28.1.2008 | 10:45
Ég á mitt nafn, eða hvað?
Ég hef verið að spá í nöfn og nafngiftir undanfarið. Það sem kveikti áhuga minn var grein sem ég las um KR og KR. það er nefnilega komin upp sú staða tvö knattspyrnufélög kalla sig KR. Knattspyrnufélag Reykjavíkur sem segist eiga KR nafnið og Knattspyrnufélag Reyðarfjarðar kallar sig líka KR. Þetta er dæmi um skemmtilega deilu. KR-ingarnir fyrir austan virðast sjá húmorinn í þessu en KR-ingum í vesturbænum er ekki skemmt. Finnst þetta virðingarleysi enda sé þeirra félag eldra.
Sjálf hef ég lent í þessu en nafnið Matthildur er ekki það algengt að ég hef í gegn um tíðina yfirleitt ekki verið í samskiptum við nöfnur mínar. Ef einhver kallar Matthildur þá svara ég án þess að hugsa mig um tvisvar, sem er vitaskuld nokkuð sem Guðrún eða Jón myndi ekki láta sér detta í hug án þess að athuga málið. Það var svo fyrir nokkru síðan að nafna mín skaut upp kollinum í kunningjahópnum og ég verð að segja að það truflaði mig. Á góðum degi, eða ætti ég kannski að segja slæmum, fór það meira að segja í taugarnar á mér. Ég reyndi að nota sömu rök og KR-ingarnir í vesturbænum og benti henni á að láta kalla sig eitthvað annað því ég væri jú eldri en það hlaut dræmar undirtektir, vægast sagt. Eitt get ég þó ekki vanið mig á og það er að ávarpa hana með nafni enda kalla ég hana aldrei Matthildi heldur nöfnu, og hún gegnir því. Það er spurning hvort KR-ingarnir geti notað þessa lausn.
Fyrst ég er byrjuð að tala um nöfn má ég til með að deila því með ykkur ég fékk nöfnin mín frá tveimur karlmönnum. Matthildar nafnið er komið frá Matthíasi sem fórst, sem ungur maður, af slysförum í Alviðru, en Ágústu nafnið fékk ég frá honum Gústa gamla á Hrygg sem vitjaði nafns í draumi. Það er líka skemmtilegt frá því að segja að ég á unglings nafna í Þingholtunum. Móðir hans og mín kæra vinkona segir gjarnan, ef hann hefur verið óvenju uppátektasamur og lýjandi, að fjórðungi bregði til nafns. Ekki ætla ég að þræta fyrir það enda getur það ekki verið alveg ókeypis að eignast nafna eða nöfnu. Tilgátan um að fjórðungi bregði til föður, fjórðungi til móður, fjórðungi til fósturs og fjórðungi til nafns finnst mér líka skemmtileg. Mér skilst að Gústi gamli hafi verið nokkuð kjaftfor og jafnvel orðljótur stundum og sum ykkar gætu haldið að sú lýsing ætti við mig. Ekki ætla ég að reyna að þræta fyrir eigin uppátektarsemi, það má því vel vera að unglingurinn í Þingholtunum hafi grætt hana með nafninu.
Athugasemdir
Hahahahahha....
Þetta er soldið fyndið, þetta hefur náttúrlega verið soldið erfitt fyrir okkur en við fundum ráð við því og sitjum sáttar við sama borð í dag :)
en þegar þú segir þetta þá á ákveðnum stað þá er ég rög við að svara mínu nafni í þeirri trú að yfirleitt sé ekki verið að hóa í mig heldur þig:) Kannski þarf ég að fara að skoða sjálfið, þetta segir kannski að ég lít ekki nógu stórt á mig og fara að gera frekar ráð fyrir því að fólk vilji allveg eins tala við mig eins og þig, eða hvað ?
kv. nafna
matta (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 12:41
Hefur þú nokkuð íhugað að nota nokkuð gamalt uppnefni frá menntaskólaárunum? Byrjar á K... :-)
Gunnar (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 12:57
Mér finnst bara dálítið fyndið að KR-ingar (hinir syðri) skuli vilja gera svona mikið mál úr þessu. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem að tvö íþróttafélög sitthvoru megin á landi deildu nafni. Þórarar í Vestmannaeyjum og Þórsarar á Akureyri rifust að því ég best veit ekki um það hvorir ættu nafnið, bæði félögin notuðu það með stolti. Og þar að auki eru full nöfn KR-félaganna ekki þau sömu, eingöngu skammstöfunin.
En eitthvað eru þeir viðkvæmir fyrir þessu vesturbæingarnir. GREYIN ;)
Aðalsteinn (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 21:36
Ég heiti nú eftir konu í símaskránni, gaman yrði nú að hitta hana til að sanna þetta með fjórðunginn.
