21.9.2007 | 17:34
Keðjubréf eru kæfa
Ég fæ stundum keðjubréf í tölvupósti og satt best að segja veldur það mér ákveðnum pirringi. Allt frá léttu dæsi að fullvöxnu blóti. Oftast kemur þessi póstur frá vel meinandi kunningjum eða vinum sem halda að mér finnist krúttlegt að fá hamingjupóst. Að bréfið færi mér hamingju og jafnvel heppni. Það hljóti að vera gott því í því eru myndir af englum og rauðum rósum og falleg hvatningarorð um það að vera góð. Að vísu fylgir gjarnan hótun um eitthvað svakalegt, jafnvel slys eða dauða slítir þú keðjufjandann.
Ég gæti best trúað því að svona póstur eigi sér rætur hjá höfðingjanum sjálfum í neðra. Já, ykkur kann að finnast ég taka full stórt upp í mig, jafnvel óvenju stórt fyrir minn rifna kjaft. En ég skal útskýra þetta fyrir ykkur og rökstyðja mál mitt. Ég skal jafnvel ganga svo langt að reyna að fá eitthvert ykkar til að hugsa sig tvisvar um áður en þið áframsendið svona bréf í framtíðinni.
Svona keðjubréf eru hluti af stóra samsærinu til að eyðileggja tölvupóst fyrir okkur sem notum hann í vinnu og almennum samskiptum. Eins og þið sjálfsagt vitið eru allar netþjónustur með græjur sem bryðja ruslpóst. Á venjulegum degi er allt að 8 til 9 af hverjum 10 bréfum fargað því þau eru frá þekktum kæfusmiðum. Kæfubréfin eru gjarnan tilboð um ýmislegt allt frá tippastækkunum eða brjóstastinningu, í sölu á hjólbörum eða minniskubbum, sem óprúttnir ljótukallar út um allan heim senda í miljónavís í þeirri von að einn eða tveir svari. Sumar kæfusendingar hafa þann eina tilgang að dreifa sér. Hugsanlega til að framkalla gæsahúð á upphafsmanninum, sem glaður fylgist með ruglinu ferðast um heiminn. Það er þessi tegund af kæfusmiðum sem hefur áttað sig á að til að forðast gin ruslætunnar þarf bréfið að koma frá þekktum og virtum notanda. Til dæmis vini eða kunningja. Þið sem deyfið hamingjubréfum eruð að láta nota ykkur.
Nú munu sjálfsagt sumir segja að þetta sé saklaust gaman en það er auðvitað ekki svo, því það kostar netfyrirtækin milljónir á milljónir ofan að dreifa og sortera þetta rusl. Og hver skildi svo borga þegar upp er staðið.
Athugasemdir
Oh hvað ég er þér innilega innilega sammála..er gjörsamlega að gefast upp á svona pósti. Nota e mailið fyrir mína vinnu og nenni ekki að vera að sortera þetta drasl frá endalaust. Hef beðið fólk að taka mig úr þessum hópsendingum sínum og láta mig í friði..stundum tekst það og stundum ekki. Þetta er vel meint og oft sætar vinakvðejur en ég vil þá bara frekar fá alvöru e mail frá mínum vinum skrifað af þeim sjálfum um það sem þeim liggur á hjarta.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 21.9.2007 kl. 17:44
Nákvæmlega Katrín, er ekki betra að fá eitt bréf á ári frá vini þar sem hann eða hún skrifar sjálf en 12 bréf sem vinurinn áframsendir?
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 21.9.2007 kl. 17:51
Ég þoli ekki keðjubréf sjálf en þori sjaldnast annað en að áframsenda þau ef ég á annað borð er búin að lesa þau.... Einmitt af því að mér er oftast hótað lífláti, geri ég ekki eins og keðjan skipar fyrir um!
En hitt er annað að skemmtilegur fjölpóstur með góðum bröndurum eru alltaf velkomnir í mitt pósthólf!
Ylfa Mist Helgadóttir, 21.9.2007 kl. 19:40
Guði sé lof fyrir að þið eyðið þessum fjandans ruslpósti að svo miklu leyti sem hægt er. Og jamm ég er frekar leið á svona keðjubréfum, enda fara þau öll beint í hið eilífa myrkur hjá mér.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.9.2007 kl. 20:23
Sammála þér Matthildur, ég er sko búin að tilkynna mínu fólki að svona póst vilji ég ekki...............Basta.
Það getur verið gaman að fá brandara-póst,
ef hann er ekki dónalegur, en það er verst að ég fæ alltaf einhverja gamalmanna brandara þær halda víst dætur mínar að ég sé eitthvað gömul.
Mesti misskilningur.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 21.9.2007 kl. 20:28
Ég slít allar svona keðjur og gott betur. Og ég er víst enn á lífi svo að það er nokkuð ljóst Ylfa mín að þetta er bara plat.
Verst þykja mér vírusvarnarpóstarnir, um að það sé hættulegur vírus í gangi og menn eigi ekki að opna póst með ákveðnu heiti. Allir senda þetta áfram, að vísu með gott eitt í huga en þeir senda þetta á ALLA í addressubókinni sinni. Og þetta dreifist sko hratt.
En svona er bara bransinn.
Þórdís
Þórdís Einarsdóttir, 21.9.2007 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.