Grobbsögur Alviðruættar og annað markvert

Það var rólegt hjá lögreglunni á Vestfjörðum um síðustu helgi þrátt fyrir að hátíð væri í öðru hverju byggðu bóli, og einnig sumum óbyggðum.  Boðið var upp á markaðsdag í Bolungarvík, Leiklistarhátíð á Ísafirði, Dýrafjarðardaga og ættarmót í Alviðru í Dýrafirði.  Ég hefði getað skemmt mér á öllum þessum stöðum, en blóð er þykkara en vatn og því féllu öll vötn til Alviðru í Dýrafirði.

Ég hef lengi vitað að ég er komin af skemmtilegu fólki og sannaðist það á þessu ættarmóti Alviðruættar sem að að sjálfsögðu var haldið í Alviðru og einnig á Núpi á síðustu helgi.  Einn liður í dagskránni var grobbsögur, gamlar og nýjar.   Í brekkunni fyrir ofan bæinn áttum við alveg frábæra stund, þar sem eldri ættingjarnir sögðu sögur, mest grobbsögur, af lífinu í gamla daga. Sannar sögur, ýktar sögur og sögur af sögum.  Við hin yngri létum einnig nokkrar flakka því auðvitað rifjast upp margar minningar á svona stundum. 

Það er haft fyrir satt í minni ætt að Þóroddur, langafi minn, þessi með stóru hendurnar hafi getað róið sínum árabáti lengur en meðalmenn á þeim tíma. Sumir fullyrða jafnvel að hann hafi róið landstímið sofandi.  Hann veiddi lúðu sem var jafn löng bátnum og svaraði að bragði þegar fólk undraðist yfir aflanum, að þetta hafi ekki verið svo erfitt því hann hafi handrotað lúðuna áður en hann kom henni um borð.  Ekki var hann einn um að hafa, laglega reddað sér.  Finnbogi frændi minn datt niður eina hæð af vinnupalli þegar hann var ungur, hélt fast í hamarinn og var svo snöggur upp að afi tók ekki eftir neinu.  Þetta hefði aldrei frést ef amma hefði ekki orðið vitni, og jésúsað sig yfir málinu eins og siður var.   Veigar fór upp Illafjall í botni  Litla Dals en hann vissi ekki fyrr en löngu seinna að það var talið ókleyft.  Ekki vissum við systkyniní Alviðru það heldur, því við Giddý fórum gangandi þar niður löngu síðar, eins lofthrædd og hún er, og Árni bróðir sagðist hafa farið þessa leið upp á snjósleða.  Já, sögurnar voru sannarlega margar og góðar.  Ein sagan segir að Kristján Þór sem flest sumur var í Alviðru, svo hann gerði ekki neitt af sér heima, hafi meðal annars haft það starf að passa mig, sem hefur væntanlega verið skemmtilegt, og gerði sér að leik að láta mig húrra niður bæjarbrekkuna í barnavagninum til að sjá hvort honum hvolfdi.  Þar sannaðist að það sem ekki drepur okkur gerir okkur sterkari.

Í öllum góðum veislum er matur og við fengum nóg af honum á Hótel Núpi.  Til að koma í veg fyrir upplausn og vandræði var Jói Sandari, stundum kallaður Jóhannes eftirherma, fenginn til að stýra veislunni. Hann var auðvitað stórskemmtilegur enda Mýrhreppingur, og létum við ágætlega af stjórn að sögn.  Skemmtiatriðin voru kafli út af fyrir sig.  Hver ættleggur skildi koma með atriði. Við, afkomendur Kristjáns og Sigríðar, stofnuðum hljómsveitina Átthagabandið. Þar spilaði ég á forláta bassa, en ég hef spilað á svoleiðis frá því á miðvikudaginn í síðustu viku.  Atriðin voru hvert öðru frábærari, söngur og dans, en vinninginn höfðu þó afkomendur Helgu og Guðmundar Helga, sem sýndu stórleik þegar þau léku dverg.

Þetta var hin besta skemmtun og vitakskuld endaði fjörið á Lubbanum.  Mig langar að þakka fyrir mig og ég hlakka til að sjá ykkur á næsta ættarmóti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Ég var ekki þarna svo þetta hefur örugglega verið hundleiðinlegt. Þú vilt bara ekki viðurkenna það.

Hjördís Þráinsdóttir, 11.7.2008 kl. 11:46

2 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Það var miklu skemmtilegra í partýinu hjá mér.......

Ylfa Mist Helgadóttir, 11.7.2008 kl. 13:17

3 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ég efa ekki að þið séuð skemmtilegar stúlkur mínar en æringjarnir í Alviðruætt toppa vitanlega allt ykkar partýstand. 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 11.7.2008 kl. 13:20

4 identicon

heyr heyr margt er skemmtilegt en fjörið hjá okkur í alviðruætt toppar enginn og ekkert. Takk kærlega fyrir skemmtilega helgi og frábæra hljómsveit mín kæra frænka.

Sigrún (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 19:50

5 Smámynd: Gló Magnaða

Var á ættarmóti á helginni. Þetta er alltaf þvílíkt stuð, mikið drukkið og enn meira étið. Það er alla vega ekki hægt að kalla þetta óætt

Notaði brandarann með gamla hakkið óspart... 

Gló Magnaða, 15.7.2008 kl. 14:54

6 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Var í fimmtugsafmæli frænda míns, Harðar Ingólfssonar í Atlatungu í Fljótavík þessa helgina, og reyndar fram eftir vikunni.  Það svíkur ekki Fljótavíkurlognið.  Hvernig er það Matta mín, getur þú ekki útvegað mér ættbók ykkar Alviðrunga?  Ég skal með gleði banka upp hjá þér þegar ég kem í næsta mánuði til að heilsa upp á nýja ruslamálaráðherrann, og vera við fermingu hjá syni hans.  Bestu kveðjur úr borg óttans..... Sigga

Sigríður Jósefsdóttir, 17.7.2008 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband