11.12.2007 | 12:02
Jólin koma þó þú nennir ekki að taka til.
Eins og margir er ég alin upp við það, að fyrir jól skuli þrífa húsið hátt og lágt. Ég man enn hvað mér þótti þetta ömurlegt. Skápahreingerning var sérlega leiðinleg og það versta af öllu var ruslaskápurinn. Þegar ég var ung voru ruslaskápar verri en þeir eru í dag. Þá voru almennt ekki nýlegar plasthúðaðar eða háglanslakkaðar innréttingar á heimilum. Nei, á þessum tímum voru skápar gamlir með hillupappír og pípulögnin undir vaskinum var eldgömul, úr málmi og oft farin að smita.
En það sem rak okkur systurnar áfram, því bræðurnir voru enn of ungir, var vissan um að jólin kæmu í kjölfarið og kannski ekki síður hræðslan um að þau kæmu ekki ef við köstuðum höndunum til verksins. Á þessum árum var litlu hent og hlutirnir gjörnýttir og allir skápar því fullir af dóti. Það var ekki til siðs að henda slitnum fötum eða verkfærum og kaupa ný. Nei, á þessum árum var allt dýrt. Þetta var fyrir tíma ódýru verslananna sem verða okkur út um vöru á góðu verði. Vöru sem oftar en ekki er framleidd af réttlausum verkamönnum eða börnum fátækra ríkja. Það er aldeilis munur að geta hent og keypt. Í dag gröfum við draslið eða brennum það og kaupum nýtt.
Svo ég snúi mér aftur að skápum æsku minnar. Fataskápana í herberginu mínu hræddist ég, þetta voru djúpir og dimmir skápar með stórum hillum og auðvitað fóru fötin okkar alltaf í einn graut. Það tafði raunar ekkert í daglegri umgengni, því þá rétt eins og nú gengum við bara í uppáhalds fötum sem gjarnan voru gripin beint af snúrunni. Ég kveið tiltekt í fataskápnum í marga daga. Ég var svo sjúklega hrædd við köngulær og þóttist viss um að þær byggju í dimmum skápnum. Ég man raunar ekki eftir að hafa fundið könguló í téðum skáp, en allt kom fyrir ekki. Í minningunni var þetta mannraun og ég fékk jólin að launum ef ég lauk verkinu.
Eldhússkáparnir voru líka leiðinlegir, en á allt annan hátt. Þar gátum við þó átt von á að finna suðusúkkulaðibita sem laumast hafði á bakvið. Eða jafnvel annað sælgæti sem móðir okkar hafði falið og gleymt. Í efstu hillunni fundum við gjarnan einhver gull sem við höfðum tínt eða eitthvað merkilegt dót hinna fullorðnu. Það hafa öll börn allra tíma gaman af því að gramsa og við vorum engin undantekning. Ruslaskápurinn var eins og ruslaskápar þeirra tíma. Rakur og sóðalegur. Í minningunni þurfti ég alltaf að taka hann. Einhvern vegin lenti hann alltaf á mér í síbreytilegu regluverki eldir systra minna. Reglum sem áttu þó að tryggja jafnræði og réttlæti. Ég býst við að sumir hafi einfaldlega verið jafnari en aðrir. En ég var yngst og valdalaus sem slík.
Þegar ég sjálf stofnaði heimili og eignaðist minn eigin ruslaskáp hélt ég við hefðinni í nokkur jól. Þreif allt hátt og lágt. En svo datt mér í hug að það gæti verið svo að það sem enginn sér, er ekki til. Ég ákvað því að hætta að taka allt í gegn fyrir jólin. Fórna þessari góðu tilfinningu sem kona fær þegar allt er hreint. Taka áhættu. Treysta á að heilög jól séu hugarástand frekar en annað. Smá saman hætti ég þrifastússi, ekkert extra. Og árið sem ég sleppti ruslaskápnum sannaðist fyrir mér að jólin koma hvort sem við erum tilbúin eða ekki.
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér. Ólst upp við þessi endalausu þrif og stress. Ákv. þegar ég fór sjálf að búa að taka ekki þátt í þessari vitleysu. Prufaði það ein jólin (eða tvö) að þrifa allt hátt og lágt,en tók eftir því að mér leið ekkert betur á aðfangadagskvöld.
Ísskápurinn sem og aðrir skápar mega vera skítugir yfir jólin fyrir mér. Tek það síðar í gegn.
M (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 12:20
Algjör martröð þessi skápaþrif. Fyrir nokkrum árum var ég í mikilli vinnu og þótt ég reyndi tókst mér ekki að klára að þrífa íbúðina hátt og lágt ... samt komu jólin. Eftir það hef ég verið mun rólegri í tiltektum ... og miklu ánægðari á aðventunni.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 11.12.2007 kl. 12:34
sjá:
http//glomagnada.blog.is
Gló Magnaða, 11.12.2007 kl. 12:46
Djöfull...... get ekki tengt slóðina. Bara copy/paste
Gló Magnaða, 11.12.2007 kl. 12:50
Mikið er ég sammála þér Matta, engin ástæða til að missa svefn eða jólahátíðleik yfir óþrifnum skápum ! Þá væri ég ekki búin að sofa eða halda jól í .. ja .. nokkuð mörg ár .. aðrir árstímar eru mikið heppilegri í slíkt stúss.
Les bloggið þitt af og til og hef gaman af, þú ert einstaklega orðheppin kona
Jólakveðjur til þín og þinna
Anna Guðrún (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 13:05
ég er löngu búin að tileinka mér þessa vitneskju Matta mín. Ég hef svo mikið að gera og er alveg á því að lífið hafi upp á svo margt miklu skemmtiegra að gera en að þrífa húsið hátt og lágt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.12.2007 kl. 13:14
Þetta er lífseigur siður. Því má bæta við að það var einmitt pistillinn hennar Gló um jólin sem kom mér til að rifja þetta upp.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 11.12.2007 kl. 13:56
Alveg sammála þvi að sleppa hreingerningunum. Ég hef frekar haft það fyrir sið að þrífa þegar ég tek niður skrautið. Þá er það búið að vera uppi við í rúman mánuð og orðið vel rykfallið. Og svo skáparnir í eldhúsinu, ekkert nema sósusletturnar og allt komið á rú og stú eftir öll jólainnkaupin. OG svo ískápurinn allur klístraður eftir að maður hefur troðið þar inn afgöngunum og sífellt verið að taka þá út og setja þá inn eftir að maður hefur nartað í þá. namm namm. Betra að geyma allar hreingerningar fram í janúar þegar allt er rólegt.
Þú ert frábær penni Matta
Katrín Líney Jónsdóttir (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 15:05
Jólin koma, rétt er það án tillits til þrifa, en yfir hverju á kona þá að stressa sig? Var 10 ára þegar verkfall skall á í Borg Óttans og ég linnti ekki látum fyrr en búið var að versla það inn just in case að ekkert yrði til fyrir jólin. Verkfallið leystist og ég gat slakað á. Hvernig haldið þið að þetta með jólahangikjötsheilkennið hafi þróast? Hm.. má ekki vera að þessu er farin að þrífa ruslaskáp. Falalalala
Án gríns, njótum bara aðventunnar í botn og þrífum þegar við erum í stuði.
Jenný Anna Baldursdóttir, 11.12.2007 kl. 17:38
Sko hangikjötið, ég lét versla hangikjötið.
Jenný Anna Baldursdóttir, 11.12.2007 kl. 17:39
Hvaða tilfinninu ert þú að tala um þessa yfirborðskenndu?
Ég hef í áraraðir bara gert helgarhreinnt skrúðað heimilið upp og svo heldur maður góða aðventu og síðan heilög jól, með góðum mat og tilheyrandi. Ég kenni þessi þrif sem þið talið um,
mamma mín er millimetra kona, alt hafði sinn stað og alt gert eftir kúnsterinnar reglum við vorum látin hjálpa til, sko ég og bræður mínir, þrátt fyrir að mamma hafði 1=2 vinnukonur á heimilinu hún sagði að við hefðum gott af því að læra alla hliðar heimilishaldsins, ég þakka það allar götur síðan, enda hafði maður ekki efni á vinnukonu þegar maður fór að búa.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.12.2007 kl. 19:49
Ég dauðöfunda þetta myndarlega fólk sem er búið að gera allt svo jólin geta bara komið strax eins og ein vinkona mín sagði um daginn.
Það verður vist seint svoleiðis hér á bæ. Við hjónin mátulega afslöppuð. Man samt hvað það var gaman í gamla daga þegar allt var hreint í hverju horni og ekkert óhreint í þvottakörfunni. Það er svoldið sjarmerandi. En jólin koma samt veit það.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 11.12.2007 kl. 21:51
Alltaf gaman að lesa bloggið þitt, þetta er eins og talað frá mínu hjarta. Ég er alin upp við þessi miklu jólaþrif, og veit hún móðir mín er búin að þrífa eldhússkápana, glugga, veggi ofl... 84 ára gömul. Ég er löngu hætt þessu, en samt var ég lengi að burðast með samviskubit út af því, fannst eins og ég hafi svindlað. Ég lærði eitt gott ráð sem losaði mig það. Þegar ég er búin með mín nettu þrif, tek ég tusku og bleyti, helli svo vel af vellyktandi skúringarsápu í tuskuna . Tuskan er síðan sett á heitan ofn, og áður en langt um líður angar allt húsið af hreingerningarlykt.... líkt og eftir stórhreingerningar. Þetta geri ég nú bara til að plata sjálfa mig, og komast í jólaskapið með "hreina" samvisku. Vona bara að mamma frétti ekki af þessu. Kv. Ebba Sturludóttir
Ebba Sturludóttir (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 12:29
Ég er nútíma húsmóðir (og löt), ég veit að jólin koma þrátt fyrir drasl og óreiðu. Og þau eru ekkert minna hátíðleg.
Lífið er bara allt of stutt til að eyða því í einhver hundleiðinleg ofurþrif.
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 12.12.2007 kl. 18:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.