Færsluflokkur: Bloggar
14.11.2007 | 10:59
Nauðgarar
Undanfarið hafa verið sagðar fréttir af nauðgunum. Nauðgunum á konum sem fóru út í bæ að skemmta sér. Nauðgunum á konum í heimahúsum. Sögur fara af því að á ákveðnum öldurhúsum í Reykjavík standi vinirnir vörð fyrir framan klósettin á meðan félagarnir nauðgi stelpum þar inni. Konur er dregnar inn í húsasund og misþyrmt. Konum er nauðgað af kunningjum sínum, mönnum sem þær treystu. Fæstar nauðganir hafa verið kærðar og reynslan segir okkur að þó þær kæri kemur oftast ekkert út úr því nema niðurlæging fyrir konuna sjálfa.
Ég verð að segja að ég fæ ekki skilið hvað það er sem fær karlmenn til að nauðga konum. Hvernig sonum okkar, bræðrum og feðrum dettur í hug að fara gegn kynsystrum okkar með slíku ofbeldi. Hvernig dettur einhverjum í hug að hann hafi á einhvern sjúklegan hátt rétt á því að runka sér á annarri manneskju. Ofbeldi sem skilur eftir sig blæðandi sár á sálinni sem aldrei grær. Hvað er að í samfélagi sem elur af sér svona menn? Hvar höfum við brugðist?
Mig langar til að biðja ykkur öll að hugsa um nauðgarana. Það er ekki ólíklegt að þið þekkið nauðgara þó þið vitið ekki af því. Talið við þá oft í viku og að ykkur finnist þeir hressir og skemmtilegir. Góðir gæjar jafnvel.
Hvað getum við gert? Ég hef engin einhlít svör við því, en eitt er víst að það dugar ekki að þegja þetta í hel. Nauðgunum fækkar ekki þó við hættum að tala um þær. Því held ég að við sem viljum stoppa þetta ofbeldi, ættum einmitt að tala sem mest um kynferðisofbeldi við alla karlmenn. Ekki síst unga karlmenn. Fá þá til að horfast í augu við hvað nauðgun er hræðilegur glæpur.
Ef þú sem lest þetta ert nauðgari, eða maður sem finnst allt í langi að ljúka þér af á dauðadrukkinni eða meðvitundarlausri konu. Þá langar mig til að biðja þig að hugsa um móður þína, systir og sjálfan þig. Ímyndaðu þér eitt augnablik að þú sért fórnarlambið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.11.2007 | 01:05
Toppari eða tímastjórn
Veist þú hvort þú ert toppari eða yfir höfuð hvað toppari er? Toppari er hvorki dúfa né skarfur. Fyrir ykkur sem ekki vitið hvað toppari er skal ég útskýra það sem snöggvast. Toppari er manneskja sem alltaf þarf að toppa allt sem þú segir og hefur ávallt séð það svartara. Topparar eru flestir svo ótrúlega leiðinleg mannkvikindi að allir elska að hata þá. Jafnvel þessir sniðugu eru leiðinlegir til lengdar.
Segir þú toppara veiðisögu á hann alltaf eina aðeins betri. Hann veiðri fleiri dýr en þú, á stærri bíl, flottari gítar, hefur ferðast meira og á meiri peninga en þú. Ef ekki hann sjálfur, þá einhver vinur hans. Það er svo merkilegt með toppara að þeir toppa bæði gott og slæmt. Hafa verið veikari en þú, lent í verri lífsháska, verið dónalegri og tapað stærri upphæðum. Voru með verri kennara og voru óþekkari í skóla. Er ekki viss hvort þetta með óþekktina á frekar heima í góðu eða slæmu.
Ég reyni stundum að vera toppari en hef ekki nægilegt úthald til að ná töktunum alveg. Verð þá frekar pirrandi en hefur enn ekki tekist að fá neinn til að elska að hata mig. Kannski ætti ég að fara á námskeið í toppun mig langar í það minnsta meira á námskeið í toppun en í tímastjórnun þó ég vita að hið mig skortir meira af hinu síðarnefnda en hinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.11.2007 | 00:13
Hvernig lygari ertu?
Ég stóð eina vinkonu mína að því í að ljúga lítillega að dóttur sinni í dag. Þetta var ósköp saklaust skrök en dóttirin sá í gegn um hana um leið. þetta varð til þess að við fórum að ræða um lygar og þá staðreynd að flest grípum við til lyga af og til. Auðvitað er ljótt að ljúga en það má líka hafa gaman að lygum, sérstaklega þessum fyrirsjáanlegu. Þar sem ég er með flokkunar og greiningaráráttu í kvöld hef ég ákveðið að skipta lygum niður í nokkra flokka.
Fyrst skal nefna staðsetningarlygarann. Það er þessi ótrúlegi lygari sem þykist oftast vera annar staðar en hann er. Ef þú átt stefnumót við þannig lygara og hann er seinn fyrir, máttu vera viss um að hann lýgur að þér ef þú hringir og spyrð hvar hann sé. Hann þykist vera lagður af stað þó hann sé enn með annan fótinn í sturtunni. Það merkilega er að hann græðir ekkert á því að ljúga svona og við sjáum oftast í gegn um hann. Sérstaklega ef við þekkum hann vel og við þekkjum jú öll að minnsta kosti einn svona lygara.
Næsta lygara vil ég kalla útlitslygarann. Ef þú ferð í ljóta úlpu sem fer þér einstaklega illa og spyrð útlitslygarann hvernig þetta fari þér, mun hann ekki vera hreinskilinn. Jafnvel þó þú biðjir hann sérstaklega um það. Nei, útlitslygarinn mun segja þér að þetta sé ofsalega spes og sýni hvað þú hafir sérstakan stíl. Hann vill frekar að þú farir út í bæ eins og illa skreytt jólatré en hætta á að særa þig með sannleikanum.
Tímalygarann þekkja allir sem einhvern tíman hafa haft iðnaðarmann í vinnu, búið með slíkum eða þekkt náið. Tímalygarinn heldur alltaf að hann verði svo snöggur að hlutunum að hann segist vera búinn helmingi fyrr en raun ber vitni.
Sumir vita allt. Veitþaðlygarinn veit alltaf hvað þú meinar og vissi það áður en þú sagðir það. hann svarar í það minnsta alltaf "ég veit það" þegar honum er sagt frá einhverju.
Síðast vil ég nefna hagræðingarlygarann, sem hagræðir sannleikanum smávegis svo hann hljómi betur. Færir í stílinn. það getur verið miklu skemmtilegra en að halda sig við sannleikann. Stundum þarf hann að vísu að breyta það miklu að sagan er bara byggð á sönnum atburðum, flytja hana á milli fjarða og setja nýjar persónur í aðalhlutverkin. Ef hann sjálfur er í sögunni kemur hann alltaf aðeins betur út en hinir. Er klárari, sniðugri og ber af á allan hátt.
Mér finnst ég kannast við þennan síðastnefnda. Gæti hugsast að ég sé hagræðingarlygari?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
5.11.2007 | 15:32
Sælla er að þiggja en gefa, misheppnaðar gjafir
Mér skilst að það séu að koma jól og jólunum fylgja gjafir bæði vel heppnaðar og hinar líka. Við könnumst öll við að hafa fengið alveg ferlegar gjafir og flest okkar hafa sjálfsagt þóst vera ánægð með þær. Nú svo er það hin hliðin á málinu að gefa óheppilega gjöf og vita kannski ekkert um það. Frétta það hugsanlega mörgum árum seinna að heill ættbálkur hefur hlegið að gjöfinni í mörg ár.
Svo lengi sem elstu konur muna hefur þótt sælla að gefa en þiggja. Ég hef haft það fyrir satt eins og svo flest sem mér var kennt í barnæsku. En það er með þetta eins og margt annað, að eftir því sem kona eldist og þroskast fer hún að skoða betur það sem henni var innrætt. Undanfarið hef ég verið að velta þessu fyrir mér og skoða það með gagnrýnum augum. Satt að segja hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki algilt að sælla sé að gefa en þiggja. Mér þykir augljóst að sælla sé að þiggja en gefa, ómögulega og misheppnaða gjöf. Sú sem fær ömurlega gjöf getur alltaf hlegið að henni, í það minnsta eftir að vera komin yfir sárustu vonbrigðin. Á hinn bóginn hefur sú sem gefur ómögulega gjöf vissulega gefið gjöfina sem heldur áfram að gefa, bara ekki á þann hátt sem hún ætlaðist til.
Það má skipta vondum gjöfum upp í nokkra flokka. Til dæmis, gefðu það sem þig langar í burt séð frá því hvað þiggjandinn vill, þetta er stundum notað ef um sambýling okkar er að ræða. Eða kaupa bara eitthvað á hlaupum gjarnan á síðustu stundu það er svipað og að spila í lottóinu, vinningslíkurnar eru ekkert mjög miklar. Nú ekki má ekki gleyma, ódýrt drasl og undriflokknum rándýrt ljótt, þetta gefum við gjarnan þegar við erum í gjafasambandi við fólk sem við þekkjum í raun ekki nógu vel til að vita hvað það vill. Síðast en ekki síst dettur mér í hug föt sem ekki passa, hvorki í stærð né stíl, það er náttúrulega langskemmtilegasti flokkurinn.
Miðað við hvað ég hef heyrt margar sögur af vondum gjöfum er ég alltaf jafn hissa á því hvað við mannfólkið erum köld að skella okkur enn og aftur í nýja jólavertíð. Þegar mér verður hugsað til allra sem eiga eftir að gefa ómögulegar gjafir og hinna sem taka vanþakklátir við þeim tekur sig upp gamalt bros. Hvor um sig passar að vera ekki hreinskilinn og allir þykjast vera ánægðir. Í þegjandi samkomulagi. Þeir einu sem alltaf gleðjast eru verslunareigendur, en það er önnur saga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2007 | 14:26
Er ég að flækja líf mitt að óþörfu?
Geðorð númer sex bendir okkur á að vera ekki að flækja líf okkar að óþörfu. Enn einu sinn verð ég fyrir miklum vonbrigðum með þessi blessuð geðorð. Hvað er átt við með þessu? Er hægt að lifa einföldu lífi í dag og taka jafnframt þátt í þjóðfélaginu? Síðast en ekki síst er gott að lifa einföldu lifi?
Ég Heiti Matthildur og ég lifi ekki einföldu lífi. Ég á fjögur börn, tvö með manninum mínum tvö með sitt hvorri konunni og einungis tvö þeirra með sjálfri mér. Hann á aftur á móti sín fjögur börn með þremur konum og að auki eitt á himnum, en öll með sjálfum sér. Þetta virkar kannski flókið við fyrsta lestur. En í framkvæmd er þetta mjög auðvelt, enda svona fjölskyldumynstur algeng á íslandi í dag. Að vísu eykst flækjustigið hjá okkur aðeins með næstu kynslóð því tengdasonur minn er sonur systur minnar og ég er því ömmusystir ömmubaranna. Það má segja að dóttirin og tengdasonurinn hafi verið að einfalda líf sitt því þau fækkuðu tengdamömmunum í fjölskyldunni með þessum ráðahag.
Væri líf mitt betra án þessara dæma um flókið fjölskyldulíf? Nei ég held ekki. Ég ætla meira að segja að gerast svo djörf að halda því fram að flækjur og óþarfi sé einmitt eitt af því sem gefur lífi okkar gildi. Hversdagsleikinn getur verið grár og daglegar venjur óbærilega leiðinlegar. Ef ekki væri fyrir undantekningar sem ögra okkur og fá okkur til að hugsa út fyrir kassann væri lífið líklega ekki eins litríkt og skemmtilegt. Ég mun því halda áfram að flækja líf mitt með óþarfa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.10.2007 | 23:29
Svarthvít veröld.
Fyrir nokkru skipti ég um toppmynd á blogginu mínu. Nýja myndin sem mér finnst alveg stórglæsileg er úr safni Gústa. Ég átti ekki auðvelt með að velja og því stakk Gústi upp á þessari mynd, vildi meina að ég væri svo mikil málbyssa. Það er líklega orðum aukið, en þó skal ég játa að ég get stundum haft gaman af argaþrasi.
Það var löngu tímabært að skipta enda hin myndin bæði óskýr og allt of stór. Hún sýndi fyrstu sólargeisla ársins í fjallinu fyrir ofan Alviðru. Þessa mildu gulu birtu sem baðar fjallatoppana þegar sólin gægist fyrst í skarðið við Kaldbak handan fjarðarins. Ég setti þá mynd inn snemma í haust, líklega þegar fór að dimma og ég mundi eftir því að enn einu sinni ætlaði sólin að hverfa á bak við fjöllin. Þó ég viti með vissu að hún kemur ávallt aftur á nýju ári verður mér alltaf jafn órótt við tilhugsunina um sólarlausan tíma.
Það má því segja að það fari að grána í fjöll í mínu sálartetri löngu áður en grána fer í fjöllin hér fyrir vestan. Kúnstin er að láta ekki undan lönguninni að skríða inn í dimman hellinn að sið grábjarnarins og lúra þangað til kona vaknar við eigið garnagaul og hækkandi sól.
Bloggar | Breytt 1.11.2007 kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.10.2007 | 09:01
Villtu koma í bíó?
Mér hefur borist eftirfarandi fréttatilkynning frá "my other self" það er mér bæði ljúft og skylt að birta hana. Ég sá myndina um Óbeislaða fegurð þegar hún var frumsýnd í Regnboganum fyrr í mánuðinum og get staðfest að myndin er mjög skemmtileg. Það kom mér á óvart því ég hélt fyrirfram að þetta yrði meiri ádeila, alvarlegri. Hitt sem kom mér alveg í opna skjöldu er hvað ég virðist lágvaxin í þessari mynd. Mér bregður nokkrum sinnum fyrir í hóp og þar er ég alltaf sú stutta. Nema þegar ég stend við hliðina á Grétu Skúla og þakka ég almættinu fyrir að senda mér svona lágvaxna vinkonu. Ég hvet ykkur til að koma, þetta verður hin besta skemmtun og þið ættuð ekki að missa af tækifærinu til að sjá Ástu Dóru og aðra keppendur á rauða dreglinum.
Heimildarmyndin um Óbeislaða Fegurð verður sýnd í Ísafjarðarbíói núna í lok október. Sýningar á myndinni sem er 56 mín löng verða tvær. Hrafnhildur Gunnarsdóttir leikstjóri myndarinnar verður viðstödd frumsýninguna og mun hún spjalla við kvikmyndagesti og svara fyrirspurnum eftir myndina.
Föstudaginn 26. október kl. 21:00
Sunnudaginn 28. október kl. 17:00
Miðaverð er kr. 1000
Allur ágóði af sýningunum rennur til Sólstafaog er það von skipuleggenda að sjá sem flesta. Myndin hefur fengið góða dóma og er mjög skemmtileg. Fjallað var um hana í Kastljósi 8. október og í þættinum 07/08 á RÚV. Viðtalið við Hrafnhildi er aðgengilegt á vef Þorsteins Joð .
Forsala aðgöngumiða hófst miðvikudaginn 24.október 2007 á Langa Manga og í verslun Office 1 á Ísafirði. Einnig er hægt að senda póst á netfangið m@snerpa.is eða hringja í Matthildi í síma 8404001.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.10.2007 | 19:41
Ég hreyfi mig daglega en það þyngir stundum lundina.
Auðviðtað hreyfi ég mig daglega það gefur auga leið en sumar hreyfinga létta alls ekki mín lund, þvert ofan í það sem gefið í skyn í Geðorði númer fimm. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina. Ég hef því tekið saman lista um helstu hreyfinga sem þyngja lund mína. Hreyfingar sem pirra og ergja.
Það léttir mér ekki lund þegar síminn hringir og ég finn hann hvergi í húsinu. Unglingarnir á heimilinu eiga það til að skilja hann eftir á ólíklegustu stöðum. Inn á klósetti, niður í kjallara eða fram í forstofu. Þegar síminn loks finnst er hann hættur að hringa eða síminn var ekkert til mín, erindið var við annan af af fyrrnefndum unglingum.
Það léttir mér ekki lund þegar ég er lögð af stað út úr húsi, komin niður tröppurnar og uppgötva þá að ég gleymdi, veski, síma, lyklum eða einhverju öðru. Það þýðir að ég þarf að hlaupa auka ferð upp og niður tröppurnar. Vissulega gæti ég gengið rólega í stað þess að hlaupa en það er engin trygging fyrir því að hægagangur þyngi lund minna er hlaup.
Að skipta um dekk er prýðileg hreyfing en kemur konu þó oftast í sérlega slæmt skap. það er að vísu mörg ár síðan ég þurfti síðast að skipta um dekk. En ég man vel hvernig óánægjan hríslaðist niður eftir bakinu á mér við dekkjaskipin með regninu. En í minningunni er alltaf rigning og rok þegar springur á bíl. Já og myrkur. Og tjakkurinn tíndur. Og skrúfurnar fastar. Og..
Síðast en ekki síst vil ég nefna klósettþrif sem geðletjandi hreyfingu. Þetta er að vísu góð teygja en ég þekki engan sem finnst það létta lund. Að hræra í annarra manna skít með illa lyktandi, baneitruðum efnum, er ekki létta mér lund.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.10.2007 | 19:43
Harma hörmulegar skoðanir
Þau bera með sér kaldan boðhátt skilaboðin sem yfirvaldið sendir okkur almúganum á vef Bæjarins Besta. þar segir hún Birna okkar Lárusdóttir með þjósti að umræðan um málþingið snúist ekki um atvinnumál. Ég ber virðingu fyrir kraftmiklu fólki með skoðanir og skap, en er nú ekki full mikið að ætlast til að stjórna umræðum út í samfélaginu. Ekki dettur mér í hug að þagna þó einhverjum kunni að þykja skoðanir mínar lítils verðar. Það fer nefnilega oft saman gagnrýnin hugsun og athafnasemi. Er það ekki einmitt svoleiðis fólk sem á að virkja í atvinnumálum. Er þetta ekki fólkið sem er alla daga að vinna að atvinnuuppbyggingu.
Svo ég víki aðeins að skorti á umræðum og tillögum um atvinnumál frá okkur vandræðakonunum, sem lítið eigum að geta nema rifið kjaft og talið konur á málþingum. Já og skemmt glansmyndina um hvað allt sé frábært hérna. Þá finnst mér það í raun sérstakt að þó við séum ekki boðnar að háborðinu er okkur þó sendur tónninn fyrir að setja ekki fram málefnalegar umræður og raunhæfar tillögur. Hvar eigum við að setja tillögur okkar fram? Á blogginu auðvitað.
Sigríður systir mín, sem að hætti kvenna dútlar við rekstur gistihúss og rútufyrirtækis í Ísafjarðabæ, kom ágætlega orðum að ástandinu í atvinnumálum á Vestfjörum á morgunverðarmálþingi okkar systra áðan. Hún líkti Vestfjörðum við tún sem er að skrælna. Til að atvinnulíf fái blómstað hér þarf að lempa vatnsslönguna því það er brot á henni. Eða er kannski búið að skrúfa fyrir.
Til að við getum rekið fyrirtæki hérna í samkeppni við aðra landshluta þurfum við að komast í samband við umheiminn. Þá er ekki verið að tala um eina og eina brú. Bundið slitlag á 50 km bút. Eða eitthvað kannski bráðum. Heldur að ráðamenn og konur haf dug og þor til að gera stórátak í vegamálum og ljúka bæði djúpleið og vesturleið. Vesturleið til að tengja saman suður- og norðurfirði auk þess sem sú leið yrði styttri en djúpleiðin til Reykjavíkur. Þjónustusvæðið hérna er svo lítið að það er á mörkunum að hægt sé að reka sérvöruverslanirnar hér á Ísafirði með ásættanlegum hagnaði.
Stórbæta þarf möguleika okkar á öruggum nettenginum. Bæði með því að hringtengja ljóðleiðara á Vestfjörðum og uppfæra búnað til að hægt sé að auka bandvídd. Eins og staðan er í dag erum við langt á eftir öðrum hvað varðar vegi og tengingar. Til að tölvufyrirtæki eins og Snerpa og Netheimar fáið blómstrað og geti fyrir alvöru sótt á markað út fyrir svæðið þurfa þau að hafa tryggar tengingar. Það er útbreiddur misskilningur að stækkun netsambanda til Vestfjarða sé einungis til þess að auka og bæta aðgengi okkar að afþreyingarefni. Flestum framleiðslufyrirtækjum er nauðsynlegt að hafa góða tengingu við umheiminn. til að koma vöru sinni á framfæri og í samskiptum við viðskiptavini um allan heim. Fyrirtæki og stofnanir með starfsemi út um allt land byggja á góðum netsamböndum.
Stundum hef ég sagt að okkur myndi vegna betur er ríkið hætti að leggja stein í götu fyrirtækja úti á landi. Þá á ég t.d. við þær íþyngjandi reglur sem settar eru á opinberar stofnanir um hvar þær eigi að versla. Stór útboð eru haldin. Öll innkaup sett á eitt fyrirtæki sem samkvæmt skilmálum á að hafa starfstöð í Reykjavík. Þetta útilokar minni fyrirtæki á landsbyggðinni sem vilja bjóða í hluta starfseminnar. Allt í nafni hagræðingarinnar en eins og starfsmenn ríkisstofnana úti á landi þekkja eru mörg dæmi um að þjónustan verður dýrari.
Ég skora á ráðamenn og konur þjóðarinnar að gera okkur Vestfirðingum kleyft að bjarga okkur með því að tryggja okkur þá grunnþjónustu að hafa bæði vegi og nettengingar.
.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.10.2007 | 22:15
Lærðu af mistökum þínum, kona!
Í ljósi umræðu um fyrirhugað karla málþing um atvinnumál á Ísafirði, þar sem 15 karlar og 2 konur halda tölu, ætla ég að tileinka þeim konum sem skipulögðu það geðorð númer fjögur Lærðu af mistökum þínum. Það er nú einu sinni þannig að öllum getur orðið á að gera mistök. Það sem skiptir meira máli er hvernig þú bregst við þeim. Hvort þú leiðréttir þau, lærir af þeim, kennir öðrum um eða tekur þetta bara á gamla góða hrokanum.
Svo ég haldi nú áfram með samlíkinguna um karla málþingið er líklega of seint að leiðrétta mistökin. Vonandi munu skipuleggendur læra af þeim og skila betri vinnu næst þegar þeim verður falið að skipuleggja viðburð að þessu tagi. Ég segi næst því tvennt er víst, engin verður látin hætta og önnur málþing verða haldin og skipulögð. Ég óttast að vísu innst inni að ráðamönnum og konum þyki það ekki skipta neinu máli hvort karlar eða konur tali, að hrokanum verði beitt gegn hverjum þeim sem kann að finnast annað.
En kannski var ég bara að misskilja þetta geðorð. Þessu var auðvitað beint til mín. Ég á að læra af mistökum mínum. Þeim mistökum að halda að konur í atvinnulífi á Ísafirði skiptu einhverju máli, hefðu einhverja vigt. Að halda að reynsla okkar, gáfur, kraftur og útsjónasemi væri nothæf er sjálfsagt mistök. Að telja okkur konurnar meðal máttarstólpa samfélagsins er mistök. Að fyllast stolti yfir því að skapa verðmæti og þjónustu með starfsfólinu okkar er mistök.
Hver væri þá lærdómurinn? Að sjá ekki, heyra ekki og þegja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)