Að finna rétta afmælisgjöf

Í dag 18. ágúst á sá heppni afmæli, þarna á ég að sjálfsögðu við manninn minn til margra ára.  Þó það sé alltaf gleðiefni í sjálfu sér að halda upp á afmæli, þá getur það vafist fyrir konu að finna hina fullkomnu afmælisgjöf.  Stundum hefur mér tekist vel upp og stundum illa, eins og gengur og til að finna góða gjöf þetta árið hef ég ákveðið að byggja á fortíðinni.  Skoða með gagnrýnum huga nokkrar þær gjafir sem ég hef fært honum í gegn um tíðina. Af því gæti ég hugsanlega dregið lærdóm.

Sumar gjafir eiga að senda tiltekin óbein skilaboð, ég mæli ekkert sérstaklega með því.  Eitt sinn gaf ég honum ryksugu í afmælisgjöf, var að hefna mín fyrir strauborð sem hann hafði gefið mér, en hann varð bara glaður og hissa, það vantaði einmitt ryksugu á heimilið. Skildi ekki sneiðina enda ber hann, eins og flestir hans kynbræður, ekki mikið skynbragð á óviðeigandi gjafir. 

Stundum hef ég keypt geisladiska sem er ágæt gjöf, ef kona fellur ekki í þá gryfju að kaupa sína uppáhalds tónlist en ekki hans.  Ætli ég verði ekki að viðurkenna að ég hef stundum klikkað á þessu, eftirminnilegast er líklega þegar ég gaf honum gamla djassslagara, við litla hrifningu.

Svo eru það góðu gjafirnar, þegar mér tókst einstaklega vel upp.  Ég og fjölskyldan gáfum honum eitt sinn banjó.  Hann hafði lengi langað í slíkan grip enda átti Óli heitinn Guðmunds, gítarleikari og söngvari í BG, fyrirmynd og móðurbróðir Gumma, forláta 6 strengja banjó.   Svona ættu auðvitað allar gjafir að vera en það er hægara sagt en gert.  

Þokkalegar gjafir, sem tengjast frumþörfum karlmanna, eru líka á þessum lista.  Sá heppni hefur í gegn um tíðina fengið bjórkassa, gallabuxur og rakspíra.  Góða bók, helst fulla af ofbeldi og ullarsokka.  Þó þessar komist ekki í úrvalsgjafaflokkinn eru þær ekki svo slæmur kostur.

Þegar þetta er skrifað er klukkan langt gengin í þrjú og ég hef enn ekki hugmynd um hvað ég ætti að gefa honum.  Mér hefur einna helst dottið í hug að kaupa kemískt klósett, sem fyrirtaks fyrsta hlut í fyrirhugaðan sumarbústað, sem enn er bara á hugmyndastigi í dagdraumalandinu. Mér er það samt ekki ljóst hvort sú gjöf færi í flokk einstaklega góðra gjafa eða jafnvel í nýjan flokk algjörlega misheppnaðar gjafa sem senda skilaboð sem aldrei stóð til að senda.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hehe, hann er sannarlega vandrataður vegurinn að hinni fullkomnu gjöf. Minn heppni á einmitt stórafmæli í næsta mánuði og ég er farin að fá nett kvíðaköst af og til, stórafmælisgjafir mega sko ekki klikka !

Afmæliskveðjur til Gumma frá okkur Frigga

Anna Guðrún (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 16:03

2 Smámynd: Gló Magnaða

Er það ekki bara bassi núna.

Þá gætir þú farið að æfa meira

Gló Magnaða, 18.8.2008 kl. 16:19

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta er svo sannarlega merkilegur betri helmingur.

Maddonna átti afmæli 16. ágúst, Maya dóttir mín í gær og svo hann í dag.

Út að borða með manninn ekki spurning.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.8.2008 kl. 17:39

4 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ég keypti á endanum tvo geisladiska. Megas & senuþjófana, diskurinn ber að skemmtilega nafn á morgunhver var að tala um dulin skilaboð.  Hinn diskurinn er svo hallærislegur að hann er flottur 13 vinsæl lög frá árinu 1963, afmælisárinu alltsvo.  Til að toppa þetta förum við svo út að borða í Tjöruhúsinu sem er besti fiskimatsölustaður á jörðinni ogþó víða væri leitað.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 18.8.2008 kl. 18:06

5 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Þú hefðir líka getað gefið honum saxófón, þá gætuð þið dúettað um allt!

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 18.8.2008 kl. 21:36

6 identicon

Hahaha var í alveg sömu sporum og þú en minn ljónheppni varð 35 ára 16.ágúst. Ég gafst upp á að finna eitthvað drasl og bauð þess í stað í óvissu- helgarferð í Breiðuvík. Allir dalir á sunnanverðum skoðaðir og rómatískar kvöldgöngur í sandfjörunum. Vestfirðir eru yndislegir. Sá ljónheppni himinlifandi og laus við enn einn rakspírann ;)

Auður Finnboga (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 09:59

7 Smámynd: Steingrímur Rúnar Guðmundsson

Gastu ekki gefið honum annað kaffihús?

Steingrímur Rúnar Guðmundsson, 19.8.2008 kl. 12:13

8 identicon

Ssammála síðasta ræðumanni.

Gastu ekki gefið honum kaffihús ?

Bestu kveðjur til karls í búi.

Gudrun (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband