23.11.2007 | 10:05
Gengur þér vel eða hleypur þér vel
Í geðorði númer átta er þjóðinni ráðlagt að gefast ekki upp, velgengni sé langhlaup. Jafnvel þó ég sé nú þegar farin að verða vör um mig og eigi hálfpartinn von á því að höfundur geðorðanna velmeinandi elti mig uppi, en ég get ég ekki hætt. Ef velgengni á að vera langhlaup, ekki kraftganga eða bara nærandi göngutúr hef ég ýmislegt við það að athuga.
Í fyrsta lagi vil ég meina að langhlaup séu ekki holl. Það er allt of mikið álag að hlaupa tugi kílómetra, grindhoruð, illa nærð, soltin með álagsmeiðsl í hnjám og ökklum. Stundum er betra að hætta eða það sem sumir kalla gefast upp en klára sig alveg.
Í annan stað vil ég benda á að það sem einum kann að finnast velgengni finnst öðrum lítið og lélegt. Þeir sem safna kaupréttarsamningum, fjárfesta og græða meira en þeir skilja sjálfir telja það ekki velgengni að fara til dæmis í kennaranám og helga líf sitt kennslu. Sumir hafa engan áhuga á því að safna peningum, þeir hugsa í núinu og skilja ekki hvað dregur fjárfestana áfram. Þegar upp er staðið og þessar tvær manneskjur líta yfir farin veg finnst þeim báðum að þær hafi náð velgengni.
Í þriðja lagi er þessi líking við langhlaupið sérlega óheppileg fyrir þá sem lifa fyrir daginn í dag, margir hafa lent í veikindum, eru fíklar eða hugsa í núinu til að öðlast hamingju. Þetta fólk lítur ekki á lífið sem langhlaup og það að líta á lífið sem langhlaup geri einmitt fengið það til að gefast upp.
Mín útgáfa af þessu geðorði er slappaðu af lífið er eins og að lesa góða bók. Stundum spennandi, stundum langdregin en alltaf góð. Og það er gamall og góður siður að láta bókina ekki frá sér fyrr en þú ert búin að lesa hana alla.
Athugasemdir
Fyrir utan lokaorðin, þá finnst mér þetta mjög áhugavert;
Í annan stað vil ég benda á að það sem einum kann að finnast velgengni finnst öðrum lítið og lélegt. Þeir sem safna kaupréttarsamningum, fjárfesta og græða meira en þeir skilja sjálfir telja það ekki velgengni að fara til dæmis í kennaranám og helga líf sitt kennslu. Sumir hafa engan áhuga á því að safna peningum, þeir hugsa í núinu og skilja ekki hvað dregur fjárfestana áfram. Þegar upp er staðið og þessar tvær manneskjur líta yfir farin veg finnst þeim báðum að þær hafi náð velgengni.
Þetta er alveg satt og rétt, nema eitt atriði, sem ég set spurningamerki við: Þetta með þegar þessar tvær manneskjur líta yfir farin veg, þá held ég að sú sem helgaði líf sitt kennslu af áhuga og yndi, finnist hún hafa náð velgengni, meðan sú sem fjárfesti situr sennilega uppi með eitthvert tómarúm í hjartanu. Því það fer eiginlega ekki saman, að geta grætt stórkostlega mikið af peningum og vera sáttur við sjálfan sig. Það þarf ákveðna græðgi og hugsunarleysi að draga að sér fé. Það krefst ákveðinnnar eiginhagsmunagæslu, sem er ekki beinlínis umhverfisvæn. Svoleiðis fólk á oftar en ekki aðdáendur en ekki marga vini.
Hitt er svo náðargáfa að slappa af og lesa lífið eins og góða bók. Ég vildi að ég ætti þann möguleika til. En ég veit að þú átt hann Matthildur mín, og af þér hef ég hugsað mér að læra pínulítið svoleiðis.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.11.2007 kl. 11:43
Mjög góð pæling. Ég hef samt aldrei verið grindhoruð í langhlaupi ;) en hef svo sem ekki verið að horfa á mig í spegli einmitt á meðan að ég hleyp 10 kílómetrana !!!
Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 23.11.2007 kl. 12:17
Hverjum datt í hug að senda þér Matthildur, geðorð? Og það 10 stykki? Óskandi að sá hinn sami læri af sínum mistökum.
Gaman að detta inn á bloggið þitt gamla.
kveðja
Elín Erlings.
Elín (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 12:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.