23.1.2009 | 16:44
Saga af bónda
Í tilefni þess að í dag er bóndadagur langar mig að segja ykkur dagsanna sögu þar sem bóndinn gegnir lykilhlutverki.
Eina nóttin hrökk ég upp, þar sem ég steinsvaf við hlið bónda míns, við ámátlegt en afar lágt mjálm. Ég glaðvaknaði samstundis og mundi eftir því að barnabörnin höfðu komið út úr svefnherberginu okkar fyrr um kvöldið með óræðan prakkarasvip. Þau höfðu að eigin sögn verið að loka fataskápnum svo Kúra Jónina og Emelía Lúra færu ekki inn í hann. Eitthvað vöknuðu grunsemdir hjá ömmunni en gegn sakleysislegri neitun barnanna, um að þau hefðu sko ekki lokað kettina inni í skáp, hafði ég alveg gleymt að athuga málið. Í gegn um hálfsofandi hug minn flugu lítt fallegar hugsanir, krakkaormarnir hafa lokað kettina inni. Ég stökk fram úr og svipti upp hurðinni á mínum skáp, engin köttur þar. Bóndinn svaf enn vært og ég ákvað að blanda honum ekki í málið enda alveg eins víst að hann myndi bara velta sér á hina og þykjast ekki hafa vaknað. Ég stóð grafkyrr og hlustaði. Enn heyrði ég mjálmað lágt og að mér læddist sá grunur að kattarræfillinn væri lokaður ofan í tösku inn í skáp. Þetta var hræðilegt grimmdarverk. Ég brölti í myrkrinu yfir bóndann, til að komast að fataskápnum hans megin. Sakbitin og örvæntingarfull. En þar var heldur engin kisa. Ég kveikti ljósið og kallaði á vesalings innilokuðu vini mína. Þær komu vitanlega, teigðu sig makindalega, undrandi á þessu brölti um miðja nótt, höfðu legið fram í stofu eða til fóta hjá börnunum. á þessu stigi málsins vissi ég ekki alveg hvað ég ætti að halda. Ég mundi, þrátt fyrir svefnrugluna, að fólk gæti stundum heyrt raddir en vissi ekki til þess að fólk gæti heyrt mjálm. Ákveðin í að finna köttinn mjálmandi, eða ekki köttinn, kallaði ég ofurlágt og rólega kis kis. Og kötturinn svaraði með löngu en lágværu mjálmi. það var eins og hann gæti verið undir rúminu okkar. Eða kannski uppi í rúminu okkar. það var þá sem ég fann þann mjálmandi. Ámátlegt langdregið mjálmið kom úr nefi bóndans.
Athugasemdir
Haha ég vaknaði einu sinni við fuglstíst og var búin að leyta um allt herbergi undir rúmi og inní skáp að fugli sem hefi líklega villst inn um svefnherbergisgluggann áður en tístið var rakið í nasir bóndans!
Halldóra (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 17:24
Ég lét setja rana á minn, yndisleg þögn og friður í svefnherberginu síðan
Sigríður Jósefsdóttir, 23.1.2009 kl. 21:12
Hehehe snilld!
Ólöf Hildur (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 10:07
En fyndið. Ég er samt feginn að það var ekki bóndinn minn sem gengdi hlutverki dýrs í minni bóndadagssögu.... hugsaðu þér hversu pínlegt það hefði orðið!!!!
Ylfa Mist Helgadóttir, 31.1.2009 kl. 15:50
Hláturskast! Á mínu heimili er talað voðalega mikið upp úr svefni en ekki mjálmað svo ég viti til (Minn hefur aldrei nefnt það a.m.k. við mig)!
Villa (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 22:22
Þú yndislegi dýravinur:-) Bóndinn hann bróðir þinn vaknar ekki þó hann leggist á kött! Gott að það eru fleiri góðhjartaðar konur sem leggja á sig undarlegar björgunaraðferðir í skjóli nætur:-)Stundum virkar eitt gott óvartspark til þess að þagga bóndahljóðin...
Dagrún (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 11:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.