4.7.2008 | 16:15
"mætti ég aðeins eitt fyrir ykkur brýna, hvert einstakt líf það heimtar samhjálp þína"
Þessi orð Kiljans í þýðingu hans á ljóði Brects um Maríu Farrar komu mér í hug við lestur frétta og greina um þetta mál. Vonandi eru Íslendingar nógur stórir til að koma þessu fólki til hjálpar. Við erum rík þjóð og okkur kemur það við þegar samborgarar okkar eru í hættu eða vanda.
Ég hef þegar skrifað undir áskorun þess efnis og vænti þess að það beri árangur.
Fjölskyldu fleygt úr landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.7.2008 | 14:13
Vinsamlega skammist ykkar
Hugsið ykkur hvernig það væri ef stjórnendur RÚV hefðu tekið á málunum með öðrum hætti. Þeir hefðu getað gefið sér meiri tíma til að fara yfir sparnaðaraðgerðina. Þá hefðu þeir hugsanlega komist að annarri niðurstöðu en þeirri að segja upp 20 starfsmönnum og lama Svæðisútvarpið á Vestfjörðum og á Egilstöðum. Þeir hefðu kannski sparað í kaupum á rándýrum íþróttaútsendingum eða glanssýningunni kenndri við Eurovison. Kannski þurfum við ekki alla þessa útsendara RÚV sem standa með hljóðnemann á þaki í New York eða á brautarstöð í London. Að sjá íslenskan fréttamann bætir þar engu við fréttina. Nema vitanlega fyrir viðkomandi fréttamann.
Hugsið ykkur ef Ríkisútvarpið væri þannig rekið að starfsmenn allir væru stoltir af sínum stjórnendum, og vildu vinna með þeim að því að gera RÚV að þeirri menningarstofnun sem það á að vera. Ef forgangsröðunin væri þannig að sjálftökuliðið sem er við það að kafna í eigin hroka réði ekki ríkjum.
Hugsið ykkur ef stjórnendur hjá RÚV vissu að þar sem stundum er kallað, úti á landi, er hægt að hugsa heila hugsun og þar býr gerðarlegt fólk. Þar verða til fréttir jafnt og í Reykjavík og þar getur fólk búið til sjónvarps og útvarpsefni boðlegt okkur öllum.
Hugsið ykkur ef við sem borgum afnotagjöldin fengjum val um það hvort við tækjum þátt í því að eyðileggja RÚV. Flestum okkar þykir vænt um þessa stofnun og viljum að hún verði rekin áfram. Okkur er ekki sama og okkur þykir leitt að þessi klíka sem upphefur sjálfa sig og sína, skuli komast upp með að rífa niður það uppbyggingu sem átt hefur sér stað.
Fyrir mitt leyti, sem hluthafi, vil ég lýsa algjöru frati á þessar aðgerðir og bið þá sem bera ábyrgð á þeim vinsamlegast að skammast sín.
Starfsmannafélag RÚV ályktar um uppsagnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
1.7.2008 | 00:55
Götulistaverk, gjörningur eða rusalfata?
Í nokkra daga hefur ákveðinn hlutur verið að leita á huga minn. Ég hef reynt að leiða þetta hjá mér en algjörlega mistekist. Þessi hlutur verður á vegi mínum á hverjum degi, stundum oft á dag, á ferðum mínum um miðbæ Ísafjarðar. Líkt og lag sem hefur verið spilað of oft í útvarpinu festist þessi mynd í huga mér og ég velti fyrir mér tilurð þess og tilgangi. Í hádeginu í dag lét ég svo til skara skríða og smellti símamynd af fyrirbærinu.
Í fyrsta lagi hefur mér dottið í hug að hér sé Morrinn, götulistahópurinn hans Elvars Loga, á ferðinni með götulistaverkið ruslafötu. Forljóta ruslafötu sem á að minna okkur á að rusl sé ljótt og við eigum ekki að henda ljótu rusli á fallegt torg, ljótt rusl skuli fara í ljóta fötu.
Annað sem komið hefur upp í hugann, er að hér séu vinir náttúrunnar á ferð með gjörning til að mótmæla olíuhreinsunarstöð. Í gjörningi þessum hefur olítunna verið skorin í tvennt og máluð í litum illræmdra olíuviðskiptamafía. Ofan í þá er settur ruslapoki fyrir óbrennanlegt rusl. Líklega sett fram til að hvetja okkur til að henda öllum hugmyndum um olíuhreinsunarstöð í ruslið.
Þriðji möguleikinn og sá ólíklegasti er að einhverjir bæjarstarfsmenn hafi sett þessar tunnur þarna fyrir rusl og finnist ekkert að því að setja forljótar, heimasmíðaðar og dældaðar olíutunnur í miðbæinn okkar.
Ef þið eigið svör við þessari gátu eða hafið aðrar tilgátur, þá endilega látið þeirra getið í athugasemdunum hér að neðan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.6.2008 | 00:44
Hafið þið séð köttinn minn?
Kisan okkar, hún Emilía Lúra er týnd. Hún hefur ekki sést síðan hún fylgdi mér í vinnuna á mánudaginn. Ég veit að útivistatími katta-unglinga er rúmur á sumrin, en ég hef samt örlitlar áhyggjur. Hún hefur aldrei verið svona lengi í burtu og nú er farið að rigna og því gæti kisu orðið kalt.
Nú sit ég heima og vonast eftir að heyra bjölluhljóminn þegar hún trítlar um. Að mér læðist ljótur grunur þó ég reyni að hugsa mér að hún sé í góðu yfirlæti. Ég læt sem ég muni ekki eftir Mána sem var stolið frá okkur og komst við illan leik aftur heim, svo illa leikinn á sálinni að við urðum að senda hann inn í eilífðina. Ég læt sem mér sem sama um þennan garm, sem murkað hefur lífið úr litlum músum undir rúminu mínu og stolist til að sofa á koddanum þegar ég er í vinnu. Farið upp á borð og leikið hleyptu með inn, hleyptu mér út leikinn oftar en ég kæri mig um að muna. Ég þykist viss um að hún komi aftur og haldi áfram að fara í taugarnar á mér.
Bætt við seinna sama dag 28. júní
Ég vaknaði upp við bjölluhljóm áðan, þá var kallað rámum kisurómi, er ekki til nein matur hér. Stuttu síðar hafði hún stolist upp á eldhúsborð. Ég vissi að allt yrði aftur eins um leið og ég skammaði hana niður á gólf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.6.2008 | 15:22
Hættum að drepa tímann, leyfum honum frekar að líða í friði.
Því hefur löngum verið haldið fram að það sé slæmt að gera ekki neitt. Gott fólk á vinna mikið og lengi og ef það er ekki að vinna, þá á það að vera gera eitthvað, helst gagnlegt. Láta ekki verk úr hendi falla. Vinna eða vinna mikið og ekki hangsa yfir engu. Eftir að vinnutíma líkur á gott fólk að taka til í geymslum, smíða palla, fara í ræktina eða setja niður kartöflur og taka þær síðan upp, skræla, sjóða, borða, ganga frá og fara út með ruslið.
Spilverkið söng á sínum tíma um að þegar hún yrði stóð þá ætlaði hún ekki að gera neitt. Ég man að mér fannst þetta nálgast Guðlasti á sínum tíma. Enda alin upp við það í sveitinni að fólk yrði að vinna. Amma mín blessunin hafði kennt mér að vinnusemi væri dyggð og lykillinn að góðu lífi. Að leika sér væri óþarfi sem myndi bara breyta okkur krökkunum í aumingja eða það sem verra væri, letingja. Það var vitaskuld það allra versta sem okkur gæti hent. Enda æpti Lóa frænka í laginu forðum.
Þó trúin á að vinnusemin sé hin æðsta dyggð sé á undanhaldi, eru enn merki um þennan hugsunarhátt allt í kring um okkur. Markaðsöflin nýta sér þetta og til eru með ótal ráð um hvernig má, fyrir sanngjarna þóknun, drepa tímann. Það er ekki gert ráð fyrir því hvað það getur verið gott að gera ekkert. Nota fríið til þess að vakna þegar við vöknum, borða þegar við erum svöng og sofna þegar við sofnum.
Hættum að drepa tímann og leyfum okkur að njóta þess að gera ekki neitt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.6.2008 | 10:23
Þökk sé EM í fótbota
Ég vissi ekki hvað fótbolti er frábær fyrr en nýlega. Satt að segja hélt ég að fótbolti væri leiðinlegur, og hafði minna en engan áhuga á íþróttinni. Ég hafði aldrei haldið með neinu liði og haft væga skömm á þeim sem sitja æpandi fyrir framan skjáinn að fylgjast með liðinu sínu. Ég var meira að segja búin að finna út að bakgrunns hljóðin þegar þúsundir hrópa stanslaust þungum rómi, færu í taugarnar á mér vegna þess að múghljóð að þessu tagi minntu á brjálaða vísundahjörð og því væri það manneskjum eðlislægt að vera órótt. Það væri skrifað í frumurnar og skýin, að æstum múgi getur ekki verið treystandi.
En fótbolti er frábær og ég á honum mikið að þakka. Sérstaklega EM sem hefur hertekið Sjónvarpið og kennt mér að vera án kvöldfrétta og án framhaldsþátta um morð, ástina eða einhverja draugavitleysu. Á undraskömmum tíma hef ég læknast af kvöldfréttaáráttunni.
Áður var ég svo kölluð sófakartafla og glápti á sjónvarpið öll kvöld, nema þegar ég var svo heppin að einhver kom og truflaði mig, og missti af lífinu. Núna sit ég við eldhúsgluggann og horfi á hafið, les bækur, fer í gönguferðir, á fjöll, spjalla við fjölskylduna eða sit úti á palli og nýt lífsins og mölva flísar til þess eins að raða þeim saman aftur.
Núna skil ég hvað það er frábært að stjórna sínu eigin lífi og aðstoðin kom úr óvæntri átt. Ég vil því nota tækifærið og taka aftur allt slæmt sem ég hef látið út úr mér um fótbolta. Ég vona að það verði fleiri svona stórmót, og ég vona að það verði alltaf sýnt beint frá öllum íþróttaviðburðum í Sjónvarpinu héðan í frá.
Ég er konan sem elskaði að hata fótbolta en nú elska ég fótbolta. Takk fyrir mig
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.6.2008 | 19:34
Búningar og barnagull
Þjóðbúningafélag Vestfjarða mun, í samvinnu við Byggðasafn Vestfjarða og söfnin á Gamla sjúkrahúsinu, opna sýninguna Búningar og barnagull þann 14. Júní n.k. klukkan 13:00. Sýningin verður í Gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði og verður opin frá 13 til 16 á opnunardaginn og síðar á opnunartíma Gamla sjúkrahússins. Á sýningunni verða gamlir og nýir þjóðbúningar í eigu Byggðarsafnsins og einstaklinga. Sérstök áhersla verður lögð á að sýna búninga barna og unglinga, auk gamalla leikfanga og annars sem tengist þjóðbúningum. Á opnun sýningarinnar verða konur úr Þjóðbúningafélagi Vestfjarða íklæddar þjóðbúningum sem þær hafa verið að sauma undan farin ár undir handleiðslu Þjóðbúningastofu og Heimilisiðnaðarfélags Íslands. Við viljum hvetja alla sem eiga þjóðbúning, hvort sem þau eru í félaginu eða ekki, að mæta í honum til að gera sýninguna lifandi og skemmtilega.
