Færsluflokkur: Bloggar

Það eru ekki allir í stuði

Mikið djöfull finn ég fyrir að það eru ekki allir í stuði.  Þvert á móti virðist fólk mikið vera í argasta óstuði þessa dagana. Sendir hvert öðru tóninn, stundum meiðandi, stundum bara móðgandi.  Ég hef ákveðið að taka þátt í þessu óstuði enda mikið gefin fyrir kjafthátt og almenn leiðindi. Þeim fáu sem enn eru í stuði þrátt fyrir sólarleysi og kulda skal bent á fara varlega í að láta gleði sína í ljós. 

Það er nefnilega algengur misskilningur að allir verði alltaf að vera í stuði eða hafa það gott.  Stundum er kona einfaldlega í skotþungu skapi og á bágt með annað en bíta höfuðið af þeim sem heilsa glaðlega í morgunsárið.  Skella fram sínu glaðlega, Góðan daginn.  Fólk á að hafa vit á því að láta okkur fýlupúkana í friði fyrir hádegi.  Já og í sumum tilfellum gæti verið best að láta þann fúla stíga fyrsta skrefið í samræðum.

Já og hættið að spyrja hvernig við höfum það.  Þið hafið hvort sem er ekki áhuga á því að vita það, ekki í alvöru.  Eða ætlið þið að segja mér að þegar þið spyrjið vinnufélaga ykkar hvað þeir segi gott, að þið séuð í alvöru að spá í hvernig þeir hafi það og hvað sé þeim efst í huga.  Nei, það er miklu líklegra að þið séuð bara að segja þetta til að segja eitthvað.  Halda uppi samræðum eingöngu samræðnanna vegna. 

Þið hin, sem alltaf eruð í stuði, ættuð að prófa að vera morgunfúl og þung í skapi í einn dag.  Það er nefnilega ekki eins slæmt og þið haldið.   Þó kona sé með ólund líður henni ekki endilega illa, hún sér veröldina einfaldlega frá öðru sjónarhorni og það getur verið mjög fyndið, í það minnsta eftirá.

 


Húsþök og hárlitur

Ég á ameríska vinkonu sem kemur stundum til Íslands til lengri eða skemmri dvalar.  Það er alltaf gaman að fá hana í heimsókn og við ræðum margt og mikið, ekki síst um mismuninn á Evrópu og Bandaríkjunum, hvað er líkt og hvað ólíkt.   Og þó ég hafi ekki beint spurt hana stóru spurningarinnar "how do you like Iceland" get ég ekki neitað að ég er oft að leita eftir hennar skoðun á okkur íslendingum og Íslandi.  Okkur er ekki sjálfrátt.

Eitt af því sem hún benti mér á var hvað það væri gaman að sjá að húsþökin á Íslandi í mörgum litum, það væri ekki einn ríkjandi litur eins og víða. Hún taldi þetta vera merki um hvað við erum sjálfstæð og örugg með okkur.  Auðvitað neitaði ég því ekki.  Ég hafði annars aldrei spáð í þetta og veit ekki hvort vísindalegar rannsóknir liggja, en glöggt er gests augað.  

Annað sem henni var tíðrætt um var að  allir íslendingar væru með litað hár. Þarna notaði hún orðið allir væntanlega í sama skilningi og unglingar gera gjarnan.  Því er ekki að neita að mjög margir eru með litað hár eða strípur. En þetta hefur líklega ekki heldur verið rannsakað. Vinkona mín í hárgreiðslubransanum hefur þó sagt mér að hárlitun sé algengari á Íslandi en mörgum nágrannalöndum okkar.

Það sem ég  var að velta fyrir mér, að því gefnu að þessar tvær fullyrðingar séu sannar, er hvort samhengi sé þarna á milli.  Kannski ekki beint samhengi en það sé sami krafturinn eða hugsunarhátturinn sem fær okkur til að mála litrík þök og skipta um háralit.

Kannski við höfum rambað á nýja fræðigrein.  Ég sé fyrir mér sjálfhjálpar námskeið í því hvernig þú lærir að þekkja sjálfa þig með því að skoða hárgreiðslusögu þína.  Mín yrði litrík, það er víst.  Hvað þá með þökin? Hún Ásthildur býr í kúluhúsi með gler og torfþaki, hvað myndi það segja um hana? 


Vilja þessir menn jafnrétti?

Undanfarið hefur enginn verið maður með mönnum hér á blogginu ef hann skrifar ekki svo sem eins og einn pistil um hversu ómögulegir þessir femínistar séu.  Gjarnan sjá þessir menn sig sem útvörð réttrar umfjöllunar um jafnréttismál og finna femínistum allt til foráttu.  Liggja yfir öllu efni sem frá nafngreindum femínistum kemur í þeirri von að finna eitthvað sem hægt er að snúa út úr.  Gera grín að eða rakka niður á annan hátt.

Þessir menn finna gjarnan til sín þegar þegar nafnlausir og stundum huglausir mæra þá í athugasemdum.  Þeir ljúga og ýkja væntanlega til þess eins að hvetja hvern annan og sjálfa sig til frekari skrifa.  Suma daga minnir þetta hátterni mig óþægilega mikið á einelti. 

Með þessum skrifum virðist mér þeim finnist þeir vera eitthvað.  Finnist þeir hafa malað þær.  Finnist þeir jafnvel hafa varið málfrelsið  með því að kenna femínistunum um hvað þær ættu að fjalla og á hvaða hátt.  Ég ætla ekki að taka dæmi, við höfum öll lesið svona blogg og svona athugasemdir.   Ef einhver er ekki með á nótunum þá verður bara að hafa það.

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg þessa hegðun.  Mér finnst eðlilegt að fólk sé ósammála og mér finnst eðlilegt að rökræða en mér finnst ekki eðlilegt hvað margir eru viðkvæmir fyrir skoðunum femínista.  Hvað skoðanir þeirra geta kallað fram mikla og almenna vandlætingu sem of oft brýst út í dónaskap. 

Ég er að velta því fyrir mér hvað þeir séu að hugsa.  Hvort þeir hugsi um jafnréttismál og hvort þeir hafi rætt þau í einlægni og æsingslaust.  Hvort þeim finnist þeim ekki koma þetta við eða hvort þeir haldi að á Íslandi í dag sé jafnrétti.  Stóra spurningin er og hlýtur að vera vilja þessir menn jafnrétti kynjanna?


Er okkur ekki sjálfrátt?

Ég keypti ekkert á laugardaginn.  Var með í átakinu gegn neyslubrjálæðinu, átakinu um að kaupa ekki neitt.  Það er mikil þörf fyrir svona daga.  Þjóðin er að tapa sér í kaupæðinu og vikulega lesum við um skammarleg innkaupamet okkar.  Við þessi nýríka plebbaþjóð sem höfum efni á öllu sem okkur dettur í hug.  Vonandi dettur okkur í hug að setja nokkra aura í uppbyggingu á elliheimilum áður en ég verð mikið eldri.

Annars eru það ýkjur að ég hafi ekki keypt neitt ég var að muna að ég fór aðeins út í búð á laugardaginn. Það þurfti að kaupa ýmislegt smálegt. Ég fór í apótekið og keypti ákveðna gerð af vinsælum verkjalyfjum.  Ég var ekki með hausverk eða neitt svoleiðis, en þar sem ég hafði lesið um að þessi lyf hafi verið ófáanleg í langan tíma ákvað ég að kaupa nokkrar dósir til að eiga.  Kona þarf að vera vakandi fyrir svona hlutum.  Í BT versluninni við hliðina var fínt tilboð á gömlum DVD diskum svo ég keypti nokkrar myndir. Það er alltaf fínt að eiga diska, gott í gjafir og svo gæti verið að krökkunum þættu sumar þeirra ágætar.  Þá mundi ég að það var ekki til nein mjólk svo ég ákvað að koma við í Samkaup á leiðinni heim, skaust rétt inn og tíndi brauð, mjólk, kaffi, jólakort, kertastjaka og þess háttar í körfuna.  Mér leið vel þegar ég leit á hina vitleysingana sem voru að kaupa í matinn.  Þrælar neysluhyggjunnar, gátu ekki einu sinni sleppt því að kaupa inn í einn dag. 


Það er ekki í lagi að stela trjám.

Það hringdi í mig maður í kvöld, kurteis en þó í skotþungu skapi.  Hann hafði verið að horfa á myndina um Óbeislaða fegurð í sjónvarpinu.  Í einu atriði myndarinnar sést þegar ég er að stela nokkrum trjágreinum í húsgarði í Hnífsdal nálægt félagsheimilinu.  Á sínum tíma hélt ég að þetta hús væri í eigu ofanflóðasjóðs. Því sagði ég í hálfkæringi að þess vegna væri allt í lagi að klippa nokkrar greinar af trjánum þarna þær væru í raun okkar eign.  Þetta er auðvitað alrangt, húsið er í einkaeign.

