11.4.2008 | 21:52
Gunnar Örn Gunnarsson, myndin og bílstjórinn.
Þegar ég var tvítug vissi ég hvorki hvað ég vildi vera, né hvað ég vildi ekki vera. Þá daga var lífið endalausar bíóferðir og djamm og þá vann ég sem bílstjóri. Ég vann við að keyra út kjöti, unnum kjötvörum og þess háttar í verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var töff vinna enda átti ég svöl sólgleraugu og reykti tvo pakka á dag.
Það var svo einn daginn, sem oftar, að ég átti að fara með sendingu í Pítuna Skipholti. Við hliðina var Gallerí sem ég hafði svo sem tekið eftir, en þó ekki. Þennan dag tók ég eftir. Það var komin ný mynd. Mynd sem heillaði mig og heillar mig enn, þó hún sé í huga mér farin að dofna. Í minningunni var hún risastór, ótrúlega fallegur bakgrunnur og á miðri myndinni var stóll eða kona í stól, gott ef þessi kona var ekki fótalaus. Ég man það ekki alveg en ég man þessa tilfinningu fyrir myndinni og ég man að ég var gjörsamlega gagntekin. Ég tók oft á mig krók til að skoða hana. Sýndi vinum mínum sem voru, ef ég man rétt, ekki nálægt því eins heillaðir og ég. Við vorum tvítug.
Að lokum hafði ég mig í að fara inn og skoða drauminn í nálægð. Ég ímyndaði mér að ég myndi kaupa hana og eiga alla æfi. Ég sem ekki átti neitt, ekki bíl, og hafði ekki einu sinni ráð á því að leigja mér íbúð nema í félagi við nokkra vini, vildi trúa því að ég gæti keypt þessa mynd. Vonir mínar urðu að engu, myndin kostaði nokkur mánaðarlaun og ég hafði mig ekki í að taka lán.
Öll þessi ár hef ég séð eftir því að hafa ekki keypt þessa mynd og stundum hefur hvarflað að mér að hafa samband við málarann í þeirri veiku von að hann vissi hver ætti myndina. Þessi málari, Gunnar Örn Gunnarsson var borin til grafar í dag og langar mig að votta honum virðingu mína og þakka fyrir þessa mynd sem hefur fylgt mér þó ég hafi ekki enn eignast hana.
Athugasemdir
Sæl
Þökkum falleg orð í garð pabba
kv. Gussi
Gussi (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 20:12
Þú hefur í raun og veru eignast hana betur og meira en nokkur annar, því hún er greypt í sálina þína, hvað getur einhver hlutur verið nálægari en það ?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.4.2008 kl. 11:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.