20.8.2008 | 13:26
Er Alsýn tálsýn?
Nokkuð hefur verið ritað og rætt um ráðgjafafyrirtækið Alsýn á Ísafirði, sem ætlaði samkvæmt samningi við Ísafjarðarbæ að fjölga störfum í bænum svo um munaði. Samningurinn skildi skila 50 störfum fyrstu tvö árin en haft var eftir fulltrúum Alsýnar að fyrirtækið hafi sjálft sett sér það markmið að stefna á 100 störf á tveimur árum.
Nú er að verða komið eitt ár og umræða hefur skapast í samfélaginu um hvernig hafi til tekist. Þessi umræða, sem stundum hefur verið óvægin, hefur mikið byggt á sögusögnum og óljósum fréttum. Það er auðvitað bagalegt, því það er mikilvægt að fyrirtæki sem vinna að uppbyggingu, þurfi ekki að eyða tíma sínum og kröftum í að verjast gróusögum.
Nú er það svo að ekki gengur allt mannanna brölt upp, mistök eru gerð og stundum þarf einfaldlega að endurskoða verkefni í ljósi breyttra aðstæðna. Þá skiptir miklu máli að standa sig, skoða hvað virkaði og hvað ekki, viðurkenna mistök og læra af þeim. Gera úrbætur á verkefninu eða hætta við.
Íbúar og skattgreiðendur í Ísafjarðabæ eru margir forvitnir um hvernig fyrirtækinu hefur gengið. Þetta finnst mér eðlilegt, enda gott aðhald fyrir þá sem fara með stjórn fjármála í bænum okkar að vita að fylgst er með. Það sem mér finnst óeðlilegt er þögnin í kring um árangur Alsýnar, mér þykir ljóst að þeir hafa komið að nokkrum verkefnum en hver þessi verkefni eru, er ekki vitað. Nefndar hafa verið tölur eins og 18 störf eða 13 störf í fjölmiðlum en lítið fæst upp gefið, hvaða störf er um að ræða. Forvitnum og áhyggjufullum Ísfirðingum er bent á viðtalstíma hjá Alsýn eftir hádegi á föstudögum.
Ég hef aldrei farið leynt með það að mér finnst eðlilegt að Ísafjarðarbær og ráðgjafafyrirtækið Alsýn sendi frá sér upplýsingar um hvað hefur áunnist. Hafi gengið illa verðum við að bíta í það súra, en hafi gengið vel er það gott mál. Ekki veit ég að hverra ráðum bærinn og fyrirtækið fara í upplýsingamálum en ég hefði haldið að þessi leynd og þögn gerði ekkert annað ýta undir sögusagnir um að ekki hafi tekist vel til. Það eina sem við vitum með vissu er það sem hægt er að fletta upp í opinberum gögnum um lögheimili starfsmanna og þar með hvar þeir borga útsvar og hvar heimasíðan þeirra er hýst.
Að lokum vil ég skora á Ísafjarðarbæ og Alsýn að svipta leyndinni af árangri þessa verkefnis. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju það er trúnaðarmál hvaða störf er um að ræða.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.