Ég gat lítið gert nema biðjast afsökunar og fullvissa manninn að við hefðum ekki tekið mikið og ég hefði verið að gaspra þetta með rétt okkar, því á sínum tíma hefði ég ekki vitað betur.  Maðurinn tók afsökun mína til greina og við lukum símtalinu í bestu sátt.  þessi maður sagði mér jafnframt að hann og aðrir sem ættu hús á snjóflóðahættusvæðum mættu búa við að fólk kæmi og stæli frá þeim trjám og runnum. 

Ég má ekki til þess hugsa að hugsunarleysi mitt og gaspur verði til þess að einhverjir haldi að það sé í lagi að stela trjám eða runnum úr görðum á hættusvæðum.  Það eru auðvitað alltaf einhverjir sem eiga þessi hús og fráleitt að halda að það sé ekki þjófnaður.


Vinir og kunningjar

Ég á marga kunningja og nokkra vini.  Þetta er upp til hópa skemmtilegt og vænt fólk.  Ef ég hefði vaknað upp í gær með skilgreiningaráráttu þá hefði mig langað að skilgreina vináttu og kunningsskap. 

Þá myndi ég hafa skrifað langan útpældan pistil um vini og kunningja. Hnyttin vel skrifaðan  pistil, þar sem ég hefði  tekið óborganlega fyndin dæmi úr mínum persónulega vinahóp.  Ég hefði leitað svara við spurningum á borð við hver væri munurinn á vini og kunningja.  Hvað yrði til þess að kunningjar væru allt í einu orðnir vinir og ég hefði velt fyrir mér hvort við tækjum við eftir breytingunni.  Í þýskalandi varð þessi breyting gjarnan með formlegum hætti hér áður fyrr, þegar fólk ákvað að fara að þúast.  Drakk jafnvel dús að því tilefni.  Ég hefði velta vöngum yfir því hvort þessu gæti verið öfugt farið. Það er að segja að vinirnir færu að breytast í kunningja.  Hvað gæti orðið til þess.  Að lokum hefði ég hugsanlega gert létt grín að svo kölluðum óvinum en auðvitað hefði ég ekki kannast við að eiga neina slíka. 

En í gær vaknaði ég með allt aðra áráttu og fór að sauma mér upphlut.  Hugsanir mínar um vini og kunningja rötuðu því ekki í pistil að þessu sinni en það er aldrei að vita hvað gerist síðar. 


Gengur þér vel eða hleypur þér vel

Í geðorði númer átta er þjóðinni ráðlagt að gefast ekki upp, velgengni sé langhlaup.  Jafnvel þó ég sé nú þegar farin að verða vör um mig og eigi hálfpartinn von á því að höfundur geðorðanna velmeinandi elti mig uppi, en ég get ég ekki hætt.  Ef velgengni á að vera langhlaup, ekki kraftganga eða bara nærandi göngutúr hef ég ýmislegt við það að athuga.

Í fyrsta lagi vil ég meina að langhlaup séu ekki holl.  Það er allt of mikið álag að hlaupa tugi kílómetra, grindhoruð, illa nærð, soltin með álagsmeiðsl í hnjám og ökklum. Stundum er betra að hætta eða það sem sumir kalla gefast upp en klára sig alveg.

Í annan stað vil ég benda á að það sem einum kann að finnast velgengni finnst öðrum lítið og lélegt.  Þeir sem safna kaupréttarsamningum, fjárfesta og græða meira en þeir skilja sjálfir telja það ekki velgengni að fara til dæmis í kennaranám og helga líf sitt kennslu.  Sumir hafa engan áhuga á því að safna peningum, þeir hugsa í núinu og skilja ekki hvað dregur fjárfestana áfram.  Þegar upp er staðið og þessar tvær manneskjur líta yfir farin veg finnst þeim báðum að þær hafi náð velgengni.

Í þriðja lagi er þessi líking við langhlaupið sérlega óheppileg fyrir þá sem lifa fyrir daginn í dag, margir hafa lent í veikindum, eru fíklar eða hugsa í núinu til að öðlast hamingju.  Þetta fólk lítur ekki á lífið sem langhlaup og það að líta á lífið sem langhlaup geri einmitt fengið það til að gefast upp.

Mín útgáfa af þessu geðorði er slappaðu af lífið er eins og að lesa góða bók.  Stundum spennandi, stundum langdregin en alltaf góð.  Og það er gamall og góður siður að láta bókina ekki frá sér fyrr en þú ert búin að lesa hana alla. 


Að reyna eða framkvæma

það er nokkuð síðan ég hæddist og níddist síðast á geðorði, eða eins og ein kunningjakona mín orðaði það að ótuktarskapurinn skini í gegn um mín skrif um þessi velmeinandi skilaboð.

Geðorð númer sjö biður mig að reyna að skilja og hvetja aðra í kring um mig.  Ég lærði á einhverju brosnámskeiði fyrir mörgum árum að ég ætti ekki að reyna að gera neitt, heldur ætti ég einfaldlega að gera hlutina.  Ef kona gengi til verks með þá hugsun í kollinum að hún ætlaði að reyna að ljúka við verkið væri hún að minnka líkurnar á því að hún lyki því.  Ef ég man rétt þá var þetta á námskeiðinu sem leiðbeinandinn henti í okkur pennum og öskraði á okkur.  Hann var góður og ég lærði mikið af honum.

Ef ég reyni að fara eftir þessu geðorði þarf ég að reyna að gleyma því sem ég lærði á þessu námskeiði. Auk þess finnst mér oft fljótlegra í lífinu að sleppa úr flóknu og erfiðu hlutunum og byrja strax á vinnunni.  Ég get ekki betur séð en það að reyna lendi í þeim flokki.  Haldið þið að við höfum reynt að halda Óbeislaða fegurð? Nei, við framkvæmdum einfaldlega.

Eftir því sem ég les þetta betur og oftar finnst mér erfiðara að skilja það og þó.  Tíu orð, þar af fjögur smáorð, og, um, í & að. Tvö persónufornöfn þar sem átti er við mig og aðra.  Þrjár sagnir, reyna, skilja og hvetja.  Mín niðurstaða er sú að lykilorðin í þessari setningu, séu að skilja og hvetja.  Ég skoðaði líka tíðni bókstafanna en fann ekkert markvert út úr því og henti þeim niðurstöðum í ruslið.

Hverjir fást við að skilja og hvetja í okkar samfélagi?  Það er auðvitað sálfræðingar og þess háttar fólk.  Fólkið sem vinnur við að skilja vitleysuna sem upp úr okkur kemur og hvetur okkur til dáða.  Ekki dettur mér í hug að fara inn á sérsvið þeirra sem hafa tekið mörg ár í að mennta sig og þjálfa. Á hverju eiga þeir að lifa ef við förum allt í einu að skilja og hvetja sjálf. 

 


Fáðu þér bók og sopa af kók

Í dag föstudaginn 16. nóvember er dagur íslenskrar tungu.  Í tilefni að því mun kaffihúsið Langi Mangi á Ísafirði gefa viðskiptavinum sínum lesnar bækur.  Á boðstólum verða jafnt íslenskar sem þýddar bækur fyrir börn og fullorðna.

Allan daginn verður opinn hljóðnemi fyrir gesti og gangandi sem vilja lesa ljóð, sögu, sögubrot, leikrit eða annað efni á íslensku.  Hvernig væri að láta eftir sér mexíkóska súpu með nautahakki, rifnum osti og tortilla flögum. Og bók


Hættum að kóa með með sálarmorðingjunum og stuðningsliði þeirra.

Ég er búin að fá nóg af þessari umræðu um létta dóma í ofbeldismálum og get ekki lengur tekið þátt í henni á kurteisan og prúðan hátt.  Ef eitthvað á að breytast þá verðum við sem viljum breytingar að gera eitthvað róttækt.  Hættum að kóa með glæpamönnunum sem nauðga, svívirða og meiða.  Sífellt bætast við smánarlegir dómar þar sem ofbeldismenn er flengdir létt á afturendann fyrir  nauðganir og annað ofbeldi.

 

Við sem erum búin að fá nóg ættum að taka höndum saman og sýna alþingismönnum að við viljum breytingar á lögum.  Við ættum líka að sýna dómurum, lögreglu, félagsmálayfirvöldum og öðrum þeim sem koma að þessum málum að við ætlum til þess að það verði tekið á þessum málum af alvöru.

 

Ég er búin að fá nóg og ég veit að þið eruð líka búin að fá nóg.   Allir alþingismenn sem ekki styðja breytingar á lögum eru að hjálpa ofbeldismönnunum.  Allir dómarar sem túlka atvik til mildunar á dómum eru að hjálpa ofbeldismönnunum.  Allar löggur sem líta ekki á hjá heimilisofbeldi sem alvarlegan glæp eru að hjálpa ofbeldismönnum.  Allir í félagsmálakerfinu sem horfa fram hjá ofbeldi eru að hjálpa ofbeldismönnunum.  Við öll erum samsek sem þjóð, viðurkennum það og tökum ákvörðun um að breyta þessu.  Hættum í þessu stuðningsliði.


mbl.is Dæmdur í 2½ árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 6 stúlkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband