Það var hlegið að mér í New York 1.

Að fá hugmynd er auðvelt, að ræða hana og útfæra er skemmtilegt en að koma henni í framkvæmd krefst áræðis og krafts.  Einhvernvegin svona nema vitaskuld á útlenskuhóf ég mál mitt í höfuðstöðvum Sameinuðu Þjóðanna í New York í síðustu viku.  Mér var allt svo boðið þangað í tilefni af 52. þingi kvennanefndar sameinuðu þjóðanna til að segja frá háðsádeilunni Óbeisluð Fegurð sem nokkrir galgopar á Ísafirði stóðu fyrir á síðasta ári.  Mér var bæði ljúft og skylt að mæta til að breiða út boðskapinn, nú og auðvitað til að trana mér smávegis enda í félagi athyglissjúkra Íslendina.

Það er margt sem landsbyggðarkonu eins og mér dettur í hug þegar hún ferðast um ókunnar slóðir og framandlegar samkomur.  Kannski er ekki alveg búið að drepa í mér sjálfstæða og gagnrýna hugsun þó tíðarandinn hér heim á íslandi sýni fólki sem stoppar og spyr af hverjulitla þolinmæði og enn minni virðingu. Það er önnur saga og líklega efni í djúpþenkjandi færslu.  Ég mun hér á eftir gera grein fyrir einhverju af því sem mér þótti markvert í þessari ferð.

Ég flaug til New York með Flugleiðum grúbb eins og lög gera ráð fyrir.  Það var  tíðindalaust nema mér fannst raspkökkurinn sem í boði var á leiðinni út varla til manneldis.  Mér varð hugsað til hænsnanna hennar mömmu í sveitinni heima. Ætli þær hefðu haft lyst á þessu.  Hundurinn hefði ekki étið þetta hvað þá kötturinn minn.  En ég kláraði úr dollunni, enda alin upp við að ljúka af disknum. þó færa megi rök fyrir því, að það að ljúka við mat sem mann lagar ekki í sé ávísun á offitu. Við eigum frá náttúrunnar hendi að kunna okkur magamál. Með í farteskinu var ræðan og heimildarmyndin.  Ég var við öllu búin, með eintök bæði í ferðatöskunni og í handfarangri, auk þess sem ég gekk með lítinn minniskubb í kápuvasanum. Þó ég geti verið utan við mig stundum, þá var harla ólíklegt að ég týndi öllu í senn, farangri, handfarangri og rauðu kápunni. 

Að halda ræðu á svona viðburði er í senn mjög einfalt og líka flókið.  Mér var uppálagt að fá sérstakt dvalarleyfi af diplómatískum ástæðum, auk þess sem ég þyrfti til þess gerðan passa, svo ég kæmist frjáls ferða minna um hús SÞ.  Þetta kallaði á pappírsvinnu og myndatökur þar sem ég varð að gæta þess sérstaklega að sýna ekki tennurnar hvað þá brosa.  Það er nú hægara sagt en gert í mínu tilfelli. Ég varð vægast sagt grimmileg á svip, grafalvarleg og með saman klemmdar varir.  Hitt var einfaldara því í grunninn er ekki svo mikill munur á að koma fram í félagsheimilinu í Hnífsdal og Dag Hammerskjold salnum.  Mér leið í það minnsta vel, svona rétt eins og þetta væri miðlungs þorrablót.  Ég vissi hvað ég var að fara að tala um og þóttist vera þarna meðal jafningja.  Auðvitað var ég með tölvuna, DVD diskinn, minniskubbinn, rauðu kápuna og ræðuna.

Þið sem enn eruð að lesa megið vita að þó ég væri svellköld fékk ég tvö minnimáttarköst. það er þegar litla konan á öxlinni hvíslar einhverju minnkandi að þérAnnað kastið fékk ég þegar ég sá fram á að þurfa að skera niður ræðuna mína um þriðjung enda var mér bara úthlutað 20 mínútum.  Hitt kastið fékk ég rétt áður en ég átti að mæta og sat með nokkrum öflugum femínistum í kaffiteríu SÞ og þeirri hugsun sló niður í kollin á mér, að þetta yrði ekki fyndið.  Ég yrði fræg fyrir að koma alla þessa leið og halda þurra og leiðinlega ræðu og það í sjálfum höfuðstöðvum SÞ í New York.  Ég hafði sett markið hátt og vildi vera með hóflegt uppistand að hætti Ellenar De Generes. Ástæðan fyrir því að mér varð hugsað til Ellenar var sú að yfirskrift okkar fundar var Growth, power and fun.  Ég var síðust og fékk á slá á létta strengi, á undan mér höfðu talað miklir ræðuskörungar.  Þær Ásta R. Jóhannesdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Guðrún Jónsdóttur og Margrét Steinarsdóttir héldu þrumu ræður voru þær að hita salinn upp fyrir mig? Engin pressa.

