9.3.2009 | 23:16
Konublús og flugið tekið heim III
Laugardagsblúsinn byrjaði í Nýheimum eftir hádegið. Þar gátu allir sem vildu djammað að list og margir tóku þátt. það var skemmtileg stemning þann tíma sem ég stoppaði en húsbandið mitt, sá vel gifti, greip bassa og var svo lánsamur að halda honum fram eftir degi. Eftirminnilegastur var nú þó rauðhærður gutti , sá var efnilegur með rauða gítarinn sinn þó hann hafi varla verið eldri en 12 eða 13 ára.
Um kvöldið lá leiðin á Hótel Höfn að hlusta á hina undurljúfu og blíðu Huldu Rós sem söng fallegar blúsballöður með hljómsveitinni Rökkurbandið. Áreynslulaus spilamennska og ágætt samspil sem rann ljúft niður með söngolíunni. Seinna um kvöldið fórum við á Kaffi Hornið þar sem Pitchfork Rebellion, góðkunningjar okkar frá Langa Manga,spiluðu djasskotin blús. Alveg einstök hljómsveit þar á ferð, spilamennska og söngur í hæsta gæðaflokki en samt svo heimilisleg og látlaus stemning. Þegar hér var komið sögu var farið að síga á seinni hlutann hjá okkur en við ákváðum að ljúka deginum á Víkinni. Þegar við komum þangað var hljómsveitin Vax að spila virkilega skemmtilegt og fjörugt blúsrokk. Trommur, gítar, orgel og spilagleði. Töffarar sem greinilega fá aldrei nóg af því að spila og þeim tókst að heilla okkur, og greinilega alla hina, upp úr skónum.
Á sunnudaginn sváfum við af okkur blúsmessuna sem eflaust hefur þó blessast vel. Við pökkuðum saman, kvöddum menn og dýr og flugum svo áleiðis heim með Halla Ingólfs hjá flugfélaginu Örnum.
Takk fyrir okkur!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.