10.3.2008 | 00:47
Hvað er verra en að festast í lyftu 3.
Heldur nú áfram frásögnin. Ég komst að því í þessari ferð að við erum alltaf að nota þá reynslu sem við öflum okkur. Stundum raunar annan hátt en okkur hefði getað órað fyrir.
Nokkrir íslendingana sem tóku þátt í ráðstefnunni lentu í frekar leiðinlegri aðstöðu. Aðstöðu þar sem við gátum hvorki haft mikil áhrif né völd. Ég hef kallað þessa uppákomu falið vald, það skiptir alltaf miklu að velja atburðum gott nafn og við vorum jú öll valdamikil Við vorum sem sagt átta saman í lyftu sem stoppaði á milli hæða. Þetta þýddi vitaskuld að við sátum föst í lyftunni í 20 til 30 mínútur, og ég er að tala um lengri gerðina af mínútum. Eftir á að hyggja var fróðlegt að spá í viðbrögð okkar. Við hringdum jú bjöllunni, nokkrum sinnum til öryggis, og spjölluðum við starfsmann hótelsins í kallkerfinu, kröfðumst þess að hann slökkti umsvifalaust á lyftutónlistinni, þessari kæruleysislegu, gerilsneyddu niðursuðudósatónlist, sem demt er yfir varnarlaust fólk í símkerfum og lyftum. Starfsmaðurinn sagði okkur allan tímann að það væru einungis 10 mínútur þangað til okkur yrði bjargað. Það var á endanum satt og áður en yfir lauk tókst okkur auðvitað að gera hann svolítið pirraðan. Okkur fannst miklu skárra að hann yrði reiður, frjáls maðurinn, en að við færum að skeyta skapi okkar hvert á öðru. Ég held ég geti fullyrt að engu okkar þótti þetta skemmtileg dvöl en það var greinilegt að sumir héldu ró sinni betur en aðrir þó ekkert okkar hafi misst sig.
Eftir að við vorum laus úr klefanum vorum við öll fegin en sumir urðu reiðir, fannst þetta ekki vera okkur samboðið að lenda í slíku. þarna nýttist mér 43 ára reynsla af íslensku verðri og færð. Að komast ekki alltaf þangað sem ég ætla mér á þeim tíma sem mér þóknast. Og þó mig langi ekki að verða föst í lyftu aftur, þá verð ég að segja alveg eins og er að það er miklu verra að vera í flugvél sem snýr við í flugi frá Reykjavík til Ísafjarðar sveimar í hring í Djúpinu og fer rakleitt aftur suður. Þá er nú skárra að festast í lyftu.
Athugasemdir
Bíð spennt eftir framhaldinu.
Anna Guðný , 10.3.2008 kl. 00:52
Hvað er verra en að festast í lyftu, það get ég sagt þér Matta mín, það er að festast í lyftu með 9ára gömlum strák með innilokunarkennd. Það henti nefnilega mig á Benidorm, við vorum á 8 hæð, eftir það fórum við alltaf upp og niður brunastigan svona til öryggis Ég er ekki frá því að ég hafi grennst í þeirri ferð svo ég mæli með þeirri aðferð til megrunar og styrkingar líkama og sál.
En þú er alveg frábær, það er virkilega gaman að fylgjast með þér í New York.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.3.2008 kl. 11:16
Og aftur segi ég; meira.
Ég get lofað þér því að "sumir" hefðu fengið nett hýsteríukast hefðu þeir verið í viðkomandi hylki. ARG
Jenný Anna Baldursdóttir, 10.3.2008 kl. 13:08
Hvað var spilað í lyftunni? Mér verður hugsað til pistilsins hans Jens
Júlíus Valsson, 10.3.2008 kl. 14:30
Framhald, þetta átti að vera síðasta færslan? Jæja ég get svo sem slegið botninn í þetta með ýktri og skrumskældri útgáfu af heimferðinni.
Þó ætti mig lifandi að drepa gæti ég ekki munað hvaða lög voru spiluð í lyftunni, enda hljóma öll lög eins í lyftum.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 10.3.2008 kl. 17:29
Þurfti enginn að pissa ?
Hlakka til að heyra meira.
Guðrún (IP-tala skráð) 10.3.2008 kl. 20:40
Fannst þeim sér ekki SAMBOÐIÐ að festast í lyftu???
Mér finnst mér ekki samboðið að vera veðurteppt.... hljóta að hafa verið kanar!
Ylfa Mist Helgadóttir, 11.3.2008 kl. 09:17
það hefur enginn háttað sig í lyftunni?
Steingrímur Rúnar Guðmundsson, 11.3.2008 kl. 14:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.