12.3.2009 | 10:21
Ertu heiðarlegur frambjóðandi?
Mig langar að varpa þeirri einföldu spurningu til allra frambjóðenda í öllum flokkum á Íslandi, hvort þau séu heiðarleg. Ég spyr einfaldlega vegna þess að ég á erfitt með að treysta ykkur eftir allt sem á undan er gengið. Nær daglega koma fréttir af nýjum spillingarmálum upp á yfirborðið og spillingarnetið virðist bæði hafa verið flókið og skilvirkt. Ótrúlega margir spiluðu með annað hvort með því að loka augunum fyrir því sem var að gerast eða með því að taka þátt.
Kannski ættum við kjósendur að útbúa samning sem við bjóðum væntanlegum þingmönnum að skrifa undir. Í samningi þessum kæmi fram að viðkomandi lofaði því að stela hvorki fyrir sig né aðra, vera heiðarlegur í alla staði og að láta vita af allri spillingu sem hann eða hún verður vör við. Önnur útfærsla á þessu væri að frambjóðendur hefðu sjálfir frumkvæði og gæfu út stuttar og hnitmiðaðar yfirlýsingar þar sem þeir lofuðu að vinna vel og heiðarlega.
Núna er mikilvægt að við öll getum snúið okkur að því að byggja upp og ég er ekki í vafa um að við getum það. Ég á í miklum vandræðum með að ákveða hvaða flokk ég vil kjósa til Alþingis því ég sé ekki hvað hefur breyst eða hvort eitthvað hefur breyst hjá flokkunum. Það virðist sem sú skoðun hafi verið of almenn að það sé í lagi að misnota kerfið og því verðum við að breyta.
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér Matta, hef einmitt verið að skoða hvað verður í boði og treysti alls ekki gömlu flokkunum, ekki hafa þeir reynst mér vel. Sé við nánari skoðun að mér líst best á Borgarahreyfinguna, sem virðist innihalda venjulegt fólk eins og mig og þig og ætla ég rétt að vona að þeir fái 20 manns til að bjóða fram krafta sína hér vestra svo við getum kosið þá ! Ég myndi "nærri því" leggja það á mig að taka þátt og líta þá á það sem borgaralega skyldu mína, að bjóða fram krafta mína, ef vantar fólk til að fylla framboðslista fyrir þá!
Ingibjörg Snorra (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 11:17
Spurningin ætti að vera; Er heiðarlegt að vera frambjóðandi? Óheilindi af einum toga eða öðrum eru innibyggð í flokkakerfið. Á meðan frambjóðendur verða að kenna sig við flokk geta þeir ekki verið heiðarlegir. Þeir verða fyrr eða síðar að lúta vilja flokksins og brjóta gegn sannfæringu sinni. Það er óheiðarleiki.
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.3.2009 kl. 20:30
Góð athugasemd hjá Svani, ef ég færi í framboð vildi ég fá að ráða öllu til að vera heil í því sem ég væri að gera - eða fá alla til að vera sammála mér! .. Ég er heiðarleg, já, og get ekki "selt" eitthvað sem ég hef ekki trú á.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 12.3.2009 kl. 20:57
Flokkur sem slíkur er væntanlega ekki heiðarlegur eða óheiðarlegur. Fólkið í flokknum er annað hvort heiðarlegt eða ekki. Ástæðan fyrir því að ég velti þessu upp er m.a. sú að mér finnst þetta vera stóra spurningin í dag. Fólk var ekki heiðarlegt og það taldi sjálfu sér trú um að óheiðaleiki væri í lagi, það væri í lagi að stela og ljúga af því að hinir gerðu það. Því verður að linna.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 12.3.2009 kl. 23:16
Matthildur; Þetta er mikil einföldun á eðli stjórnmálaflokka að segja þá hvorki heiðarlega eða óheiðarlega. Stefna flokksins hlýtur að ráða þar miklu og jafnframt starfshættir. Séu starfshættir þannig að gert sé ráð fyrir að fólk fylgi flokkslínum frekar en sannfæringu sinni er hægt að gera ráð fyrir því að fólk þurfi að vera óheiðarlegt til að geta starfað innan þeirra.
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.3.2009 kl. 23:22
Séu flokkar búnir að koma sér upp óheiðarlegum starfsháttur, sem virðist hafa verið raunin, þá er það fólkið í flokknum og frambjóðendur til þings sem breyta því. Það hlýtur að vera að fólkið í flokknum hafi komið þeim starfsháttum á.
Ef það að vera heiðarlegur krefst þess að frambjóðendur greiði ekki atkvæði gegn sinni sannfæringu, þó það gangi þvert á vilja flokkfélaga, er það einfaldlega það sem frambjóðandi þarf að gera.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 12.3.2009 kl. 23:36
Sammála þessu Matthildur.
En það er ekki endilega fólkið sem nú situr í flokkunum sem kom á starfsháttum þeirra. Flokkarnir eru einskonar stofnanir sem ekki virðist mega hrófla við eins sést á skoðanakönnunum upp á síðkastið þar sem ný framboð hljóta engan hljómgrunn.
Í þeirri pólitík sem flest vestræn ríki stunda er gert ráð fyrir stjórn og stjórnarandstöðu og hvortveggja er myndað af stjórnmálaflokkum. Ef við færum að þínu ráði og þingmenn væru frjálsir til að styðja þau mál sem samviska þeirra segði þeim í hvert sinn, mundi þetta kerfi hrynja.
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.3.2009 kl. 00:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.