Mínar innri afsakanir

Ég hef verið að velta fyrir mér afsökunum.  Líklega er áhuginn til kominn vegna þess að það tók sig upp gamall siður hjá mér á dögunum og ég er nú farin að hreyfa mig reglulega.  Ég hef svo sem aldrei getað verið kyrr lengi og geng frekar en nota bíl í daglegu amstri. Á það jafnvel til að ráfa langt upp á fjöll og inn um firði.  Núna aftur á móti er ég farin að hreyfa mig það hratt að ég svitna.   Hleyp rennsveitt og rauðflekkótt í framan, en stend þó í stað.  Stilli útvarpið í ræktinni á Rás 1, hækka, stíg á hlaupabrettið og kem því í gang með því að fikta í öllum tökkunum.

Yfirleitt er ég ekki mjög löt að mæta og þó ég sé löt þá mæti ég samt, oftast.  Ég hef tekið eftir því að langerfiðasta við að hlaupa reglulega á hlaupabretti í líkamsræktarstöð er að komast fram úr rúminu heima.  Það er með ólíkindum hvað minni innri konu dettur í hug til að losna við að mæta og ég verð að vera á varðbergi gagnvart henni því sumar afsakanirnar eru nokkuð trúlegar.

Þegar klukkan hringir í annað sinn, því ein kría er jú lögboðinn réttur, fer fram skyndikönnun á líkamsástandi.  Hin innri kona, sú sem aldrei sefur, leitar að meiðslum eða veikindum til að halda líkamanum áfram í rúminu.   Um það bil sem meðvitundin er að vakna er því búið að planta hugsunum um slappleika og vesaldóm í huga minn.  Sjálf þarf ég stundum að rökræða við þá innri um þessi mál.  Hvort það sé bara allt í lagi að sofa áfram, ég eigi það skilið.  Ég sé slöpp.  Það sé sunnudagur.  Klukkan sé vitlaust stillt og síðast en ekki síst ég eigi mitt líf sjálf, sé fullorðin og ráði hvort ég fari fram úr.  Sjálf hef ég mína innri konu alltaf undir á endanum, en það getur tekið tíma.

Ein vinkona mín segir að Þetta sé ekki svona flókið og ég spekúleri bara einfaldlega of mikið.  Að fara á fætur sé einfalt mál, kona fari bara á fætur þegar klukkan hringi.  Önnur hefur bent mér á að þetta hafi ekkert með innri konu að gera.  Ég tími einfaldlega ekki að fara fram úr þegar karlinn er ennþá uppí. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sko þetta er vont ... en það venst .

Og svo þegar maður veit að maður ætlar að hlaupa með skemmtilegu fólki, svo ekki sé talað um að hlusta á morgunvaktina í leiðinni, þá drattast maður framúr eða sprettur upp eins og stálfjöður, eins og það heitir.

Hlauparinn á næsta bretti ( við hliðina á þér ) (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 19:24

2 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Snússið er agalegt. Ég nota það þangað til allir verða að spretta á fætur og hlaupa svo hratt í vinnu/skóla að enginn þarf á annarri líkamsrækt að halda. Nema ég, auðvitað! OG nú ætla ég að drífa mig í salinn og hlaupa eins og þú ;)

Sé þig vonandi á þriðjudaginn.

Ylfa Mist Helgadóttir, 18.1.2008 kl. 08:26

3 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Ég set klukkuna undir sæng þegar hún hringir þar sem ég finn aldrei takkann til að slökkva. Þar heyrist ekkert í henni og ég sofna aftur. Vakna svo bara of seint.

En mín innri er oft lengi að yfirvinnast. Það er svo hrikalega notalegt að vera undir sæng á morgnana. 

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 18.1.2008 kl. 08:59

4 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Veistu það.. ég held að þú hljótir að hafa komist inn í hausinn á mér

Jóna Á. Gísladóttir, 18.1.2008 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband