að taka á því með þér og hvítvínskúrnum. Hann má bara ekki renna saman við rauðvínskúrinn um jólin.
Auður (IP-tala skráð) 27.8.2007 kl. 19:01
ég hélt í byrjun að þetta væri alvöru alvöru .. Skal kom með þér í hvítvínskúrinn hvenær sem er.
amma (IP-tala skráð) 27.8.2007 kl. 19:18
Mér líst vel á það að bíða aðeins, það er enn tæpt ár þar til þú ferð í Karabíska að spóka þig á bikiní! ekki vitu að ég verði eins og Hrefna við hlið þér á sólbekknum ? það væri nú samt kúl ef við værum öll í KJÖR-þyngd eins og hann Gummi elskan.Sjáumst vonandi í gorme hádeigsmat hjá YLFU á Langa.
Gréta Skúla (IP-tala skráð) 28.8.2007 kl. 00:30
haha... las einmitt fyrstu línurnar í þeirri trú að þetta væri alvöru :-)
Áfram hvítvínskúrinn !
Linda Pé, 28.8.2007 kl. 08:59
Ég var einmitt að velta þessu sama fyrir mér, ákvað að taka kolveitnakúrinn, borða BARA kolveitni! :)
Þórdís
Þórdís Einarsdóttir, 28.8.2007 kl. 09:06
hörbó?
það nýjasta núna er pole púl....eða eitthvað...sem sagt súludans. Getur Gummi ekki sett upp súlu á langa manga?
Steingrímur Rúnar Guðmundsson, 28.8.2007 kl. 10:26
Ég sé það nú alveg í anda (þ.e. súluna á Manga)...
Harpa J (IP-tala skráð) 28.8.2007 kl. 11:20
Já það er ekkert annað....
Ég hafði áhyggjur framan af greininni og varð mjög þreytt.
Hafði miklar áhyggjur að ég þyrfti að sitja ein við fínu Langa borðin drekka allan bjórinn sjálf.
Það á aldrei að gera það í dag sem hægt er að fresta til morguns.
Gló Magnaða, 28.8.2007 kl. 16:16
Þetta líst mér á, gera hlutina af alvöru ég get selt þér allt það duft,pillur og dót sem þig vantar bara nefna það. Ég á meira að segja flottar pillur fyrir Gumma líka sem eru sérstaklega innfluttar frá BNA. Um leið og hann byrjar á þeim þá þarft þú að vera "TILBÚIN" hann verður óður í þig hahahah:)
Kosturinn við þetta líf er að öllum er frjálst að velja sitt munstur og vera sáttur við það, ég persónulega væri til í að hafa aðeins meira þrek. Ég held að við öll vildum örugglega hafa aðeins meira að einhverju bara spurning hvað það er.
Gangi ykkur vel í hvítvíninu í vetur.
Torfi Jóhannsson - Framtíðin er okkar., 30.8.2007 kl. 18:31
Þetta er persónulegt met hjá mér. Féll áður en ég byrjaði. Ég er góð!
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 31.8.2007 kl. 16:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.