Fréttatilkynning frá Þjóðbúningafélagi Vestfjarða
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.6.2008 | 01:11
Hliðrum deginum
Mikið er ég ánægð með Seyðfirðinga þeir vita sínu viti og það sem meira er þeir koma því á framfæri. Á dögunum héldu þeir fund þar sem samþykkt var að skora á stjórnvöld að taka upp sumartíma á Íslandi. Ég styð þá heilshugar enda hef ég tvisvar komið á Seyðisfjörð og hélt rétt sem snöggvast að ég væri á Ísafirði, svo heimilisleg er stemning hjá þeim. Gömul hús, logn, fjöll og mannlíf.
Mig hefur lengi dreymt um að hafa sólina á pallinum aðeins lengur fram á kvöldið og þó mér þyki fjöllin falleg og fari ekki fet, hugsa ég þeim stundum þegjandi þörfina fyrir að skyggja á sólina, og það strax rétt upp úr kvöldmat. Vissulega væri hægt að moka burt fjallinu og nota mölina í uppfyllingu, en ég tel að það sé hagkvæmara og auðveldara að færa daglegt amstur til um einn eða tvo tíma.
þessi hugmynd er vitaskuld ekki ný og Vilhjálmur Egilsson má eiga það að hann hefur stungið upp á þessu nokkrum sinnum á Alþingi. En þau hin voru ekkert að hlusta. Önsuðu því engu, enda löngu búin að gleyma hvernig tilfinning það er, að horfa á sólina í fjallinu á móti og og skuggann á pallinum.
Kannski fær þessi hugmynd ekki hljómgrunn hjá ráðamönnum og konum því þau hafast að langmestu leiti við í endalausri rigningu í umferðarhnúti í höfuðborginni. Kaupa sinn varning í verslunarmiðstöðvum og eru þar að leiðandi lítið úti við. Kveikja bara ljósin og málið er dautt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.6.2008 | 20:23
Svarthöfði á prestastefnu
Á myndinni með þessari frétt má sjá svartklæddan mann með hjálm og sverð. Ætli hér sé svarthöfði sjálfur mættur eða eru þetta nýju lögreglubúningarnir.
Prestastefna hófst með messu í kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.6.2008 | 14:18
Ólofaðar konur mótmæla á Ísafirði
Mikill kurr er í röðum ólofaðra kvenna á Ísafirði og í nágrennis og hafa samtök þeirra sent frá sér harðorða ályktun í kjölfar yfirlýsingar verktakafyrirtækisins Ósafls. En eins og kunnugt er gáfu forsvarsmenn Ósafls út þá tilkynningu á dögunum að einkum ætti að notast við heimamenn í vinnu við Óshlíðargöng.
Í tilkynningunni kemur fram að Hagsmunasamtök ólofaðra kvenna á Ísafirði og nágrennis lýsir miklum vonbrigðum og stórum áhyggjum af þeirri ákvörðun Ósafls að ráða einungis heimamenn í þessi störf. Félagskonur skora á ráðherra félagsmála og bæjarstjórnir á svæðinu og skerast í leikinn til að koma í veg fyrir atgerfisflótta kvenna af svæðinu.
"Þrátt fyrir mikla þenslu í íslenska efnahagskerfinu undanfarin ár, með tilheyrandi innflutningi karlmanna í hin ýmsu störf, hefur einungis lítill hluti skilað sér á okkar svæði. Félagkonur hafa því ítrekað þurft að leita út fyrir svæðið með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Við horfðum fram á bjarta tíma með tilkomu jarðgangnagerðar á svæðinu en nú eru blikur á lofti" sagði félagskona, sem vill ekki láta nafns síns getið, á fundi félagsins á laugardagkvöldið. Önnur benti á að "þó ólofaðir Vestfirðingar væru mikil karlmenni og ágætir til síns brúks, þá væru þær einfaldlega orðan leiðar á litlu úrvali".
Bloggar | Breytt 10.6.2008 kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)