1.7.2008 | 00:55
Götulistaverk, gjörningur eða rusalfata?
Í nokkra daga hefur ákveðinn hlutur verið að leita á huga minn. Ég hef reynt að leiða þetta hjá mér en algjörlega mistekist. Þessi hlutur verður á vegi mínum á hverjum degi, stundum oft á dag, á ferðum mínum um miðbæ Ísafjarðar. Líkt og lag sem hefur verið spilað of oft í útvarpinu festist þessi mynd í huga mér og ég velti fyrir mér tilurð þess og tilgangi. Í hádeginu í dag lét ég svo til skara skríða og smellti símamynd af fyrirbærinu.
Í fyrsta lagi hefur mér dottið í hug að hér sé Morrinn, götulistahópurinn hans Elvars Loga, á ferðinni með götulistaverkið ruslafötu. Forljóta ruslafötu sem á að minna okkur á að rusl sé ljótt og við eigum ekki að henda ljótu rusli á fallegt torg, ljótt rusl skuli fara í ljóta fötu.
Annað sem komið hefur upp í hugann, er að hér séu vinir náttúrunnar á ferð með gjörning til að mótmæla olíuhreinsunarstöð. Í gjörningi þessum hefur olítunna verið skorin í tvennt og máluð í litum illræmdra olíuviðskiptamafía. Ofan í þá er settur ruslapoki fyrir óbrennanlegt rusl. Líklega sett fram til að hvetja okkur til að henda öllum hugmyndum um olíuhreinsunarstöð í ruslið.
Þriðji möguleikinn og sá ólíklegasti er að einhverjir bæjarstarfsmenn hafi sett þessar tunnur þarna fyrir rusl og finnist ekkert að því að setja forljótar, heimasmíðaðar og dældaðar olíutunnur í miðbæinn okkar.
Ef þið eigið svör við þessari gátu eða hafið aðrar tilgátur, þá endilega látið þeirra getið í athugasemdunum hér að neðan
Athugasemdir
Vá hvað ég er sammála þér, sé þessu bregða fyrir og hef bara ekki hugmynd um hvað þetta er að gera þarna, forljótt sem ruslatunna en kannski skiljanlegt sem gjörningur gegn olíuhreinsistöð...
Er ekki hægt að fá aðeins fallegri ruslatunnur en þetta, maður bara spyr sig, en það er náttúrulega verið að spara í bæjarfélaginu eins og alltaf... kannski samt ekki alveg rétti staðurinn þar sem bærinn er alltaf að rembast við að gera bæinn okkar fallegri....
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 13:27
Það má geta þess að grænar ruslafötur eru á flestum ljósastaurum á torginu, þetta er ráðgáta.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 1.7.2008 kl. 14:36
Þetta eru sem sagt blómapottar frá Vinnuskólanum..... en hvenær koma blómin???
Harpa Oddbjörnsdóttir, 7.7.2008 kl. 08:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.