Vilja þessir menn jafnrétti?

Undanfarið hefur enginn verið maður með mönnum hér á blogginu ef hann skrifar ekki svo sem eins og einn pistil um hversu ómögulegir þessir femínistar séu.  Gjarnan sjá þessir menn sig sem útvörð réttrar umfjöllunar um jafnréttismál og finna femínistum allt til foráttu.  Liggja yfir öllu efni sem frá nafngreindum femínistum kemur í þeirri von að finna eitthvað sem hægt er að snúa út úr.  Gera grín að eða rakka niður á annan hátt.

Þessir menn finna gjarnan til sín þegar þegar nafnlausir og stundum huglausir mæra þá í athugasemdum.  Þeir ljúga og ýkja væntanlega til þess eins að hvetja hvern annan og sjálfa sig til frekari skrifa.  Suma daga minnir þetta hátterni mig óþægilega mikið á einelti. 

Með þessum skrifum virðist mér þeim finnist þeir vera eitthvað.  Finnist þeir hafa malað þær.  Finnist þeir jafnvel hafa varið málfrelsið  með því að kenna femínistunum um hvað þær ættu að fjalla og á hvaða hátt.  Ég ætla ekki að taka dæmi, við höfum öll lesið svona blogg og svona athugasemdir.   Ef einhver er ekki með á nótunum þá verður bara að hafa það.

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg þessa hegðun.  Mér finnst eðlilegt að fólk sé ósammála og mér finnst eðlilegt að rökræða en mér finnst ekki eðlilegt hvað margir eru viðkvæmir fyrir skoðunum femínista.  Hvað skoðanir þeirra geta kallað fram mikla og almenna vandlætingu sem of oft brýst út í dónaskap. 

Ég er að velta því fyrir mér hvað þeir séu að hugsa.  Hvort þeir hugsi um jafnréttismál og hvort þeir hafi rætt þau í einlægni og æsingslaust.  Hvort þeim finnist þeim ekki koma þetta við eða hvort þeir haldi að á Íslandi í dag sé jafnrétti.  Stóra spurningin er og hlýtur að vera vilja þessir menn jafnrétti kynjanna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

1) Femínistar (þ.e meðlimir femínistafélagsins eða a.m.k talskonur þeirra) virðast meta frelsi fólks út frá því sem það gerir frekar en því sem það hefur möguleika á að gera, sbr. umfjöllun þeirra um súlustaði (hér er meira).

2) Núna kemur á daginn að femínistar virðast meta hlutleysi út frá því hversu vel hlutir falla að hugmyndafræði þeirra (hér er meira).

3) Femínistar eru afskaplega hrifnir af reglugerðum, eftirliti og stjórnvaldsaðgerðum hverskonar.

4) Sumir femínistar hafa gælt við hugmyndir á borð við bókabrennur.

Hugmyndafræði sem afskrifar einstaklingin og frjálsan vilja svo algjörlega, sem er svo rörsýn á samfélagið að hún getur ómögulega séð fólk sem annað en karla eða konur er slæm hugmyndafræði. Það skiptir engu hvort að hún kennir sig við jafnrétti kynjanna eða eitthvað annað.  

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 23:53

2 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Hans, Hans, Hans, þetta hefur allt komið fram áður en spurt er hvort ykkur hugnast jafnrétti?

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 28.11.2007 kl. 00:03

3 identicon

Þessir menn sem þú lýsir þarna, svokallaðir strámenn, eru allt það sem þú vilt þeir séu.

Í raunveruleikanum færðu ekki svar við þessari spurningu.

En femínismann þarf að uppfæra. 

Drengur (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 00:47

4 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Tek undir með Skúla hér að ofan.  Ég er mikill jafnréttissinni en mér finnast femínistar tala konur verulega niður.  Ég held það hafi bæði neikvæð áhrif á sjálfstraust kvenna og neikvæð áhrif á umræðuna almennt um konur og ímynd kvenna í samfélaginu.  Þær eru alltaf fórnarlömb samfélagsins í stað þess að vera sigurvegarar og ráðandi aðili í umhverfi sínu.  Það eru hundruð og þúsundir kvenna að gera frábæra hluti út um allt samfélag en einhvern veginn snýst umræðan ekki um þær.

Hvað snertir kynbundinn launamun er það mín skoðun að hann mun ekki breytast fyrr en konur fara sjálfar að krefjast hærri launa.  Svo einfalt er það.  Í dag eru eiginlega engir karlar í lægst launuðustu störfunum.  Er það orsök eða afleiðing? 

Körlum í hópi kennara hefur fækkað verulega undanfarna áratugi.  Hvað gerðist?  Karlarnir fóru og konurnar komu.  Af hverju fóru karlarnir?  Var það vegna þess að þeim þótti skyndilega leiðinlegt að kenna börnum?  Nei, auðvitað ekki.  Þeir einfaldlega sættu sig ekki við þessi laun.  Konurnar komu hins vegar vegna þess að þær mátu að verðleikum ýmislegt annað tengt starfinu s.s. það að vera kominn snemma heim á daginn, það að hafa langt sumarfrí og jólafrí og voru þess vegna tilbúnar að taka starfi sem karlarnir höfðu yfirgefið.  Launin vógu minna í þeirra upplifðu heildarumbun en meðal karlanna.

Eitt það athyglisverðasta sem komið hefur fram um þetta mál lengi er á bloggi Guðfinnu Bjarnadóttur (http://gudfinna.blog.is/blog/gudfinna/entry/195420/).  Þar kemur fram að um 60% kvenna vinna hjá opinberum aðilum á móti ríflega 20% karla.  Ég held að þetta geti haft áhrif á launaóskir kvenna.  Þegar konur ræða laun sín á milli eru þær að ræða kjarasamninga og launaflokka og allt saman er niðurnjörvað og litlir möguleikar til að fá einhverju breytt.  Þegar karlar ræða um laun spyrja þeir hverju viðkomandi hafi náð út úr vinnuveitandanum.  Þeir líta á laun sem samningsatriði á meðan konur upplifa að þær detti inn í fyrirfram ákveðið þrep í kjarasamningi og að þær hafi lítil áhrif á það.

Ég tel að þessi ólíka samsetning karla og kvenna á vinnumarkaði og ólík þátttaka kynjanna í einkageiranum vs. opinbera geiranum liti viðhorf þeirra til launamála og hafi þannig veruleg áhrif á launamun kynjanna.  Þetta er eitthvað sem einungis konur geta breytt.  Ég tel því að auglýsing VR þar sem þeir sögðu konum að biðja um 30% hærri upphæð en þær ætluðu að biðja um hafi hitt naglann á höfuðið.  Þar held ég að tækifærið liggi.  Þar ættu femínistar að láta að sér kveða í baráttunni við launamun kynjanna.  Honum verður ekki eytt með lögum.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 28.11.2007 kl. 02:17

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Sæl Matthildur. Það er í það minnsta ánægjulegt að sjá lengri texta en "Húrra fyrir xx" femínistum til varnar. Það er vafalaust rétt að mikið af athugasemdum sem snúa að þessum málum eru innihaldslitlar. Á hinn bóginn hafa margir sett fram bitastæða gagnrýni á femínismann, bæði út frá einstökum málum, svo sem ráðherramáli Steinunnar Valdísar, og almennt. Sé það vilji femínista að fá fram uppbyggileg skoðanaskipti er ég sjálfur fús að taka þátt í þeim. En þá þarf líka að einbeita sér að málefnum og röksemdum. Það dugar nefnilega ekki að horfa alltaf framhjá röksemdum andstæðingsins en einbeita sér þess í stað að því að velta sér upp úr ætluðum tilgangi hans með skrifunum, sálarlífi eða öðrum persónulegum atriðum.

Bestu kveðjur,

Þorsteinn Siglaugsson, 28.11.2007 kl. 08:36

6 identicon

Frábært komment hjá Skúla og eins og talað úr mínum munni.

Er jafnrétti skilgreint út frá konum eða báðum kynjum?

Magnus (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 09:35

7 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Tilgangur minn með þessu riti var ekki að kynda undir fordómum, svona upplifði ég skrif undanfarinna daga.  Mig langaði þvert á móti að vita hvort þið karlmenn sæjuð það óréttlæti sem við sjáum og í framhaldi af því hvort við getum verið sammála um að vilja ná jafnrétti.  Ég fagna því að þið sem hafið gert athugasemdir viljið jafnrétti. Við stefnum þá í sömu átt þó okkur greini á um aðferðir. 

Það er líka sérstakt ef umræðan um jafnréttismál er komin út í við og þið og báðir upplifa hinn aðilann sem andstæðing.   Báðir vilja rökræða og einbeita sér að málefnum en útkoman er allt önnur.  Kannski eru örfáir vargar að skemma umræðuna og við greinum ekki nógu vel á milli.

Ekki veit ég hver byrjaði að persónugera jafnréttismálin eða hver byrjaði í skítkastinu en ég sé ekki nokkra ástæðu til að halda því áfram. 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 28.11.2007 kl. 10:14

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er sammála mörgu sem hér hefur komið fram.  Ég veit að það eru margar konur frábærar og dugmiklar sem eru feminista, en fyrir mér er þarna ekki rétt að staðið.  Ég er jafnréttissinni, og ég sé ekki að svona styrjöld milli kynja geti skilað árangri.  ég vil kynsystrum mínum allt það besta, en ég vil ekki að það sé gert með slíku offorsi sem virðist vera í stöðunni núna, á kostnað vitrænnar umræðu um jafnrétti.  Stríð hefur aldrei leitt  til friðar.  Þetta stríð hefur því miður farið úr böndunum eins og önnur slík, og það skiptir ekki máli hver byrjaði, heldur hvernig við getum breytt stöðunni í þann farveg að það skili árangri á báða bóga, það er líka misrétti gagnvart karlmönnum í sambandi við umgengni við börnin sín, svo eitthvað sé nefnt.  Við þurfum að standa saman um að halda þessari umræðu á línunni, en ekki til öfga á hvorn veginn sem er. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.11.2007 kl. 10:42

9 identicon

Jafnrétti JÁ... öfgafemíniskt rugl NEI
Menn þurfa að vera mjög svo blindaðir af eigin skoðunum til þess að sjá ekki ruglið sem ofurfemínistar bera á borð fyrir okkur öll, þær eru að jarða dæmið sjálfar sem er miður fyrir okkur öll

DoctorE (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 12:48

10 Smámynd: Guðfinnur

Er ekki spurning að róa sig aðeins niður, í dag eru mun fleiri konur í háskóla mun fleiri en kallar , þær eru ekkert að læra að skúra nei þær eru í læknisfræði , lögfræði viðskiptarfræði og áfram má telja. Það væri ósigur fyrir baráttu kvenna að fara núna fram á að fá einhvern hjólastól til að ýta sér upp metorðastigann, þið munuð tróna þarna innan skamms.

Vita ekki bara femínistar af þessu og vilja eigna sér þennan merka áfanga með því að vera beittar núna ???

 En ein spurning hvaða karl ætti að vilja að kona sé beitt einhverjum misrétti er ekki oftast ein kona inná hverju heimili og eru þær ekki líka að koma með pening í hálf tóma budduna mín vegna mætti mín kona vera með milljón á mánuði.

Annað sem er að pirra mig hversvegna er það köllum að kenna ef konur eru ekki sjáanlegar í stjórnmálum eru ekki helmingur kjósenda konur ?

Guðfinnur, 28.11.2007 kl. 13:40

11 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir frábæran pistil Matthildur. Orð í tíma töluð. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 28.11.2007 kl. 13:52

12 identicon

 Sæl Matthildur
Þar sem feministi gengur út á að auka veg og virðingu kvenna (ekki jafnrétti)
þá er langt leitt að telja þetta eina og sama hlutinn, þótt menn og konur geti haft bæði að leiðarljósi! En enþá hef ég ekki séð yfilýstan feminista koma fram og fordæma þegar karlmenn verða fyrir barðinu á misrétti!

Hérna fyrir neðan er linkur á auglýsingu frá Reykjarvíkurborg! Kem hér með úrdrátt:
  "Við ráðningar í störf vilja borgaryfirvöld stuðla að því
að þau flokkist ekki í sérstök kvenna- eða karlastörf
og hvetja því það kynið sem er í minnihluta í við-
komandi starfsgrein að sækja um. Konur er því hvattar
til þess að sækja um starfið."

Vinnustaðurinn sem um ræðir hefur ENGAN karlmann í sínum röðum!
Hjá borginni í þessari starfsstétt vinna nú um 60% kvennmenn! (mitt mat)

Nú spyr ég, hvort vegur þyngra hjá þér! Feministmi eða jafnréttið :) 

http://www.mbl.is/mm/atvinna/starf.html?adno=615644

Öddi (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 15:17

13 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Sæll Öddi Þú svaraðir raunar ekki spurningu minni um það hvort þú vildir jafnrétti en ég ætla engu að síður að svara þinni eftir bestu getu. 

