13.4.2008 | 19:22
Fóru þær aldrei suður? 4.
Á dögunum sagði ég ykkur frá rauðum máfastjórnendum, þessum sem fljúga inn, skíta og fljúga aftur út, og þó ég vilji helst ekki viðurkenna það hef ég eflaust notað þessa tækni í það minnsta einu sinni eða jafnvel tvisvar. Ég ætla ekki að fara nánar út í það en það er svo skemmtilegt hvað tilveran hefur mikinn húmor, sérstaklega þegar okkur sjálf skortir húmor. Eins og ég játaði um daginn þótti mér þetta litakerfi hennar Lísbetar í Lectura asnalegt eftir að hún gerði grín að rauðum innri konum. Það var því með hálfum hug að ég setti miða með nafninu mínu í þar til gerðan kassa og úr honum átti einmitt að draga þá heppnu konu sem fengi nákvæma persónugreiningu í lit væntanlega frá Lísbet. Auðvitað vann ég, reglan um að sá sem vill minnst, þarf mest og vinur þess vegna og mun ég því væntanlega finna sjálfa mig innan tíðar.
Allt tekur enda og ferðin okkar líka. Öllu námi var lokið í bili og málfreyjan, nornin, hjúkkan og húsfreyjan lögðu á brattan upp landið, alla leið á topp tilverunnar, heim til Ísafjarðar. Við vorum lúnar en sáttar, því meira sem hafði farið úrskeiðis, því meira höfðum við hlegið á endanum í það minnsta. Keyptum bensín á uppsettu verði, fylltum nammihólfin í bílnum og hugsuðum heim. Það er sterkt þetta afl sem dregur fólk heim. Tilhugsunin um fjölskylduna, rúmið sitt og öryggið veitir fólki kraft. það er líkast til sami krafturinn sem fær dagfarsprútt og varfærið fólk til að æða upp á ófærar heiðar eða sýna starfsmönnum flugfélaga dónaskap þegar flugi er aflýst. Ekki að við fjórar þekkjum það.
Það eru lítil takmörk fyrir því hvað fjögurra kenna hópur getur orðið gáfaður og djúpur á langferð. Okkar hugmyndir um atvinnulíf þjónustustörf, lífið fyrir vestan eru allt aðrar en þær sem við lesum um daglega. Við lestur fjölmiðla á Íslandi gæti fólk freistast til þess að halda að heima hjá okkur gangi fólk um grátandi, atvinnulaust í verðlausum eignum án framtíðarsýnar. Engin okkar kannast við það. Vissulega má þó margt betur fara í okkar samfélagi rétt eins og í öllum öðrum.
Okkur sóttist ferðiðn vel. Málfreyjan fékk að keyra yfir Steingrímsfjarðarheiðina með því að hóta að annars myndi hún skipta sér óeðlilega mikið af akstrinum á mjög leiðinlegan hátt. Húsfreyjan sat í húsbóndasætinu, þessu við hliðina á bílstjóranum. Á leiðinni upp heiðina var svo blint að hún ók næstum ofan í gil. Þetta gerðist þó hún væri komin með tvenn sólgleraugu utan yfir gleraugun og að húsfreyjan lét vita af öllum stikum sem hún sá, með listrænum handahreyfingum og óhljóðum. Það þótti okkur hinum óhemju skemmtilegt, jafnvel enn skemmtilegra en þegar hún talaði sem dauðadrukkna konan í hálfan fjörð í suðurferðinni. Hvar var nú fylgdarþjónusta vegagerðarinnar?
Þegar við vorum komnar í Ísafjörðinn hittum við konunginn, nei ég er hvorki að tala um bæjarstjórann né Bubba, ég er að tala um örninn. Hann flaug svo nálægt bílnum, þessi risastóri fugl, að við horfðumst í augu við hann. Nornin var þarna í fyrsta skipti að hitta örn og við hinar höfðum aldrei séð svona stóran, fullorðin fugl í þetta miklu návígi. Það tók okkur tvo firði að ræða þessa upplifun.
Að lokum komumst við allar heim í Arnardalinn, Ölduna, Fjallið og Eyrina. Eitt skal ég segja ykkur, með þessum konum væri ég til í að ferðast til heimsenda. Norninni, hjúkkunni og húsfreyjunni færi ég mínar bestu kveðjur og þakkir fyrir samfylgdina.
Athugasemdir
Mikið eru sögurnar af ferðalaginu skemmtilegar :o) Hjartans þakkir fyrir samfylgdina sömuleiðis og hvenær eigum við að leggja í hann til heimsenda?
Annska (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 21:18
Takk sömuleiðis, verst að það skuli ekki vera fleiri námshelgar í þessu námi okkar, fer nú að síga á seinni hlutann. Hefði nú viljað sjá þig skrifa um þegar þið hittuð skósvein Satans.... tíhíhí
Sjáumst á miðvikudaginn
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 08:44
Takk fyrir þessar skemmtilegu færslur Matthildur, þú ættir að gefa út bók, svona ævintýrabok um Nornina, hjúkkuna húsfreyjuna og Málfreyjuna.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.4.2008 kl. 13:22
Bwahahahaha ég er enn að hlægja af ÖnnuStiku... Skemmtilegur penni ertu mín kæra. Í draumum mínum er ég stundum stödd á þessu bloggi!!! Get ekki gleymt þessu sorry. Þú þarft nú bara að taka 30% af mér fyrir notkunina. Ég er til í heimsenda anytime...annars var ég að hugsa um að bjóða ykkur í pottinn og rautt með, ég er búin að hringja í pulsuvagninn og þau eru bara meira en til.
Ólöf (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 13:42
Já við ættum að stofna fyrirtækið heimsendaferðir og selja aðgang að okkar skemmtilegu þönkum sem brjótast út á ferðalögum.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 14.4.2008 kl. 14:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.