Eru ekki til Þróttur í Reykjavík og Þróttur á Neskaupsstað? Ekki þræta þeir hah!
Þórdís
Þórdís Einarsdóttir, 29.1.2008 kl. 09:23
Þetta er ekkert smá nafn sem þú berð
Jóna Á. Gísladóttir, 29.1.2008 kl. 10:13
Prufaðu að heita Ylfa Mist og fá frið með það nafn í þrjátíu ár. Skyndilega heita bæði allir hvolpar, kettlingar og smástelpur ýmist Ylfa eða Mist og ég fer á taugum.... Svara fólki hægri vinstri þangað til sagt er við mig: ég var bara að kalla á tíkina. Sem þýðir auðvitað að ég er engu nær. líklega af því að ég er tík ;o)
Ylfa Mist Helgadóttir, 29.1.2008 kl. 15:15
Ég man nú eftir þessu skemmtilega uppnefni sem byrjar á K frá menntaskólaárunum sem Gunnar minnist á það kemur oftar upp í hugann en styttingin á nafninu þínu annars eru þetta góðar hugleiðingar hjá þér með nöfnin.
Ingigerður Friðgeirsdóttir, 29.1.2008 kl. 17:45
Matthildur, ég var að frétta að þú værir boðin út á ráðstefnu til að halda ræðu um Óbeislaða. Innilega til hamingju með það, þú ert sko vel að þessu komin. Gangi þér allt í haginn. Flott hjá þér stelpa.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.1.2008 kl. 17:47
Hahaha...ég svara öllum mömmum sem eru að kalla á litlu Dagrúnirnar sínar í búðum :-) Annars þetta með fjórðung til nafns...Matta ég er Matthíasdóttir get ég þá ekki kennt þér um allt þetta óbeislaða sem oft hrjáir mig?
Hafðu það gott og til hamingju með fyrirlestrarförina:-)
Dagrún litla
Dagrún Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 21:16
Ég hef haft mitt nafn nokkuð í friði.
Gló Magnaða, 30.1.2008 kl. 11:14
Já þú ert í Klemmu kona góð með þetta leiðindamál að fleiri en ein kona megi heita og svara sama nafninu..það er alveg greinilegt!!! Mér finnst t.d ekki að nokkur önnur kona getir borið mitt nafn..það hreinlega passar bara ekki við þær og augljóst að þær ættu að bera annað nafn en Katrín.
Annrs vildi ég bara segja þér hvað við hjón vorum montin og ánægð með okkar konu þegar við lásum fréttirnar um ferðina og hvað hugmyndin ætlar bara að stækka og stækka ...eretta ekki alveg magnað'
Það er eins og þessar bestu vaxi bara og dafni af sjálfu sér þegar það er einu sinni búið að hleypa þeim af stað og hugmyndsmiðurinn endar á því að vera í eftirdragi hugmyndarinnar um allar trissur..ha?
Góða ferð og gangi allt í haginn Matthildur hin eina.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 30.1.2008 kl. 12:44
skemmtilegt nema hvað að þú átt aðeins einn áttunda í mér hemir MÁR er líka nafni minn og ég er líka skírður eftir honum.
Matthías már (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 17:18
Sæl Nafna
Skemtileg athugasemd, og þar sem mér finnst líka að ég eigi ein þetta nafn, og hafi fengið það í arf frá Langömmu sem fékk það frá ömmu sinni og svo framvegis. Ekki hef ég hitt margar Matthildar um ævina þó árin séu 47 en jú þó eina upp í Þórsmörk fyrir áratug.
Upphaflega kom nafnið til landsins með frönskum sjómanni og því skolaði upp á land á Snæfellsnesi um 1723 ef ég man rétt. Þar fæddist fyrsta formóðir mín með þessu nafi og er faðir skráður óþekktur. En flestir sem heita þessu nafni eru afkomendur hennar. Ég er sú seinasta með þetta nafn í mínum ættleg og ég á ekki von á að það verði mikið fleiri.
Jeb, þessi með einn fjórða til nafns hefur mikið til síns máls. Við ósjálfrátt öpum eftir þeim sem okkur er sagt að við líkjumst. Mér fannst alla vegna athygglisvert það sem þroskasálfræðin sagði um mótun persónuleikans. Og tengsl þess sem okkur er sagt að við séum og þess sem við viljum vera og ákveðum síðan að lokum að líkjast.
Matthias hefur verið athyglisverður náungi því áðurfyrr var enginn skíður í höfuð á neinum sem ekki væri álitin þess verður að líkjast.
Uppátektasöm og með munninn fyrir neðan nefið getur aldrei verið leiðileg manneskja. Það segi ég þó ég hafi aldrei séð þig.
Kveðja Matthildur "Nafna" Jóhannsdóttir.
Matthildur Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 17:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.