Áhyggjur mínar voru óþarfar. Ellen hefði þó líklega toppað mig en ég verð í það minnsta ekki fræg fyrir þurrlegustu ræðu sem nokkurn tíman hefur verið flutt í þessu húsi. Markverðum atburðum var þó ekki lokið og mun ég á næstu dögum leiða ykkur í allan sannleikan. Eða á ég að segja sannleikann eins og ég man hann um það sem getur gerst í New York.

.

.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Látið hana ekki plata ykkur, mér er sagt að hún hafi algjörlega slegið í gegn þarna úti, enda er það alveg í samræmi við það sem ég hef séð til hennar hingað til.  Ein af þeim skemmtilegri manneskjum sem halda einhverjar tölur við einhver tækifæri, henni tekst alltaf að komast niður á lappirnar eins og kötturinn, enda hefur Matthildur sérstakt dálæti á köttum, sér í lagi hefur hún mikla þolinmæði fyrir villiköttun, enda sækja þeir víst mikið til hennar.   En þetta var útúrdúr.  Til hamingju Matta mín og ég er rosalega stolt af þér. 

Og ef eitthvað þá hefur verið hlegið með þér en ekki að. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.3.2008 kl. 20:40

2 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Þú hefur nú alveg örugglega slegið í gegn !!  Bíða þín ekki tilboðin í röðum ?

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 6.3.2008 kl. 20:40

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er svo viss um að þú hefur ÁTT salinn.  Bíð spennt eftir framhaldi.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.3.2008 kl. 22:17

4 Smámynd: Gló Magnaða

Múahahaha... Þú ert nú alltaf dáldið hlægileg

Gló Magnaða, 7.3.2008 kl. 12:52

5 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Auðvitað sló ég í geng það dugar ekkert minna og núna er ég heimsfræg á Ísafirði

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 7.3.2008 kl. 12:58

6 identicon

Takk fyrir síðast Matthildur, mikið andsk...var gaman og hressandi að kynnast þér í NY!  Takk fyrir frábæran fyrirlestur og FYNDINN.. í Sameinuðu þjóðabyggingunni..það var svo gaman hjá okkur sem hlustuðum á þig og horfðum á glefsurnar úr heimildarmyndinni úr salnum, 'Óbeisluð fegurð!  ´´Uffff langt síðan kona hefur hlegið eins mikið...Bara snilld!  Þvílík kraftaorkukerling sem þú ert Matthildur...:)

Björg frá Stígamótum (IP-tala skráð) 7.3.2008 kl. 13:33

7 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Ég gat ekkert lesið eftir að hafa séð orðið "raspkökkur!!!!!." Ég var í óratíma að lesa út úr orðinu enda er hraðlesandi fólk eins og ég í mestu vandræðum þegar það rambar á nýtt orð!!! RASPKÖKKUR!!!! Það er oft í matinn í skólanum!!! HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA!!!!!

Ylfa Mist Helgadóttir, 7.3.2008 kl. 15:34

8 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Hahaha ég hnaut líka um orðið "RASPKÖKKUR". Það segir algjörlega allt sem segja þarf!

Til hamingju annars Matthildur!

Hjördís Þráinsdóttir, 7.3.2008 kl. 16:53

9 Smámynd: Fylkir Ágústsson

Mattthildur.   Nú er aðeins tvennt að gera í málinu .

1.   Gera út á fyrirlestrarferð um heiminn.  Selja hugmyndina og ferðast um heiminn og skoða,  fræða og þéna stóra fúlgu fjár.

2.    Gera eitthvað nýtt.  Virkja aflið.

p.s.  Ef þig vantar góðan umba vegna paragraf # 1,  þá veistu símanúmerið hjá mér 

Fylkir Ágústsson, 7.3.2008 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband