Hvernig lygari ertu?

Ég stóð eina vinkonu mína að því í að ljúga lítillega að dóttur sinni í dag.  Þetta var ósköp saklaust skrök en dóttirin sá í gegn um hana um leið.   þetta varð til þess að við fórum að ræða um lygar og þá staðreynd að flest grípum við til lyga af og til.  Auðvitað er ljótt að ljúga en það má líka hafa gaman að lygum, sérstaklega þessum fyrirsjáanlegu.  Þar sem ég er með flokkunar og greiningaráráttu í kvöld hef ég ákveðið að skipta lygum niður í nokkra flokka.

Fyrst skal nefna staðsetningarlygarann.  Það er þessi ótrúlegi lygari sem þykist oftast vera annar staðar en hann er.  Ef þú átt stefnumót við þannig lygara og hann er seinn fyrir, máttu vera viss um að hann lýgur að þér ef þú hringir og spyrð hvar hann sé.  Hann þykist vera lagður af stað þó hann sé enn með annan fótinn í sturtunni.  Það merkilega er að hann græðir ekkert á því að ljúga svona og við sjáum oftast í gegn um hann.  Sérstaklega ef við þekkum hann vel og við þekkjum jú öll að minnsta kosti einn svona lygara.

Næsta lygara vil ég kalla útlitslygarann.  Ef þú ferð í ljóta úlpu sem fer þér einstaklega illa og spyrð útlitslygarann hvernig þetta fari þér, mun hann ekki vera hreinskilinn.  Jafnvel þó þú biðjir hann sérstaklega um það.  Nei, útlitslygarinn mun segja þér að þetta sé ofsalega spes og sýni hvað þú hafir sérstakan stíl.  Hann vill frekar að þú farir út í bæ eins og illa skreytt jólatré en hætta á að særa þig með sannleikanum.

Tímalygarann þekkja allir sem einhvern tíman hafa haft iðnaðarmann í vinnu, búið með slíkum eða þekkt náið.  Tímalygarinn heldur alltaf að hann verði svo snöggur að hlutunum að hann segist vera búinn helmingi fyrr en raun ber vitni. 

Sumir vita allt. Veitþaðlygarinn veit alltaf hvað þú meinar og vissi það áður en þú sagðir það.  hann svarar í það minnsta alltaf "ég veit það" þegar honum er sagt frá einhverju. 

Síðast vil ég nefna hagræðingarlygarann,  sem hagræðir sannleikanum smávegis svo hann hljómi betur.  Færir í stílinn.  það getur verið miklu skemmtilegra en að halda sig við sannleikann.  Stundum þarf hann að vísu að breyta það miklu að sagan er bara byggð á sönnum atburðum, flytja hana á milli fjarða og setja nýjar persónur í aðalhlutverkin.  Ef hann sjálfur er í sögunni kemur hann alltaf aðeins betur út en hinir.  Er klárari, sniðugri og ber af á allan hátt.

Mér finnst ég kannast við þennan síðastnefnda.  Gæti hugsast að ég sé hagræðingarlygari?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Skemmtileg færsla.

Þekki minnst einn lygara úr hverjum flokki þarna held ég og kannski gerum við það öll. Það sem þú ert að lýsa er líklega sjálfsagður partur af margbreytileika fólks. Sbr enginn er fullkominn og allt það (nema við sjálf auðvitað)

Marta B Helgadóttir, 7.11.2007 kl. 00:29

2 Smámynd: Gló Magnaða

Bara til þess að forðast allar lygasögur þá var vinkonan sem laug að dóttur sinni í gær er ekki ég,  enda á ég bara syni.

Ég lýg aldrei............ eiginlega aldrei........... held ég.....

Gló Magnaða, 7.11.2007 kl. 09:29

3 identicon

Sæl Matthildur!  Ég les alltaf bloggið þitt, og mátti til með kvitta núna.  Þetta er frábær færsla.  Ég öfunda oft hagræðingalygarar, a.m.k. sem geta fært skemmtilega í stílinn... án þess samt að ganga of langt.  Eru ekki flestir góðir sögumenn með smá svoleiðis takta? Kveðja heim. Ebba Sturludóttir

Ebba Sturludóttir (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 10:17

4 Smámynd: Steingrímur Rúnar Guðmundsson

ég er frekar lélegur lygari.....get ekki einu sinni logið í gegnum síma.

Steingrímur Rúnar Guðmundsson, 7.11.2007 kl. 14:52

5 identicon

Þá er búið að koma upp um mig ! sjitttt......... Maður fær ekki sinusinni að vera saðsetningarlygari í friði, ekki get ég falið mig bakvið það að eiga bara stráka, þó svo að dóttirin sé farinn að heiman og orðin fullorðin. En vitið menn þetta getur ekki átt við mig !!... húrra !!!.... ég og kona ein (kunningja-kona mín) gerðum samning um að verða aldrei vinkonur því að með því heit fylgir fullt af kvöðum svo ég á bara slatta af kunningja-konum svo það hefur engin greint mig enn.....hjúkkkkk þarna slapp ég fyrir horn.

Gréta Skúla (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 15:45

6 Smámynd: Gló Magnaða

Nei... Nú lýgurðu!!

Gló Magnaða, 7.11.2007 kl. 16:28

7 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Einhvernveginn vissi ég að þarna væri um að ræða Grétu!!?? Af hverju skyldi það stafa? En Gréta! Er ég þá ekki vinkona þín? Það breytir nú heilmiklu um okkar samband. Þá erum við ekki "bara vinir?" Eitthvað meira þá????

(fannst þessi broskall svo líkur einum úr YMCA hópnum ......)

Ylfa Mist Helgadóttir, 7.11.2007 kl. 17:13

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þarna kom það einu sinni enn, þessi hræðilega berorða kona, sem segir hlutina óþægilega nálægt einhverjum innsta kjarna sem er þarna einhversstaðar inni og snertir mann

En nei ég lýg aldrei, geri bara ekki svoleiðis, alveg satt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.11.2007 kl. 22:56

9 identicon

Ég er eftir þinni útfærslu lygari af mikilli náð. Og sérstaklega finn ég mig í útlitslygaranum. En kannski er það ekki endilega lýgi heldur væntumþykja, útgeislun einstaklingsins kemur útlitinu ekkert við, svona óbeislað .......

amma (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 23:46

10 Smámynd: Marta

Ég er atvinnulygari. Þ.e.a.s. ég lýg fyrir vinnuna mína.

,,Já þetta eru svona spes rósir, hausinn a að hanga svona.."

,,já sko það er alltaf nautakjöt á kjúklinalokunni hérna. Þetta er svona vestfirskt..eikkað.."

,,Lærður blómaskreytir.. ég? Jájá.."

,,Hvernig áttu að vökva þennan kaktus? Sko.. (hugs, hugs, hugs, fokk.) vökkvaðu hann þrisvar í viku, best að hafa hann inni í skáp bara og síðan er fínt að strá smá sykri yfir hann öðru hvoru"

Ég sagði samt aldrei að ég væri góður lygari.

Marta, 8.11.2007 kl. 01:59

11 Smámynd: Linda Pé

Eins og Marta er ég atvinnulygari. Þarf oft að ljúga soldið fyrir vinnuna mína.

Ég er líka staðsetningalygari: "ég er að leggja af stað... er komin í skó og allt!"  og stend kannksi á handklæðinu fyrir framan fataskápinn!

ætli ég sé ekki smá hagræðingalygari líka  

Linda Pé, 8.11.2007 kl. 09:55

12 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

ég er svona útlitslygari stundum. Þeir sem standa mér næst fá að heyra kaldann sannleikann(greyið Hlynur minn.....) en hinir fá volga lygi.

Harpa Oddbjörnsdóttir, 8.11.2007 kl. 13:11

13 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Ég þekki mjög slæma staðsetningarlygara, sem alltaf eru "bara að rúnta og leita að bílastæði fyrir utan" ef maður ætlar að hitta þá í bænum. Samt er alveg klárt, þegar þeir birtast 30 mínútum síðar, að þeir voru að koma undan sturtunni. Óþolandi. Ég þekki líka mjög skæðan veitþaðlygara og skemmti mér stundum við að ljúga einhverju upp, bara til að fá svarið "já, ég veit það." Skepnuskapur, I know ;)

Ég tímalýg oft að sjálfri mér, ætlaði til dæmis að vera löngu búin að taka bílskúrinn í gegn, það tekur bara tvo tíma, ég geri það alveg örugglega á morgun.

Svo er ég assgoti góður hagræðingalygari ;)

Ragnhildur Sverrisdóttir, 8.11.2007 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband