Sælla er að þiggja en gefa, misheppnaðar gjafir

Mér skilst að það séu að koma jól og jólunum fylgja gjafir bæði vel heppnaðar og hinar líka.  Við könnumst öll við að hafa fengið alveg ferlegar gjafir og flest okkar hafa sjálfsagt þóst vera ánægð með þær.  Nú svo er það hin hliðin á málinu að gefa óheppilega gjöf og vita kannski ekkert um það.  Frétta það hugsanlega mörgum árum seinna að heill ættbálkur hefur hlegið að gjöfinni í mörg ár.

 

Svo lengi sem elstu konur muna hefur þótt sælla að gefa en þiggja.  Ég hef haft það fyrir satt eins og svo flest sem mér var kennt í barnæsku.  En það er með þetta eins og margt annað, að eftir því sem kona eldist og þroskast fer hún að skoða betur það sem henni var innrætt.  Undanfarið hef ég verið að velta þessu fyrir mér og skoða það með gagnrýnum augum.  Satt að segja hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki algilt að sælla sé að gefa en þiggja.  Mér þykir augljóst að sælla sé að þiggja en gefa, ómögulega og misheppnaða gjöf.  Sú sem fær ömurlega gjöf getur alltaf hlegið að henni, í það minnsta eftir að vera komin yfir sárustu vonbrigðin.  Á hinn bóginn hefur sú sem gefur ómögulega gjöf vissulega gefið gjöfina sem heldur áfram að gefa, bara ekki á þann hátt sem hún ætlaðist til. 

 

Það má skipta vondum gjöfum upp í nokkra flokka.  Til dæmis, gefðu það sem þig langar í burt séð frá því hvað þiggjandinn vill, þetta er stundum notað ef um sambýling okkar er að ræða.   Eða kaupa bara eitthvað á hlaupum gjarnan á síðustu stundu það er svipað og að spila í lottóinu, vinningslíkurnar eru ekkert mjög miklar.  Nú ekki má ekki gleyma, ódýrt drasl og undriflokknum rándýrt ljótt, þetta gefum við gjarnan þegar við erum í gjafasambandi við fólk sem við þekkjum í raun ekki nógu vel til að vita hvað það vill.  Síðast en ekki síst dettur mér í hug föt sem ekki passa, hvorki í stærð né stíl, það er náttúrulega langskemmtilegasti flokkurinn. 

 

Miðað við hvað ég hef heyrt margar sögur af vondum gjöfum er ég alltaf jafn hissa á því hvað við mannfólkið erum köld að skella okkur enn og aftur í nýja jólavertíð.  Þegar mér verður hugsað til allra sem eiga eftir að gefa ómögulegar gjafir og hinna sem taka vanþakklátir við þeim tekur sig upp gamalt bros.  Hvor um sig passar að vera ekki hreinskilinn og allir þykjast vera ánægðir.  Í þegjandi samkomulagi.  Þeir einu sem alltaf gleðjast eru verslunareigendur, en það er önnur saga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Jóhanna Magnúsdóttir

Í tilhugalífinu gaf verðandi eiginmaður minn mér matreiðslubók sem ber heitið " 220 Sjávarréttir" en hún hefur að geyma uppskriftir úr sjávarfangi í bland við skátahnúta af öllum gerðum. Ég er enn, 25 árum seinna, að hæðast að hallærishættinum.

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir , 5.11.2007 kl. 17:04

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hehehehehe þú hittir naglan á höfuðið eins og venjulega Matthildur mín.  Skemmtileg færsla.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.11.2007 kl. 20:30

3 identicon

Fyrsta jólagjöf míns fyrrverandi tilvonandi og þáverandi var ilmvatn ásamt fleiru góssi. Faðir minn spurði þá kærastann hvort það væri vond lykt af dóttur hans ! Ég fékk aldrei aftur ilmvatn.

amma (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband