15.12.2008 | 16:20
Óbeilsluð fegurð á DVD
Jæja nú fara hlutirnir að gerast. Heimildarmyndin Óbeisluð fegurð er á leið í fjölföldun, dreifingu og sölu. Ég og þessi mynd höfum aðeins verið að skoða heiminn og það er alveg með ólíkindum hvað viðtökurnar eru góðar. Mér finnst myndin raunar alltaf jafn skemmtileg og dásamleg því þeim Hrafnhildi og Tinu tókst svo vel að fanga þessa ótrúlegu stemningu sem við upplifðum þetta kvöld.
Eftir því sem tímanum líður sé ég betur og betur hversu frábær þessi viðburður var. Það að setja saman slíkan viðburð krefst þess að allir séu til í að gefa af sér og hjálpast að. Þarna sannaðist líka hvað það er frábært að búa á Ísafirði þar sem nógu margir eru til í tuskið. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hversu mikil þekking og mannauður býr úi á landi á stöðum eins og Ísafirði. Á stuttum tíma er hægt að virkja tengslanet vina, kunningja, vinnufélaga og ættingja til að framkvæma hugmyndir stórar og smáar.
Allar vegalengdir innanbæjar eru stuttar og því tekur það okkur ekki óratíma að komast úr og í vinnu. Þetta gefur okkur tíma. Tima sem við getum notað til að hugsa, leika okkur eða einfaldlega til að gera ekki neitt, sem er reyndar stórlega vanmetin skemmtun. Ekki má heldur gleyma náttúrunni því það er alveg á hreinu að sá sem býr í lifandi listaverki eins og við hérna fyrir vestan líður betur og er opnari fyrir því að taka þátt í öllu mögulegu mannanna brölti.
Þið sem hafið áhuga á að útvega ykkur eintak gætuð, til að byrja með, einfaldlega sent mér tölvupóst en ég á von á því og myndin verði seld í öllum betri verslunum þegar þar að kemur
Athugasemdir
Til hamingju, maður verður að ná sér í eintak :)
Ágúst G. Atlason (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 16:50
Kæra frú Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir. Hjálpi mér Sússi og þeir feðgar báðir. Að við skulum bæði komast fyrir í sama jólapakkanum er auðvitað sönnun þess að allt er framkvæmanlegt. Ég panta einn með áritun ungfrú Michelin og frú Ástu.
Kveðja af sólgylltum og lognsælum Skipaskaga.
HJ.
HJ (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 17:49
Sæl frú Matthildur.
Þetta er nú smá "catch 22" dæmi. Þú ert með viðburð sem var þér og þínum til mikils sóma og nefndist "óbeysluð fegurð" og ætlar að eyðileggja það með því að beysla uppákomuna á "DVD" form ? Hvaða skilaboð ertu að senda "blue-ray" forminu ? Af hverju er þetta ekki sett á feiri form, til dæmis VHS spólu og hljómdisk ?
Ég vona að þú farir ekki að mismuna þarna, það yrðu röng skilaboð.
Virðingafyllst
Guðjón Már Þorsteinsson
Gaui.Þ (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 18:04
Til lukku með diskinn! Og jólakveðjur á Ísafjörð þar sem ég átti margar góðar stundir fyrir um það bil hálfri öld.
Halldóra Halldórsdóttir, 16.12.2008 kl. 00:31
Til hamingju og er þetta jólagjöfin í ár ?
kona (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 11:11
Glæsilegt. Sumum veitir ekki af eintaki...
Hjördís Þráinsdóttir, 16.12.2008 kl. 15:45
Var að horfa í 9. skipti í gær. Endalaus skemmtun.
Gaui, vertu aftast!
Gló Magnaða, 17.12.2008 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.