8.3.2008 | 00:09
Hvað er verið að gera fyrir karlmenn á Íslandi? 2.
Í gær hóf ég frásögn af ferðum mínum og því sem mér þótti markvert, í dag held ég henni áfram. Vitanlega sleppi ég því úr sem ykkur varðar ekkert um, enda vil ég halda í heiðri þeirri stefnu að verða ekki persónulegi bloggarinn. Væri ég slík gæti ég farið að skrifa frásögn um háska í háloftunum. Sögukorn um það hvernig konu með iðrakvef, sem mænir milli vonar og ótta á biðröðina við prívatið í flugvélinni líður. En ég skrifa ekkert svoleiðis.
Eftir að ég hafði lokið máli mínu, sýnt vel valda glefsu úr heimildarmyndinni fékk fólkið í salnum augnablik til að jafna sig ná, þó ekki væri nema að einhverju leyti, aftur sínu alvarlega yfirbragði. Þá var opnað á fyrirspurnir, þær voru allar hver annarri gáfulegri, ef ég man rétt. Og svörin ekki síðri. Mér þótti þó skemmtilegast þegar ein kona úr salnum spurði hvað yfirvöld á Íslandi væru að gera fyrir kalmenn. Eftir ræður okkar um grósku, kraft og gleði hjá íslenskum konum hélt hún greinilega að íslenskir karlmenn væru afskiptir, valdalausir, varnarlausir og hræddir. Ég veit ekki hvað yfirvöld eru að gera, fyrir utan að gera þá lagalega jafnréttháa okkur konum, en ég veit að við leyfðum þeim að taka þátt í Óbeislaðri fegurð.
Eftir handabönd, þakkir og þreifingar um að endurtaka leikinn á öðrum stað og tíma, ákváðum við að skreppa á næsta matsölustað og fá okkur latte eða rauðvín. þar sátu í það minnsta fjórtán femínistar í miklu stuði og hlátrasköllin í okkur yfirgnæfðu alveg ítölsku fótboltaáhugamennina, sem þó æptu allt hvað af tók þegar það átti við í leiknum. Þeir voru ekkert fúlir, kannski bara fegnir að vera ekki þeir hávaðasömustu, í þetta eina sinn.
Eftir dvölina á þeim ítalska tvístraðist hópurinn. Sumar fóru aftur í SÞ, aðrar að versla eða heim á hótel. Það var í mér einhver órói og ég ákvað að taka mér rösklega göngu, ein með sjálfri mér. Þegar ég hafið arkað á góðum smalahraða í fast að hálftíma uppgötvaði ég að síminn minn var týndur. Þetta leit ekki vel út, enda allt mitt tengslanet í símanum. Einu númerin sem ég man sjálf eru heima hjá mömmu, heima hjá mér og einn einn tveir. það er að vísu hægt að komast langt á því en það væri ekki lygi að segja að ég hafi hlaupið til baka á þann ítalska. Auðvitað voru þessir ljúflingar með símann og sögðust vita hvað allir mínir vinir heita. Sem betur fer þekktu þeir ekki Uglu símahrekki og höfðu því hvorki skipt út númerum eða sent einhverjum óviðeigandi smáskilaboð.
Enn hef ég ekki alveg lokið máli mínu og mun því setjast aftur við skriftir síðar
Athugasemdir
Bráðskemmtilegir pistlar. Takk fyrir að leyfa okkur að fylgjast með.
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 10:22
Skiptir máli að hafa konur í áhrifastöðum?
Konur í almannaþjónustu efna til kvennafundar laugardaginn 8. mars nk. kl. 17:00 á NASA við Austurvöll.
Yfirskrift fundarins er "Skiptir máli að hafa konur í áhrifastöðum?"
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra ávarpa fundinn.
Elna Katrín Jónsdóttir varaformaður Kennarasambands Íslands, Halldóra Friðjónsdóttir formaður BHM, Elín Björg Jónsdóttir varaformaður BSRB og Valgerður Eiríksdóttir grunnskólakennari vera með innlegg á fundinum. Allar þessar konur eru áhrifakonur.
Kvennahljómsveitin Dúkkulísurnar ásamt fleiri listako
Þorgerður L Diðriksdóttir (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 13:07
Hvað eru þið að gera fyrir karlmenn á Íslandi ? þetta er óborganlegt Annars bíð ég spennt eftir að hitta liðið niðri á Langa Manga og fá þetta allt beint í æð elsku Matthildur mín Ekkipersónulegibloggari.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.3.2008 kl. 14:06
hæhæ Matta
Mér finnst ofsalega gaman að lesa þessa pistla hjá þér og les nokkuð reglulega, en kvitta aldrei fyrir. Hér kemur það kvitt kvitt!
Vinkonur mínar sem sitja hér með að læra spurðu hvað hvað? þegar ég skellihló upp á miðju bókasafni, við mikinn fögnuð annarra:) Þá var ég auðvitað að hlæja að því hvað sé eiginlega gert fyrir karlmenn á Íslandi.... Þið látið lífið á Íslandi hljóma svo auðvelt greinilega eins og engin kvenréttindabarátta eigi sér stað hér og konur sitji karlmönnum framar:)
Lilja G. (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 16:34
Skemmtilegir pistlar hjá þér Matthildur, þó myndin af þér sé svarthvít ertu litrík persóna..
Kveðja Heiða
Heiða (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 16:54
Það er svo oft einhver sem spyr svona þegar fjallað er um konur. Bæði konur og karlar. Virðast samstundis fá af því áhyggjur, að þeir sitji hjá þessar elskur.
Takk og meira
Jenný Anna Baldursdóttir, 9.3.2008 kl. 14:47
Ég ætti kannski að taka fyrirlestraröð um Bandaríkin.
Ugla Egilsdóttir, 10.3.2008 kl. 01:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.