Þjónusta, góð þjónusta og hin líka

Nú á dögunum þurfti ég að sinna nokkrum erindum í Reykjavík og fékk sú ferð mig til að hugsa mikið um þjónustu.  Góða þjónustu og hina líka.

Ég tók flugið með Flugfélagi Íslands sem tók upp á þeirri nýbreytni að ræsa okkur eldsnemma til að láta vita að þeir hefðu flýtt fluginu.  Einu sinni voru þeir alltaf aðeins of seinir en það hefur greinilega verið tekið mjög duglega á því vandamáli.  Skutulsfjörðurinn var fullur af þoku og ætlunin var að lenda Þingeyri. Auðvitað var flugveður í Dýrafirði en eins og trúir lesendur  vita er alltaf gott veður í Dýrafirði, einkum sólarmegin.  Við vorum flutt gegnum göng og yfir heiði í forláta lagferðabíl og mátti ekki milli sjá hvor var eldri rútan eða bílstjórinn.  Hann gætti þess að aka varlega með okkur, sérstaklega upp brekkurnar.  Var greinilega ekki einn af þessum atvinnubílstjórum sem stelst til að keyra of hratt.  Það er þakkarvert að hann ók á 35 upp Gemlufallsheiðina til þess eins að við gætum talið aðalbláberin í vegkantinum.  Þegar við loks komum á flugvöllinn var okkur tilkynnt að flugvélin gæti ekki lent þar en væri farin til Ísafjarðar.  Hvernig mátti það vera?  Það er harla ótrúverðugt að veðrið hafi ekki verið nógu gott þarna í Dýrafirðinum, þó þokan hafi legið niður í miðjar hlíðar.  Það er krydd í tilveruna að fá óvæntan bíltúr í morgunsárið og vanþakklæti að vera með eitthvað röfl enda ætla ég ekki að falla í þá gryfju.  Strákarnir hjá flugfélaginu voru líka svo almennilegir að láta okkur ekki borga neitt aukalega fyrir þessa auknu þjónustu og ég er þakklát fyrir það.  

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á hvað ég var glöð og fannst ég vera heppin þegar ég tók við bílaleigubílnum hjá Bílaleigu Akureyrar.  Ekki einasta að ég fengi rauðann bíl, sem mér finnst mikið atriði, heldur var útvarpið stillt á rás 1.  Þetta jafnast á við að koma inn á hótelherbergi með konfekti og ný afskornum blómum.  Það var brosandi kona sek ók inn í óvissuna með róandi morgunleikfimi Halldóru Björns.

Ég hef alltaf drukkið kaffi, alveg frá því að ég man eftir mér, sumir segja að ég hafi byrjað þriggja ára og þess vegna skorti mig hávöxt.  Að vísu var frekar hægt að tala um mjólk með smá kaffi og slatta af sykri fyrstu árin en það hefur þróast í stífa expressódrykkju. Þess vegna má segja að ég sé með kaffi á heilanum og taki sérstaklega eftir öllu kaffitengdu. Ég drekk að vísu ekki flugvélakaffi lengur en finn ilminn og fylgist með.  Ég tók í fyrsta sinn eftir einu mjög merkilegu atriði í þjónustunni um borð í flugvélinni þennan dag.  Flugþjónninn trillaði með kaffið fremst í vélina og byrjaði á því að gefa flugstjórunum kaffi áður en kom að farþegunum.  Þetta þýðir í raun að starfsmenn félagsins sem eru að vinna vinnuna sína fá betri þjónustu en viðskiptavinirnir.  Sjálfsagt gömul hefð en í dag er þetta óneitanlega svolítið sérstakt.  

Meira um kaffi og þjónustu, ég og góð vinkona mín fórum á kaffihús í miðbæ Reykjavíkur og þar tók á móti okkur indæl stúlka með orðunum "can I help you" ég varð hálf hissa en hélt mínu striki og pantaði á íslensku sem gekk ágætlega þó hún svaraði mér alltaf á ensku.  Mér skilst að það sé frekar regla en undantekning að þjónarnir tali ekki íslensku í Reykjavík dag en mikið hefði verið notalegt ef hún hefði verið búin að læra góðan dag og takk fyrir komuna.  Eitthvað vorum við stöllur óhressar með kaffið og ákváðum að skjótast yfir götuna í kaffihús sem við vissum að bar einungis fram úrvals kaffi.  Þar var okkur aftur á móti tilkynnt, á íslensku að vísu, að þeir ætluðu að loka eftir sjö mínútur og við gætum bara keypt kaffi til að taka með okkur út.  Hafi ég verið hissa á útlenskunni þá sló þetta mig alveg út af laginu.   

Fer þjónustunni aftur eða fer mér svona fram? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg var þetta yndislegur lestur. Vona samt að þetta verði ekki að vana hjá flugfélaginu að taka farþega í svona bíltúra fyrir flug.

amma (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 20:39

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Djísús Matta einn daginn drepurðu mig úr hlátri, ég get svo svarið það.

En þetta með þjóna í Reykjavík og á fleiri stöðum það er orðin lenska að allir þjónar tali erlend tungumál, en ekki íslensku. Einhverskonar tíska held ég.  Og ferðaþjónustan ég á eftir að taka svolítið til að ræða þau mál á breiðari grundvelli.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.9.2007 kl. 00:57

3 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Góð rein hjá þér --
Og þjónusta er orð sem vissir aðilar hjá vissum flugfélögum þekkja ekki

Halldór Sigurðsson, 1.9.2007 kl. 22:28

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Just wanted to say..hope you had a good flight AND you can have my coffee!!! Everybody who can tell how many blueberrys are out there in the fog will be rewarded by icelandicspeaking kaptein.

Stórkemmtilegur pistill frú Matthildur. Mér líður betur að vita að það er líka töluð enska á kaffihúsunum heima eins og hér. En ég er reyndar í Englandi!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.9.2007 kl. 12:04

5 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Á Langa Manga er griðkan ekki einasta íslensk, heldur tínir hún aðalbláberin í vegkantinum og gerir úr þeim dýrindis sultutau sem borið er fram með nýjum vöpplum. En eitt mun griðka sú alltaf gera (og fagnar hún þeim skilningi starfsmanna Flugfélags Íslands að skenkja vinnandi mönnum kaffi á undan þeim sem sitja og gera ekki neitt) hún fær sér ALLTAF kaffi á undan kúnnanaum. Annað væri bara rugl!

(og ég skil þessar vel þarna með sjö mínúturnar. Þær hafa bara frétt hvað þú ert langsætin og erfitt að koma þér út eftir lokun)

HAHAHAHAHAHAHAHA

Ylfa Mist Helgadóttir, 3.9.2007 kl. 19:22

6 identicon

ég verð nu bara að segja Matta að mér finnst þú alveg ótrúlega góður penni :) ég hafði mjög gaman af þessum lestri

Guðmunda í Símaverinu :) (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 17:02

7 identicon

 Flugvélakaffi er nú hvorteðer ódrekkandi andskoti. Varðandi reykjavíkina þá hef ég einmitt tekið eftir því síðan ég fluttist hingað úr Skotlandinu (þar sem allir tala engelsku bókstaflega út um allt) að það er nokk sama hvort kona er á veitingahúsinu (t.d. Caruso í gærkveldi), strætó eða sjoppunni: Fólkið í þjónustunni talar tóma útlensku.  Við horfðum út um gluggann á Caruso við Laugarveginn og sáum þar Fashion no.1 og 66 North og sáum að þetta var stórsparnaður; ekkert mál að ímynda sér að kona væri stödd í Bretlandi!

Villa (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 19:50

8 identicon

Alveg er ég sammála þér með þessa þjónustu. Ég fór á veitingastað á Mývatni um daginn, Þar voru þrjar að afgreiða/þjóna og töluðu tvær bara ensku. Ég talaði mína hreinu Vestfirsku en þegar þessi eina íslenska fór að tala við mig á ensku þá gat ég ekki orða bundist. Hún bað mig nú reyndar afsökunar og hélt bara að ég væri útlendingur. Ég sem er bæði ljóshærð og með vestfirkst vaxtalag  það voru nefnilega svo margir útlendingar sem komu á staðinn og ég skar mig ekki úr grenilega.

En ég er alveg sammála þér að það er góð þjónusta hjá flugfélaginu að bjóða upp á morgunstund í Dýrafirði! er ekki slagorð flugfélagsins "upplifðu"!?

Halla Signý (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 08:13

9 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Múahahahaha!! Varð bara að kvitta. Las þessa færslu AFTUR!! Djöfull get ég hlegið!! Shit! Verð að fara að pissa!

Ylfa Mist Helgadóttir, 5.9.2007 kl. 18:13

10 Smámynd: Gló Magnaða

Flaug fram og til baka á miðvikudaginn og það var eitt sem vakti athygli mína, í bakaleiðinni var "gömul" flugfreyja (Þó nokkrum árum eldri en ég) (Meira að segja vel eldri en Matta þegar hún er sem elst). Þessi "aldraða" flugfreyja var alveg stórkostleg. hrikalega utan við sig og skemmtilega kærulaus, bæði þegar hún var að þylja upp reglur flugsins og skennka kaffinu.   Minnti mann á ónefnt veitingahús á Ísafirði þar sem þjónustan er skemmtilega utangátta.

Fleira að svona fólk í þjónustu !!

Ég sé fyrir mér auglýsinguna:  Ertu gömul og utan við þig? Kontu þá og vinntu fyrir okkur.

Gló Magnaða, 7.9.2007 kl. 14:24

11 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Sko það er ekki bara það að Matta sé skemmtilegur penni heldur eru bloggvinir hennar líka svo flinkir að kommenta finnst mér. Bæði skemmtilegt!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.9.2007 kl. 09:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband