Heiðra skaltu föður þinn og móður...í sem fæstum orðum þó

Heiðra skaltu föður þinn og móður, en ekki nota meira en 31 stafabil til verksins.  Einhvern veginn þannig gætu skilaboð Þjóðskrár hafa hljómað þegar ég vildi heiðra móður mína með því að kenna mig bæði við hana og föður minn.  Mér fannst liggja beint við að ég skyldi skráð sem Matthildur Ágústa Jónu og Helgadóttir en það má ekki, enda er og ekkert nafn, ekki einu sinni ogvodafone notar það lengur

Ég var í símasambandi við hjálpsama konu hjá Hagstofunni, sem afsannaði kenninguna um leiðinlega og lítt þjónustulundaða opinbera starfsmenn, hún var öll af vilja gerð til að hjálpa mér að stytta mig.  Ég stóð frammi fyrir því að velja milli þess að vera Jónudóttir eða Ágústa því það eru einungis 31 stafabil í boði hjá Þjóðskrá.  Þetta var ekki auðvelt, mér þykir vænt um Ágústu nafnið og ekki stóð til að skipta út föður mínum fyrir móður mína.  Niðurstaðan varð sú að ég heiti samkvæmt þjóðskrá Matthildur Á Helgad. Jónudóttir.

Nöfnin mín eiga sér sögu.  Mér hefði verið gefið nafnið Matthías, hefði ég fæðst sem drengur, það þótti óþjált stúlkunafn þá og þykir líklega enn, og fékk ég því nafnið Matthildur, á raunar nafna sem heitir Matthías en það er önnur saga.  Áður en ég fæddist hafði ungur piltur sem hét Matthías, og var í sveit í Alviðru, farist í gilinu fyrir ofan Núp.  Hann og hinir krakkarnir í Alviðru og á Núpi, voru að leika sér að velta steinum með þessum skelfilegu afleiðingum, blessuð sé minning hans.  Ágústu nafnsins var aftur á móti vitjað í draumi. Þegar móðir mín gekk með mig dreymdi hana að Ágúst gamla á Hrygg , sem þá var látinn en hafið búið á næsta bæ. Hann kom til hennar og bað hana að hleypa sér inn, hann hefði bankað nokkrum sinnum hjá henni Gurru, systir mömmu sem greinilega hafði ekki hlustað, en hún hefði aldrei hleypt sér inn.   Ég ber því stolt og þakklát þessi tvö nöfn.

Mikið vildi ég annars að það væri til aur í það að bæta nokkrum stafabilum í nöfnin okkar hjá hinu opinbera.  Þá fengi ég að heita Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir.  Mér skilst að þetta mál hafi eitt sinn verið rætt á Alþingi og að hann Davíð, blessaður kallinn, hafi ætlað að kippa þessu snarlega í liðinn.  Það er alltént tími til kominn að bæta úr þessu.

Að lokum langar mig að skora á fólk að nefna sig við báða foreldra sína. Ætli mín börnin lesi bloggið. Með því að kenna sig við báða foreldra, finnst mér að fólk sé að heiðra þau bæði. Og það ber vott um jafnréttishugsun, því mæður hafa í þessum skilningi verið ósýnilegar um árabil. Við skulum ekki gleyma að litlu málin skipta of mestu.  Að kenna sig við móður sína er fullkomin gjöf til mæðra sem eiga allt, nema börnin sín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Má ekki hafa ogið með?  Ég ætlaði að kalla mig Jenný Anna Önnu og Baldursdóttir.  Hm...

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.7.2008 kl. 10:15

2 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir Þórhildardóttir frá Kolfreyjustað Fáskrúðsfirði....

...mjög þjált ;)

En góð hugmynd hjá þér,- ég reyndar heiti eftir mömmu minni og tel mig því bera nöfn þeirra beggja með gleði í hjarta.

Systkini mín heita ekki eftir  mömmu,- ég ætla að skora á Klimma bróður að gera þetta,- hann héti þá Kristmundur Benjamín Þorleifsson Þórhildarson.....hvað eru það mörg stafabil??

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 18.7.2008 kl. 11:26

3 identicon

Ég hef verið áhorfandi að baráttu bróðir míns við Hagstofuna að öll 3. börnin hans séu skrá eins Birgitta Karen Jóhannesardóttir. Þeir buðu upp á jóhannesdóttir eða sleppa bili þar til alþingi tæki ákvörðun um að laga þetta

Gunna (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 11:47

4 Smámynd: Gló Magnaða

Ég er að spá í að heita Gló Magnaða Joð.  

Gló Magnaða, 18.7.2008 kl. 15:59

5 identicon

þetta er frá bært og þarft framlag í umræðuna.

Ég á dóttir og höfum við verið að berjast fyrir nafninu hennar en það er Sigþrúður Margrét Gunnsteinsdóttirn (34) og ekki passar hún í þjóðskránna, hvað þá ef hún bætti mér við þá yrði það Sigþrúður Margrét Gunnsteinsdóttir Margrétardóttir vá.....aðeins 50 stafir eða bil. Eftir þetta skýrði ég hin börnin mín tvö stuttum einföldum nöfnum og þeir flugu inn í þjóðskránna og gætu jafnvel bætt mér við ef svo vilti til og átt 2-4 bil afgangs.

greta skúla (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 17:31

6 identicon

Og var "skírnarveisla" ?

Og mér ekki boðið ?

