4.12.2007 | 14:56
Það eru ekki allir í stuði
Mikið djöfull finn ég fyrir að það eru ekki allir í stuði. Þvert á móti virðist fólk mikið vera í argasta óstuði þessa dagana. Sendir hvert öðru tóninn, stundum meiðandi, stundum bara móðgandi. Ég hef ákveðið að taka þátt í þessu óstuði enda mikið gefin fyrir kjafthátt og almenn leiðindi. Þeim fáu sem enn eru í stuði þrátt fyrir sólarleysi og kulda skal bent á fara varlega í að láta gleði sína í ljós.
Það er nefnilega algengur misskilningur að allir verði alltaf að vera í stuði eða hafa það gott. Stundum er kona einfaldlega í skotþungu skapi og á bágt með annað en bíta höfuðið af þeim sem heilsa glaðlega í morgunsárið. Skella fram sínu glaðlega, Góðan daginn. Fólk á að hafa vit á því að láta okkur fýlupúkana í friði fyrir hádegi. Já og í sumum tilfellum gæti verið best að láta þann fúla stíga fyrsta skrefið í samræðum.
Já og hættið að spyrja hvernig við höfum það. Þið hafið hvort sem er ekki áhuga á því að vita það, ekki í alvöru. Eða ætlið þið að segja mér að þegar þið spyrjið vinnufélaga ykkar hvað þeir segi gott, að þið séuð í alvöru að spá í hvernig þeir hafi það og hvað sé þeim efst í huga. Nei, það er miklu líklegra að þið séuð bara að segja þetta til að segja eitthvað. Halda uppi samræðum eingöngu samræðnanna vegna.
Þið hin, sem alltaf eruð í stuði, ættuð að prófa að vera morgunfúl og þung í skapi í einn dag. Það er nefnilega ekki eins slæmt og þið haldið. Þó kona sé með ólund líður henni ekki endilega illa, hún sér veröldina einfaldlega frá öðru sjónarhorni og það getur verið mjög fyndið, í það minnsta eftirá.
Athugasemdir
Hvað er fólk líka að ræða um veðrið eldsnemma á morgnana? Fer alveg með mann.
Arg...!
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 4.12.2007 kl. 19:49
Ég ælta að kyssa þig í fyrramálið og dansa fyrir þig sérstakan jóla-hopp-dans. Komdu uppúr tíu......
Ylfa Mist Helgadóttir, 4.12.2007 kl. 19:51
Pabbi minn sálugi var vanur að segja: "Bright and witty in the morning - dull in the afternoon!" Hann var enginn morgunhani frekar en ég.
Er hægt að segjast vera "eftirmiðdagshani"?
Kári Harðarson, 5.12.2007 kl. 00:27
Hrmpf.. grömp. Hæ og hó, ég sé snjó. Svo gaman að lifa enda hánótt Matthildur mín.
Jenný Anna Baldursdóttir, 5.12.2007 kl. 01:06
Aldrei taka friði ef ófriður er í boði.
Skil ekki fólk sem fer á fætur fyrir hádegi.
ellismellur (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 07:52
Við vorum að ræða það í gær að þó svo að allt fari í taugarnar á manni og maður verði fjúkandi reiður og skelli hurðum
þá skal grínið aldrei víkja.
Gló Magnaða, 5.12.2007 kl. 09:31
Hvað segirðu gott Matthildur mín ?
Svo vantar mig dæmisögu um hvað er svona fyndið við að vera þung og þver 
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.12.2007 kl. 10:58
Gleði, umhyggja, bros, gjafmyldi og skemmtilegheit er stórlega ofmetið.
Elín Erlings (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 14:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.