Sjálf er ég yfirlýstur femínisti og hef alla tíð barist fyrir jafnrétti og oft og iðulega bent á samhengið á milli þess að karlar fá síður forræði yfir börnum sínum og þessu almenna misrétti sem við upplifum.  Jafnrétti er eitthvað sem bæði kynin munu græða á. Ég á því erfitt með að svara spurningu þinni á annan veg en að sem femínisti berst ég fyrir jafnrétti en ekki misrétti. 

Upplifun okkar á misréttinu er greinilega ekki eins en vonandi skil ég þig rétt þegar ég les á milli línanna hjá þér að við stefnum að því sama, eða hvað?

Að lokum langar mig að minna á að femínisti er karl eða kona sem sér að jafnrétti kynjanna er ekki komið og vill gera eitthvað í því. samkvæmt skilgreiningu femínistafélags Íslands.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 28.11.2007 kl. 16:32

14 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Lifi byltingin. Það er allt sem ég hef að segja. Ég verð nefnilega svo oft vör við það að sé ég ósammála feministum, loðnum sem óloðnum, sé ég að ráðast á þá persónulega.... Þess vegna kýs ég að liggja bara eins og húsbóndaholl tík undir feldi og flétta..... nú...eða þæfa. Það er svo mikið í móð í dag.

Ylfa Mist Helgadóttir, 28.11.2007 kl. 17:20

15 identicon

Það kann að vera að þú sért jafnréttisfemínisti sem er vel. Umræðunni er hinsvegar stjórnað af forréttindafemínistum sem er illt.

Ég held að mikið af þeim körlum sem þú lastar séu jafnréttissinnaðir í hjarta sínu, eins og sennilega næstum því allir íslendingar. Þeir, ásamt reyndar ófáum konum líka n.b., rísa upp á afturlappirnar vegna krafna forréttindafemínista um lögbundin forréttindi. Það hlýtur bara að teljast eðlilegt, ekki satt, þó þú og fleiri kunni að vera því ósammála.

Ég held líka að títt nafnleysi skýrist einna helst að öfgafullum áróðri forréttindafemínista og sniðgöngum þeirra. Við hverju mætti t.d. stjórnandi hjá stóru fyrirtæki búast sem leyfði sér að vera ósammála málflutningi forréttindafemínista í dag? Ég á a.m.k. ekki bágt með að trúa því að mælst verði til sniðgöngu af forréttindafemínistum. Við hverju mætti viðkomandi þá búast af eiganda fyrirtækisins eða samstarfsmönnum?

Það er í gangi skoðanakúgun af hálfu forréttindafemínista öðrum fremur og það er einfaldlega rangt sem þú gerir að segja að sé maður/kona ósammála málflutningi og/eða kröfum forréttindafemínista þá sé viðkomandi sjálfkrafa á móti jafnrétti. Raunin er nefninlega allt önnur.

Kv,
Gunnar 

Gunnar (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 18:04

16 identicon

Umræðan um jafnrétti er orðin svolítið bjöguð. A.m.k. hér á blogginu. Ég mæli með að sumir karlmenn fái sér 1-2 róandi töflur (sterkar) áður en þeir byrja að hamra lyklaborðið í einhverri bræði

Hans Magnússon (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 18:16

17 Smámynd: Björn Kr. Bragason

Máltækið bylur hæst í tómri tunnu á vel við þegar talað er um femínista á Íslandi, og á það við á báða bóga. Femínistar standa langflestir fyrir mjög góðum og göfugum málstað, en því miður eru nokkrar bitrar piparjónkur þeirra á meðal sem vaða drulluna upp að eyrum í nafni femínismans og sverta þar með þann góða málstað, og ná um leið að espa upp fáfróða karlmenn sem éta upp skítinn eftir þær og fordæma alla femínista út frá þessum örfáu einstaklingum án þess að kynna sér hinn raunverulega málstað.

Björn Kr. Bragason, 28.11.2007 kl. 18:48

18 identicon

Við erum jafnréttið - ef þið eruð á móti okkur þá hatið þið jafnréttið, og konur.

Lemjið þið ennþá konurnar ykkar?

Heitir þessi rökvilla/umræðubrella ekki eitthvað? 

Bjarni (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 22:13

19 identicon

Bara auðvelt svar við fyrisögninni: Nei, auðvitað vilja þeir ekki jafnrétti. Hver á þá að stjórna þvottavélinni?

Linda (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 23:29

20 identicon

"Þessir menn"? Ég fæ nú ekki betur séð an að ófáar konur séu komnar með meira en nóg af málflutningi femínista og hafi látið það í ljós með miklum tilþrifum.

Ég verð líka að segja að mér finnst þú og skoðanasystur þinar skella skollaeyrum þeim flaumi málefnalegra andsvara sem á ykkur hefur dunið. Það er alls ekki svo að þið séuð í einhverju stríði við hálfvita eingöngu. Fólki, konum og körlum er einfandlega misboðið og sagan mun ekki kalla ykkur jafnréttissinna, svo mikið er víst.

Þrándur

Þrándur (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 01:05

21 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Þegar ég tala um "þessa menn" á við þá sem snúa út úr og eru með almenn leiðindi og stæla.  Samkvæmt íslenskri málhefð eru konur líka menn og þær örfáu konur sem hafa verið með leiðindi og stæla falla undir flokkinn.  

Ég renndi yfir athugasemdirnar hér að ofan og það er augljóst, eins og var að vona, að karlmenn sem tjá sig hér vilja almennt jafnrétti. Það sem mér finnst þó sérstakt er hvernig þau skilaboð drukkna næstum í stælum, móðgandi rangfærslum og uppnefnum.  Umræðan snýst að mestu leyti um hversu ómögulegir femínistar séu.   Ég nenni ekki í stríð eða skítkast við þá sem langar í svoleiðis, ekki á þessum vettvangi.  Rökræður henta sjálfsagt betur en svona skrif enda trú ég ekki að nokkur myndi kalla mig forréttindafemínista, bitra piparjúnku eða öfgafemínista augliti til auglitis. 

Ég skal fúslega viðurkenna að ég var að vonast til þess að þið kæmuð með tillögur að úrbótum.  Ef þið sjáið launamuninn, valdamuninn og að konur eru síður viðfangsefni dagblaða sem vandamál langar mig að vita hvað þið teljið geta breytt því. 

Teljið þið að það eitt að konur almennt krefjist hærri launa muni leiðrétta þennan mun, hvernig væri það framkvæmt?  Með verkföllum, uppsögnum eða annað? Er nóg að konurnar séu meðvitaðar um þessi mál eða þurfa karlmenn líka að vera meðvitaðir um launamuninn?

Teljið þið að kynjahlutfall í stjórnmálum sé alfarið á ábyrgð kvenna, að þær sæki ekki í valdastöður í flokkum?  Gæti verið að konur og karlar í stjórnmálum fái ekki sömu meðferð á einhvern hátt?  

Teljið þið að það þjóðfélagsmynstur að konan sér meira um börnin en karlinn geti haft áhrif á stöðu hennar í vinnu og stjórnmálum?  

Haldið þið að þessi hlutföll jafnist að sjálfu sér og þá á hvað löngum tíma?

 Þarna slæ ég fram nokkrum punktum í fljótheitum, það verður fróðlegt að sjá ykkar sjónarhorn.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 29.11.2007 kl. 09:44

22 Smámynd: Gló Magnaða

Athylgisverðar skoðanir hér. Ég hef oft spáð í að málstaður feminista er í rauninni skoðun okkar allra. En svo eru auðvitað öfgar í báðar áttir. Þannig er það bara því miður.... eða sem betur fer......  

Gló Magnaða, 29.11.2007 kl. 09:50

23 identicon

Ég sé ekki þennan launamun sem þú talar um. Ég hefi oft heyrt hann nefndan eða ölllu fremur úthrópaðan en femínistarnir sem hæst láta hafa aldrei sýnt fram á hann nema með verulega gölluðum launakönnunum sem ekkert mark er takandi á. Þar mætti nefna könnunina sem sýndi 65% á kvennafrídaginn 2005 og núna síðast könnun jafnréttisstofu sem var svo vita gagnslaus og ómarktæk að pappírinn sem hún var prentuð á á bara erindi beint í ruslið.

Getur þú bent mér á þennan launamun? Þú talar um að vilja rökræða. Þá þarf að styðja fullyrðingar sínar með einhverjum rökum. Þá þarf bara að fara í það að taka fyrir launakannanir og ræða það hvort að þær eru marktækar og faglega unnar og hvort þær gefa tilefni til þess að álykta nokkuð. Það er nú bara þannig að þessar launakannanir eru ekki ræddar heldur fyrst og fremst notaðar til þess að búa til upphrópanir.

Telji einstaklingur sig hlunnfarin í launum þá er náttúrulega bara eitt til ráða, og það er að krefjast launahækkunar! Þetta gildir jafnt um konur og karla. Reynsla mín af því vinna með konum í láglaunastörfum er sú að þær voru tilbúnar að kvarta undan laununum sínum og meintum kynbundnum launamun kynjanna en ekki vildu þær fara fram á launahækkun.

Hvað varðar hlutföll þá finnst mér afskaplega heimskulegt að tengja það jafnrétti á einhvern hátt. Jafnstaða er ekki mælikvarði á jafnrétti. Jafn réttur allra einstaklinga til einhvers er einfaldlega bara frelsið sem viðkomandi einstaklingur hefur til þess að láta að sér kveða.

En hér er ein pæling ... eru karlar hópur? Eru konur hópur? Á mér sem karlmanni að finnast ég hafa eitthvað meiri völd eða minni eftir því hver situr að völdum hverju sinni?

Eru einhver dæmi þess að konur fái aðra meðferð en karlar í stjórnmálum? Getur þú nefnt einhver dæmi. Ég man ekki eftir neinum?

Hvað varðar síðustu 2 spurningarnar þá segi ég bara já við þeim báðum en velti tímanum ekkert fyrir mér.

Ég ætla samt að koma með einn punkt í lokin sem ég kom með í fyrri athugasemd minni, þó svo hann hafi kannski misskilist.

Þó svo að einhver hópur fólks skilgreini sig sem femínista/jafnréttissinna þá gerir það það ekki að verkum að allar fullyrðingar þess hóps í þeim málaflokki verða að stórasannleik og að þeir sem séu ósammála fullyrðingum þeirra séu á móti jafnrétti. Jafnrétti á Íslandi snýst fyrst og fremst um konur eða því miður takmarkaðan hóp kvenna sem virðast berjast um bitlinga og stjórnarsæti handa sér og sínum.  Oddný Sturludóttir orðaði þetta svo vel þegar að hún sagði að hlutverk jafnréttisstofu væri að gæta þess að lög væru ekki brotin á konum!

Há sjálfsmorðstíðni ungra karlmanna og réttur feðra er ekkert ræddur og ekki hefi ég séð neitt um það frá félagsmálaráðherra.

Þó svo að ég(og aðrir) hafi aðra skoðun á jafnrétti en þú þýðir ekki að þú hafir rétt fyrir þér og við séum á móti jafnrétti! 

Bjarni (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 10:25

24 identicon

Þú segir "Að lokum langar mig að minna á að femínisti er karl eða kona sem sér að jafnrétti kynjanna er ekki komið og vill gera eitthvað í því. samkvæmt skilgreiningu femínistafélags Íslands."  Það er kannski skilgreining femæinistafélags Íslands, en það er ekki það sem ákveðnir femínistar eru að berjast fyrir, þeir sem tala hvað hæðst eru löngu komnir burtu af þessari braut, pg af þeim sökum eru menn að gagnrýna þá femínista sem hafa villst.

Hvað nafnleyndina varðar, þá eru það einnig einstaklingar sem kenna sig við femínistma sem skrifa undir nafnleynd. Ég hef sjálfur fengið á mig nafnlaus komment frá þeim. Auðvitað tekur maður ósjálfrátt minna mark á þeim, en ég svara þeim samt sem áður. Mér finnst rökin sem nafnleysingjarnir koma með ekkert minna virði, ef það eru raunverulega rök, í staðinn fyrir eitthvað babl.

Jafnrétti er góður hlutur sem við viljum öll, þessi barátta er því miður hætt að snuast um jafnrétti og hefur færst yfir í kvenréttindi. Því er ekki hægt að neita, femínistar segja það sjálf að þau berjist fyrir kvenréttindum, og einnig er til kvenréttindafélag Íslands.

Ég vona bara að þessi barátta skemmi ekki meira fyrir jafnréttindarbaráttum, þau hafa gert nóg, og þykir fólk því mikil ástæða til að gagnrýna þá sem að öfgunum standa.

Til að svara upphaflegu spurningu þinni, þá JÁ þessir menn vilja jafnrétti.

mbk

Óli

Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 12:55

25 identicon

Það er mikið til í því sem Bjarni bendir á með háa sjálfsmorðstíðni ungra karlmanna og minni umgengnisrétt feðra. Þetta eru engin smá jafnréttismál og við þau má svo bæta hversu illa er komið fram við stráka í skólakerfinu. Innan þess er náttúrulegt hegðunarmynstur þeirra hreinlega sagt vera til vandræða. Greyið strákarnir hvers eiga þeir að gjalda með það? Hvers konar jafnréttisstofur eru það sem eru eingöngu skipaðar fólki öðru megin átakalínunnar? Þar á ég auðvitað jafnréttisnefnd HÍ sem var eingöngu skipuð konum, síðast þegar ég vissi. Var það ekki hún sem sá einmitt misréttið í HÍ þannig að verkfræðipungarnir væru að halda konum niðri þegar það var eina deildin í HÍ þar sem konur voru ekki meirihluti nemenda.

Er það einhver furða að margir ungir karlmenn verði reiðir þegar þeir heyra konur tala um jafnrétti þegar þær minnast aldrei á þau vandræði sem hrjá að lang mestu leiti karlmenn? 

Jón Skafti (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 13:51

26 identicon

Matthildur,

Allir femínistar sem styðja fyrirliggjandi "jafnréttislagafrumvarp" hljóta að teljast forréttindafemínistar enda felur það í sér ríkuleg forréttindi til handa konum t.d. á sviði vinnuréttar. Ég veit ekki hvort þú styður þetta frumvarp eður ei en ef þú gerir það þá myndi ég fúslega kalla þig forréttindafemínista augliti til auglitis og sé ekki af hverju það ætti að vera mér erfitt.

Þá að spurningum þínum (í þeirri röð sem þú settir þær fram):

1. Það er ósannað að það sé óeðlilegt að konur hafi að meðaltali lægri laun en karlar. Skýringana gæti verið að leita í því að konur leggji minni áherslu á laun en karlar og séu oftar á framfæri maka að hluta til en karlar. Það að hver einasta launakönnun sem jafnréttisiðnaðurinn gerir skuli vera hrakin af menntskælingum með gildum rökum er hneisa. Konur geta fengið sömu laun og karlar beiti þær sömu aðferðum og þeir og að sjálfsögðu er það á ábyrgð þeirra sjálfra að gera það. Við þurfum að sjá um okkur, hversvegna í ósköpunum ættu konur ekki að sjá um sig sjálfar líka? Það er ekkert samsæri í gangi gegn konum á vinnumarkaði.

2. Það er ekki nóg að "sækjast" eftir valdastöðu í stjórnmálaflokki til að það geti legið til grundvallar ályktunum um samsæri gegn konum. Margir karlar sækjast eftir völdum en tapa í keppni við aðra karla eða konur eftir atvikum. Kynjahlutföll í stjórmálum eru að sjálfsögðu á ábyrgð kvenna sjálfra, nema hvað? Konur þurfa, auk þess að sækjast eftir valdastöðu, að gera sig samkeppnishæfar gegn öðrum keppendum um sömu stöður. Það er ekkert samsæri í gangi gegn konum í stjórnmálum.

3. Konur hafa lögbundin forréttindi á sviði sifjaréttar og ráða því alfarið yfir börnum í þessu landi. Karlar hafa engin lögvarin forréttindi á sviði vinnuréttar eða í stjórnmálum þannig að ef þetta er þjóðfélagsmynstur þá leiðir það af einhverju allt öðru en samsæri karla gegn konum.

4. Sjálfur hallast ég að því að það sé eðlilegt að kynjahlutföll séu ójöfn í hinu og þessu. Kynin eru ólík og hafa ólíkar áherslur í lífinu. Þessar áherslur geta að sjálfsögðu tekið breytingum og eru ekki "fasti" frá einum tíma til annars. Ég sé ekki vandamálið við það að konur sæki meira í að passa börn alveg eins og ég sé það ekki sem vandamál að fleiri konur sækja í stjórnunarstör nú en áður. Þetta byggist allt á eðlilegum vali hvers einstaklings fyrir sig og hefur ekkert með samsæri gegn konum að gera.

Af þessu dreg ég þá ályktun að háværar kröfur forréttindafemínista í dag myndu í praxís færa okkur frá jafnrétti og til lögbundins misréttis gegn körlum.

Að lokum langar mig svo að minnast á að skilgreining þín á femínisma er röng. Þessi skilgreining Femínistafélags Íslands virðist hafa verið samin í þeim tilgangi að bæta ímynd félagsins. Skv. orðabók þýðir orðið Femínismi "Kvenfrelsisstefna". Þú getur svo lesið enn aðra skilgreiningu á bloggi Katrínar Önnu, fyrrv. talskonu félagsins þannig að þetta er allt orðið meira en lítið ruglingslegt í meðförum ykkar og ekki til annar fallið en að gera umræðuna ómarkvissa og tilgangslitla.

Vil að lokum þakka þér fyrir að hýsa þessa umræðu.

Kv,
Gunnar

Gunnar (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 15:02

27 identicon

Nú er bara svo komið að stór hluti þjóðarinnar er ekki sammála þeim aðferðum sem áberandi femínistar beita. Sérstaklega þeim sem telja sig talsmenn kvennanna á Íslandi. Konur og karlar vilja ræða hlutina og skoða allar hliðar málsins en ekki einblína á þröngt sjónarhorn sem þessir áberandi femínistar hafa gert. Þær hafa fengið fólk upp á móti sér og þeim málstað sem þær standa fyrir í leiðinni, sem er náttúrulega hræðilegt, að nokkrar konur skuli geta komið slíku óorði á aðrar konur með hroka sínum. Við viljum ekki hlusta á hrokafullt fólk, karla eða konur.

Þetta er kannski ekki skrýtið þar sem þessar konur hafa verið duglegar að gefa það í skyn að þær konur og þeir karlar sem ekki eru þeim sammála viti bara ekki betur, það sé bara vitlaust fólk sem er ekki þeim sammála. Ef það er ekki vitlaust þá eru þetta karlrembur eða konur sem eru undirokaðar af karlrembum og ekki færar um að hafa skoðun á hlutunum. Þessar konur þykjast hafa meira vit en restin á þjóðinni um hvað sé þeim fyrir bestu. Þær eru ekki tilbúnar að hlusta á hvað fólk(konur og karlar) vill.

Svo er búið að tengja þessa barrátu við sósíalisma, en við Íslendingar erum ekkert sérstaglega hrifnir af honum.

Svo ertu bara að tala um karlmenn sem hrópa á femínista. Reyndar er svo komið að mikið af konum hrópar á þessa femínista líka. Konur sem telja sig femínista eru ekki sammála þessum litla og þrönga hóp. Ég er búin að lesa mörg blogg í dag eftir konur sem eru ekki sammála Sóley og félögum. Reyndar er svo komið að það er ekki minna af konum sem kommentera á síðuna hennar(eða blogga um þessi málefni) og láta í ljós svipaðar skoðanir og þessir karlar sem þú ert að tala um.

Heldurðu að það gæti verið að þessir áberandi femínistar séu að gera eitthvað vitlaust eða eru allir aðrir svona vitlausir ?

Veistu hvað þarf margar karlrembur til að skipta um ljósaperu ?

Svar: Enga, þeim finnst best að hata konur í myrkri.

Bjöggi (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 16:53

28 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ég hef ekki kynnt mér jafnréttisfrumvarpið enda hafa fjölmiðlar verið duglegri að fjalla um bleiku og bláu fyrirspurn Kolbrúnar og það hvort konur vilji vera ráðherrar eða ráð-eitthvað annað.

Ég er eins og margir sem hér hafa tjáð sig efins um að lögbinda hlutfall karla og kvenna í stjórnum fyrirtækja.  Aftur á móti finnst mér hægt ganga í jafnréttisátt og á þar við þá staðreynd að í íslensku samfélagi eru konur minna sýnilegar í opinberri umræðu, konur fá lægri heildarlaun en karlar og konur hafa ekki eins mikil völd í stjórn landsins.  Karlar fá síður forræði yfir börnum við skilnað og sú krafa virðist lífseig að þeim beri að skaffa vel og vinna fyrir börnum og búi. Á  meðan þykir eðlilegt að þegar ungt fólk í sambúð eignast börn þá minnki konan við sig í vinnu.  Burt séð frá því hvor hefur meiri áhuga eða getu.  

Mér finnst eðlilegt að velta því fyrir mér af hverju s.k. kvennastéttir séu metnar til lægri launa og hvort það sé virkilega bara konunum sjálfum að kenna.   Ég hef aldrei talað um neitt samsæri gegn konum, en þessar staðreyndir (hagtölur) æpa á mig. 

Nú kunna einhverjir að segja að það séu eðlilegar skýringar á þessu öllu saman og kynbundinn launamunur hafi alls ekki verið sannaður.  En er það ekki einmitt sönnun á kynbundnum launamun hvernig laun þróuðust hjá t.d. kennarastéttinni. 

Mér er ekki kunnugt um að konur hafi lögbundin forréttindi á sviði sifjaréttar, ef svo er er það auðvitað fráleitt og algjörlega á skjön við jafnréttishugsjón femínista. 

Æ hættið svo að uppnefna femínista og kalla þá forréttindafemínista, ekki er ég að uppnefna ykkur sem andfemínista eða eitthvað annað.  Það skilar aldrei góðum rökræðum að  venja sig á að uppnefna þann sem þú ert að rökræða við.  Ég get ekki annað en fengið á tilfinninguna að það sé verið að tala niður til mín, sem mér líkar að sjálfsögðu illa.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 29.11.2007 kl. 17:11

29 identicon

Þarna ert þú að rugla saman tveimur aðskildum hlutum. Annarsvegar kynbundnum launamun og hinsvegar launamun kynjanna.

Kynbundin launamunur er munur á launum karla og kvenna í sambærilegum störfum sem ekki skýrist af neinni þekktri breytu (t.d munur á menntun).

Þessi launamunur hefur mælst á milli 10-15% í könnunum. Færð hafa verið nokkuð sterk rök fyrir því að hann gæti allt eins stafað af breytum sem ekki er tekið tillit til í könnununum.

T.d er það þekkt að það er líklegra að fólk taki á sig yfirmannsábyrgð af einhverju tagi án þess að starfsheiti breytist en að fólk beri undirmannsábyrgð en með starfsheiti yfirmanns. Þar sem karlmenn í eldri árgöngum eiga yfirleitt meiri starfsaldur að baki en konur í sömu árgöngum þá eru þeir oftar ofar í goggunarröðinni. Af því leiðir að karlmenn eru væntanlega fjölmennari í hópi þeirra sem eru með lægra starfsheiti en ábyrgð gefur tilefni til.

Þetta er eitt dæmi af mörgum um tölfræðilega galla á könnunum sem eiga að mæla kynbundin launamun. Helgi Tómasson, tölfræðingur, útskýrir þetta betur í þessari grein en ég gæti gert (orðið grein er hlekkur).

Í stuttu máli er það alls óvíst hvort að kynbundin launamunur er yfirhöfuð til staðar.

Launamunur kynjanna er hinsvegar munur á heildarlaunum karla og kvenna (könnun jafnréttisstofu á dögunum var könnun á launamun kynjanna). Stundum er hann reiknaður með tilliti til aldurs eða vinnustunda, stundum ekki. Það eru áhöld um það hversu mikið upplýsingagildi slík tölfræði hefur - hvort að það væri ekki bara betra að telja hausa í láglaunastörfum.

Við vitum að konur eru fleiri í láglaunastörfum. Spurningin er hvort að það stafar af því að stéttir lækki í launum þegar konur fari að sækja í þær eða hvort að konur sæki frekar í störf eftir að þau eru orðin laglaunastörf. Í þessu samhengi minni ég á að konur eru t.d í meirihluta ungra kennara í dag.

Umræðan um kynbundin launamun og launamun kynjanna er dæmi um mál sem að hefur verið þvælt svo óskaplega til og frá að umræðan er orðin að hálfgerðum skrípaleik og öskurkeppni. Mér sýnist fyrst og fremst vera við femínista (upphrópunarfemínista, femínistafélagsfemínista ef þú vilt hafa aðgreiningu) að sakast í þeim málum. Ekki hafa þeir t.d fengist til þess að svara gagnrýni Helga Tómassonar efnislega.

Annars er svarið við spurninguni í fyrirsögn já.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 18:12

30 identicon

...Þ.e já fyrir mig, ég get ekki talað fyrir alla karlmenn eða alla gagnrýnendur femínista frekar en.... 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 18:15

31 identicon

Matthildur,

Það vakir ekki fyrir mér að uppnefna þegar ég nota hugtakið forréttindafemínisti og ég get alveg borið virðingu fyrir rétti manneskju til að æskja forréttinda á grundvelli hugmynda um að sér sé mismunað með kerfisbundnum hætti. Það eru til einar þrjátíu tegundir af femínisma sem allar bera sitthvort nafnið og ég sé ekki af hvejru þessi tegund femínisma þarf að vera eitthvað niðrandi.

Málið er bara það að það er ekki til neins að tala um femínisma sem femínisma þar sem t.d. munurinn á hægri sinnuðum femínistum og vinstri sinnuðum er svo æpandi mikill að það er eins og að setja alla afríkubúa undir sama hatt og ræða öll mál er að þeim lúta sem um væri að ræða einslitan hóp fólks. Viðhorf jafnréttisfemínista geta verið gjörsamleg á öndverðum meiði við viðhorf forréttindafemínsta í stórum málum. Munurinn er öllum ljós sem fylgist með umræðunni og svipuð aðgreining er gerð í t.d. Bandaríkjunum þar sem talað er um "Gender feminism" annarsvegar og "Equity feminism" hinsvegar. Ég get vel skilið að forréttindafemínistar vilji ekki gera þessa aðgreiningu enda er hópur jafnréttisfemínista líkast til margfallt stærri en forréttindafemínista þrátt fyrir að minna heyrist í honum. Aðgreining myndi því leiða til þess að forréttindafemínistar yrðu gerðir hornreka. Forréttindafemínistar hafa talað of lengi undir formerkjum allra femínista en eru líkast til umboðslausir að mestu. Segja má að færslan þín hafi einmitt dregið þörfina á þessu fram í dagsljósið þar sem þú veltir fyrir þér hvort þeir sem andmæli femínisma séu á móti jafnrétti þegar raunin er líkast til sú að andófið sem þú talar um kemur einmitt frá jafnréttissinnum og beinist gegn forréttindafemínistum.

Varðandi það sem þú segir um kynbundinn launamun: Hagtölur segja okkur ekkert um ástæður launamunarins. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að áður en farið sé í lagabreytingar á grundvelli ásakana um kerfisbundna mismunun þá liggi fyrir sönnun á því að í raun sé um samsæri að ræða. Varla finnst okkur ásættanlegt að helmingur þjóðarinnar þurfi ekki að spá í launin sín því þau séu með valdboði látin fylgja að hinum helmingnum er það? Ég myndi a.m.k. kalla það forréttindi. Ef raunin er að konur leggja minni áherslu á laun en karlar þá væri það allt annað en jafnrétti að breyta því með valdboði. Ef launaþróun í kennarastéttinni "sannar" eitthvað þá er það helst það að konur (að meðaltali) róa ekki eins ötullega að háum launum og karlar (að meðaltali).

Varðandi það sem þú segir um forréttindi á sviðið sifjaréttar: Það kemur mér á óvart að yfirlýstur jafnréttissinni skuli ekki hafa tekið eftir þessu lögbundna misrétti. Konum er tryggt forræði yfir börnum sínum og ekkert nema samþykki þeirra í einstökum málum getur breytt því, konur geta fengið allt að fjórfallt meðlag með einu barni sem er umtalsvert meira en framfærsla með einu barni, konur geta - kjósi þær svo - tálmað umgengni föður og barns án þess að þurfa að óttast viðurlög og áfram mætti telja. Þetta kalla ég lögbundin forréttindi.

Fyrirliggjandi "jafnréttislagafrumvarp" boðar svo lögbundin forréttindi á sviði vinnuréttar. Er nema von að formælendur þess séu kallaðar forréttindafemínistar?

Kv,
Gunnar

Gunnar (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 18:21

32 identicon

Mér finnst orðið femínisti vísa frekar mikið til kyns, femín, skiljiði.........

Mér finnst jafn fáránlegt að vera kallaður femínisti eins og kona ráðherra, sorry, mín skoðun...

Ef maður les femínisk fræði og skoðaðr femínisma út um allan heim þá er verið að einblína á konur, kvennafræði, fá kvennlægt sjónarhorn á hlutina og það allt.

Ég vill vera jafnréttissinni og ekkert annað !!!!!!!!! 

Bjöggi (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 19:36

33 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ég er að tala um launamun kynjanna ekki kynbundnum launamun.    Er að velta fyrir mér stóru myndinni.  Ef konur velja sjálfar minni ábyrgð í starfi, eins og sumir gefa í skyn, af hverju skildi það stafa.  Við vitum að þegar þjófélag okkar var bændasamfélag (fyrir ótrúlega stuttu síðan) var hlutverk kvenna almennt að sjá um mat og ummönnun á meðan hlutverk karla var almennt að draga björg í bú. 

Er þá nokkuð óeðlilegt þó ég og fleiri femínistar teljum að þarna sé samhengi á milli sögunnar og nútímans, þó lagaumhverfið og þjóðfélagið sé gerbreytt.  Er það stóri sannleikur að meta ummönnunarstörf til lægri launa en umsýslu fjármuna?

Ég las þessa grein Helga Tómassonar sem Gunnar vísar í og ætla ekki að hrekja það sem þar kemur fram enda hef ég litla menntun í tölfræði.  Aftur á móti get ég ekki séð að hann beinlínis sanni að kynbundinn launamunur sé ekki til.  Heldur leiðir hann að líkum að markaðurinn sjái um að leiðrétta kynbundin launamun sé hann til staðar.  Auðvitað þarf að taka allar breytur sem máli skipta inn í reiknidæmið, vandinn liggur þá væntanlega í því að meta hvað skiptir máli. 

Á frjálsum vinnumarkaði fer fólk á milli starfa sé það óánægt með laun eða annað.  Ég get því ekki annað en velt því fyrir mér hvað sé frjáls vinnumarkaður?  Er t.d. grunnskólakennari algjörleg á frjálsum vinnumarkaði ef við gefum okkur að hann vilji vinna við það sem hann er menntaður í, að kenna grunnskólabörnum?  Hvað þá um heilbrigðisstarfsmenn.  Eru þessar stéttir í raun á frjálsum vinnumarkaði þar sem eini mögulegi vinnustaðurinn er ríkið eða sveitarfélögin og kjarasamningar gefa ekki svigrúm. 

Gunnar, þú ert vonandi ekki að gefa í skyn að ég sé femínisti vegna vanþekkingar minnar á sifjarétti eða að ég hafi ekki vit á jafnréttismálum þó ég þekki ekki einstaka lagabálka.....  Ég fletti upp barnalögum 29. gr. ..."Nú eru foreldrar barns hvorki í hjúskap né skráðri sambúð við fæðingu barns og fer móðir þá ein með forsjá þess, sbr. þó 1. mgr. 32. gr."...þetta útilokar ekki faðir frá því að fá forræði ef hann óskar en hann þarf þó að sækjast eftir því og ekki gleyma að móður ber að feðra barn sitt skv. lögum.  Ef þú hefðir valdið, hvernig myndir þú breyta þessum lögum?

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 29.11.2007 kl. 22:38

34 identicon

Matthildur,

Nei ég var ekki að gefa þetta í skyn. Ég tala yfirleitt hreint út og býð þér ekki upp á að þurfa að lesa milli línanna. Það kom mér bara á óvart að jafnréttissinni þekkti ekki betur til sifjamála. Mér finnst einmitt það hvað þessi mál hafa orðið útundan í "jafnréttisbaráttunni" benda til þess að þetta sé engin "jafnréttisbarátta" heldur kvenréttindabarátta.

Ég sagði ekki að lögin útilokuðu að faðir geti haft forræði yfir barni sínu. Það sem ég sagði var að vilji karl hafa forræði yfir barni sínu þá er það algerlega háð því að konan samþykki það og ósjaldan þarf hann að borga henni fyrir það með samkomulagi um aukið meðlag.

Sameiginlegt forræði er í dag sýndarfyrirkomulag og í raun algerlega gagnslaust ef upp koma deilur. Kona sem hefur sameiginlegt forræði með föður getur hvenær sem er farið í forræðismál án ástæðu og þar sem dómari má ekki dæma sameiginlegt forræði verður annað foreldri að vinna málið en það er nánast án undantekninga konan sem vinnur slíka baráttu. Það gildir því einu hver vilji karlsins er. Konan ræður þessu algjörlega skv. íslenskum lögum og dómaframkvæmd eins og ég sagði í fyrri færslunni og orð mín standa; þetta eru lögbundin forréttindi kvenna.

Ef ég hefði valdið þá myndi ég endurskoða lögin með hliðjsón af barnalögum í Frakklandi. Gera sameiginlegt forræði að meginreglu í öllum tilvikum, stuðla að jafnskiptri umgengni að því gefnu að foreldrar búi í sama skólahverfi og að börn geti haft tvö lögheimili þannig að styrkir og bætur renni til beggja foreldar en ekki bara móður eins og nú er nánast án undantekninga. Ég myndi afnema meðlög enda "barn síns tíma" og óþörf þegar umgengni er jafnskipt og konan í launaðri vinnu. Ég er með ýmsar aðrar útfærsrlur á takteinunum sem myndu gera mál mitt alllt of langt en þetta eru svona meginatriðin.

Ég tel að í framkvæmd muni þetta stuðla að því að fleiri börn kynnist feðrum sínum, ósmekkleg stríð um aukin meðlög með tilheyrandi geðheilbrigðisfórnarkostnaði myndu heyra sögunni til, þetta myndi minnka tortryggni í samskiptum foreldra sem búa ekki saman og þetta myndi stuðla að heilbrigðara uppeldi þar sem rannsóknir sýna að börnum er best að kynnast báðum foreldrum sem mest.

Kv,
Gunnar

Gunnar (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 23:24

35 identicon

... þess má svo til fróðleiks geta að "jafnréttisstýrunni" okkar, hún Kristín Ástgeirsdóttir sagði í fyrsta blaðaviðtali eftir að hún settist í stól forstjóra "jafnréttisstofu" að fara þyrfti varlega í að breyta þessum málum þar sem "aðeins væru um hundrað ár frá því að konur fengu yfir höfuð rétt yfir börnum sínum".

Mér finnst bara mjög eðlilegt að fólk sé búið að sjá í gegnum forréttindafemínismann og þá hræsni sem það felur í sér að kalla þá hugmyndafræði jafnréttisstefnu.

Með fullri virðingu fyrir þínum skoðunum á málinu.

Kv,
Gunnar

Gunnar (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 23:34

36 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Mér finnst þetta athyglisverður punktur hjá þér um frönsku leiðina og held í fljótu bragði að ég myndi styðja þannig breytingu á lögum.  Forræði og ábyrgð á barni á auðvitað að vera hjá báðum foreldrum þó hún sé ekki þannig í raun í dag.  Ég þekki vel dæmi, bæði hjá mæðrum og feðrum, um allt það slæma sem okkar kerfi getur laðað fram í fólki.  Af augljósum ástæðum ætla ég ekki nánar út í það hér.  Þetta yrði mjög stórt skref í jafnréttisátt það er klárt. 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 29.11.2007 kl. 23:54

37 identicon

Helgi sýnir ekki fram á það að kynbundin launamunur sé til staðar. Hinsvegar bendir hann á að það leikur mjög mikill vafi á tilvist hans. Í öllu falli þá sýnir hann fram á að jafnvel þótt að engin kynbundin launamunur væri til staðar þá myndi hann samt mælast með þeim aðferðum sem beitt er í launakönnunum og það má a.m.k gera ráð fyrir að hann sé töluvert mikið minni en hann mælist nú (10-15%). Ég minni í þessu samhengi á könnun sem Samtök atvinnulífsins gerðu fyrir skömmu og notuðu algenga aðferð við mat á launamun. Í þeirri könnun mældist kynbundinn launamunur á Alþingi en kjör Alþingismanna fylgja þó mjög skýrum reglum .

Hvað varðar launamun kynjana þá skerðir fólk alltaf atvinnufrelsi sitt (eins og þú skilgreinir það) við það að læra til einhvers starfs. Það er val þess sem lærir til kennara að velja þá braut í lífinu. Ég get ekki beinlínis séð hvernig það sé undir "okkur" komið að fá konur til þess að læra eitthvað annað. Það er bara eitthvað sem hver kona verður að eiga fyrir sig. Ef að karl og kona með sama gildismat (þ.e jafn mikla áherslu á að þéna vel) eiga jafn mikla möguleika á að ná markmiðum sínum þá ríkir jafnrétti að mínum dómi.

Laun umönnunarstétta og kennara mætti reyndar bæta en fyrir mér er það ekki jafnréttismál heldur spurning um að manna störfin vel.  

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 00:43

38 identicon

æj það eru allir svo mikil fórnarlömb, ég veit ekki með ykkur en ég er farinn að væla.

Guðmundur Ásgeirsson (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband