6.4.2008 | 19:31
Það eru takmörk fyrir öllu, líka hversu margt getur farið úrskeiðis í einni ferð. 1.
Fyrir nokkru átti ég erindi á suðvesturhornið. Ég og þrjár ágætar kunningjakonur mínar ætluðum að hressa upp á viðskiptavitið og læra nokkur ný trikk á afskekktum og friðsælum stað í Þingvallasveit þetta með friðsældina reyndist þó málum blandið. Við pökkuðum niður lopavettlingum, húfu og sparikjól, hentumst upp í bíl og ókum af stað sem leið lá frá Ísafirði. það er rétt að taka fram að við höfðum uppi áform um af fara varlega og aka ekki mikið yfir leyfilegum hámarkshraða. Þarna voru jú mikilvægar og ómissandi konur á ferð. Mæður ungra barna og ómissandi lykilstarfsmenn stofnaðra og óstofnaðra fyrirtækja. Við fórum varlega og nutum fylgdarþjónustu Vegagerðarinnar yfir Steingrímsfjarðarheiði. Þó okkur hafi fundist veðrið ekki mikið verra en á leiðinlegum degi í byggð. Að vísu töfðumst við nokkuð því við þurftum að bíða eftir áðurnefndum fylgdarsveinum, sem við hittum loks á fjallinu þeir verða seint ásakaðir um hraðaakstur.
Þegar fjórar hressar konur með ríka og óbeislaða tjáningarþörf ferðast saman um langan veg er gaman. Hávaðasamt og gaman. Tíminn líður líka svo hratt við slíkar aðstæður og áður en við vissum af vorum við komnar á þjóveg númer eitt. Stoppuðum á Brú í Hrútfirðitil að reykja, pissa, fylla á nammibarinn og kaupa bensín. Sniðugt kerfi sem þeir nota í bensínsölunni þarna, þú verður að dæla sjálf, þú verður að kaupa þar til gert kort og einu kortin sem þau áttu voru á 10.000.- það er búið að leggja niður þjónustulundina. Ég sem nenni helst ekki að dæla. Að lokum gat með klækjum lokkað góða konu úr afgreiðslunni á dæluna. ég þóttist ekki kunna að dæla.
Þegar við komum til Reykjavíkur helltist yfir mig valfrelsiskvíði, ég átti eitt kvöld í borginni áður en ég færi í óbyggðir en marga vini, kunningja og ættingja. ég ímynda mér að allir hefðu viljað fá mig í kvöld og næturheimsókn Hvar skildi gista og hvern ætti ég að hitta. hefði ég kannski átt að vera búin að þaulskipuleggja kvöldið Niðurstaðan úr gistilottóinu var óvænt og ég kem nánar að því síðar. Hjúkrunarkonuna settum við úr á bílastæði í nýju hverfi sem ég man ekki í svipinn hvað heitir og hvarf hún fljótlega inn í ókunnan bíl. Nornin fékk vinalegt knús og síðar leikhús í Árbænum segir ekki meir af þeim í bili. Þá vorum við tvær eftir, óbeislaða konan í Öldunni og húsfreyjan í Arnardal. Við ætluðum að gista í íbúð sem vinkona húsfreyjunnar átti, en vinkona þessi var stödd erlendis og var svo væn að lána okkur heimili sitt. Seint og síðarmeir stóðum við skjálfandi í ískaldri nóttinni að reyna að opna dyrnar. Það var sama hvað lyklatrikk við reyndum, snúa fyrst í ranga átt, draga lykilinn örlítið út eða blóta hraustlega, ekkert gekk. Á endanum gáfumst við alveg upp og fórum á gistihús í miðbænum, sem ég frétti seinna að væri aðallega notað fyrir sjortara, Þar var hlýtt og þar var nokkuð hreint.
Eins og stundum áður varð sagan lengri en bloggið og ég mun á næstu dögum leyfa ykkur að koma með okkur stöllum í viðskiptaskóla fyrir fullorðnar konur. Eitt get ég þó upplýst strax, við fundum út úr lyklamálinu. Húsfreyjan var með tvo lykla í töskunni annan af íbúð vinkonunnar og hinn af ókunnum og dularfullum stað. Eina lyklatrikkið sem við prufuðum ekki var að leita að réttum lykli í töskunni.
Athugasemdir
Bíð spennt. Þetta með lykilin er svo mikið ÉG, ertu viss um að ég hafi ekki verið þarna?
Jenný Anna Baldursdóttir, 6.4.2008 kl. 21:22
Mhúhahhahahah
Snilldarferðalag...;O) það sem ég held að það hafi verið gaman að ferðast með ykkur, enda bara snillingar á ferð.
Harpa Hall (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 20:46
hahaha, þó svo að ég hafi verið ein af ykkur og viti alveg söguna þá bíð ég spennt eftir framhaldinu :)
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 21:01
Oh það er svo frábært að ferðast með skemmtilegum og háværum konum!
Hjördís Þráinsdóttir, 7.4.2008 kl. 21:37
Þetta hefur örugglega verið flott ferð Matthildur mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.4.2008 kl. 21:02
Jiiii, háværar....
Getur ekki verið hehehe
Ólöf (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 12:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.