Elísabetardóttir og Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 01:15

7 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Búin að fá mig fullsadda af slagsmálum við Hagstofu/Þjóðskrá fyrir hönd föður míns og bróður, sú reynsla endist mér út ævina.  Faðir minn var lengi skráður Jósef Vernharðsson, að bæta við millinafninu Hermann, var of langt í þá daga enda var þetta fyrir daga nútíma tölva.  Síðar meir vildi hann nú bæta þessu við af því að þetta stóð jú í skírnarvottorðinu hans.  "Nei, þú þarft að sækja um nafnabreytingu" var svarið.  Til að flækja nú málið ekki meira, var fengið eyðublað til nafnabreytingar.  (það skal tekið fram að hann fól mér að standa í þessu þar sem ég var búsett hér syðra).  Jæja, til að gera langa sögu stutta, þá arka ég með umsóknina niður í Skuggasund, og læt fylgja í leiðinni, hvort þeir gætu nú ekki leiðrétt eins og eitt stafabrengl i föðurnafni bróður míns, hann var nefnilega alltaf skrifaður Jósepsson, en ekki Jósefs, eins og við systur hans.  "Hann þarf að sækja um nafnabreytingu" var svarið sem fékkst.  Síðan hef ég ekki lagt í að eiga við þetta bákn, en dáist að öllum sem það gera.

Sigríður Jósefsdóttir, 19.7.2008 kl. 01:19

8 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Skínarveisla, þú segir nokkuð.  Ég þarf í það minnsta að halda upp á þetta með einhverjum hætti

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 19.7.2008 kl. 02:49

9 identicon

Þetta stafabilarugl er með eindæmum. Ég breytti algjörlega um nafn fyrir ca. 8 árum, byrjaði á því að kenna mig við mömmu gömlu,sem lánaði mér pláss í bumbunni á sínum tíma, auk þess sem ástæðurnar voru feminískar að verulegu leyti, seinna breytti ég heila klabbinu og var hætt í fýlu við pabba en lausnin var svo auðveld þar þar sem ég tók bara upp ættarnafnið hans svo fullkomið jafnrétti væri á milli genafaktoríunnar.

Hvað varðar svo skírnarveislu , þá talaði ég í alvöru við prest eftir nafnabreytinguna mína því ég var að velta því fyrir mér hvort Guð myndi ruglast við þetta allt saman en sérann fullvissaði mig um að Skaparinn þekkti öll sín sóknarbörn - hvað svo sem þau hétu ;) En það er alltaf gaman að fá gjafir og gleðjast með vinum svo ég skora á þig að halda svona "Name Shower" þó ekki væri nema bara í gríni ;)

Annars veit ég til þess að "- og" er notað í símaskránni hjá þeim sem kenna sig við bæði móður og föður svo ég skil ekki alveg hvað Þjóðskrá er að bulla. Þetta er að verða æ algengara og er augljóst jafnréttindamál.

Martha Elena Laxdal (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 23:23

10 identicon

Mér tekst að leysa þetta með bandstriki þar sem mamma og pabbi voru svo sparsöm að gefa mér eitt nafn =29 bil. Nú get ég nefnt sjálfa mig Dagrún Matta Bjarkar (20 bil) og heiðrað mömmu, pabba og þig mín kæra nýnafna

Dagrún Matthías-Bjarkardóttir (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 20:51

11 identicon

Bráðnauðsynleg umræða, ég breytti mínu nafni að áeggjan dóttur minnar fyrir nokkrum árum og tók upp ættarnafn móður minnar og bræður hennar gerðu það líka. Ekki þótti sjálfsagt að ættarnafn gengi áfram í kvenlegg þegar ég var skírð, bara karlar fengu að setja ættarnöfnin á börn sín . Nema þetta er ekki allt, barnsfaðir minn heitir Guðbjörn Salmar og notar og hefur alltaf notað Salmars nafnið, sem hefur alveg sína sögu (segi hana seinna) og mér finnst nafnið og saga þess fallegt. Við vildum að börn okkar yrðu skráð Salmars börn, sem var lítið mál fyrir 25 árum en þegar hann vildi skipta nöfnunum og heita Salmar G var það útilokað og hefði hann þurft nýja kennitölu og nýtt líf í kerfinu, eða taka alveg út Guðbjörns nafnið, þannig að ekki gekk það. Enda voru sængurgjafir fyrsta barnsins kortum skreyttar á ýmsa vegu, hans fólk kom færandi hendi til óskírðrar Guðbjörnsdóttur , mitt fólk til óskírðrar Salmarsdóttur  og aðrir vandamenn ráku upp stór augu, hún bara veit ekkert hver á barnið ?!?  Skírðum yngsta son okkar Salmar Má og þurfti það að fara í mikið ferli hjá mannanafnanefnd og í dag er hann sá eini á landinu sem heitir þessu nafni að fornafni og ég er stolt af því !

Ingibjörg Snorrad. Hagalín (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 23:44

12 Smámynd: Halla Signý Kristjánsdóttir

mér finnst nú "Matta í Alviðru" fara þér best,, og ætla ekkert að láta af því.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 21.7.2008 kl. 08:32

13 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Mér finnst alveg nóg að heita bara Ylfa Mist. Nota sjaldnast eitthvað meira. En hvað með að heita Mattgústa? Er það ekki ágætt?

Ylfa Mist Helgadóttir, 22.7.2008 kl. 16:11

14 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Ætli ég geti tekið upp ættarnafnið Beis?

Mattgústa er töff.

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 23.7.2008 kl. 17:24

15 identicon

Merkileg þessi Hagstofa með bilin sín, þar á bæ fæ ég ekki að vera dóttir neins, er bara skráð Kristjánsdó en hann er nú samt í fullu fjöri hann faðir minn. Ég skil reyndar ekki hvað það kemur nafninu mínu við...

Bestu kveðjur

Dedda

Dedda (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 19:35

16 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Verðurðu ekki að muna að fá þér nýtt vegabréf og svoleiðis?

Mattgústa... ehehe.

Hjördís Þráinsdóttir, 29.7.2008 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband