Íslensku jólasveinarnir eru víst hrekkjóttir.

Það er leiðinlegur siður að ljúga góðmennsku upp á íslensku jólasveinana og ég tek ekki þátt í því.  Í þessari samantekt mun því ég rifja upp þekkta hrekki og óknytti sem þessir ólánspiltar hafa á sinni svörtu samvisku.

Stekkjastaur sem að öllu jöfnu kemur fyrstur til byggða, gæti átt það til að læðast í þvottahúsið hjá þér og stela sokkum.  Ekki sokkapörum. Nei, hann stelur stökum sokkum.  Auðvitað verður uppnám á heimili þínu morguninn eftir þegar þú og fjölskyldan neyðast til að fara til vinnu og í skóla í ósamstæðum sokkum. 

Nóttina eftir kemur Giljagaur til byggða.  Þá reynir á traust og trú í hjónabandinu því hann fer hús úr húsi, stelur nærfötum og skilur þau eftir í nærfataskúffum nágrannans.  Það er ekki að undra þó skilnaðartíðni aukist í desember.

Stúfur, þetta litla óféti, situr alla nóttina í forstofunni eða skóskápnum heima hjá þér og bindur skóna saman á reimunum.  Með illleysanlegum rembihnút tengir hann saman hægri skó yngsta drengsins við vinstri skó mömmunar eða merkjaskó unglingsins við táfýluíþróttaskó pabbans.  Ekki halda að þið sleppið þó skórnir ykkar hafi engar reimar, hann límir þá saman á botnunum. 

Þvörusleikir sá fjórði vílar ekki fyrir sér að stela öllu súkkulaðinu í jóladagatalinu.  Það má sjá þau grenja blessuð börnin, langt fram eftir degi.  Fyrst eftir að hafa tapa súkkulaðinu, síðan eftir að hafa slegist við systkynin og að lokum þegar foreldrarnir skömmuðu þau fyrir svona ómerkilegt yfirklór, að kenna blessuðum jólasveininum um. 

Fimmti sveinninn Pottaskefill hefur ekki bara áhuga á pottum hann laumast inn í eldhús setur uppþvottalög í botninn á uppþvottavélinni.  Næst þegar þú þværð myndast þessi rosalegi froðubolti í kring um vélina.  Hreinasta martröð.

Askasleikir er sá sjötti í röðinni. Hann ruglar lykilorðunum þínum. Pin númerið í símann þinn er allt í einu orðið lykilorðið í heimabankann sem aftur er orðið að öryggisnúmeri á debetkortinu þínu.

Sá sjöundi Hurðaskellir, stelur bíllyklunum færir bílinn þinn í annað stæði í næstu götu, skilar lyklunum og hverfur á braut.  Þegar þú vaknar heldurðu auðvitað að bílnum hafi verið stolið, færð hræðslukast og hringir í lögregluna eða mömmu þína.

Áttundi sveinninn, hann Skyrgámur stelst í GSM símann þinn og færir númer á milli nafna.  það er ekkert fyndið að hringja í elskuna þína og fyrrverandi svarar pirraður.  Ekki fyrr en löngu seinna.  Eða þegar besta vinkonan er ungfrú klukka og heima er í vinnuni. 

Bjúgnakrækir er níundi í röðinni.  Hann skráir netfangið þitt á alla póstlista sem honum dettur í hug.  Það renna á þig tvær grímur þegar þú opnar póstforritið þitt næst og horfir á það yfirfyllast af stjörnuspám og orði dagsins og alls kyns gylliboðum á öllum mögulegum tungumálum.

Sá tíundi Gluggagægir, fer rakleiðis í tölvuna þína og setur stolna útgáfu af Vista-spes sem á ekki að koma á markaðinn fyrr en seint á næsta ári.  Auðvitað hrinur vélin og öll þín gögn tapast fyrir utan skjöl með lykilorðum þau sendast út um óravíddir alnetsins.

Ellefti kemur svo Gáttaþefur hann stelur ilmsápunni þinni og setur í stað þess grænsápu í brúsann.  Sumir sem alla jafna ilma vel og eiga mikið safn ilmefna í formi sápu, ilmvatna og krema hafa lent í miklu fjárhagstjóni eftir heimsókn hans.

Einn af þeim allra alræmdustu er Ketkrókur sem kemur aðfaranótt Þorláksmessu og það fer ekki fram hjá neinum ef hann hefur komist inn í íbúðina þína.  Hann hefur alltaf meðferðis poka af vel kæstri skötu sem hann laumar í örbylgjuofninn hjá grunlausum íbúum, meðan þeir eru enn í fasta svefni.  Stillir á hæga eldun og lætur sig hverfa.

Kertasníkir kemur síðastur skiptir út öllum möndlum og setur uppleysanlegt sælgæti í staðinn.  Það fær enginn möndlugjöfuna á þeim heimilum sem hann heimsækir, það er víst.

Hættið svo að tala vel um jólasveinana og kenna þeim um gróðabrask og góðverk, annars eigið þið á hættu að fá heimsókn á aðventunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

NOHH! Þarna komstu með það, allt þetta vesen undanfarið, svo eru það bara jólasveinarnir.  Svo gleymdi Giljagaur að setja í skóinn hjá stubbnum í nótt, ég varð að fara og sækja pakkan niður að útidyrum

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.12.2007 kl. 10:32

2 Smámynd: Gló Magnaða

Giljagaur hefur verið í vandræðum vegna veðurhamsins.

Ég átti nefnilega ekki í neinum teljandi vandræðum að finna mér nærbuxur að fara í

Gló Magnaða, 13.12.2007 kl. 10:54

3 Smámynd: Marsibil G Kristjánsdóttir

Hvað þýðir Giljagaur ?

flettu því upp í orðabókinni Matta?

Marsibil G Kristjánsdóttir, 14.12.2007 kl. 00:59

4 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

ég veit hvað það er að gilja... og veit því hvað Gilja-gaur þýðir... :)

Mér finnst ketkrókur sýnu skemmtilegastur af þessum jólasveinum. En hvað gerir hann ef maður á ekki örbygjuofn? Bakarofninn bara ?

Ylfa Mist Helgadóttir, 14.12.2007 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband