9.11.2007 | 01:05
Toppari eða tímastjórn
Veist þú hvort þú ert toppari eða yfir höfuð hvað toppari er? Toppari er hvorki dúfa né skarfur. Fyrir ykkur sem ekki vitið hvað toppari er skal ég útskýra það sem snöggvast. Toppari er manneskja sem alltaf þarf að toppa allt sem þú segir og hefur ávallt séð það svartara. Topparar eru flestir svo ótrúlega leiðinleg mannkvikindi að allir elska að hata þá. Jafnvel þessir sniðugu eru leiðinlegir til lengdar.
Segir þú toppara veiðisögu á hann alltaf eina aðeins betri. Hann veiðri fleiri dýr en þú, á stærri bíl, flottari gítar, hefur ferðast meira og á meiri peninga en þú. Ef ekki hann sjálfur, þá einhver vinur hans. Það er svo merkilegt með toppara að þeir toppa bæði gott og slæmt. Hafa verið veikari en þú, lent í verri lífsháska, verið dónalegri og tapað stærri upphæðum. Voru með verri kennara og voru óþekkari í skóla. Er ekki viss hvort þetta með óþekktina á frekar heima í góðu eða slæmu.
Ég reyni stundum að vera toppari en hef ekki nægilegt úthald til að ná töktunum alveg. Verð þá frekar pirrandi en hefur enn ekki tekist að fá neinn til að elska að hata mig. Kannski ætti ég að fara á námskeið í toppun mig langar í það minnsta meira á námskeið í toppun en í tímastjórnun þó ég vita að hið mig skortir meira af hinu síðarnefnda en hinu.
Athugasemdir
OMG Matthildur don´t get me started. Ég allt að því HATA toppara. Ef einhver hefur dáið þá hafa þeir dáið aðeins oftar og við mun verri aðstæður en hinn látni. Það er aldrei svo slæmt að þeir geti ekki bætt við það.
Hvað segist um veiðileyfi svona á tímum fiðurfés og sonna?
Jenný Anna Baldursdóttir, 9.11.2007 kl. 01:22
Hahahaha...... Þetta var tilvalið blogg og hinir ýmsu topparar koma upp í hugann.
Ég hef nú alltaf haft nett gaman af toppurum. Kannski af því að mér fannst ýkjubrandarnir sem gengu fyrir nokkuð mörgum árum mjög fyndnir.
Gló Magnaða, 9.11.2007 kl. 08:53
Já ég kannast við svona toppara nokkra. Það er hin besta skemmtun að fá þá til að toppa lygasögur. Ég var með einni slíkri í skóla fyrir nokkrum árum síðan, og ein af okkar bestu skemmtunum var að segja krassandi sögur af okkur sjálfum, og fá ennþá meira krassandi sögur frá þessum toppara. Það var ótrúlegt hvað hún var tilbúin til að ganga langt til að toppa sögurnar. Svo það er hægt að hafa gaman af toppurum, ef maður notar réttu taktíkina
Eitt dæmið man ég var að við ræddum um hvað það væri gaman að hrossum, og sérstaklega rodeotaktar á ótemjum. Þá sagði hún okkur að hún hefði farið á svona ródeó á mannýgu nauti.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.11.2007 kl. 13:04
Já það getur verið gaman smátíma að spila með fólk,
en topparar eru bara leiðindaskjóður, þurfa altaf að eiga síðasta orðið og ég fyrir mína parta, labba í burtu, hreinlega svo ég missi mig ekki,
það hefur nefnilega komið fyrir mig, en blessað fólkið getur ekki gert að því að það sé, ja ekki meir um það.
Kveðjur á Ísó.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 9.11.2007 kl. 16:53
´*Eg er sjálf svona dæmigerður toppari. En það er bara af því að ég HEF lifað miklu umbrotasamara lífi en ALLIR aðrir, veit meira en hinir og get meira en þeir.
Man eftir einni sem var dálítið dugleg við þetta. ég og frænka hennar (við vour undir tvítugu) ákváðum að hrella hana og sagðist frænkan hafa verið í vandræðum með blöðruhálskirtilinn undanfarið. Hann væri sífellt bólginn. "Ji, ég þekki það sko!" sagði þá sú toppaða. "minn var sko tekinn úr mér fyrir tveimur árum!!!"
Þetta var dæmi um toppsögu. En eins og annað er hún sönn. Ég er bara svo mikil toppmanneskja!!!!
Ylfa Mist Helgadóttir, 9.11.2007 kl. 17:18
Ég var með tveimur toppurum á sjó og það var æðislegt að hlusta á þá félaga reyna að toppa hvorn annan. Svo þegar annar þeirra fór úr borðsalnum þá sagði hinn: ,,Djöfulsins kjaftæði er þetta í honum."
Arnaldur, 10.11.2007 kl. 12:47
Ég var með einum svona í skóla, hann gat sko farið í heljarstökk á skíðum. En þorði svo ekki að koma með í skíðaferðalagið því ég heimtaði að hann sýndi listir sínar.
En þetta er ein eftirminnilegasta persónan frá þessum tíma svo að kannski er þetta bara málið.
ÞE
Þórdís Einarsdóttir, 10.11.2007 kl. 15:43
Ég þekki fleiri toppara en þið öll...
Friðþjófur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 11:21
Er ekki topparinn hagræðingarlygari?
Harpa Henrys (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 15:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.