18.1.2008 | 16:51
Æ hvað fólk getur verið skrítið
Það er merkilegur andskoti hvað margir eru klikkaðir. Í gamla daga hélt ég að það væri undantekning en nú er ég að komast á aðra skoðun. Það er undantekning að vera ekki með einhverja röskun, þunglyndi eða aðra óáran á efstu hæðinni. Það þykir heldur ekkert tiltöku mál að einhver sé þunglyndur lengur, það er næstum flott að vera geðveikur. Næstum.
Ég þekki eina klikkaða en læt það liggja milli hluta hver hún er enda takmörk fyrir því hversu persónulegur bloggari ég get eða vil vera. Hennar líf er undarlegt ferðalag og þó hún sé bara þunglynd getur það birst í ótal skemmtilegum myndum, já og öðrum minna skemmtilegum.
Hennar þunglyndi einkennist af miklum sveiflum sem gefa hugtakinu dagsform dýpri merkingu. Einn daginn býr hún upp í turni þar sem hún hefur gott útsýni yfir hina. Hina sem ekki eru eins fljótir að hugsa. Hina sem skilja ekki hvað lífið er stórkostlegt. Turndagana er hún svo snjöll og frábær að það hálfa nægði venjulegri manneskju. Hún er öðrum fremri í svo mörgu, raunar flestu. Í þessum ham getur hún sigrað heiminn, með léttu. Hún leggur á ráðin um ótrúlegustu hluti. Útlistar fyrir vinum og kunningjum, hvort sem þeim líkar betur eða verr, hvernig hún ætlar að framkvæma þá. Lýsir hugmyndinni skref fyrir skref, því hún er svo gáfuð og réttsýn að ekkert getur farið úrskeiðis.
Í kjölfar daganna í turninum er hún oft aum. Aum á líkama og sál. Ekkert gengur og hún er þess fullviss að allt sé ómögulegt. Hún sé illa gefin. Næstum heimsk. Ímyndar sér að öðrum gangi betur að fóta sig í lífinu því hún klúðri öllu sem hún gerir. Furðar sig á þessari veröld sem er yfirfull af vesaldómi, óréttlæti og vonleysi. Aumu dagana hugsar hún um hungursneyð og stríð. Aumu dagana býr hún um sig í neðanjarðarbyrginu. Hleður málbyssurnar og raunar öll sín vopn. Tilbúin að skjóta hvern þann sem líklegur er að sjá í gegn um hana. Sjá að henni líður illa. Ef þú hittir hana í þessum ham og spyrð hvernig hún hafi það gæti hún svarað "ef ég segi þér það verð ég að drepa þig" En þú hittir hana ekki í svona ham, þá er hún heima, til öryggis.
Þessi kona hefur oft platað mig. Í gleðivímu getur hún allt og allir hennar vinir geta líka allt, að hika er að tapa. Og þá er oft gaman. Hitt er erfiðara þá veit maður aldrei hverju getur verið von á eða hvort er betra ísköld þögnin eða banvænar og nístandi athugasemdir.
Athugasemdir
Það er ekki auðvelt að vera þessi manneskja það er alveg ljóst og henni er greinilega ekki sjálfrátt. Vertu góð við hana, hún þarf á því að halda.
Ásdís Sigurðardóttir, 18.1.2008 kl. 19:48
Ég skil hvað þú átt við. Ég hef komizt að því, að það séu allir klikkaðir nema ég.
Vendetta, 18.1.2008 kl. 21:56
Verið nú ekki og fljót á ykkur, henni er ekki eins mikil vorkunn og þið virðist halda. Lífið er hvorki endalaus ganga um táradal né heldur eilífðar dans á rósum. Við upplifum öll góða daga og slæma er það ekki?
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 18.1.2008 kl. 22:50
Hún hlítur að vera frábær kona!
Annars er ekki gott að skilja sumt nema að hafa reint það sjálf/ur.
Við erum öll frábær og fjölbreitt, ekki satt???
Marsibil G Kristjánsdóttir, 19.1.2008 kl. 00:09
þú ert að lýsa konu með geðhvarfasýki eða bipolar mania depression Ekki bara þunglyndri
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.1.2008 kl. 01:20
Ég þekki þessa manneskju einnig Matta mín og get sagt að ég er ekkert ósvipaður persónuleiki að sumu leyti...
Gudjon M. Þorsteinsson (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 11:43
Það flaug að mér við lesturinn að þarna væri verið að ræða um sjálfa sig í þriðju persónu??
Annars er þessi lína, milli hins heilbrigða og þess geðsjúka, oft ekki sérlega skýr. Ég kannast t.d. við margt úr lýsingunni hér að ofan hjá sjálfri mér. Þessar dægursveiflur, að vera fullur sjálfstrausts og orku einn daginn, en svo alveg niðri í kjallara þann næsta. Ég tel nú samt sjálfri mér í trú um að þessar sveiflur séu allar innan eðlilegra marka og tengist því að vera tilfinningavera og manneskja af holdi og blóði. Á einhverjum tímapunkti geta þó sveiflurnar orðið of miklar og öfgakenndar og þá er sjálfsagt komið ástand sem kallar á einhverjar skjúkdómsgreiningar.
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 12:19
Er það ekki bara undtekning ef einhver finnst sem er ekki að einhverju leyti aðeins geðveikur??
Einhver minnist hér á geðhvarfasýki og eftir að hafa horft á þátt í sjónvarpinu gerðan af Stephen Fry breskum leikara um geðhvarfasýki sem hann sjálfur er haldinn sýnist mér nú að það se´nú mjög únnur ís á milli þess hvenær svona einkenni eru sjúkdómur og hvenær ekki. Líklega þ.egar þau eru farin að hafa afgerandi áhrif..en..samt. Við eigum örugglega öll daga sem eru miklu betri en aðrir og daga sem eru ömurlegir. Upp og niður tilfinningarússibanann þeytumst við..Reyndar sögðu geðhvarfasjúklingar sumir í þættinum að þeir vildu ekki vera án hennar..líklegast hefðu þeir ekki framið sín stórvirki nema einmitt vegna hennar..Kannski þurfum við smá bilun til að komast upp úr hinu hversdagslega fari og láta stóru hugmyndirnar verða að veruleika.
SKemmtilegur pistill...myndi örugglega njóta hans enn betur ef ég væri ekki svona pirr í dag. En það tengist samt helst hormónahringnum sem við konur erum fastar á hring eftir hring eftir hring. Sá hringur samanstendur einmitt af svona sveiflum sem má nánast kalla geðveiki..
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 19.1.2008 kl. 14:29
Matthildur, við fyrsta lestur þessa pistils varð ég pirruð og hugsaði hve hrikalega þessi Matthildur væri þröngsýn og fordómafull. Hún talar nánast um þunglyndi sem skammaryrði, svipað og talað er um venjulega geðvonsku eða bara óþekkt. Ef þú ert ekki að skrifa um sjálfa þig í 3ju persónu þá held ég mig við mína "first impression", en ef þú þekkir náið konuna sem þú skrifar um hér þá er allur minn skilningur fyrir hendi. Ég hef kynnst kvíðaröskun af eigin raun í kjölfar áfalls sem ég varð fyrir.
Marta B Helgadóttir, 19.1.2008 kl. 15:27
Ég er hugsi yfir mörgu sem þið hafið skrifað hér að ofan. Það er ágætt að sjá að það finnst ekki öllum að fólk með þunglyndi eða geðhvarfasýki sé fársjúkt. Að þetta sé líka spurning um sjónarhorn. Að kannski eigum við einmitt að þakka fyrir að sumir eru stundum svolítið hátt uppi, fá stórkostlegar hugmyndir og framkvæmi þær.
Ég ætla ekki að stofna tii þrasskrifa hér, en mér þykir heldur dapurt að einhver hafi getað lesið þröngsýni og fordóma út úr pistli mínum. Mér finnst það hljóti að segja meira um þann sem les en þann sem skrifar. En slíkt verður hver að eiga við sig.
Umrædda konu þekki ég vitanlega vel. Hvernig hefði ég annars átt að geta skilið hennar sjónarmið. Henni hefur farnast vel í sínu lífi, líklega vegna þess að hún notar góðu dagana vel og kemur hlutum í verk. Síðast en ekki síst hefur hún húmor fyrir ástandinu og lítur ekki á sig sem fjársjúka konu.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 19.1.2008 kl. 19:54
Hahahahahah!!! Mér finnst þetta -ólíkt flestum- dásamlegur lestur! Ég þekki aðra svona konu. Brengluð á örlítið annan hátt en samt alveg jafn brengluð. Það er ekkert varið í fólk sem ekki er brenglað á einhvern hátt. Það er einmitt fólkið sem segir: " En síðan þolir þetta veika fólk ekki nokkurn einasta hlut, og skilur oft ekki nokkurn einasta hlut.
En það erfiðasta er að það er ekki hægt að hjálpa þessu fólki nema það vilji það sjálft. Ömurlegt að vita að fólk hafi ekki vit á því að leita sér hjálpar. "
Þvílíkt rugl.
Ylfa Mist Helgadóttir, 20.1.2008 kl. 14:08
Matthildur mín, ég held að ég verði bara að sitja niðri á Langa Manga í nokkra daga til að fá að vita hver þessi vinkona er hehehehe.... en ég þekki þig sennilega betur en margur sem hér hefur tjáð sig.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.1.2008 kl. 17:34
Það góða við að fá hvers kyns óáran í kroppinn og/eða kollinn - hvort sem það er nú af geðrænu eða líkamlegu tagi eða hvort tveggja - er að þá skilur kona annað fólk miklu betur en áður. Öðlast víðsýni um lendur hugans, ef svo má að orði komast. Fær meira og betra útsýni Góður pistill, takk.
Vilborg D. (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 19:36
Flott ert þú Matthildur Helgadóttir.
Kveðjur til allra sem ég þekki
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.1.2008 kl. 19:55
Sæl kæra kunningja kona...... veistu að að ég hef verið með þessari konu bæði í turninum og í neðanjarðarbyrginu og það er ferlega gaman að ferðast svona með henni sérstaklega vegna þessa að hún er það meðvituð um þetta og staldrar sjaldan lengi við í byrginu en þar er hún svo heppin að hafa hann Guðmund hjá sér svo það blessast. Þannig að við erum ferlega oft samann í turninum og stefnum í að búa þar í ellinni.
Gréta Skúla (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 08:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.