3.10.2007 | 15:14
Óbeisluð fegurð í bíó
Þann 5. október verður frumsýning á heimildarmynd um Óbeislaða Fegurð á kvikmyndahátíð Reykjavíkur. Myndin fjallar um óvenjulega fegurðarsamkeppni sem haldin var í félagsheimilinu í Hnífsdal fyrr á árinu. Fegurðarsamkeppni sem sýnir fram á að í raun sé ekki hægt að keppa í fegurð. Keppni sem ætlað var að vekja fólk til umhugsunar um útlitskröfur nútímans og fékk nokkra athygli.
Þetta byrjaði allt yfir kaffibolla á Langa Manga. Þar sátum við nokkrir vinir og vorum að ræða um útlitskröfur samtímans, en umræðan hafði kviknað eftir frétt á bb.is um fyrirhugaða fegurðarsamkeppni á Vestfjörðum. Við vorum langt því frá sammála um hvort keppnir sem þessar væru boðlegar. Sumum fannst sem þetta gæti haft jákvæð áhrif á þátttakendur en ég fann þessu fyrirbæri allt til foráttu. Þetta væru gripasýningar. Enda alin upp í sveit og sá glöggt hliðstæðuna við hrútasýningarnar sem haldnar voru í sveitinni í gamla daga. Mín niðurstaða var sú að fegurðarsamkeppnir væru til þess eins gerðar að selja sokkabuxur og krem, auk þess sem þær kenndu ungu fólki að meira máli skipti að vera falleg en klár.
Þegar við höfðum velt því fyrir okkur um stund hverjir hefðu leyfi til að setja fegurðarstaðla og af hverju, varð þessi andófskennda hugmynd til. Við ákváðum að taka okkur það leyfi að búa til fegurðarsamkeppni eftir okkar höfði. Eftir marga kaffibolla, nokkra bjóra og fáein léttvínsglös fundum við það út að reglurnar þyrftu einungis að vera tvær. Þátttakendur yrðu að vera komnir af barnsaldri og að vera sem upprunalegastir. Bæði kynin gætu þekið þátt. Grá hár, slappur magi, loðið bak, hrukkur og önnur merki þess að fólk hefði lifað væru falleg á sinn hátt. Vegsama skyldi venjulega fólkið.
Við settum saman leyndardómsfulla fréttatilkynningu og sendum á bb.is og ruv.is. Þetta var meira gert í prakkaraskap og við vildum sjá hvað við kæmumst langt með uppátækið. Okkur þótti viðbúið að einhverjir myndu móðgast og að þetta þætti hið freklega dónlalegt framtak. Núna yrðum við skömmuð fyrir andfélagslega hegðun og að vera ljótir, afbrýðisamir og loðnir femínistar.
En það var öðru nær, fréttin breiddist út eins og eldur í sinu og áður en ég gat snúið mér í hálfan hring var ég komin í hringiðu blaða og útvarpsviðtala, og það á útlensku. Ég sem tala bara slangur ensku. AFP, BBC, ABC. Síminn þagnaði ekki og á endanum vissi ég varla í hvorn fótinn ég ætti að stíga.
Það var svo eitt kvöld í Beirút, þegar Tina Naccaace var að hlusta á BBC World og þvo upp eftir matinn í heima hjá sér, að hún heyrði viðtal við einhverja konu frá Íslandi um þessa ótrúlegu keppni í Óbeislaðri Fegurð. Hún hafði strax samband við Hrafnhildi Gunnarsdóttur og úr varð að þær stöllur gerðu heimildarmynd.
Þarna var ekki aftur snúið. Hrekkurinn var orðin að viðburði og við einhentum okkur í framkvæmdina. Þar sem keppnin fékk svona mikla athygli sáum við strax að hægt væri að græða á því pening og ákváðum að nota ágóðann til að styrkja Sólstafi á Vestfjörðum, sem er systurfélag Stígamóta. Það má kalla þetta eins konar peningaþvætti því ekki þótti okkur fýsilegt að eiga óhreinan fegurðarsamkeppnisgróða. Ekki var tiltökumál að fá fólk til liðs við okkur. Keppendur gáfu sig fram, af báðum kynjum, öllum stærðum og á öllum aldri. Dómarar voru sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum s.s. íslenska hestinum, íslenskum lögum, skurðgreftri, hefðbundnum fegurðarkeppnum kvenna og árulestri. Nafnbætur keppenda voru heldur ekki af verri endanum. Persónuleiki Íslands, útlendingur, funi, meikdolla og óbeisluð fegurð svo einhverjir séu nefndir. Allt of langt mál væri að telja upp allt sem gerðist þetta kvöld og vil ég benda áhugasömum á heimasíður keppninnar á íslensku og á ensku. Allir voru boðnir og búnir að leggja okkur lið.
Núna er komið að stóru stundinni. Ég er að fara á frumsýningu og nettur hrollur fer um mig því ég man auðvitað ekki helmingin af því sem ég sagði. Á keppninni sjálfri myndaðist ótrúlega sérstök og góð stemning sem ég geri ráð fyrir að endurupplifa á myndinni. Látið þessa mynd ekki fram hjá ykkur fara. Sjáumst í bíó.
Athugasemdir
Frábærlega gott dæmi um hvernig ein lítil hugmynd vex uppúr sjálfri sér og verður risatór þannig að hugmyndafræðingarnar eiga fullt í fangi með að halda í við hana.
Mikið vildi ég sjá þessa mynd og þið eigið sko heiður skilinn þið sem komuð þessu í framkvæmd.
Til hamingju enn og aftur.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 3.10.2007 kl. 15:56
Já Matthildur mín, þú verður að hugsa til enda, þegar þér dettur þessar stórhættulegu hugmyndir þínar í hug hehehe....
Annars alveg frábært, það verður fjör hjá okkur, nokkuð víst. Sérlega skemmtilegur félagsskapur þar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.10.2007 kl. 16:38
Svona getur lítil þúfa velt þungu hlassi. Hlakka til að heyra af ykkur á frumsýningunni. Og hlakka til að sjá myndina á Ísafirði. Góða skemmtun á rauða dreglinum.
amma (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 23:22
Hei, verður ekki sýning í Borgarbíó á Akureyri?
Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 3.10.2007 kl. 23:32
Verð með ykkur í anda.
Fékk frábært flashback á fundarhöld sem lengdust yfirleitt um klt vegna hláturskasta þegar undirbúningur stóð sem hæst , eitt skemmtilegast ævintýri sem ég hef tekið þátt í
Íris (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 00:28
Ég kemst ég kemst ég kemst!!! Vúhúúúúú!
Sjáumst kátar á föstudaginn;)
Kveðja Harpa O
Sólstafakona
Harpa Oddbjörnsdóttir, 4.10.2007 kl. 11:13
Kemur hún ekki í sjónvarpinu? nei bara datt í hug að það kæmi meiri
peningur ef þið seljið hana til R.U.V.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 4.10.2007 kl. 13:59
Daginn sem ég fer að hugsa allar mínar hugmyndir til enda hætti ég að framkvæma þessar brjáluðu. Gættu að því hvers þú óskar þér Ásthildur
Varðandi sýningar á myndinni þá veit ég ekki til þess að hún fari norður en hún verður vonandi sýnd á Ísafirði fljótlega í tengslum við hátíðina Veturnætur.
Auðvitað kaupir RÚV myndina annað væri skandall
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 4.10.2007 kl. 14:57
"ljótir, afbrýðisamir og loðnir femínistar. "
Hahahahaha!!! Ég DEY úr hlátri! Sérílagi þar sem ég get aldrei munað hvað keppnin hét og kalla hana því gælunafninu "feitur og ljótur." Sjálf var ég kosin ungfrú 5. bekkur fyrir tuttugu og eitthvað árum, og er því fyrrum feguðrardrottning svo að ég kenni í brjósti um ykkur loðnu feminsistakellingarnar sem ekki fáið að vera með í keppnum þar sem keppt er um alvöru fegurð og þurfið þess vegna að búa til keppni fyrir ljóta og feita fólkið.
Múhahahahaha....
Kveðja, Ungfrú 5. bekkur
Ylfa Mist Helgadóttir, 4.10.2007 kl. 21:26
Ég vil endilega fá myndina í sjónvarpið - af hreinum eiginhagsmunum - ég get nefnilega ekki farið í bíó. En ef það kemur inn meiri peningur og fleiri fá að njóta dýrðarinnar í leiðinni, þá er það bara betra.
Harpa J (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.