1.5.2009 | 16:56
Byggjum réttlátt þjóðfélag
Eftirfandandi ræðu hélt ég í Endiborgarhúsinu 1 maí 2009
Í dag er 1. Maí, frídagur verkamanna og mig langar að byrja á því að þakka fyrir að fá að standa hér, þó ég sé strangt til tekið í hinu liðinu, sem atvinnurekandi. Þetta er mér mikill heiður og ég veit að það er ekki sjálfgefið. Ég trúi á réttlæti og jafnrétti og tel að þrátt fyrir allt eigi sjónarmið atvinnurekenda og verkamanna meira sameiginlegt en ekki. Við stefnum jú flest að sameiginlegu markmiði um að hér blómstri öflugt mannlíf og atvinnulíf. Það er beggja hagur. Það verður þó að vera jafnvægi á vinnumarkaði og samkomulag og samningar þannig að báðir hagnist. Sá atvinnurekandi sem lætur sér annt um starfsmenn sína og sýnir þeim virðingu, uppsker betri vinnubrögð því ánægð manneskja áorkar meiru en óánægð. Og starfsmaður sem veit þetta, er líka betur tilbúinn að standa með fyrirtækinu þegar illa árar. Þvert ofan í það sem margir hafa haldið sýna rannsóknir að þetta eykur hagnað fyrirtækja. Það er misjafn sauður í mörgu fé og sumir skammtímagróðafjárfestar, eins og ég vil kalla þá, hafa alveg horft fram hjá þessu atriði. Fyrirtæki sem hafa gengið kaupum og sölum og endað í eigu fólks sem hefur engan áhuga á rekstri þeirra, eru bútuð niður í einingar og seld tvist og bast. Öllu venjulegu fólki er ljóst að slíkum fyrirtækjum blæðir út. Fólk missir vinnuna og tækifæri glatast. Þegar upp er staðið hafa allir tapað. Nema kannski þessi eini sem seldi á réttum tíma. Þetta er sá veruleiki sem við höfum búið við, þetta er eitt af því sem við viljum breyta.
Ýmislegt hefur gengið á í íslensku þjóðfélagi í vetur, en í dag ætla ég ekki ræða um efnahagshrunið eða hvernig siðleysið og græðgin kom okkur í koll, það hafa nógu margir gert því skil og það munu nógu margir halda áfram að gera því skil. Ég get ekki annað en verið bjartsýn á að við lærum af þessu hruni og að þegar upp er staðið fáum við betra þjóðfélag og samfélag, þó það sé dýru verið keypt. Ég trúi þessu, því ég er bjartsýniskona, og það er ekki góður siður að gefast upp þó móti blási eða eyða orku í að hugsa um allt það sem getur farið úrskeiðis í framtíðinni. Tíma okkar er mun betur varið í að hugsa um hvar tækifærin liggja og hvernig við getum nýtt okkur þau. Í dag ætla ég frekar að ræða um framtíðina. Ræða um að það sem við eigum og enginn getur stolið frá okkur. Við eigum allar okkar hugmyndir og kraftinn sem í okkur býr, vonina og óskina um að við sigrumst á vandanum og komum sterkari frá honum. Það getur engin tekið frá okkur, við getum að vísu ákveðið að gefast upp, en ég á ekki von á að það sé meirihluti fyrir því í þessum sal.
Á tímamótum sem þessum, þar sem við þurfum að endurskoða allt, er mikilvægt að leyfa sér að vona og gefa ímyndunaraflinu og sköpunarkraftinum lausan tauminn. Við skulum ekki gleyma því að á upphafið á öllum stórvirkjum er hugmynd. Því skulum við aldrei kasta frá okkur hugmyndum við skulum skoða þær með opnum huga, leggja þær fyrir vini, ættingja eða fagmenn því það er aldrei að vita nema hugmyndin sé góð. Að hún sé upphafið af einhverju nýju og stórkostlegu. Það er ósiður að drepa hugmyndir niður með því að segja sem svo þetta getur aldrei gengið, án þess að ganga úr skugga um það. Ég þekki af eigin reynslu að það er oft lítið mál að fá hugmyndir, gaman að útfæra þær en það krefst þors að framkvæma. Stundum gengur vel, stundum ekki svo vel, það er allt í lagi því ef enginn þorði að gera neitt væri engin framþróun. Á fínu máli er þetta stundum kallað nýsköpun. Ég hvet ykkur til að skoða í alvöru hvort draumar ykkar geti ekki ræst. Hvort sem þið eruð að hugsa um nám, nýtt starf eða að stofna fyrirtæki. Gefið hugmyndinni séns og látið vaða.
Þegar ég var að undirbúa þessa tölu fór ég að spá í fyrir hvað þessi dagur stendur. Eða hvað er einkennandi fyrir þennan dag. Það sem mér datt fyrst í hug var auðvitað Nallinn og eftir nokkurt gúggl fann ég textann. Það er svolítið skemmtilegt að skoða þennan texta sem er gamall og barn síns tíma og þó svo viðeigandi enn í dag.
Fúnar stoðir burtu við brjótum!
Bræður! Fylkjum liði í dag-
Vér bárum fjötra, en brátt nú hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.
Bræður fylkjum liði þarna var baráttan greinilega bara eitthvað fyrir strákana..... en að öðru leyti sýnir þetta textabrot úr Nallanum að boðskapurinn á við í dag enda er barátta fyrir réttlæti og jöfnuði ekki eitthvað sem verður afgreitt í eitt skipti fyrir öll, og þarf síðan ekki að hugsa um meir. Nei baráttan fyrir réttlæti mun halda áfram svo lengi sem við mannfólkið lifum hér á jörð.
Ég gríp aftur niður í textann
Alls hins stolna aftur vér krefjumst,
ánauð þolir hugur vor trautt,
og sjálfir brátt vér handa hefjumst
og hömrum meðan járn er rautt
Ef ég vissi ekki betur héldi ég að höfundurinn væri hér að semja um búsáhaldabyltinguna.
Enn heldur Nallinn áfram
Vér erum lagabrögðum beittir
og byrðar vorar þyngdar meir,
en auðmenn ganga gulli skreyttir
og góssi saman raka þeir.
Ef marka má fréttir í vetur, þá mætti halda að engin þjóð nokkurn tíman séð það svartara en við Íslendingar núna. En þetta var samið löngu fyrir tíma útrásarvíkinga, kvótaframsals eða einkavinavæðingar. Þetta sýnir okkur að það verður alltaf þörf fyrir verkalýðshreyfingu baráttan hættir aldrei.
1. Maí er í mínum huga líka dagur til að minnast baráttufólks og hversdagshetja. Merkilegt annars að það eru einkum konur sem eru kallaða hversdagshetjur, karlarnir eru hetjur. En mig langar að tala um nokkrar baráttukonur. Ég man þegar ég var lítil stelpa og dáðist að konunum sem létu ekki segja sér að standa á hliðarlínunni. Létu ekki þagga niður í sér þó þær væru þaggaðar leynt og ljóst. Þær vissu að þeirra raddir yrðu að heyrast og þeim var alveg sama þó einhverjum þætti eitthvað um þær. Fyrst nefni ég vitanlega hana móðir mína Jónu Björk Kristjánsdóttur sem kenndi mér gagnrýna hugsun og ekki síður mikilvægara, hún kenndi mér að rífa kjaft. Ég sat löngum stundum hjá henni í vinnunni í eldhúsinu á Núpi og hlustaði á hana ræða um pólitík, réttlæti og kvenfrelsi við kennarana, flesta karlmenn sem þóttust nú margir vita betur en þessi, að því sem þeim fanst, ómenntaða sveitakona. Þar hitnaði stundum í kolunum. Næst kemur upp í huga mér Vigdís Finnbogadóttir forseti, Ég man enn þegar hún var kosin, ég hélt sko með henni. Skildi ekki hvernig nokkurri þjóð gæti dottið í hug að hafa gamlan karl sem forseta. Ég man líka vel hvað þeir voru dónalegir við hana karlarnir, bæði sjónvarpsmennirnir og hinir frambjóðendurnir, en það herti í mér. Síðast, en alls ekki síst, vil ég nefna Aðalheiði Bjarnfreðsdóttir, það þótti mér flott kona. Hún var sko engin puntudúkka eða meikdolla þarna var alvöru kona á ferð, alvöru málsvari verkakvenna, hún kom til dyranna eins og hún var klædd. Ég skil ekki af hverju það er ekki löngu búið að gera styttu af henni. (og kem þeirri hugmynd hér með á framfæri). Það er líka athyglisvert að hugsa til þess að Guðmundur Guðmundsson fékk viðurnefnið jaki en Aðalheiður fékk mér vitanlega ekkert viðurnefni enda bara kona.
Í allri umræðunni hefur stundum verið talað um samfélagslega ábyrgð. Hvað er það? Að mínu viti er samfélagsleg ábyrgð ekki bara að hjálpa þeim sem minna mega sín með t.d. atvinnuleysisbótum eða öðrum bótum og styrkjum. Samfélagsleg ábyrgð er að hugsa alltaf um stóru myndina því allt sem við gerum hefur áhrif. Það hefur áhrif á samfélagið hér fyrir vestan ef hver og einn tekur þá ákvörðun að kaupa það sem hann þarf hér heima. Það hefur samfélagslega áhrif ef við veljum vestfirskt. Það hefur samfélagsleg áhrif að velja Íslenskt. Það er trú mín að við eigum byrja heima, við getum breytt því sem við gerum sjálf og því sem við kennum börnunum okkar.Það fer að skipta máli þegar margir hugsa svona. Það er einfalt að reikna það út hvað samfélagið hér tapar á því þegar 100 manns ákveða að kaupa t.d. fermingargjafirnar á Laugarveginum, fara í klippingu í Smáralindinni og kaupa fötin á fjölskylduna Kringlunni. Við viljum öll hafa verslanir og þjónustu hér heima, við vinnum í þessum fyrirtækjum. Gefum þeim séns. En samfélagsleg ábyrgð er ekki bara að gefa, það er ekki síður mikilvægt að graðka ekki í sig, svíkja og stela úr sameiginlegum sjóðum okkar allra. og að safna auði sem maður hefur svo ekkert að gera með. Eitt sem ég átti t.d. alltaf erfitt með að skilja hjá útrásarvíkingunum okkar, var þessi endalausa milljarðasöfnun. Hvað máli skiptir það mann sem á 100 milljarða hvort hann eignast 20 í viðbót? Ég hef ekki enn fengið skynsamlegt svar við þeirri spurningu?
Mikið hefur verið rætt um Evrópusambandið og hvort við eigum að sækja um aðild eða ekki. Sjálf veit ég ekki hvað ég vil í þeim málum. Enda höfum við ekki neinar upplýsingar um hvað það þýðir fyrir okkur? Hvað gerist í vaxtamálum? hvað verður um náttúruauðlindirnar? Hvernig koma tollarnir út? Það er einlæg ósk mín að næsta stjórn muni færa okkur svörin við þessum spurningum og mörgum fleiri, svo við getum gert upp hug okkar. Það er ljóst að ný ríkisstjórn þarf að taka til á mörgum stöðum og í fyrsta skipti eru einhverjar líkur á því að þjóðin eignist aftur óveidda fiskinn í sjónum. En framsal og veðsetning á kvóta er líklega ein vitlausasta hugmynd allra tíma og framkvæmd hennar glæpur gegn fiskverkafólki, sjómönnum og í raun þjóðinni allri. Þar treystu menn á markaðinn í blindni því markaðurinn átti að koma með hagkvæmustu lausnina, það gleymdist bara eitt. Peningar eru ekki og verða aldrei skynsamlegasta stjórnunartækið enda metum við ekki allt til fjár.
Ég get ekki látið hjá líða að minnast nokkrum orðum á það hvað mér finnst ég vera heppin að búa hér fyrir vestan, mannlífið er skemmtilegt og krafturinn hér sem einkennir lítil samfélög eins og okkar gerir okkur kleyft að framkvæma ótrúlegustu hluti, Aldrei fór ég suður, Óbeisluð fegurð, Fossavatnsgangan eru dæmi um þennan kraft. Náttúran rétt innan seilingar, stórkostleg og falleg. Listalífið blómstrar, leikhús tónleikar, böll, myndlistasýningar svo eitthvað sé nefnt. Þó við borðum ekki útsýnið, eins og stóriðjusinnar hafa margoft minnt okkur á, þá skiptir þetta máli og er hluti af lífsgæðum okkar. Og hér viljum við búa. Við eigum ekki að þurfa að biðjast afsökunar á því og við eigum ekki að slá af kröfum okkar um eðlilega uppbyggingu á grunngerð samfélagsins. Með grunngerð á ég m. a. við mannsæmandi vegi bæði innan Vestfjarða og til frá Vestfjörðum. Öruggt og öflug netsamband við umheiminn svo fyrirtæki hér á Vestfjörðum geti af fullri alvöru tekið þátt í framförum og þróun tölvuheiminum. Og ekki síst stöðugleika í peningamálum, það einfaldlega mjög erfitt að reka heimili og fyrirtæki þegar verðbólga og vextir sveiflast eins og á Íslandi. Við erum mörgum árum á eftir bæði í vegagerð og nettengingu og við eigum ekki að gefa eftir í þeim kröfum. Ef rétt er gefið og jarðvegurinn góður getum við bjargað okkur. Það þarf að leiðrétta margra ára vanrækslu stjórnvalda á þessu svæði við skulum ekki gleyma því að það eru bara nokkrir áratugir síðan þetta svæði var eitt af aðal tekjulindum þjóðarinnar. Fóru þeir peningar bara í að byggja upp skrifstofu og verslunarhúsnæði í Reykjavík? Ríkið sogar æ fleiri störf til Reykjavíkur í nafni hagræðingar og nú er svo komið að ríkisstofnanir mega ekki kaupa vöru af litlum fyrirtækjum úti á landi þessar stofnanir skulu kaupa þjónustu af fyrirtækjum í Reykjavík. Við þekkjum öll svona dæmi.
Að lokum langar mig að benda á að það er mikilvægt að við vinnum saman að því að byggja upp réttlátara og betra þjóðfélag með jafnrétti að leiðarljósi. Við megum aldrei gefast upp og þó við fáum ekki það sem við teljum sjálfsagðan rétt okkar, eigum við ekki að setjast niður og bíða eftir björgun. Núna verðum við öll að vera vakandi fyrir tækifærum og þora að láta vaða. Ef enginn bjargar okkur þá björgum við okkur sjálf.
Athugasemdir
Frábært hjá þér að vanda Matta og þó það komi málinu ekkert við, þá varstu svo glæsilega klædd :-)
Ingibjörg Snorra (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 17:19
Flott ræða Matta og fínt að fá hana á blogginu, því ég komst ekki í bæinn. Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta, og sem betur fer held ég að við eigum eftir að rísa upp úr þessari öskustó sem við erum í núna og"byggja upp réttlátt þjóðfélag"
Svana (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 17:43
Þú varst eins og þín er von og vísa flott þarna í dag. Mér fannst kaflinn um hetjurnar og hvunndagshetjurnar stinga mig mest ! Ætli ég sé feministi eða bara kona ?
Guðrún (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 23:56
Flott ræða hjá þér Matthildur
Reynum að virkja reiðina sem komin er upp í okkur í réttan farveg, samfélaginu okkar til góða. Látum vaða, framkvæmum góðar hugmyndir. Við erum t.d. að stækka okkar fyrirtæki hér norður í Mývatnssveit með bjartsýnina eina að leiðarljósi. Það þýðir ekkert fyrir okkur að bíða eftir björgun, við verðum að bjarga okkur sjálf.
Baráttukveðjur Ólöf
Ólöf Þ Hallgrímsdóttir (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 12:05
Drullugott.
Ylfa Mist Helgadóttir, 6.5.2009 kl. 20:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.